Jón Gnarr og ekkertsagan

Jón Gnarr og ekkertsagan

Að refsa fyrir aðgerðaleysi! Jesús sagði sögu og Jón Gnarr notaði hugmyndina. Er glæpsamlegt að gera ekkert? Mun hið illa blómstra vegna skeytingarleysis okkar?

Jón Gnarr er ekki bara brandarakall, spaugari. Hann er húmoristi, því hann sækir þegar best lætur í dýptir. Og eins og list og trú eru úttengd er húmor jafnan á mærum og þiggur spennu sína af þeirri stöðu. Jón Gnarr verður ekki óumdeildur meðan hann er að störfum, því það er kúnst góðra húmorista að hrista upp í hinu venjubundna alveg eins og góður höfundur snýr upp á hið almenna og viðurkennda. Farsímasamtal Jesú og Júdasar Ískaríot var af því tagi. En það sem lifir úr þeirri auglýsingu er: “Við erum hér – hvar ert þú?” Sú setning er ávirk spurn um afstöðu og hvar menn eru staddir, en ekki bara um gerð af farsíma. Kraftur spurningarinnar kemur frá táknveruleika Jesú.

Að tengja Nú hefur Jón Gnarr gert nýja farsímaauglýsingu. Enn er það til að vekja athygli á G3 símanum, sem veitir aðgang að veraldarvefnum og þar með gríðarlegu upplýsingasafni, víddum tímanna og viðburðum augnabliksins.

Senan er Vatíkanið, tíminn er sautjánda öldin og réttarhöld í gangi. Maður er látinn svara spurningum um gang sólar. Hann veit rétt en rannsóknarrétturinn veit rangt. Maðurinn vísar til símans og biðlar til dómarans, sem bara sofnar. “Yðar heilagleiki” kallar bandinginn veltengdi. En hans heilagleiki er ótengdur, sefur, er ófær um að opna augun gagnvart þróuninni, nýjum víddum og þar með sannleikanum. Yðar heilagleiki, - eða kallar hann kannski yðar heiðarleiki?

Þetta er flott auglýsing, kunnáttusamleg kynning á tækni, sem getur nýst mönnum. Og við vitum að framrás þekkingar mætir andstöðu, sem er ekki aðeins innan í einstaklingum, heldur er andstaðan ekki síður kerfislæg. Ávallt verða til hópar, hugmyndakerfi, fordómaþykkni og valdablokkir, sem vilja ekki og óttast jafnvel fræði og tækni. Það er alveg ljóst, að Síminn eyðir ekki óttanum, veraldarvefurinn ekki heldur, ekki farsími né heldur Jón Gnarr.

Hinn ríki og fátæki Jesús segir aðra sögu í guðspjalli dagsins. Hún er líka áhugaverð. Sögupersónurnar eru tvær, annar maðurinn er ríkur en hinn fátækur. Sá síðari hefur reyndar nafn og nöfn hafa alltaf merkingu. Lasarus er líklega leitt af nafninu Elíeser, sem þýðir að Guð hjálpi.

Í Jesúsögunni er tjáð, að hinn fátæki hafði komið sér fyrir dyrum hins ríka til að njóta molanna, sem féllu af borðum. Í Bandaríkjum Reagan-tímans var oft talað um “trickle down-economics,” brauðmolahagfræði. Það var svoleiðis kerfi í sögu Jesú og úr Jesúsögunni fékk hagfræðikenningin líklega nafn, enda sagan um brauðmola hins ríka þekkt vestan hafs.

Við máltíðir á Biblíutímum notuðu menn ekki önnur verkfæri en guðsgaflana, puttana. Þegar hinir ríku voru nægilega ríkir þerruðu þeir fitu og matarleifar af höndum í brauði, sem var síðan kastað út til hinna þurfandi. Lasarus naut þeirrar hagfræði smámolanna. Á þeim tímum var ekki hægt að kaupa sér merkjaföt og þetta var ein aðferðin til að greina sig frá alþýðunni. Logo-menn allra alda finna alltaf aðferð til að aðgreina sig. En auðvitað átti hin ríki líka flott föt, hann klæddist purpura og dýru líni.

