„Þú getur orðið hvað sem þú vilt.“
Eldri manna ráð í garð hinna ungu geta verið misgóð. Þetta heyrist gjarnan: Legðu vinnu í verkefnin, óháð því hver þau eru, og þú munt ná afburðaárangri.
Steypt í sama mót
Í umræðunni um menntamál lúrir þessi hugmynd í bakgrunninum. Nemendur takast á við ýmis fög en standa svo ekki öll undir væntingum þegar kemur að næsta áfanga í lífinu. Sumt er mælanlegt og annað ekki. Í gamla daga voru þeir nemendur sem fengu slakar einkunnir settir í neðstu bekkina. Það var stimpill sem gat tekið ævina að þvo í burtu.
En manneskjan er margbreytilegri, flóknari en svo að eitt virki fyrir alla þótt illa geti gengið að koma þeirri hugsun til skila. Sjálfur bið ég fermingarbörnin gjarnan um að velta þessu fyrir sér. Sum hafa einmitt færni á þeim sviðum sem auðvelt er að leggja mælikvarða á, eru í A-liðum, með afburða einkunnir, ná stigum í tónist og svo fram eftir götunum.
En hvað með allt hitt – hvað með þá þætti sem torveldara er að leggja mat á? Þar dettur mér í hug að nefna forystuna, stuðninginn, vináttuna sem sumir geta miðlað fyrirhafnarlaust og getur skipt sköpum í lífi fólks. já og hvað með hæfnina til að segja sögur, finna fyndnar hliðar á tilverunni – fólk með þá færni skrifar bækur og handrit og hefur mikil áhrif.
Náðargáfur og köllun
Það er þó einungis brot af þeim gáfum sem búa í mismiklum mæli í hverju og einu okkar. Þær birtast okkur í margvíslegri mynd þegar við rýnum í hina helgu bók. Í því samhengi er einmitt sú vitund ráðandi að gáfurnar, náðargáfurnar svo notað sé biblíulegt hugtak, séu með ýmsum hætti. „Við erum limir á líkama Krists“, sagði postulinn Páll og vísar þar til þess að líffærin gegna hvert sínu hlutverki. Ef eitt starfar ekki sem skyldi þá getur það haft alvarlegar afleiðingar.
Í því sambandi varaði Páll eindregið gegn því að upphefja eitt svið mannlegra hæfileika en tala önnur niður. Þar talar hann inn í samhengi sem nær langt aftur í tímann, þar sem fólk af ýmsum toga fékk það stóra hlutverk að leiða verk Guðs í heiminum.
Í lexíunni er einmitt komið inn þá þætti sem í hinu biblíulega samhengi gengur undir heitinu köllun. Já, barnungur fær Jeremías skilaboð um að hans bíði stórt og merkilegt hlutverk til framtíðar. Það var ekki líf þæginda og munaðar, nei þetta var þrautaganga en það kallast líka á við vakosti okkar í lífinu, okkur hættir jú til að velja þá leið sem skilar sér í öryggi og tekjum fremur en að fylgja þeirri köllun sem býr innra með okkur. Og sé aftur vísað í menntakerfið þá leita flestir jú í það nám sem gefur af sér hæstu launin.
Meistaratök
Metsöluhöfundurinn Robert Greene ræðir þessi mál í einni af bókum sínum, Mastery eða Meistaratök – í minni þýðingu. Þar rýnir hann í lífshlaup einstaklinga sem hafa öðlast heimsfrægð fyrir störf sín og afköst. Í því sambandi bendir hann á að það að geta lært og þroskast sé meira virði en skjótfenginn gróði. Þá skiptir líka máli að hafa lærimeistara sem vísar leiðina. Í framhaldinu hafa þeirri afburðaeinstaklingar sem hann skoðar haft kjark og innsæi til að skora á hólm þann lærdóm sem þeir höfðu öðlast og þau gildi sem viðtekin voru.
Greene þessi á bakgrunn í klassískum fræðum og sækir óspart dæmi úr þeirri áttinni. Hann lítur einmitt til barnæskunnar – sem hæfir vel í samhengi spámannsins Jeremía. Því það er einmitt í eðli barna að skora reglur á hólm og reyna fyrir sér á jaðri þess sem leyfilegt er. Ímyndunaraflið er þar sterkara en agavaldið og þetta hafa snillingarnir varðveitt í hjarta sínu.
Grunnhugmyndin er sú að hvert og eitt erum við einstök og búum að einstökum gáfum, þótt okkur hætti til að steypa flesta í sama mótið. Þar spilar hinn félagslegi þrýstingur inn í og hann fletur út hið fjölbreytta og litríka. Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að okkar ólíka eðli skapar mögulega á margvíslegum viðbrögðum og leiðum.
Undantekningarnar eru einstaklingarnir sem fóru sínar leiðir og mótuðu með sér opinn og skapandi huga sem ruddi þeim brautina til þess að ná meistaratökum í lífinu. Jafnvel gerðist það á einhverju tilteknu andartaki þar sem lífið hnippti í þá og opnaði augu þeirra fyrir því hversu einstakir þeir eru. Um það fjallar köllunarfrásögnin sem við hlýddum hér á, þar sem hin ungi Jeremía var hrifinn í burtu fyrir hversdeginum og ætlað æðra hlutverk.
