Manstu?

Manstu?

Manstu eftir fyrstu ástarsorginni þinni? Manstu hvað hún var sár, svo sár að þér var illt í hjartanu? Kanski varstu orðin fullorðin, kanski enn á unglingsaldri. En hvar sem þú varst stödd á lífsgöngu þinni, barn eða fullorðin þá var þér illt í hjartanu. Sorg þín var djúp.
fullname - andlitsmynd Guðný Hallgrímsdóttir
15. febrúar 2006

Manstu eftir fyrstu ástarsorginni þinni? Manstu hvað hún var sár, svo sár að þér var illt í hjartanu? Kanski varstu orðin fullorðin, kanski enn á unglingsaldri. En hvar sem þú varst stödd á lífsgöngu þinni, barn eða fullorðin þá var þér illt í hjartanu. Sorg þín var djúp. Þú varst viss um að aldrei framar kæmi bjartur dagur í sál þinni. Aldrei framar fengir þú að kynnast sælunni sem felst í því að finna samhljóm með annarri sál og hönd sem leiðir þína. Aldrei framar. En svo fór að birta. Verkurinn í hjartanu aðeins seyðingur og einn daginn var hann horfinn. Gleðin kom aftur með gusti og gleðinni fylgdi systir hennar, birtan. Það birti á ný. Dagurinn varð aftur bjartur. Þú heyrðir jafnvel nýjan samhljóm, samhljóm tveggja sála sem unnast. Lífið var aftur gott.

Engin veit sína ævina fyrr en öll er og ég veit ekki hvað bíður mín á næstu skrefum lífsgöngunnar. Enn síður veit ég hvað lífsgangan þín færir þér. Það er margt sem við vitum ekki um lífisins brautir, en eitt veit ég þó að á þeirri göngu verður þú ekki ein. Ég veit að elsku Guð gengur með þér, hvort sem leið þín liggur um falleg engi hamingjunnar eða hrikaleg fjallaskörð erfiðis og ótta. Guð gengur með þér og umvefur þig elsku sinni og kærleika. Fullvissa mín um handleiðslu Guðs, um mjúka hönd sem blessar, huggar, styrkir og leiðir er líka fullvissa þín. Dagurinn verður aftur bjartur vegna þess að Guð er með þér og gefur þér gleði til lífs, gleði til að hrekja burt sorgir og þjáningar og gleði til að elska að nýju. Elsku Guð blessi þig og veri með þér á lífsgöngu þinni nú í dag og allar stundir.