Krossfit

Krossfit

fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
06. apríl 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég heyrði um síðustu helgi frá veislustjóra sem bað fólk að hugsa um Biblíumyndir og sjá fyrir Jesú eins og hann hefur oft verið teiknaður og hvort fólki tæki ekki eftir því að hann væri alltaf teiknaður eins og hann væri í rosa góðu formi, alveg massa fitt eins og einhverjir myndi segja og þá velti veislustjórinn því fyrir sér hvort að Jesú hefði ekki örugglega verið í Crossfit? Já, er það ekki bara? Einhverjum finnst nú kannski ekki smekklegt að presturinn sé með svona útúrsnúnings-brandara. En ég ákvað að slá til og setti þetta inn í fermingarprédikun sem flutt var fyrr í dag í Oddakirkju. Það er nefnilega málið að fermingarbörnin sem velja Jesú að leiðtoga í sínu lífi þurfa að vera góð í Kross-fit eins og Jesú stundaði. Það sama gildir um okkur öll, kristnar manneskjur. Slík andleg líkamsrækt er að líkja eftir því sem hann gerði. Líkamsræktin Crossfit gefur sig út fyrir að vera skemmtileg og fjölbreytt líkamsrækt og á að skila árangri á breiðum grunni betra forms, vellíðunar og bættrar heilsu. Okkar andalega Krossfit á að gera það sama og hún snýst um að líkja og herma eftir þeim æfingum sem Jesú gerði. Crossfit líkamsræktin vinnur út frá 10 grunnatriðum. Við getum gert það líka, við höfum boðorðin 10 til að fara eftir. Við getum líka auðveldlega talið upp 10 grunnatriði í Krossfit sem tengist því sem Jesú gerði og kenndi, gaf okkur eftirdæmi um. Athöfn og atburðir skírdagskvöldsins eiga einmitt að vera okkur hvatnig og áminning til eftirbreytni um það sem heilagt er og það sem siðferðilegt er. Í guðpsjalli skírdagsins segir frá því þegar Jesú þvoði fætur lærisveina sinna. Fótaþvotturinn er spegilmynd hreinsunar, syndir sem þvegnar voru í blóði Krists, hreinsaðar og fyrirgefnar. Á þann hátt sem Jesú þjónaði á skírdagskvöld og í öðrum verkum gagnvart samferðafólki sínu þannig eigum við að þjóna öðrum. Hann sýndi ást sína til þeirra sem stóðu honum næst í auðmýkt og þjónustu. Slíkt eigum við að temja okkur og líkja eftir, það getur verið fyrsta atriði af þeim tíu sem við viljum tileinka okkar í Krossfittinu. Auðmýktin og þjónustan á að beinast að Guði, náunganum og okkur sjálfum. Það er atriði númer tvö sem við skulum hafa í huga. Það að ganga til altaris eins og við gerum hér á eftir gerði Jesú gerði á skírdagskvöld. Kvöldmáltíðin vitnar um þá fórn sem Guð færði og þá gjöf sem hann gaf í syni sínum. Við eigum sömuleiðs að gefa af okkur í samskiptum við aðrar manneskjur og gefa að því sem við eigum umfram handa öðrum, það er atriði 3. Heitt og innilega bað Jesú til Guðs á skírdagskvöld og talaði við hann, í örvæntingu og ótta bað hann. Við skyldum ekki þreytast á því að biðja, tala við Guð, því bænin er lykill okkar að Guði og mikilvægur hlekkur í öllum samskiptum okkar við hann, það er atriði 4. Það var sömuleiðis á skírdagskvöld sem Jesú var svikinn, það var sárt. Látum þann verknað verða til áminningar um okkar eigin drambsemi, veikleika, minna okkar á að láta ekki svik og græðgi ná tökum á hjarta okkur og í lífinu, forðumst slíkt, það er atriði 5. Gleðin er góð og þó skírdagskvöld sé ekki blandað gleði því föstudagurinn langi fylgir þar á eftir og krossfesting þess sem fagurt var og gott. En sorgin er gríma gleðinnar segir í Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Látum sorgina og örvæntingu minna okkur á að það sem hryggir okkur er oft hið sama