Og Jesús segir síðan frá dauða beggja, hins ríka og fátæka. Síðan segir frá réttarhaldi á himnum, þar er hinn ríki komin í stöðu bandingjans en hinn fátæki í stöðu sigurvegarans. Hlutverkum í Jesúsögunum er oft snúið á hvolf miðað við hið venjulega. Hinn ríki biður um, að einhver verði sendur í lífheima og vari fólk við til að það lendi ekki í sama hryllingnum og hann. En í hinu himneska réttarhaldi er enginn sem sefur, hans heilagleiki Abraham er vakandi og ræðir við hinn hrjáða og áhyggjufulla mann og bendir honum á að lifandi fólk taki ekki sönsum. Fólk er fast í kerfi sínu, fordómum og vana sínum og breytir þeim ekki þó menn rísi upp frá dauðum og komi í viðvörunarskyni.

Ekki eilífðarfrumspeki heldur fyrir lífið núna Hvað merkir svona saga? Hún hefur vissulega oft verið túlkuð svo einhæft, að ríkidæmi sé vont og fátækt sé leið til himinvistar. En slík túlkun fangar ekki dýpt sögunnar. Svona saga segir heldur ekkert um eðli og uppbyggingu himins og handanveruna. Saga af tagi líkingasögu er ekki kennslusaga í frumspeki heldur lífsspeki, ekki saga um náttúrufræði eilífðar heldur siðfræði fyrir lifandi fólk og í nútíma.

Refsað fyrir ekkert! Þegar sagan er skoðuð nánar sést, að ríki maðurinn gerði ekkert “rangt” af sér. Ekkert kemur fram í sögunni, að hann hafi vanvirt hinn fátæka með því að hafa af honum brauðmolana og henda þeim fremur í hundana. Hann hæddi hann ekki eða hrakyrti. Hinn ríki gerði “ekkert” og var refsað fyrir það. Hvað merkir það?

Gætum að okkur – trúmenn og kerfismenn Tvennt vil ég benda á í dag. Annars vegar er líkleg að Jesús hafi sagt þessa sögu til að beina sjónum að verkasynd ríkismanna sinnar samtíðar, og þeir voru ekki síst hin prestslega yfirstétt. Þeir voru Vatíkanmenn þess tíma, sem höfðu komið sér upp pottþéttu sérréttindakerfi og njörvað samfélagið niður með reglum, sem annars vegar heftu líf venjulegs fólks og hins vegar tryggðu þeim völd, stöðu og ríkidæmi. Sagan var sem sé sumpart andóf Jesú gegn trúarlegum forréttindahóp og þar með öllum slíkum síðar. Af því hinn ríki hafði ekkert gert sjáum við líka í sögu Jesú áminningu um, að menn sem ekkert gera eru ekkert síður sekir og tækir til dóms en hinir sem framkvæma eitthvað alvarlegt eða glæpsamlegt. Þeir sem ekkert gera til að brjóta niður rangt kerfi eru sekir. Í þeirri ábendingu er fólgin djúp alvara og áminning, sem við eigum að taka til okkar, í hvaða stöðu sem við erum.

Kerfisábyrgð Löngum höfum við einkum beint sjónum, að mikilvægi þess, að einstaklingar taki sönsum, iðki hið góða, beri ábyrgð eftir megni og aðstæðum og lifi fallega. Við erum kölluð til slíks í viðburðum daganna og í samskiptum okkar við fólk, gildi, verðmæti, vinnustaði, börnin okkar og ástvini. Persónulegu siðferðisefnin eru öllum augljós verkefni. En erum við ábyrg fyrir hinum stærri kerfum? Erum við ábyrg fyrir skiptingu auðs í veröldinni? Margir gefa af sér í fjársöfnunum þegar hamfarir verða, hungurvofan læðist að einhvers staðar og fjöldi fólk deyr. En hvað um alþjóðavæðinguna, hvað um misnotkun stórfyrirtækja á börnum, fólki, auðlindum? Erum við ábyrg fyrir slíku?

