Hvar ert þú staddur ?

Hvar ert þú staddur ?

Það virðist vera innbyggt í mannlegt eðli að vilja staðsetja sig – vita hvar maður er. Það er forsenda þess að við öðlumst yfirlit og samhengi – forsenda þess að umhverfið og aðstæður myndi samhengi.

„Ef þú ætlaðir að senda útlendingi, vini þínum, bók sem gefur honum rétta mynd af Íslandi, hvort myndir þú gefa honum nýjustu landakortabókina í útgáfu Eddu af í 1 á móti 100 000 eða nýju bókina um Kjarval?“ Það var í matartíma í vinnunni um daginn að vinur minn sló þessari spurningu fram. Flestir við borðið voru raunvísindamenn, einn lögfræðingur, enginn hugvísindamaður – og svo ég, guðfræðingurinn. Það sló þögn á hópinn og ég hélt aftur af mér og beið eftir hvað yrði sagt. Þetta var greinilega vandræðaleg spurning, en vinur minn sem er verkfræðingur, með marga strengi í hörpu sinni, gaf sig ekki og lét á sér skilja að þetta væri alvörumál. Og svörin voru hvorki skýr né blátt áfram. „Ef þú meinar þetta, já, þá hvað! – Það  fer eftir þessu og hinu.“ Einn snéri út úr og sagðist myndi gefa honum báðar bækurnar. En það var auðvitað ekkert svar. Umræðurnar komust ekki á flug, en spurningin fylgdi með okkur, held ég, öllum aftur til daglegra starfa.

Það virðist vera innbyggt í mannlegt eðli að vilja staðsetja sig –  vita hvar maður er. Það er forsenda þess að við öðlumst yfirlit og samhengi – forsenda þess að umhverfið og aðstæður myndi samhengi. Og það að vita hvar við erum er í raun forsendan þess að geta farið eitthvað ákveðið, í rétta átt –  á réttan stað. „Hann veit ekki hvar hann er staddur í lífinu“, segjum við um mann sem almennt er ekki í góðum málum. Velferð hans og framtíð eru í hættu. Það sama er að segja um mann sem er viltur. Margar frásagnir eru til af þeim voða sem menn lenda í í slíku hugarástandi og örvæntingunni sem því fylgir.

Í slíku ástandi er aðeins eitt orð sem virðist hafa meiningu og það er orðið Guð.  „Guð minn almáttugur“, segjum við oft, þegar eitthvað kemur okkur verulega á óvart.

Drottinn minn og Guð minn. Jh 20:28
Þetta er ávarp þess sem hefur misst trúna en öðlast hana að nýju eða villst af leið og ratað heim. Náð áfangastað á langri og erfiðri pílagrímagöngu.

Þetta á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig um samfélög af ólíkum toga –  og heilar þjóðir. Sú þjóð sem á land veit hvar hún er og hún getur fundið óteljandi ástæður fyrir því af hverju landið tilheyrir henni. Hún á sér fast land undir fótum og landið fær merkingu og geymir minningar. Bergið og fjöllin og grundirnar verða tákn staðfestu og öryggis. Þetta land er fyrirheitnalandið. Þjóðin les vonir sínar og fyrirheit inn í landslagið og náttúrugæðin verða trygging fyrir farsælu lífi –  eilífu lífi. Hún kortleggur landið sitt og eignast listamenn sem mæra það í máli og myndum. En svo eru til þjóðir og hópar sem eiga sér ekki griðastað, eiga undir högg að sækja og óttast um framtíð sína. Saga þeirra verður harmsaga. Við þekkjum öll hina löngu sögu af hrakkningum og fyrirheitum Ísraelsþjóðarinnar. Fyrir daga Jesú eignaðist sú þjóð eitt merkilegasta sálmasafn sem til er, Saltarann, þ.e. Davíðssálmana, sálma og bænabók Jesú sálfs.

