Fjötrar

Fjötrar

Sjálfboðaliðar koma hér saman á miðvikudagskvöldum á kvöldum sem við köllum Gott kvöld í kirkjunni. Þetta er ótrúlegur hópur. Þarna er fólk sem lætur mann sannarlega fara á tærnar og gæta þess að dragast ekki aftur úr þeim með allan þann fídonskraft sem hann einkennir. Já, kraft Guðs sem frelsar hvern man sem trúir.

Nú á miðvikudaginn var, söfnuðust saman yfir fimmtíu sjálfboðaliðar hér í kirkjunni og áttu saman gott kvöld. Þetta var merkilegt stund. Við höfum unnið markvisst að því að efla þennan hóp og fjölga í honum eins og messugestir hafa fengið að kynnast. Og við höfum fengið að njóta góðs af kröftum þessa hóps.

Gjafir

Helgihaldið okkar hefur að mínu mati tekið stórstígum framförum eftir að þau fóru að skipta sér af. Við hvöttum þau til þess að vera ófeimin við að gagnrýna. Og það gerðu þau svo sannarlega. Við héldum að þau myndu gagnrýna einhverja aðra en okkur en þegar við höfðum jafnað okkur þá tókum við til við að bæta það sem við gátum lagað. Fyrst og fremst var það samfélagið sem guðsþjónustan er, sem lá þeim á brjósti. Það vekur hlýjar tilfinningar að fá góðar móttökur í anddyri kirkjunnar. Það er gleðilegt að vera umkringdur góðu fólki sem leiðir söfnuðinn áfram eftir messuliðum.

Á þessari samkomu kom það líka fram hversu gefandi það er að gefa. Ekki síst í orðum formanns kórsins okkar sem lýsti því hvernig hann hafði nýtt krafta sína kirkjunni til góða við margs konar verkefni á því tímabili þegar hann var án atvinnu. Sú tilfinning að sjá afrakstur verka sinna í fallegra og skilvirkara umhverfi var að sönnu gleðileg. Þessi sjálfboðna þjónusta var að sjálfsögðu ómetanleg fyrir kirkjuna og okkur sem hér störfum. En það var svo greinilegt að gjafirnar auðguðu ekki síður gefandann.

Ég hef oft velt fyrir mér orðum Krists sem við þekkjum svo vel – það að sælla sé að gefa en þiggja. Stundum hættir okkur prestum og guðfræðingum til þess að túlka boðskapinn of mikið, horfa til einhverra tilvika sem búi þar að baki – einhverra aðstæðna sem uppi voru þegar orðin eru sögð. En þau þurfa ekki að vera svo flókin. Það er sannarlega sælt að gefa. Um leið og gjöfin er innt af hendi gerist eitthvað í lífi gefandans. Það er eins og náttúrulegt jafnvægi komist á og líkami hans sendir þau skilaboð að þessi athöfn sé sannarlega lofsverð.

Margt styður þetta. Fólk sem vinnur formúu í happdrættum fær gjarnan ráðgjöf frá sálfræðingum. Og hvað er það sem þeir ráðleggja? Jú, gefðu bróðurpartinn af þessum fjármunum. Annars mun þér farnast illa. Gefðu þá til góðra málefna. Láttu fé af hendi rakna og þá fyrst skynjarðu gleðina við það að hafa eignast þessa fjármuni. Ekki bindast veraldlegum hlutum.

Sakkeus og víkingarnir

Guðspjallið fjallar um það að gefa og þiggja. Sakkeus var maður sem hafði þegið mikið. Hann var tollheimtumaður og sem slíkur innheimti hann tolla við borgarhliðið í Jerúsalem þar sem hann hirti hlut af þeim varningi sem átti að ganga kaupum og sölum á torginu. Hluti af því rann í hans eigin hirslur – svo mikið raunar að afleiðingarnar blöstu við. Sakkeus þessi hafði safnað digrum sjóðum sem hann sat og á gætti vandlega og hitt – fólkið fyrirleit hann fyrir störfin sem hann vann og allt það sem þeim fylgdi. Það er vissulega eins og að sparka í liggjandi mann að draga fram samlíkingu úr samtímanum á Íslandi. Ég læt það að mestu ógert. Hitt hlýtur þó að vekja furðu okkar meðaljónanna sem aldrei höfum farið höndum um svo óheyrilegar fjárhæðir eins og þær sem víkingarnir okkar léku sér með – og það er einmitt það hvernig fólk lét sér detta til hug að hegða sér með þessum hætti. Varnarræðurnar vekja sannarlega athygli. Enn hefur ekki sú afsökun verið reidd fram sem ekki kallar fram efasemdir í hugum þjóðarinnar sem situr í skuldasúpunni.

Ég varpa því fram í talsverðu ábyrgðarleysi, en af sannfæringu að hátterni þetta eigi í grunninn rætur að rekja til þess að fólk hefur fest sig í einhverjum fjötrum. Þetta byrjar sakleysislega. Djörfungin skilar skjótum gróða og menn fagna. Svo verða tölurnar hærri og hærri. Gjafirnar sem gefnar eru fyrir framan sjónarvarpslinsurnar eru aðeins lítill hluti þess almannafjár sem menn bröskuðu með af fullkomnu ábyrgðarleysi. Það er auðvelt að gefa af annarra manna fé.