Galtung og kerfin Johan Galtung, einn helsti fræðimaður heims á sviði ofbeldis, stríðs- og friðar-mála, hefur skilmerkilega í þúsundum greina, bóka og viðtala bent á, að ofbeldi sé ekki bara bundið við einstakling heldur er fléttað í menningu, skipulag fólks og samfélag. Kerfin, sem við komum okkur upp í samskiptum, geti verið ástæðan fyrir ofbeldi meðal fólks. Einstaklingar vilji flestir vel, en svo stýrir menningin, kerfið fólki í ákveðnar áttir. Það eru þau, sem sortera fólk í æðra og lægra setta, hvort sem það er eftir lit, trú, kyni, þjóðerni eða einhverjum öðrum hætti. Þegar einhver kerfi greina menn að og raða án tillits til manngildis, hæfni eða nokkur annars þá er það vont kerfi. Ríki maðurinn gerði ekkert til að hafna röngu mann-sorteringar-kerfi og það varð honum til falls. Saga Jesú varðar afstöðu okkar til umhverfis og veraldar í því að okkur ber að opna augun og beita okkur gagnvart öllu því, sem vanvirðir fólk. Horfum í kringum okkur og spyrjum okkur hvaða skipulag ekki eflir fólk heldur raðar illa. Þar höfum við verk að vinna, þar hefur Jesús áhuga á að við berjumst, þar vill Guð að tekið sé til hendi. Taktu þátt í að bæta heiminn.

Er kerfið til góð eða ills? Svo er það trúarstofnun Jesú og Jóns Gnarr. Ártalið á yfirheyrslunni í auglýsingunni er 1633. Réttað var yfir manni, sem gekk erinda framfara og betri raunvísinda. Einstaklingur benti á, að fræðin voru röng. En kerfið brást rangt við, beitti valdi sínu og þaggaði niður rödd sannleikans og einstaklingsins. Jesús var alltaf á móti kerfum sem hefta lífið, réttlætið, lífsgleðina og mennskuna, líka trúarkerfum. Eitt af sláandi einkennum líkingasagna Jesú er að hann heldur fram rétti hinna ofsóttu, fátæku, týndu, hrjáðu og kúguðu. Jesús stendur með þeim, sem halda fram að jörðin snúist um sólina, með þeim sem vilja góðar nettengingar milli mennskra manna, milli elskandi og friðleitandi fólks.

Fólk sem ekki teygir sig út úr eigin réttindakerfi hefur orðið fátækt ríkidæmis að bráð. Það er hægt að vera skínandi blankur, allslaus í auðlegðinni ef menn læsast inni, tapa útrás elskunnar, tapa að kærleikur og ást teygir sig alltaf til annarra, út fyrir kerfislæga sorteringu og að lokum til Guðs. Auðlegð mannsins er fólgin í að teygja sig sem lengst. En fátækt manns er fólgin í að lama þessa grunngerð mennskunnar, hemja útrás elskunnar.

Heyrum við og sjáum? Jesús Kristur, hinn mikli sagnameistari sagði sögur fyrir lífið. Jón Gnarr hefur lært af honum og hent upp sögu um að kerfi reynir að hefta sannleika. Við eigum að hlusta grannt og ekki síst þurfum við kirkjufólk að hlusta vel. Trú má misnota eins og öll gæði veraldar. Klerkar Gyðinga fléttuðu vef gilda og gæða og sjálfsagt í góðri trú, en auðvitað urðu einhverjir til að misnota kerfið með vondum hætti. Kirkjumenn miðalda fléttuðu vef gilda og gæða að heimsmynd og fræðum þess tíma, sjálfsagt í góðri trú. En svo urðu auðvitað einhverjir til að misskilja hlutverk sitt, réttlæta stöðu sína og völd og þar með að bregðast hinni guðlegu köllun. Þeir voru ekki lengur í hlutverki Lasarusar, þess sem Guð hjálpar, heldur hins ríka kerfis, sem ekki þekkir köllun sína.

