Júdasar-þáttur Ískaríóts

Júdasar-þáttur Ískaríóts

Á dögunum henti ég á lofti ögrandi hugmynd í samtali sem ég varð vitni að og hefur fylgt mér síðan. Því var haldið fram að Júdas Ískaríót — sá sem sveik Krist með kossi — hafi verið kallaður til þessa verks síns.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
13. mars 2013

Júdasarkoss eftir Giotto

Á dögunum henti ég á lofti ögrandi hugmynd í samtali sem ég varð vitni að og hefur fylgt mér síðan. Hugsanlega er það ekki tilviljun þar sem hugmyndin tengist föstuþemanu, píslarsögunni og í raun atburðum kyrruvikunnar. Því var einfaldlega haldið fram að Júdas Ískaríót — sá sem sveik Krist með kossi — hafi verið kallaður til þessa verks síns. Hann hafi þannig gegnt mikilvægu hlutverki í hjálpræðissögunni. Án hans og þess sem hann gerði hefði engin krossfesting orðið og þar með ekkert hjálpræði.

Júdas og María?

Á þennan hátt var Júdasi gefin svipuð staða í hjálpræðisverkinu og Maríu Guðsmóður. Segja má að opinn hugur hennar, traust og fúsleiki hafi verið forsenda þess. Líkt og María gegndi lykilhlutverki í upphafi Krists-atburðarins ætti Júdas þannig að hafa skipt sköpum undir lok hans, í píslargöngunni og krossdauðanum sem að sönnu voru nauðsynleg forstig sjálfs hápunktsins: Upprisunnar.

Er þessi túlkun trúverðug? Ég hef enga löngun til að auka á þá fordæmingu sem Júdas hefur mætt í gegnum tíðina en þessi skýring á hlutverki hans vekur ýmsar spurningar: Er mögulegt að einhver sé kallaður til að svíkja eða með öðrum hætti áskapað að gera það? Hver er þá sjálfsákvörðunarréttur hans? Hvernig vinnur hann úr þessari stöðu sinni og á hvern hátt verður hann hugsanlega kallaður til ábyrgðar? Var Júdas á einhverri sérstakri undanþágu vegna sérstæðs „köllunarhlutverks“ síns?

Endalok Júdasar

Lokakaflinn í Júdasar-þætti guðspjallanna mælir gegn því að svo hafi verið. Þar segir að Júdas hafi iðrast gerða sinna og skilað aftur silfurpeningunum þrjátíu, bókstaflega grýtt þeim inn í musterið. Þrátt fyrir þá drastísku aðgerð öðlaðist hann ekki frið. Honum var ómögulegt að horfast í augu við gerðir sínar og lifa með þeim. Honum voru allar bjargir bannaðar og hann tók að lokum sitt eigið líf (Matt 27. 3–5). Þessi sögulok mæla gegn því að Júdas hafi aðeins gert það sem ætlast var til af honum. Þá hefði hann líklega eygt einhvern tilgang með því og lifað það af.

Hallgrímur Pétursson greinir verk Júdasar á óvæginn hátt í 16. Passíusálmi Um Júdasar iðurn. Þar telur hann ágrindina hafa knúið Júdas til óhæfuverks síns:

(7) Fégirndin Júdas felldi, fyrst var hans aðtekt sú. guðs son Gyðingum seldi, gleymdi því æru og trú. Svo til um síðir gekk. Kastaði keyptum auði, þá kvaldi sorg og dauði, huggun alls enga fékk.

Síðar í sálminum bendir Hallgrímur raunar á að Kristur hafi varað Júdas við veikleikum hans. Hann hafi því í raun breytt gegn betri vitund:

(11) Oft Jesús áður hafði áminnig Júdas gjört. Hrekkvísin hjartað vafði, hann hélt það einskisvert. Nú kom þar einnig að, tilsögn hataði hreina, huggun fékk því ein neina. Varastu víti það.

Réð kylfa kasti?

Þegar hlutskipti Júdasar er hugleitt leitar sá ágengi grunur á að líklega hafi tilviljun að mestu ráðið hver varð til þess að svíkja Jesúm í hendur andstæðinga hans í forystusveit Gyðingasamfélagsins. Visslega kunna persónueiginleikar eins og ágirnd, hvatvísi og bráðræði að hafa ráðið þar einhverju um. En fráleitt virðist að Júdas hafi verið sérstaklega ákvarðaður, útvalinn eða kallaður til þess verks.

