Öldungar

Öldungar

Uppstigningardagur er eins og stór áminning til okkar allra um að lífið er sífellt ferli þar sem hvert tekur við af öðru. Þótt allt það sem lifi hjóti að endingu að deyja er boðskapur dagsins til okkar sá að við berum ríkar skyldur til að viðhalda því góða sem hver kynslóð býr að og miðla því áfram til þeirra sem eiga eftir að erfa það sem við skiljum við.

Gleðilega hátíð og aftur er það tilefni gleði og fagnaðar að fá hingað til okkar Hljóm, kór eldri borgara við Neskirkju á uppstigningardegi. Þessi dagur er helgaður öldruðum. Það er mikil virðingastaða að fylla þann hóp. Ég leyfi mér að benda á, að orðið ,,prestur” merkir eiginlega eldri borgari - það er eitt þessara orða sem við höfum fengið úr grískunni, presbyteros er fyrirmyndin og merkir öldungur.

Öldungar

Þarf ekki að undra þótt kennimenn hafi fengið þetta sæmdarheiti. Framþróun mannkyns, menningar, lista og alls þess sem ein kynslóð hefur getað kennt annarri hefur vísast í gegnum tíðina vart gengið frá foreldrum til afkvæma. Til þess hafa foreldrarnir verið of uppteknir, lífsbaráttan var tímafrek og vandasöm og ekki var hægt að taka ungviðið með á veiðar eða langa leiðangra til að afla nauðþurfta. Einhver varð að vera heima að gæta bús og barna og ekkert bendir til annars en að það hafi einmitt verið afinn og ammann sem tóku það hlutverk að sér. Á meðan aðrir stóðu í ströngu við fæðuöflun og slíkt, kenndu þau söngvana, sögurnar, handbragðið og allt það annað sem gagnlegt var að vita, skilja og kunna. Með öðrum orðum það sem við köllum menningu - gerir okkur að því sem við erum, einmitt - mönnum. Þannig varðveittust fjársjóðir og gullkorn, reynslan lifði áfram og svona hefur þetta gengið kynslóð fram af kynslóð.

Ég er slíkur gæfumaður að hafa verið öldungur í bráðum tvo áratugi. Hóf þjónustu mína á Ísafirði þar sem eldri borgarar mundu tímana tvenna. Líklega var það sagnfræðiáhugi sem var þar að verki, eða eðlislæg forvitni, er ég þaulspurði fólkið á dvalarheimilinu Hlíf, sem alið var upp á slóðum sem í dag eru komnar í eyði. Já, hvernig var lífsbaráttan, æskan og uppvöxturinn í Jökulfjörðum, á Hornströndum, í Aðalvík, í Skálavík, Snæfjallaströnd og þar annars staðar þar sem enginn hættir sér í dag nema yfir hásumar? Og ég fékk að heyra frásagnir af mannraunum, af álagablettum, af frostavetrum þegar öll bjargráð brugðust en fólkið lifði á kúskel sem ísinn ruddi á undan sér upp í fjöru. Bjargsig og lendingar sem kostuðu fjölda manns lífið og háskaför í leit að týndum sauðum í snarbröttum hlíðum. Svartfuglinn og eggin voru ómissandi þáttur í mataræði fólksins, eggin stundum súrsuð og jafnvel kæst. Heyrði sögur af aðkomufólki sem beið í ofvæni eftir eggjahátíð síðla hausts, því allir töluðu með eftirvæntingu um það sem framundan var. Og tóku svo til fótanna þegar tunnur voru opnaðar sem geymt höfðu þetta hnossgæti allt frá vori og fýlan lagðist yfir allt!

Þetta er hrikalegt umhverfi og maður finnur óm horfinna tíma sem enginn varðveitir nema fólkið sem segir sögurnar þeim sem vill hlusta. Og þar liggja töfrarnir í samskiptum kynslóðanna. Annar segir og hinn nemur. Sá tekur með sér fróðleikinn inn í sínar aðstæður og er fyrir vikið meðvitaður um bakgrunn sinn og kann vonandi að taka auknum lífsgæðum með auðmýkt og þakklæti.

