Lykillinn að hvítasunnunni

Lykillinn að hvítasunnunni

Því er ekki að neita að það er með vissum áhuga sem fræðimenn í guðfræði fylgjast með framsetningu arfleifðarinnar eftir Jesú sem spennusögu í bíómynd þar sem hugguleg kona sem getur rekið ættir sínar til Jesú kemur við sögu ásamt byssubófum í kappakstri um stræti Parísar og Lundúnaborgar.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
25. maí 2006
Flokkar

Sagan af Jesú frá Nasaret er mönnum mikið umhugsunar- og deiluefni. Líf hans og dauði lætur menn ekki ósnortna. Skapandi hugsuðir og listamenn skálda í eyður heimilda sem fyrir liggja, þeir taka sér jafnvel vald yfir þeim og búa til nýjar kenningar og setja viðtekin sannindi í nýtt samhengi.

Nú er kvikmyndin um Da Vinci lykilinn til umræðu. Hún byggir eins og kunnugt er á nýlegri skáldsögu Dans Brown sem setur fram samsæriskenningu um að kirkjuleiðtogar og leynireglur hafi haldið því leyndu að Jesús hafi á sínum tíma kvænst Maríu Magdalenu og átt með henni börn.

Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Fyrir um þrjátíu árum vakti kvikmyndin Síðasta freisting Krists mikla athygli og mótmæli kirkjuleiðtoga. Nú bætist dulúðin við og sagan um Jesú er sett inn í hrikalega nútímalega spennusögu þar sem barist er um heimildir um hið raunverulega líf Jesú. Það er verið að leita að hinum dularfulla gral, bikarnum sem getur táknað heilagt sakramenti og hið kvenlega eðli sem kirkjan er talin hafa bælt um aldir og afskræmt.

Fræðimenn hafa nú í bráðum tvær aldir beitt öllum tiltækum ráðum gagnrýninnar sagnfræði og bókmenntafræði á alla tiltæka texta í því skyni að leiða í ljós sögulegar staðreyndir um Jesú Krist. Ný handrit hafa verið grafin upp og ýmiss álitamál vakna, en kjarninn stendur eftir sem áður, enda var helgiritasafnið sem myndar Nýja testamentið valið þannig í öndverðu að ritin megi sem greinilegast rekja til postulanna, þeirra sem þekktu Jesú frá Nasaret og tóku orð hans trúanleg.

Mörgum spurningum sagnfræðinnar er enn ósvarað og svo mun verða áfram og það er inn í þessar eyður sem Dan Brown sleppir hugmyndaflugi sínu lausu og lætur það leika lausum hala. Það leiðir hann langt út fyrir textana sjálfa. Listmálaranum og vísindamanninum fræga Leonardo Da Vinci, sem uppi var um aldamótin 1500 er blandað í málið. Mynd hans af síðustu kvöldmáltíðinni, einum mikilvægasta atburði freslunarsögunnar, er sett fram til sannindamerkis um að Jóhannes - lærisveinninn sem Jesús elskaði og hefur jafnan kvennlegt útlit á myndum - hafi í raun verið María Magdalena.

Samsærið felst í því að kirkjan vildi leyna ástarsambandi Jesú og Maríu frá Magdölum. Þetta getur verið spennandi tilgáta því vissulega voru þau nákomin. Það má t.d lesa úr guðspjöllunum að María frá Magdölum og jafnvel fleiri konur hafi í raun tilheyrt hópi postulanna og það var nýjung á þeim tímum að konum væri gert svo hátt undir höfði.

Því er ekki að neita að það er með vissum áhuga sem fræðimenn í guðfræði fylgjast með framsetningu arfleifðarinnar eftir Jesú sem spennusögu í bíómynd þar sem hugguleg kona sem getur rekið ættir sínar til Jesú kemur við sögu ásamt byssubófum í kappakstri um stræti Parísar og Lundúnaborgar.

Og það er spurt:

Breytir það einhverju að Jesús hafi lifað með konu og hugsanlega verið kvæntur maður? Hefði guðlegt líf og eðli Jesú skaðast við það að vera hamingjusamlega kvæntur?

