Stjarna og englar

Stjarna og englar

Jólin fjalla meðal annars um stjörnu og englaher. Þar tala þau inn í hjarta okkar, þótt við sjálf höfum ef til vill aðrar hugmyndir um himintunglin og himneska sendiboða. Þau höfða til sömu þátta sálarinnar og listin gerir enda hafa allar greinar hennar gert þeim rækileg skil. Þau miðla til okkar sannleika sem stendur algjörlega fyrir sínu þótt hann sé ekki af sama toga og upptalningar á staðreyndum. Þau minna okkur á gildi þess að hafa leiðarljós í lífinu og að miðla áfram af því góða sem við eigum í hjartanu og trúum á.

Á jólum förum við í okkar fínasta púss og snæðum veislumat. Hér í helgidómnum tónum við hátíðarsöngva og syngjum jólasálma. Messuklæðin verða nú ekki bjartari. Og fyrst komið er að að hugvekjunni á þessu töfrakvöldi skal það tekið fram að enginn verður gefinn afsláttur af hátíðleikanum. Hér verður rætt um engla og stjörnu, jólalegra getur það vart verið.

 

Stjarna

 

Stjarnan er eitt af táknum þessarar hátíðar. Hennar er reyndar getið í öðru guðspjalli, því sem er kennt við Mattheus og þar eru líka kynntir til leiks fulltrúar hins alþjóðlega samfélags, vitringar sem færa barni og foreldrum framandlegar gjafir. Þetta þekkjum við af myndum, söngvum og helgileikjum. Stjörnur lýsa upp nóttina og auðvitað sýnu meira eftir því sem borgarljósin eru lengra í burtu. Kynslóðir sem lifðu og hrærðust án þess að hafa kynni af rafmagni, hafa horft upp í sindrandi himininn og gefið jafnvel ímyndunaraflinu lausan tauminn. Vitringarnir hafa sennilega verið af þeirri stétt sem dró línur á milli punktanna á næturhimninum og dró af því margvíslegar ályktanir.

 

Englar

 

Í guðspjalli Lúkasar sem hér var lesið er að sama skapi horft til himins. Ekkert er hversdagslegt við engla og hæfa því vel nú á hátíðinni þegar við lítum upp frá amstri hvunndagsins.

 

Vængjaðar verur þekkjum við úr myndlistinni. Sú englamynd varð til við samruna hugmynda og mynda úr ýmsum trúarhefðum og goðsögum. Löngu síðar drógu listamenn endureisnarinnar þá upp með þeim hætti. Frægust er sennilega krúttin sem Rafael málaði á myndina af Maríu með Jesúbarnið. Þar eru neðst á verkinu, tvö smábörn með litla vængi á bakinu sem halla undir flatt hálf værukær á svipinn. Á þeim tímum þegar aðeins lítill hluti barna komst á legg hefur sú mynd verið mörgum huggun.

 

Það væri þó vitavonlaust fyrir manneskju að geta flogið fyrir eigin vöðvaafli. Brjóstkassinn þyrfti að vera slíkur að sá eða sú hefði vart lengur nokkra mannsmynd. Enda fer engum orðum af vængjum á baki engla Biblíunnar. Orðið merkir einfaldlega, sendiboði. Engillinn flytur tíðindi á milli tilverustiga. Hann flytur stórtíðindi og í guðspjöllunum byrjar hann ávarp sitt jafnan með sama hætti: „Óttist eigi!“

 

Þvílík skilaboð sem berast með þessum sendiboðum! Þetta sagði boðberinn við Maríu níu mánuðum áður. Og þetta átti ungi hvítklæddi maðurinn sem vitjaði kvennanna að morgni páskadags eftir að segja: „Óttist eigi“ – ekki verið hrædd, ekki láta óttann ræna ykkur hrifningunni, gleðinni, voninni.

 

Óttalaus

 

Englar eru jú ekki með barðastóra vængi á öxlum og líkamsbyggingu sem gerir þeim kleift að hefja sig upp í hæstu hæðir. Hvernig svo sem þessir hafa verið ásýndum – jú þeir hafa verið ógnvekjandi á einhvern hátt, annars hefðu þeir ekki þurft að róa áheyrendur sína – þá eru þetta skilaboð sem mannkyn mætti taka til sín.

 

Ótti er vissulega nauðsynlegur við ákveðnar aðstæður, en gagnvart Guði þurfum við ekki að vera uggandi. Guð tekur okkur til sín, elskar okkur skilyrðislaust og þá ást getum við endurgoldið til náungans. Já, þegar kemur að þörfum systkina okkar þá getum við sett okkur í spor englanna, róað, huggað og hughreyst.

 

Stundum finnum við fyrir vanmætti okkar og okkur líður eins og við höfum ekki stjórn á tilverunni. Trúin gefur okkur þá mikinn styrk. Við skynjum að handan óreiðunnar hvílir kærleikskraftur sem er hafinn yfir stað og stund. Og þá geta kreppuskeið orðið hvatar til breytinga og nýrrar hugsunar. Inn í þær aðstæður geta einstaklingar sem bera með sér sanna trú og góðar hugsjónir stigið og miðlað huggunarríkum boðskap.

 

Stjörnuhiminn

 

Jesús launaði illt með góðu, boðaði hin háleitustu markmið og lifði eftir þeim. Og hér á jólunum mætir hann okkur í mynd þessa ungabarns. Við slíkar aðstæður erum við öll í hlutverki engla. Varnarlaus hvítvoðungurinn býr ekki að nokkurri færni eða reynslu – hann kann aðeins eitt, sem er að vekja með okkur umhyggjuna og ábyrgðina.

 

Jólin lýsa slíkri hugljómun. Textar þeirra skína eins og bjartur stjörnuhiminn. Þeir veita okkur bæði fegurð, leiðsögn um leið og þeir tróna svo hátt yfir höfðum okkar að við munum aldrei ná að fanga þá frekar en himinfestinguna. Við getum litið á þá sem eins konar leiðarstjórnu sem gefur okkur leiðsögn að hinu æðsta og háleitasta. Mögulega náum við ekki að uppfylla öll þau háleitu markmið en við þekkjum þau og getum nálgast þau.

 

Jólin fjalla meðal annars um stjörnu og englaher. Þar tala þau inn í hjarta okkar, þótt við sjálf höfum ef til vill aðrar hugmyndir um himintunglin og himneska sendiboða. Þau höfða til sömu þátta sálarinnar og listin gerir enda hafa allar greinar hennar gert þeim rækileg skil. Þau miðla til okkar sannleika sem stendur algjörlega fyrir sínu þótt hann sé ekki af sama toga og upptalningar á staðreyndum. Þau minna okkur á gildi þess að hafa leiðarljós í lífinu og að miðla áfram af því góða sem við eigum í hjartanu og trúum á.

 

Með þeim hætti verðum við hvert og eitt okkar sendiboðar góðra tíðinda sem miðla birtu og gleði inn í umhverfi okkar, já englar í heimi sem þarfnast umhyggju og uppörvunar.