Hvað með jól og páska ef þjóðkirkjan verður ekki í stjórnarskránni?

Hvað með jól og páska ef þjóðkirkjan verður ekki í stjórnarskránni?

Líklegt er að kirkjuárið ráði ferðinni um helga daga og virka í vestrænum samfélögum um fyrirsjáanlega framtíð þótt vitund almennings fyrir helginni kunni að þverra. Skiptingin í rauða og svarta daga í almanakinu ristir sem sé mun dýpra en lög og stjórnarskrárákvæði um tengsl ríkis og Þjóðkirkju.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
08. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, er þetta sú fyrsta og vona að þær verði sem flestum til upplýsingar.

Spurt er: 

Hvað verður um hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, hvítasunnu, sem og aðkoma kirkjunnar t.d. að þingsetningu og þjóðhátíðardegi ef kemur til algjörs aðskilnaðar ríkis og Þjóðkirkju?

Í lögum um helgidagafrið nr. 32/1997 eru helgidagar þjóðkirkjunnar vissulega lagðir til grundvallar þegar skilgreint er hvaða dagar skuli teljast helgir hér á landi en í 1. gr. laganna segir: 

Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.

Þeir dagar sem nefndir eru í lögunum eru þessir og fer helgi þeirra í vöxt eftir flokkum:      1. Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og        annar dagur hvítasunnu.    2. Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur.    3. Aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags.

Á sunnudögum og öðrum dögum í 1. flokki er öll almenn starfsemi leyfð en ýmis starfsemi sem talin er upp í lögunum bönnuð hina dagana.

Eins og fram kemur í ofannefndri lagagrein eru helgidagarnir lögverndaðir „í því skyni að vernda helgihald“. Að því leyti er helgidagalöggjöfin hluti af þeirri vernd sem 62. gr. stjskr. mælir fyrir um að ríkið skuli veita kirkjunni. Það er þó ekki aðeins Þjóðkirkjan sem nýtur þessarar verndar heldur kemur hún öllum kristnum trúfélögum til góða en þó síst Aðventistum sem halda laugardaginn hátíðlegan í stað sunnudagsins.

Þetta er þó ekki eini tilgangur helgidagalöggjafarinnar heldur er henni einnig ætlað „að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings“. Hún kemur því öllum til góða þrátt fyrir að ýmsum finnist í seinni tíð lögin skapa núning milli helgihaldsins og afþreyingarinnar einkum á föstudaginn langa. Allt um það eiga margir hagsmuna að gæta ef breyta á helgidagalöggjöfinni. Það yrði því væntanlega ekki Þjóðkirkjan ein sem léti til sín heyra ef breyta ætti lögunum á róttækan hátt. ASÍ yrði einnig að gæta hagsmuna sinna umbjóðaenda bæði hvað varðaði frídaga og sérstaka greiðslu fyrir vinnu á almennum frídögum.

Þrátt fyrir að tengsl séu milli þjóðkirkjuskipanarinnar og helgidagalöggjafarinnar er ekki um nein bein tengsl að ræða. Helgidagalöggjöfina þarf ekki að fella úr gildi þótt 62. gr. stjskr. eða hliðstæða hennar yrði felld brott. Á sama hátt er mögulegt að breyta helgidaglöggjöfinni að óbreyttum tengslum kirkju og ríkis enda hefur það oft verið gert bæði með því að fella niður helgidaga og rýmka um athafnafrelsi á þeim, m.a. hvað varðar verslun og þjónustu.

Líklega er helgidagalöggjöfin gott dæmi um hversu flókið samspil (Þjóð-)kirkju og ríkis er. Með helgidagalöggjöfinni er öllum tryggður friður, næði, hvíld og svigrúm til afþreyingar. Af sögulegum ástæðum er það svo einkum kirkjan eða kristnin sem gefið hefur viðmiðanirnar um hvaða daga þessa næðis skuli notið. Fleira kemur þó til í því efni. Má þar nefna menningu og sögu þjóðarinnar en þangað sækja sumardagurinn fyrsti og 17. júní helgi sína. Eins má benda á stéttarbaráttuna sem gefið hefur okkur 1. maí og frídag verslunarmanna.