Þegar maður les frásagnirnar Nýja testamentisins af stuttri starfsæfi þessa umdeilda umferðapredikara og mannvinar finnst manni að það hafi ekki verið honum of gott hvíla í faðmi kjarnafjölskyldunnar, lifa endurnærandi kynlífi með eiginkonu sinni og leika sér við börn sín þegar hann kom þreyttur heim úr vinnunni.

Að geta lokað dyrum húss síns um stund fyrir þreytandi amstrinu fyrir utan, hætt að hugsa um vonlausa pólitíska baráttu þjóðar sinnar við Rómverjana, losna við stöðugt þras við guðfræðinga og sértrúarflokka. Forðast endalaust kvabb frá bágstöddu og sjúku fólki, fátækum og óhamingjusömum.

Nei honum hefði ekki veit af því blessuðum!

En því miður. Hjónalíf Jesú og Maríu Magdalenu hefði aldrei getað fallið að fjölskyldustefnu gyðinga, hvorki þá né nú á tímum.

Rétt rúmlega þrítugur er hann orðinn svo þekktur og umdeildur fyrir skoðanir sínar og gerðir að honum er óvært í Jerúsalem. Hann hefur ekki haft neinn tíma til að sinna eiginkonu og fjölskyldu. Hann varð að vísa móður sinni og bræðrum frá þegar þau komu eitt sinn að vitja hans. Ræktarsemin við fjölskylduna varð að víkja fyrir prógrammi ungs manns sem lá á að sigra heiminn. Óháð allri sannfræði guðspjallanna og skyldra texta er það mjög ólíklegt að maður með þá dagskrá sem Jesús setti sér legði út í það að stofna fjölskyldu og hann kvartar meira að segja undan því á einum stað að hann hafi hvergi höfði sínu að að halla.

Hafi hann verið kvæntur er hann manna ólíklegastur til að leyna því. Í guðspjöllunum eru frásagnir af framkomu Jesú gagnvart konum sem mun meiri ástæða hefði verið fyrir karlrembur í áhrifastöðum að þurrka út. Margt af því sem sagt er frá í Nýja testamentinu er einkennilegt og ósamstætt og það eitt bendir til að menn hafa ekki verið að hrófla við textunum á þeim forsendum sem gefið er í skyn af skáldsagnahöfundinum Dan Brown.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að menn velti því fyrir sér hver Jesús var í raun og veru. Það gerðu menn svo sannarlega á hans dögum - og lærisveinarnir voru ekki alltaf á eitt sáttir í þessu tilliti, hvað þá aðrir. Þeir sem hlustuðu á hann tala um köllun sína og rökræða við faríseana, lækna og gera kraftaverk, spurðu sjálfa sig og aðra í forundran hver hann væri. Jafnvel foreldrar hans vissu það ekki. Að minnsta kosti ekki þegar þau týndu honum í Jersúsalem þegar hann var þar 12 ára. Jóhannes skírari sendi menn sína til hans sem spurðu: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum vér að vænta annars?“ (Lk 7.20)

Jesús vissi að menn höfðu ólíkar skoðanir á því hver hann var og það kom að því að hann spurði lærisveina sína: En hvern segið þið mig vera? Og þá stóð ekki á svarinu hjá Símoni Pétri.

„Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ (Mt 16.16) Þetta er um leið játning kirkjunnar.

* * *

Það ber ekki mikið á uppstigningardegi í almanaki og hátíðahaldi kirkjunnar og þegar höfuðhelgidagarnir þrír eru taldir upp þá er hann ekki meðal þeirra. Samt minnumst við þessa dags í hvert sinn sem við förum með postulegu trúarjátninguna. Við munum eftir því að hann er milli páska og hvítasunnu, fjörutíu daga eftir páska og tíu daga fyrir hvítasunnu, þá er heilagur andi kom yfir postulana, daginn sem nefndur er stofndagur þeirrar miklu alþjóðahreyfingar sem kirkjan er.