Það er í afstöðunni til landsins og gæða þess, sem trú og stjórnmál renna saman og verða óaðgreinanleg hvernig svo sem stofnanir samfélagsins skilgreina sig og hlutverk sitt – þetta tvennt er samofið í þjóðmenningunni og gildismati. Þegar við ræðum um frelsið, sem í hugum flestra er hið æðsta gildi og takmark, þá á það sér margvíslega skírskotun til þjóðmenningar og umráða yfir landsgæðum. Hér höfum við einnig þann jarðveg sem getur af sér flest stríð, sem geisað hafa í heiminum frá örófi alda.

---

Við vitum hvar við erum stödd í dag! Við vitum það svo vel að það þarf ekki að tala um það, það gæti bara ruglað okkur. Best væri ef við íhuguðum hér saman í þögn. Hlustuðum á þytinn í golunni þegar hún næðir um þakskeggið og klæðninguna utanhúss. Hlustuðum á sönginn í fulgunum og greindum í huganum hvort þar er þröstur, lóa, spói, hrossagaukur eða einhver annar skemmtilegur sumarfugl. Hlustuðum á sögurnar sem gerðust hér í kring, fylgdumst með fólkinu, sem setti upp búðir sínar og tjöld hér á völlunum. Heyrum í körlunum í fjarska uppi við Lögberg lesa upp lögin og þrasa um túlkun þeirra. Sjá glæsimenni og foringja skarta sínu fegursta og skipa mönnum sínum í fylkingar. Ungmenni draga sig saman og börn eru að leik. En við hrökkvum við því að við heyrum líka dóma kveðna upp og þögnina sem á eftir fylgir, sárt óp frá þeim sem tekur út refsingu, og ef til vill grát þeirra sem horfa upp á sína nánustu leidda til aftöku.

Við rifjum hér upp stóratburði Íslandssögunnar og setjum þá í tímaröð og skynjum samhengið. Stofnun alþingis. Grímur geitskör sem fór um allt landið og fann besta staðinn. Kristnitökuna sumarið 1000. Fylkingarnar tvær tilbúnar að berjast, og landsfeðurna tvo sem sömdu um það að sá þeirra sem enn var heiðinn skyldi kveða upp um það hvort skyldi gilda fyrir alla, kristni eða ásatrú. Í lok þinghaldsins hefur verið haldin messa til að árétta ákvörðun Þorgeirs ljósvetningagoða að allir skyldu hafa einn sið, kristni. Undir feldinum varð hann kristinn og þjóðin með honum. Með þessari messu sem hlýtur að hafa verið við Lögberg var þjóðkirkjan stofnuð, ekki ríkiskirkja heldur þjóðkirkja. Ríkisvald var ekki til þá, ekkert skipulegt miðstýrt framkvæmdavald, heldur aðeins löggjafarvald og dómsvald.

Við sjáum fyrir okkur biskupana á þinginu sem landsfeður, en um leið og alþingi á Þingvöllum var lagt niður heyra gömlu biskupssetrin sögunni til og einn biskup kemur í staðinn, skipaður yfir landið allt nánast sem kontóristi í Reykjavík sem þá var danskur verslunar- og embættismannabær. Við rifjum upp Þingvallafundina sem hertu leiðtogana í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og gáfu þeim sannfæringarkraft sem dugði. Við finnum fyrir og endurupplifum gleðina með örsnauðri þjóð þegar hún fagnaði 1000 ára byggð í landi sínu  –  um leið og hún fékk aukin réttindi sem sérstök þjóð innskrifuð í stjórnarskrá. Um leið var það áréttað að kirkjan væri ekki ríkiskirkja, þ.e. undirdeild í stjórnarráðinu, heldur þjóðkirkja, kirkja fyrir þjóðina sem félagslega einingu og það hafði hún reyndar verið frá upphafi sjálfstæðisbaráttunnar. Sú þjóðkirkja var þá þegar virk í söfnuðunum í sveitum landsins í safnaðarstarfi prestanna og prestkvennanna, prestsheimilanna sem voru skólar og sjálfstæðar menningarmiðstöðvar í hverju prestakalli þó svo að yfirstjórn kirkjunnar í Reykjavík væri bundin erlendu stjórnvaldi. Við þessi tímamót valdi þjóðkirkjan sér vers úr 90. sálmi Davíðs konungs sem predikunartexta og sem efnivið í þakkaróð sem hún gerði að þjóðsöng. Þessi Davíðssálmur hefst með orðunum:

Drottin, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilíf til eilífðar ert þú ó Guð. Sú þjóð sem á sér slíkan þjóðsöng veit hvar hún er og hún getur reiknað með að verða langlíf í landi sínu. Eða hvað?

Með messunni á Þingvöllum árið 1000 eignaðist þjóðin landakort og áttavita sem hefur dugað henni hingað til. Lykillinn að freslunarsögu þjóðarinnar er falinn í þessari messu. Handbókin sem hún styðst við er bæði landakort og listaverk sem veitir yfirsýn, merkingu og samhengi. Ef við erum týnd, höfum villst, tapað áttunum, en finnum allt í einu að við erum stödd í miðri guðsþjónustu  –  þá erum við ekki lengi að staðsetja okkur hvar svo sem við erum í tíma og rúmi. Þá höfum við fulla ástæðu til að vita hvers konar fólk er í kringum okkur og ættum að geta verið örugg þegar við göngum út eftir að hafa heyrt guðspjall dagsins lesið, tekið postulegri kveðju og fengið drottinlega blessun. Messan byggir öll á Biblíunni, á Nýja testamentinu, á vitnisburðinum um Jesúm Krist í guðspjöllunum. Það er einmitt með augum guðpjallanna sem við lesum Biblíuna alla, Gamla testamentið, Postulasöguna, Opinberunarbókina og bréfin. Nýjasta landakortabók Eddu er nánast fullkomið sem slíkt, með línum og litum sem sýna okkur nákvæmlega hvar við erum stödd á hnettinum  –  á Þingvöllum  –  og við getum sagt heilmikið um það hvernig umhorfs er hér með því að skoða kortið nákvæmlega. Þingvallamyndirnar hans Kjarvals eru yndisleg listaverk og vekja með okkur hrifningartilfinningu. Við viljum gjarnan hafa þau nálægt okkur en þau svara samt ekki dýpstu spurningum okkar um það hver við sjálf erum eða á hvaða leið við erum. Hrifningin er ekki varanleg og segir okkur ekkert um það hver sé merkingin með tilveru okkar hér og nú.

Biblían er bókin sem við eigum að gefa þeim sem vill og þarf að vita hvar hann er staddur í raun og veru. Þar birtist okkur sannleikurinn um Guð sem vill finna okkur sem erum týnd og þar fáum við að vita hvað hann vill við okkur tala. Um leið fáum við að vita sannleikann um okkur sjálf. Það er ekki allt jafn skemmtilegt og fallegt, en samt er kjarninn í því sá að við erum elskuð börn Guðs.

---

Jesús talaði til þjóðar sinnar og áminnti hana. Hún hafði gleymt því á hvaða bjargi hún byggði tilveru sína, gleymt því hvað sagt hafði verið við hana á heilögu fjalli, gleymt sáttmála sínum við Guð. Leiðtogarnir, fræðimennirnir og farisearnir, höfðu gleymt merkingu sáttmálans sem hefst þannig: „Ég er Drottinn Guð þinn og þú skalt ekki aðra Guði hafa.“ Textinn sem kirkjan hefur valið til að lesa í guðsþjónustunni á þessum degi stendur skrifaður í Matteusarguðpjalli og hann var lesinn frá altarinu áðan.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Mt 7:7
Þetta þurfum við að gera hér og nú. Þetta segir hann við okkur í dag  –  hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Og svar okkar er: Drottinn minn og Guð minn!