Þorláksmessa að sumri
Já og eru þessar hugleiðingar ekki verðugar á sjálfri Þorláksmessu sem nú er runnin upp, sú að sumri nánar tiltekið. Dánardagur Þoráks helga Þórhallssonar Skálholtsbiskups var 23. desember 1193 og hófu kirkjunnar menn hér á Íslandi þá þegar að undirbúa þann viðurkennda gjörning að taka Þorlák í dýrlingatölu. Og það var einmitt á þessum degi, 20. júlí 1198 sem líkami Þorláks var grafinn upp að viðstöddu fjölmenni.
Að hætti þeirra tíma var því komið fyrir í veglegu skríni sem átti svo eftir að standa í Skálholtsdómkirkjum öldum saman. Þetta er auðvitað undarlegt athæfi að fara með rekur í kirkjugarðinn og grafa þar upp lík sem hefur legið þar árum saman. Að baki býr sú hugsun að mannslíkaminn búi yfir eiginleikum sem ekki verði greindir frá sálininni.
Hugurinn leitar aftur til postulans Páls sem talað um hina ólíku limi á líkamanum. Hann sagði líka líkamann vera musteri andans. Upprisan í kristnum skilningi felur í sér flókið og dularfullt samband efnis og anda. Í samhengi texta dagsins talar Páll um að við séum lifandi steinar í andlegu húsi.
Þegar búið var að þrífa bein biskupsins og koma þeim fyrir í þar til gerðu skríni, voru þau færð inn í dómkirkjuna í Skálholti. Almenningur tengdi strax og í kjölfarið hétu menn á heilagan Þorlák í ýmsum raunum og launuðu svo stólnum með framlögum ef áheitin reyndust skila árangri. Það var reyndar ekki fyrr en 1984 sem Jóhannes Páll páfi samþykkti helgi Þorláks. Hann var jú óvenjulegur í því samhengi því sjálfur leið hann ekki píslarvættisdauða, þótt hann hafi átt í útstöðum við ýmsa volduga samtímamenn, einkum fyrrum æskuvin sinni Jón Loftsson.
Þorlákur fellur að því sem fyrr er sagt um mikilvægi þess að fólk fylgi köllun sinni. Íslenskt samfélag á 12. öld bjó yfir ríkum metnaði í menntamálum og ólst hann upp undir handleiðslu Eyjólfs prests sonar Sæmundar fróða að Odda á Rangárvöllum. Þegar svo fjöldi presta fórst í bruna miklum gripu kirkjuyfirvöld til þess ráðs að vígja pilta sem ella hefðu ekki þótt uppfylla skilyrði til vígslu. Þorlákur hlaut því prestsvígslu aðeins 18 ára að aldri en samkvæmt reglum áttu menn að vera orðnir 30 til að fá að gegna slíkum embættu, hálfþrítugir í neyðartilvikum.
Og aftur hljótum við að staldra við þá möguleika sem stóðu til boða á þessum tíma. Jú, Þorlákur komst í ágætar álnir í prestsþjónustu sinni og nýtti tækifærið og á seinni hluta sjötta áratugar 12. aldar hélt hann til náms í París og síðar Lincoln á Englandi. Þetta voru gróskutímar í vesturhluta Evrópu, friðsamir á þess tíma mælikvarða og í anda hinnar fornu menningar var allt kapp lagt á að mennta unga menn til forystu. Þá risu merkar byggingar og má í því sambandi nefna Frúarkirkjuna í París sem var þar í smíðum. Þar komst hann í kynni við umbótahreyfingar innan kirkjunnar. Hann lærði sennilega við klausturregluna sem kennd er við Ágústínus kirkjuföður, þá sömu og téður Lúther átti eftir að tilheyra á yngri árum. Hann kynntist hugmyndum heilags Bernharðs frá Clairvaux þess sem Sisteríanareglan byggði á.
Þorlákur var siðbótarmaður þótt hann hafi lifað hálfri þúsöld fyrir þau siðskipti sem við nefnum eftir Marteini Lúther. Markmið hans var að afmarka hið veraldlega og hið andlega, hann vildi ekki að höfðingjar gætu ráðskast með kirkjur og presta og sjálfur hafnaði hann því að ganga í hjónaband, var sennilega einn sá fyrsti kirkjunnar maður sem lifði einlífi hér á Íslandi. Það þýðir því ekki að reyna að rekja ættir sínar til Þorláks helga.
Köllun
Textar dagsins fjalla um þetta, að eiga sér köllun. Fiskimennirnir lögðu netunum og eftir það áttu þeir „menn að veiða“. Þeir hafa ekki verið komnir langt frá unglingsárum þegar þeir fengu þau boð, þá köllun. Ungur að árum helgaði Þorlákur sig köllun kirkjunnar. Hver er okkar köllun? hvað var það sem við á barnsaldri festum helst hugann við? Þau sem hafa helgað sig slíkum rannsóknum hvetja okkur til að spyrja okkur slíkra spurninga. Að baki henni ætti að liggja djúp hugsun því líf okkar er verðmætt, líkaminn er musteri sem við ættum að hlúa að og ákvarðanir okkar geta skipt sköpum og farsæld okkar og þeirra sem okkur er ætlað að hlúa að.