Hvað segi ég mínum afkomendum? Sigurður afi minn var alinn upp í Skagafirðinum. Tómas faðir hans og langafi minn var hörkukarl. Kaupfélagsstjóri á Hofsós og verður seint sakaður um að hafa dekstrað við börnin sín tíu þó þau hafi vafalítið verið honum kær. Afi sagði mér sögur af því þegar karlinn pískaði honum út, við burð níðþungra hveitsekkja úr höfninni þar sem hann þurfti að rogast með þá upp í Kaupfélagið. Svo var það eitt vorið að hann, rétt kominn að fermingu, fékk að heyra af því að hann ætti að hafast við í Drangey allt sumarið að veiða svartfugl í snörufleka. Fletið sem honum var ætlað iðaði allt í óværu og hann brá á það ráð að gegnbleyta dýnuna í steinolíu.

Ég man eftir því þegar ég hlustaði á þessar sögur, sem strákur að ég velti því fyrir mér hvað ég ætti að segja mínum börnum þegar mín æskuár yrðu rifjuð upp. Engar þrekraunir, vosbúð og skortur kæmust í hálfkvisti við það sem afi sagði mér. Svo gerði ég heiðarlega tilraun á honum Óla mínum þegar hann var á fermingaraldri. Jú, vissulega var þetta harla fátæklegt en ég lét nú samt á það reyna. Sagði frá sjónvarpslausum fimmtudögum og júlí, strætóferðum og göngu úr úthvefum borgarinnar ef maður varð strandaglópur einhvers staðar í Breiðholtinu eða Árbænum. Ekki gat maður bara tekið upp símann og hringt í mömmu, ef vantaði far. Mér fannst þetta nú bara orðið nokkuð gott hjá mér en drengurinn lét sér fátt um finnast. Spurði mig svo sallarólegur, þegar ég hafði masað, hvort það hefðu nokkuð verið geitungar á Íslandi á þessum tíma. Uh … nei sagði ég sannleikanum samkvæmt. Þeir komu ekki fyrr en síðar. Jæja sagði Óli, eitt - eitt!

Þar fór það!

Afar og ömmur

Á uppstigningardegi gefum við öfum og ömmum sérstakt rými og þó eru tilefnin fleiri. Hér í Neskirkju höfum við meira að segja efnt til ,,afa og ömmu” messu og var aðsóknin slík að við munum vart annað eins. Þurfti að drífa til alla lausa stóla og dugði það þó ekki til. Hljómur söng þá einmitt í kirkjunni ásamt barnakórum. Af hverju þessi tenging við þessar kynslóðir á uppstigningardegi? Jú, því þá hugleiðum við lokafrásagnir guðspjallanna af því þegar kaflaskil urðu í hjálpræðissögunni og frelsarinn yfirgefur samfélagið sem hann hafði myndað og var grunnurinn að því sem koma skyldi. Þessi endalok eru því upphafið að stórkostlegum atburðum, sem byggja í grunninn á sömu þáttum og allt það sem einkennir menningu okkar og framfarir í gegnum tíðina. Þar segir einn öðrum, kynslóðir koma og kynslóðir fara en arfurinn lifir áfram. Með þeim hætti hefur maðurinn náð að bæta umhverfi sitt, lært af mistökum og viðhaldið ómetanlegri færni og þekkingu. Fagnaðarerindið lýtur sömu lögmálum, því þótt Kristur hafi haldið á braut frá vinum sínum eins og því er lýst, skildi hann svo mikið eftir hjá þeim og það átti eftir að vaxa og dafna í meðförum þeirra.

Uppstigningardagur er eins og stór áminning til okkar allra um að lífið er sífellt ferli þar sem hvert tekur við af öðru. Þótt allt það sem lifi hjóti að endingu að deyja er boðskapur dagsins til okkar sá að við berum ríkar skyldur til að viðhalda því góða sem hver kynslóð hefur og miðla því áfram til þeirra sem eiga eftir að erfa það sem við skiljum við.

Og þegar ég hlýddi á frásagnir fólksins að vestan sem sagði mér frá heimi sem hefði allt eins og getað verið ævintýraheimur, fylgdi það jafnan sögunni hvernig trúin á góðan Guð var fólkinu haldreipi í hörðu umhverfi. Hvar hefði það verið statt ef það hefði ekki haft þá kjölfestu sem miðlaði huggun, von, styrk og kærleik til náungans. Nú er það okkar að segja sögurnar af Jesú, halda því efni að börnunum og með því viðhöldum við þeim dýrmæta streng sem hefur tengt okkur saman kynslóð af kynslóð í þúsund ár.