Nei, en samt – það er ástæðulaust að við látum fjötra okkur í önnur bönd. Hlekkir reiðinnar eru ekki síður varasamir og sumir fá aldrei hrist þá af sér. Miklu nær er að horfa í yfirvegun og já, kærleika, á þá sem með sönnu hafa hrunið til botns - að því gefnu að réttarríkið standi undir nafni. Gjörðir þeirra eru afleiðing þess að þeir misstu stjórnina og urðu sjálfir sem strengjabrúður undir því ótrúlega afli sem græðgin er.Hún er eins og fíkn sem maðurinn sekkur dýpra og dýpra í.

Fjötrarnir rofnir

Guðspjallið fjallar um þáttarskilin sem verða þegar Sakkeus rýfur þessa fjötra. Hann tekur sjálfur stjórnina og hættir að láta fíknina stjórna sér. Kristur vekur hjá honum hvötina til þess. Það var ekki vegna dómhörkunnar sem nóg var að í kringum karlinn. Umbreytingin varð vegna þess að Kristur tók af skarið. Hann gaf honum athygli, hann einblíndi á þennan fallna mann í miðju mannhafinu, sá hann í hringiðu fólksins og ávarpaði hann. Mikil urðu þau umskipti.

Ætli Sakkeus hafi aldrei áður fengið slíkt kall? Jú, ég held það reyndar. Mjög líklegt er að um hann megi segið hið sama og blessað fólkið sem kom þjóðinni í þetta klandur – að samviskan hefur kallað til hans hvað eftir annað. Rödd hennar má þó hæglega yfirgnæfa. Það þarf ekki mikla yfirlegu til þess að sjá það og skynja hvernig við getum framkallað skarkala sem þaggar niður í henni í fljótheitum.

Kristur gefur honum hins vegar tóm og miðlar til hans þeim skilningi að hann sé ekki ómögulegur og vonlaus eins og allir vildu sýna honum, heldur þvert á móti – dýrmætur og einstakur. Hans verkefni væri að varpa af sér fjötrunum sem græðgin hafði fest hann í og lifa í þeim anda sem manninum er eðlilegt og náttúrulegt að gera.

Aðrir fjötrar

Frásögnin um Samúel er af sama meiði, ef út í það er farið. Samúel fékk köllun til þess að lifa verðugu lífi. Fyrst hafði hún engin áhrif en svo svaraði hann kallinu og varð einn hinna stóru spámanna sem við minnumst enn þann dag í dag.

Þessi köllun á því ekki eingöngu við þá sem eru fastir upp að hálsi í forarpytti græðginnar. Hún á líka við um þá sem lifa áhyggjulausu lífi án þess að leiða að því hugann hvaða verkefni bíða þeirra í þessu jarðlífi. Já, án þess að leiða hugann að því til hvaða skyldu þeir voru kallaðir. Gleymum því ekki að flestir finna sér eitthvern skarkala, eða síendurtekna hljóma sem kæfa rödd samviskunnar. Dagarnir fæðast og deyja hver af öðrum. Risið er úr rekkju, unnið er að verkefnum dagisns og svo er snætt og horft og sofnað og þannig silast ævin áfram uns hún er að baki.

Á þessum sunnudegi erum við minnt á það að líf okkar hefur merkilegan tilgang. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, eins og postulinn orðar það. Líkaminn svarar því þegar við uppfyllum hann. Þegar við styðjum þá sem í kringum okkur standa, hvetjum þá áfram, hughreystum þá og eflum. Þá vitum við í hjarta okkar að sá dagur var ekki unninn fyrir gýg. Þegar hlúð er að því musteri sem við erum hér saman komin í, erum við að auka lífsgæði þeirra sem hingað leita. Við leggjum rækt við fegurðina sem er svo nátengd kristinni trú og umgjörð hennar. Og við finnum að það er vel unnið.

Sjálfboðaliðar koma hér saman á miðvikudagskvöldum á kvöldum sem við köllum Gott kvöld í kirkjunni. Þetta er ótrúlegur hópur. Þarna er fólk sem lætur mann sannarlega fara á tærnar og gæta þess að dragast ekki aftur úr þeim með allan þann fídonskraft sem hann einkennir. Já, kraft Guðs sem frelsar hvern man sem trúir.

Hlustum, kæru vinir á boðskapinn sem talar til okkar. Hann kemur frá hjartanu. Sinnaskiptin bíða ekki aðeins Sakkeusar og hans líka. Þau eiga líka erindi til Samúels sem lúrir í sakleysi sínu án nokkurrar vitneskju um það mikilfenglega hlutverk sem honum er ætlað. Við stöndum í sömu sporum. Hér í kirkjunni eigum við að finna vettvang fyrir krafta okkar til þess að uppfylla þá köllun sem við erum sköpuð til að sinna.