Allt um lykjandi elska Jesú og rík samstaða hans með utangarðsfólki af ólíku sauðahúsi var róttæk ögrun við þau sem frekar vildu láta stjórnast af góðu siðferði og allsherjarreglu í hefðbundinni merkingu. Því má líklega líta svo á að hann hafi verið í beinni lífshættu mestan hluta starfstíma síns, a.m.k. eftir að Guðsríkisboðskapur hans tók að hafa bein félagsleg áhrif og vaxandi grasrótarhreyfing að myndast um boðun hans.

Þá hafði Jesús gert altæka kröfu til þeirra sem fylgdu honum eftir. Þau höfðu yfirgefið heimahaga, ættfólk og eignir og fyllst von um nýja tíma vegna ótvíræðra Messíasar-vísana sem þau skynjuðu í orðum hans. Þegar á leið sýndi það sig að vonir þeirra virtust ekki á rökum reistar og markmið Jesú vera allt önnur en þau sem Messíasar-vonirnar um veraldlegt og þjóðlegt frelsi fólu í sér. Því réðst það hver sveik hann e.t.v. fyrst og fremst af því hver úr hópi lærisveinanna færi fyrstur á taugum, gæti ekki lengur haldið aftur af brosnum vonum og löngun til geta í það minnsta haft nokkurn fjárhagslegan ávinning af ósigri sínum. Einhvern veginn urðu menn þó að koma undir sig fótunum að nýju. Óvíst var að allir gætu horfið aftur að því sem yfirgefið hafði verið.

Getur hver sem er svikið?

Sé eitthvað til í þessum sviðsmyndum er ljóst að hvert okkar sem er hefði getað orðið til þess að framselja Krist hefðum við aðeins verið á staðnum. Til þess þurfti ekkert sérstakt æðra plan eða útvalningu. Í ranglátum heimi er réttlæti framandi þáttur sem snúist er til varnar gegn, það einangrað og útilokað. Í þessu sameinast hið rangláta samfélag. Kylfa ræður síðan kasti um það hver verða helstu gerendurnir. Það er því ekki til neinn sérstakur Júdasar-leyndardómur eða –guðfræði í líkingu við það sem ýjað var að í upphafi.

Glæpir gegn mannkyni

Þetta leiðir hugann að því hvers konar fólk það sé sem vinnur helstu óhæfuverkin í styrjöldum eða annars staðar þar sem verstu brotin gegn mannkyni eru framin. Allar rannsóknir benda til þess að það sé ósköp venjulegt fólk. Það merkir að við eigum öll á hættu að fylla þann flokk aðeins ef við lendum í þeim aðstæðum að þurfa að velja eða hafna því að taka þátt.

Hvað sem um geðheilbrigði og veruleikaskynjun Adolfs Hitlers og helstu samverkamanna hans má segja er því líklegt að flest þau sem framkvæmdu skipanir þeirra hafi verið fólk á borð við mig og þig. Einhvers staðar las ég að margar aftökusveitir nasista hafi verið skipaðar eldri mönnum sem ekki þóttu líklegir til stórræða á vígvöllunum. Jafnframt var því haldið fram að í upphafi hafi það verið brýnt fyrir slíkum mönnum að þætti þeim óþægilegt að taka þátt í aftökunum skyldu þeir bara segja til. Þeir gætu þá fengið önnur verkefni. Það mun hafa verið sárasjaldgæft að nokkur skoraðist undan eða kvartaði. Auðvitað hefur margt komið í veg fyrir að menn færu þá leið, m.a. félagslegt taumhald úr ýmsum áttum. Sé þetta rétt varpar dæmið þó nöturlegu ljósi á mannlegt atferli, dómgreind og vilja til að standa með hinu rétta, sanna og góða í tilverunni.

Þarfnast Júdasarkossinn sértækrar skýringar?

Nú höfum við hafnað óralangt frá Júdasi Ískaríót og svikakossi hans í þessum hugleiðingum. Við höfum hins vegar e.t.v. nálgast þátt í eðli okkar sjálfra sem færir okkur nær honum — setur okkur jafnvel í spor hans. Hver hefðu viðbrögð okkar orðið í hans aðstæðum? Þarf að skýra gjörð hans á einhvern sértækan máta?