og það sem gladdi hjartað. Söngur er eitt af því sem veitir gleði og hér í kvöld syngjum við sem einn kór og við mættum syngja oftar og með okkar nefi við hversdagsleg störf heima fyrir, það er alltaf gleði í kringum þau sem syngja, hafið þið séð syngjandi manneskju í fýlu? Það er atriði 6. Er við göngum héðan út á eftir heilsum við hvort öðru, horfumst í augu og brosum, gerum það oftar! Mætum oftar öðrum mannesjum í einlægni eins og Jesú gerði, hann horfði í augun á fólki og hughreysti það, sá það fyrir það sem það var og viðurkenndi, það er atriði 7. Kannski verðum við svo heppin að fá páskaegg um páskana, en hvort sem páskaeggin enda hjá okkur að börnum í kringum okkur látum þau minna á þær gjafir sem Guð gefur með lífinu, í lífinu, í náttúrinni, vorinu sem er að lifna við. Hugsum vel um þær, það er atriði 8. Níunda atriði er að æfa og æfa og æfa Krossfit á hverjum degi allt okkar líf, þá verður það fjölbreytt, skemmtilegt og uppbyggilegt. Í 10. og síðasta atriði langar mig að setja Krossfitið í samhengi við æfingasalinn, vissulega er allt lífið undir og allt sem við gerum dag hvern ætti að bera því vitni að við erum kristnar manneskjur. Við ættum sömuleiðis að geta trúað og hvílt örugg í því að þegar við erum ekki í okkar besta formi er einhver annar sem er betur á sig komin til stuðning og alltaf er sá sem allt snýst um til staðar og tilbúin að reisa við og byggja okkur upp. Sömuleiðis langar mig að setja kirkjuna inn Krossfitið, bæði er hún æfingasalurinn en hún á einnig að vera fyrirmynd í öllum þeim atriðum sem þjálfa þarf. Hún er erindreki Krist, það er hennar að fylgja eftir því sem hann kenndi, sagði og gerði. Allt hennar umhverfi á að sýna og vera spegilmynd auðmýktar og þjónustu Jesú. Hún á að vitna um auðmýkt og þjónustu, ekki vald. Það má einnig spyrja, hvað ég á við með Kirkjan, með stóru K-i. Það gæti verið Keldnakirkja, hún er með stóru K-i. En við þessu er ekki bara eitt svar, því kirkjan á sér mörg andlit og um það vitnar sem dæmi fjölbreytt helgihald um páskana í kirkjum landsins það er allt frá því að hverfa í djúpar trúarrætur þjóðar okkar við lestur á Passíusálmunum og til þess að leita með börnum að páskaeggjum að lokinni barnaguðsþjónustu. Stundum er ég viss um að okkur finnst kirkjan vera að gera góða hluti en stundum ekki. Það er líka þannig í lífinu, þar er ekki allt fullkomið og guðspjall dagsins segir okkur það líka. Við hina síðustu kvöldmáltíð er einn svikari, hann ætti að láta okkur vera á varðbergi, vera vakandi fyrir hættum heimsins. Minna okkur á að þjálfa okkur reglulega og iðulega svo við dettum ekki úr þjálfun og missum dampinn. Það er margt erfitt í þessum heimi og margs að taka tillit til. Þess vegna þurfum við hvert á öðru að halda, látum einmitt atburði skírdagskvöld vera okkur áminning um það að vera á verði, vaka hvert yfir öðru. Lærisveinar Jesú sofnuðu í Getsemane garðinum þegar Jesú þurfti mest á þeim að halda, þegar hann átti erfitt, þegar hann efaðist. Hann ákallaði Guð en hann bað einnig vini sína og vinkonur að vaka með sér, vera hjá sér. Við lifum ekki í tómarúmi og við þurfum hvert á öðru að halda bæði í því að þjónusta og í því að láta þjóna okkur. Látum þjónustu Jesú á skírdagskvöld og auðmýkt hans verða okkur til hvatningar um uppbyggingu á því sem okkur finnst aflaga í samfélagi okkar í kirkjunni og annars staðar. Sömuleiðis að þakka fyrir og hrósa því sem gott er, standa saman öll sem eitt til uppbyggingar og árangus í hinni andlegu Krossfit.