Við, forréttindafólk á Vesturlöndum, þurfum nauðsynlega að íhuga hvort við erum í stöðu hins aðgerðalausa ríka manns sem lætur fituga brauðmolana falla til fátæklinga við dyrnar. Við erum auðvitað nokkuð sæl og lifum í góðri trú.

Við - kirkjan Við, nútímaklerkar og kirkja, erum í nákvæmlega sömu stöðu og forfeður okkar og formæður. Höfum við komið okkur upp kerfi, í góðri trú, sem ekki heyrir þegar sannleikurinn er sagður, ekki heyrir þegar fræðin eru túlkuð, ekki heyrir þegar fólk biður um rétt og sannleika, ekki heyrir þegar Guð er að skapa? Sofum við þá, heyrum við ekki þegar til okkar er kallað? Erum við bara að borða eins og ríkur kerfiskall með dauða í vændum? Dæmt er fyrir aðgerðaleysi, skeytingarleysi, andvaraleysi og svefn.

Ábyrgð á hinu stóra líka Jón Gnarr auglýsir síma, en segir mikilvæga sögu á bak við auglýsinguna. Saga Jesú er flott því hún er saga um eðli og afbökun, um ytri gæði eða innri gæði, sem menn geta ruglast á. Syndin er að hitta ekki, mistakast, misvirða í stað þess að hitta, takast og virða. Jesús sagði frumsöguna ekki aðeins um ríkidæmi eða fátækt í hinu ytra, heldur sögu um kerfi sem við þurfum að skilja, sögu um að við erum ábyrg ekki aðeins fyrir litlu tengslunum heima eða í vinnunni, heldur stóru málum veraldar, efnahagsmálum, tengslum trúarbragða, réttlæti í samskiptum þjóða og réttlátri skiptingu gæða. Við erum ábyrg fyrir stóru kerfunum til að ofbeldið verði hamið og rétturinn verði efldur. Hvað viljum við gera? (Svanur Kristjánsson sagði hnyttilega við útgöngudyr í messulok: “The only thing necessary for the triumph of evil, is for good men to do nothing" setning löngum kennd við Edmund Burke)

Heiðarleiki - heilagleiki Yðar heilagleiki, yðar heilagleiki... Við megum gjarnan heyra þessa spurningu sem kirkja, trúfólk og bregðast við. Við viljum ekki misskiptingu, við eigum ekki að líða nein réttarhöld kerfis gegn sannleikanum og við eigum ekki að matast í kerfisréttlæti meðan fólk líður. Yðar heiðarleiki er það sem Jesús vill að spretti, að starfað sé en ekki bara hugsað. Athafnir ekki síður en orð.

Guðlast hrópaði einn í salnum í auglýsingunni. Það er ekkert guðlast, kirkjulast eða prestalast fólgið í farsíma en það getur verið mikið guðlast fólgið í kerfum sem ekki sinnir fólki. Kirkjan, samfélagsstofnanir og lifnaðarhættir eiga að þjóna lífinu en ekki dauðanum. Við erum ábyrg og Jesús Kristur sefur ekki í dómi lífsins. Þegar við tengjumst Jesúnetinu er okkur ekki ætlað að sofa heldur vera með í að skapa líf og gleði.

Amen

Prédikun í Neskirkju 25. maí 2008, 1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Lexía: 5 Mós 15.7-8, 10-11 Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir. Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Pistill: 1 Jóh 4.16-21 Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.

Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.

Guðspjall: Lúk 16.19-31 Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.

Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“