Við Hringborð norðursins

Við Hringborð norðursins

Það er auðvelt að finna fyrir "climat angst" eða umhverfiskvíða eins og Clarisse Kehler Siebert, alþjóðalögfræðingur við umhverfisstofnunina í Stokkhólmi greindi frá að hún hefði fundið fyrir. Tíminn sem …
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
17. október 2017

Það voru áhrifamiklir dagar í síðustu viku þegar haldin var hér á landi ráðstefna Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðu. Ráðstefnan var undanfari þess að kirkjan tók sæti við Hringborð norðursins og lagði þar með áherslu á að það er verkefni okkar allra að bera umhyggju fyrir sköpun Guðs. Kirkjan viðurkennir að hún hefur líkt og svo margir aðrir ekki alltaf tekið ábyrga afstöðu þegar kemur að umhverfismálum. Ráðsmennskuhlutverkið sem henni var falið var lengi vel fremur að nýta jörðina og gera sér hana undirgefna, en að viðhalda og varðveita gjafir hennar. Hin alvarlega ógn sem heimurinn allur stendur nú frammi fyrir með hlýnun jarðar og þeim miklu áhrifum sem þegar má sjá með bráðnun jökla og hækkun sjávarmáls, kallar á samstillt átak okkar allra sem byggjum þessa jörð. Við getum ekki horft fram hjá því sem til dæmis bræður okkar og systur á Kyrrahafseyjunum standa frammi fyrir. Þar hefur þurft að flytja heilu þorpin frá ströndunum og breyta þar með lifnaðarháttum og menningu samfélagsins. Við getum heldur ekki staðið hjá sem áhorfendur þegar frændur okkar og frænkur hér á norðurslóðum horfa á öra breytingu á lifnaðarháttum sínum þegar hreindýrin geta ekki lengur aflað sér fæðu eins og þau voru sköpuð til. Hlýnun jarðar er staðreynd sem hefur ógnvænleg áhrif á heiminn allan, á Guðs góðu sköpun sem er sístæður vitnisburður um elsku Guðs og máttarverk.

Á fallegum haustdegi eins og við þekkjum þá svo vel hér á landi, naut ég þess þegar ég þjónaði sem prestur á Kirkjubæjarklaustri að búa í nánd við jökla. Sólheimajökull og Skeiðarárjökull vitnuðu um kraft og fegurð, gleði á góðum degi en einnig hinn alvarlega og þungbæra tón sem lífið ber með sér. Þeir voru fyrir mér meira en táknmynd þess sem mér var trúað fyrir, falið af algóðum Guði, þeir voru lifandi vitnisburður um trú sem tignar skapara sinn. En nú eftir að hafa þjónað í borginni í rúman áratug hafa jöklarnir fyrir austan breyst svo mikið að ég þekki þá varla lengur. Hvar er hinn réttláti friður við jörðu sem á að vera jafn innbyggður í okkur og gullna reglan? Það er auðvelt að finna fyrir „climat angst“ eða umhverfiskvíða eins og Clarisse Kehler Siebert, alþjóðalögfræðingur við umhverfisstofnunina í Stokkhólmi greindi frá að hún hefði fundið fyrir. Tíminn sem við höfum til þess að bregast við er núna, ekki bara á morgun eða í náinni framtíð. Þetta kom einnig skýrt fram í máli þeirra sem töluðu á Arctic Circle, Hringborði norðursins. Þar hélt hans heilagleiki Bartólomeus I patríarki áhrifamikla ræðu sem hann síðan fylgdi eftir á táknrænan hátt með því að gróðursetja tré í Skálholti ásamt biskupi Íslands og Reykjavíkurbiskupi kaþólsku kirkjunnar. Þar var ekki spurt um kennisetningar eða helgisiði heldur þá samábyrgð sem við njótum með því að bera hvers annars byrðar og uppfylla þannig lögmál Krists.

Umhverfismálin eru samkirkjuleg og auk þess kom fram á ráðstefnunni, málefni þar sem hin ólíku trúarbrögð geta einnig sameinast um í samtali og af virðingu. Það viðhorf og sú nálgun ber með sér mikla bjartsýni sem var, þrátt fyrir hina alvarlegu ógn í umhverfismálum, þó ríkjandi á bæði ráðstefnu Alkirkjuráðsins og við Hringborð norðursins. Því verkfærin eru til staðar, samþykktir eins og Parísarsáttmálinn, „The Roadmap“ sem hr. Ólafur Ragnar Grímsson kynnti á AC, hvatning og áskorun ráðstefnu Alkirkjuráðsins sem undirrituð var á Þingvöllum og fjölmargar aðrar yfirlýsingar eru til staðar. Nú brennur á að við fylgjum þeim eftir. Hvert og eitt okkar, við sem kirkja, söfnuður okkar og samfélag. Nú er tími aðgerða og ábyrgða, það kom ítrekað fram á AC. Einnig sú hvatning til okkar allra að það sé hægt að snúa þróuninni við, það sé hægt að hafa áhrif til verndar sköpuninni.

Það var ekki markmið kirkjunnar að minna á sjálfa sig með þátttöku sinni við Hringborð norðursins heldur að minna á Skaparann og að kirkjan, hin heilaga almenna kirkja, hefur gífurleg áhrif um allan heim. Hún hefur áður staðið fyrir miklum og varanlegum þjóðfélagsbreytingum, hún hefur talað fyrir mannréttindum og mannhelgi svo eftir sé tekið, hún hefur verið virkur þátttakandi í samfélaginu jafnt á Kirkjubæjarklaustri sem á Kyrrahafseyjum. Umhverfisvernd hefur lengi verið höfð að leiðarljósi í kirkjunni, en betur má ef duga skal. Sem ráðsmenn og ráðskonur Guðs hér á jörðu er okkur lögð sú ljúfa skylda á herðar að umgangast jörðina okkar af auðmýkt og virðingu, með þakklæti og blessun í huga, hjarta og höndum. Breytinga er þörf og með bjartsýni þá að leiðarljósi sem þátttaka á ráðstefnu liðinnar viku skilur eftir, getur kirkjan enn á ný, eins og kom svo skýrt fram hjá framsögufólki ráðstefnunnar, nýtt þann auðs sem hún á. Með frásögnum Biblíunnar, með söngvum og sálmum, helgisiðum og hefðum getum við minnt á og haft áhrif inn í það stóra og mikla tengslanet sem nær út um allan heim, inn í söfnuði stóra sem smáa, svo allir geti lagst á árarnar að við saman varðveitt þá gjöf sem góður Guð gaf okkur. Jörðin er Guðs, heimurinn okkar að lifa í og tryggja að börnin okkar og komandi kynslóðir fái hann í hendur sér til blessunar.

„Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ Gen. 1:31