Þjóðin þarf á sameiginlegum frí- og helgidögum að halda og í hrynjandinni milli helgra daga og virkra endurómar gamalgróið tímatal kristinnar sem djúpur grunntónn — sami tónn og endurómar víða annars staðar í menningunni. Þess virðist vissulega langt að bíða að þau hvörf verði í menningu okkar og samfélagi er geri það að verkum að þjóðarvilji skapist fyrir því að finna nýja grunnviðmiðun þegar flokka skal dagana í almanakinu í rauða og svarta. Þó kann okkur auðvitað að greina á um hversu langt eigi að ganga í að setja athafnafrelsi fólks skorður á rauðum dögum. Samt verðum við að minnast þess að aukin þjónusta t.d. á aðfangadagskvöld útheimtir að fleiri séu að störfum þennan dag. Kröfurnar munu þá vaxa á einhverja að vera fjarri fjölskydum sínum þennan dag sem ekki þurfa þess nú.

Aðkoma kirkjunnar að dagskrá 17. júní og setningu Alþingis hvílir svo á öðrum og veikari grunni en helgidagar kirkjuársins. Væntanlega ráða þjóðhátíðarnefndir á hverjum stað mestu um það hvort helgihald skuli vera hluti af opinberri dagskrá eða ekki. Forsætisnefnd Alþingis og þingið sjálft hljóta síðan að ákveða hvernig aðkoma þess að dagskránni á Austurvelli skuli háttað og hvernig Alþingi skuli sett. — Allt þetta hlýtur að ráðast af því hvern samhljóm fólk finnur milli „kirkjuklukkunnar“ og „Íslandsklukkunnar“ ef sú líking hefur einhverja merkingu.

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að áhrif aðskilnaðar ríkis og kirkju á rauðu dagana í almanakinu eru óljós. Fyrst í stað mundi tæpast nokkur breyting verða. Fyrr eða síðar mundu breytingar þó taka að segja til sín. Orðalag og hugtakanotkun í lögunum færi þó eftir því hve langt yrði gengið í aðskilnaðarátt — einkum hvort þjóðkirkjuhugtakið yrði áfram notað í lögum. Það er ekki útilokað þar sem þjóðkirkja þarf ekki nauðsynlega að hafa sömu tengsl við ríkisvaldið og Þjóðkirkjan hefur nú.

Í raun er spurt hvað muni gerast með helgidagana komi til „algjörs aðskilnaðar ríkis og þjóðkirkjunnar“. Með því kann að vera átt hvað muni gerast ef trúmál í samfélaginu verða að öllu leyti látin heyra undir einkamálarétt eða alþjóðlega mannréttindasáttmála einvörðungu, skil gerð á milli veraldlegra og trúarlegra málefna og trúartjáningu með öllu bægt frá hinu opinbera rými. Við slíkar aðstæður gæti komið til álita að láta veraldlega frídaga alfarið leysa helgidaga af hólmi. Slíku fyrirkomulagi verður þó varla komið á nema í alræðisríkjum. Í frönsku byltingunni var t.d. reynt að koma á veraldlegu hátíðaári. Í Sovétinu sálunga var gerð tilraun til að afnema helgar og koma á hlaupandi frídögum þannig að ætíð væru einhverjir við dagleg störf. Það dró úr framleiðni og reyndist ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Félagi Castro frestaði eitt sinn jólunum en það var nú til að bjarga uppskeru í erfiðu árferði.

Líklegt er að kirkjuárið ráði ferðinni um helga daga og virka í vestrænum samfélögum um fyrirsjáanlega framtíð þótt vitund almennings fyrir helginni kunni að þverra líkt og gerst hefur með hvítasunnuna hér. Skiptingin í rauða og svarta daga í almanakinu ristir sem sé mun dýpra en lög og stjórnarskrárákvæði um tengsl ríkis og Þjóðkirkju.