Dauði Jesú var lærisveinunum mikið áfall og þeir fóru huldu höfði eftir það alveg fram á hvítasunnudag. En hann birtist þeim á þriðja degi og var hjá þeim í fjörutíu daga og hughreysti þá og byggði þá upp til að takast á við komandi verkefni. Þetta var undirbúningstími, aðdragandi stórra viðburða í frelsunarsögunni, ekki aðeins hins hrædda hóps lærisveina og vina heldur allra þjóða - mannkynsins alls. Fagnaðarerindið stefnir út í heiminn til endimarka jarðar – en það gerir það í réttri röð þeirra frásagna sem við lesum um í guðspjöllunum.

Himnaför Jesú hefur sinn ákveðna sess í þessari framvindu. Uppstigningardagurinn er lykillinn að hvítasunnunnu og þar með að kirkjunni sem alheimshreyfingu. Jesús Kristur yfirgefur fylgjendur sína að þeim sjáandi en kemur aftur tíu dögum seinna og er þá með þeim í heilögum anda þegar þeir umbreytast í hugrakkan hóp trúboða og þrjár þúsundir manna bætast í þeirra hóp.

Þegar María Magdalena stendur grátandi úti fyrir tómri gröfinni á páskadag spyrja hana hvers vegna hún gráti. Hún svarar, en segir ekki að það sé vegna þess að eiginmaður hennar eða ástmaður sé látinn og búið sé að fjarlægja lík hans. Nei hún segir: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ (Jh 20.13) Þegar Jesús svo birtist henni á næsta augnabliki vill hún snerta hann, en hann varnar þess og segir: „Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns.“ (Jh 20.17) Og hann felur henni það hlutverk að færa lærisveinunum fréttirnar, sem eru þessar:

„Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ (Jh 20.17)

Munum að þetta er páskadagur og fimmtíu dagar í hvítasunnuna. Kristur er ekki enn uppstiginn, ekki enn dýrlegur orðinn. Hvað skyldi það merkja?

Það vill svo til að við vitum það nákvæmlega. Hann var að yfirgefa lærisveina sína og aðra þá sem á hann trúðu, en samt var hann að tengast þeim enn traustari böndum. Hann var að fara, en hann segir að það sé þeim fagnaðarefni því um leið verði hann mun nærri þeim en áður. Hann átti að vera í þeim og þeir í honum. Þetta hafði hann útskýrt í ávarpinu sem hann flutti þeim við síðustu kvöldmáltíðina og í bæninni sem hann bað fyrir þeim af því tilefni, bæninni sem kölluð er æðstaprestsbæn Jesú.

Einn af textum kirkjunnar á þessum degi er úr Jóhannesgarguðspjalli og tilvitnun í þetta ávarp.

Jesús segir:

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins. Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.“ (Jh 14.12-13)

Bæninni fyrir lærisveinunum, sem á eftir fylgdi, beinir Jesús til Föðurins:

„Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jh 17. 13-15)

Það var andinn í þessum orðum sem fylti lærisveinanna krafti til að boða heiminum fagnaðarerindið, trúna á Drottinn Jesús Krist.

Jesús lítur af þessu tilefni fram á við og boðar endurkomu sína við þau endalok þegar tíminn er fullnaður og guðríkið ræður á himni og jörð. Hann boðar þá endurkomu sína frá himninum og þá verður konungsdæmi hans og Drottinvald öllum ljóst og þá fer fram endanlegt uppgjör við hið illa. Uppstigningin er því ekki aðeins lykill að hvítasunnunni heldur einnig að endurkomu Krists sem konungs og dómara á efsta degi – lokaáfanga frelsunarsögunnar. Þessir áfangarnir eru taldir upp í réttri röð í postulega trúarjátningunni sem er að sínu leyti er eins konar lykill að frelsunarsögunni eins og hún birtist í heild sinni í hinum ýmsu ritum ritum Biblíunnar. Hún er til orðin í frumsöfnuðinum í Róm til fræðslu skírnarþega. Hún er eins konar kennslubók fyrir fermingarbörn eins og við mundum segja í dag.

Þar segir eins og kunnugt er um Jesú Krist að hann:

„… steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.“