Sorgarhús

Sorgarhús

Þarna námum við félagarnir staðar fyrir utan hús þeirra hjóna. Ég gekk hægum skrefum upp að hurðinni. Það var margt sem fór í gegnum huga minn á þeirri stuttu en þungu leið, en eitt hafði ég ávallt að leiðarljósi, ég hafði ætíð tamið mér það að fara aldrei með fyrirframgefnar spurningar eða svör inn í þvílíkar aðstæður

Eitt er víst að þessum þætti starfsins verður aldrei hægt að venjast. Einar lögreglumaður kom til mín fölur á svip. Þessi stóri maður með áratuga reynslu rista í andlitið. Ég hafði aldrei séð hann svona áður, aldrei svona beygðan. Vinátta okkar og samstarf átti sér langa sögu, en nú var brátt komið að starfslokum hjá okkur vinunum. Hann hafði þjónað lögum og reglum alla tíð og ég kirkju og kristni, báðir vorum við heilt yfir litið farsælir þjónar, þótt ég segi sjálfur frá. Það sem við höfðum ekki reynt og séð saman. Já ,mörgu má vafalaust venjast, en ekki sorginni, hún nístir alltaf inn að beini og það er eins og Guð verði alveg hljóður. Við sátum við eldhúsborðið og þögðum.Tvö ungmenni, systkin, höfðu látist er bifreið skall á brúarstólpa. Þau voru ein í bílnum. Þór var rétt rúmlega tvítugur og Hrönn hafði átt fimmtán ára afmæli fyrir viku síðan. Ég hafði skírt þau bæði og fermt. Við Einar stóðum samtímis upp frá borði, ég gekk svolítið eins og dáleiddur inn í herbergi og fór í prestaskyrtuna mína, Einar beið álútur fram í andyri. Við gengum saman út í lögreglubílinn til fundar við fjölskyldu Þórs og Hrannar. Á leiðinni gaf Einar mér frekari upplýsingar um atburðinn og lýsti aðkomu á slysstað, sem var hreint skelfileg. Hann hafði sjaldan séð eins illa útleikin lík. Þau voru einu börn foreldranna, Reynir faðir þeirra var sjómaður og Sæunn móðir þeirra leikskólakennari. Hann var sem betur fer í landi, báturinn í slipp. Þarna námum við félagarnir staðar fyrir utan hús þeirra hjóna. Ég gekk hægum skrefum upp að hurðinni. Það var margt sem fór í gegnum huga minn á þeirri stuttu en þungu leið, en eitt hafði ég ávallt að leiðarljósi, ég hafði ætíð tamið mér það að fara aldrei með fyrirframgefnar spurningar eða svör inn í þvílíkar aðstæður og um leið og ég bankaði á hurð sorgarhúss hafði ég það fyrir sið að signa mig. Einar var reyndar farinn að taka upp á því líka og mér þótti vænt um það. Þarna stóðum við saman fyrir framan húsið og biðum átekta. Sæunn kom brosmild til dyra, en svipurinn breyttist snögglega þegar hún sá okkur tvo íklædda embættum okkar. Það dimmdi yfir. Fólk sem er ekki fætt í gær áttar sig strax á því að prestur og lögreglumaður hlið við hlið á dyrapalli um kvöld er arfaslæm samsetning. Hún spurði strax hvort eitthvað væri að. Við gengum inn með henni, Reynir var að koma út úr baðherberginu og ég bað þau um að fá sér sæti. Á löngum starfsferli finnst mér orðið skipta máli að fólk taki við vátíðindum sitjandi. Það er vart hægt að lýsa viðbrögðum ástvina við sviplegum fréttum eins og þeim er ég flutti þeim Sæunni og Reyni. Þó er líkaminn þannig útbúinn að hann framleiðir efni er veldur doða þegar fólk verður fyrir í alvarlegu áfalli. Þau brotnuðu algjörlega á staðnum, það var eins gott að þau sátu. Tárin spruttu fram og það var bara grátið og grátið og grátið. Ég sat og leið með þeim, Einar var frammi við tvístígandi. Það var ekkert hægt að segja og ekkert hægt að gera, það var bara grátið. Ég var þarna hjá þeim, það var framlag mitt í fyrstu ásamt því að orða rólega samúðaróskir mínar. Þau voru ekki ein, en samt strax svo óskaplega einmana í þessari hræðilegu sorg. Klukkustundir liðu, eða það held ég, á svona stundum veit maður ekkert hvað tímanum líður. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að inna þau eftir því hvernig síðustu samskiptin voru við Þór og Hrönn. Þau reyndust góð, systkinin voru létt í lund enda á leið til ömmu sinnar suður yfir heiðar, það var dekurhelgi framundan hjá ömmu og síðustu orð Þórs áður en hann lokaði útihurðinni voru þau að hann ætlaði að aðstoða ömmu sína við garðræktina, þau voru nefnilega bæði með græna fingur. Mér létti að heyra þessa síðustu kveðju barnanna, það svíður og nærir sektarkenndina ef hinsta kveðja er köld. Ég sat hjá þeim um stund áfram, þurrkaði mér um augun, móðirin grét með ekka og þau héldu utan um hvort annað. Ég hugsaði sem svo að nú væri margt og mikið framundan. Ég kom því í kring að þau fengju strax einhvern sem þau treystu vel og þótti gott að hafa hjá sér til að koma og vera. Við þurftum ekki að bíða lengi, kærir ættingjar og vinir voru komnir um hæl með samhug og veitingar. Við Einar kvöddum að sinni eftir að hann hafði greint þeim hjónum eins og hann gat frá slysinu og tildrögum þess og eftir að ég hafði haft stutta bæn við kertaljós. Við fundum sjálfir leiðina út og í útvarpinu inni í eldhúsi ómaði lágt „Til eru fræ“ í flutningi Hauks Morthens. Ég hef verið að dunda mér af og til við að setja saman smásögur á síðkvöldum þegar sjónvarpið ætlar alveg að drepa mann úr leiðindum. Þessi sem ég flutti hér heitir Sorgarhús. Smásögurnar úr Laufási eiga að virka sem kveikjur, fá fólk til að hugsa frekar og ræða og velta fyrir sér hinum ýmsustu aðstæðum manneskjunnar. Jafnvel höfum við einhvern tímann upplifað viðburði, sem sögur eins og þessi lýsa, eða eitthvað hliðstætt þeim ellegar heyrt af fólki, sem hefur verið sjálft í sorgarhúsinu.Ekkjan í Nain var þar, ein og yfirgefin. Einkasonur var látinn, eiginmaðurinn látinn líka og hún var ein og von hennar fjarri. Þarna voru ekki bara ástvinir fallnir frá heldur líka fyrirvinnur og félagslegt öryggi. Jesús færir henni vonina aftur í þeirri mynd að hann reisir einkasoninn við. Þá um leið fáum við að tengja við hinn stóra upprisuatburð síðar meir er Jesús sjálfur sem einkasonur Guðs rís upp til dýrðar og situr við hægri hönd Föðurins á himnum. Þannig virkar þessi frásögn frá borginni Nain sem kveikja, þar sem við tengjum við eitthvað annað sem beinist meira að okkur, þér og mér, því það var þannig að Jesús reis upp fyrir þig og mig þannig að við mættum eignast von um eilíft líf. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Já, um það snýst kristin trú, um það ætlum við að fjalla m.a. um í fermingarfræðslunni í vetur og öðru því margþætta starfi, sem kristin kirkja býður upp á. Frásögnin af ekkjunni í Nain, sem m.a. má berja augum á góðri altarismynd í Laufáskirkju, minnir okkur öll á að þegar við eigum hvað erfiðast í okkar lífi kemur Kristur og snertir og er hjá. Þegar okkur líður þannig að við erum ein og yfirgefin, því við verðum aldrei eins ein eins og í djúpri sorginni að þá kemur Kristur í margvíslegum myndum og býður okkur arminn og styrk sinn. Þeir félagar í sorgarhúsinu voru báðir fulltrúar almættisins hjá þeim hjónum Reyni og Sæunni enda lögðu þeir áherslu á það að þau yrði ekki skilin eftir ein þegar þeir færu og vinir og vandamenn voru komnir án tafar og það hef ég oft séð í starfi mínu þessi 12 ár sem ég hef þjónað sem prestur. Það á ekki að skilja fólk eftir eitt í sorginni, því nóg er nú að upplifa einmanaleika sorgarinnar sjálfrar. Þetta er eins og þegar við förum til fundar við frelsarann við lífslok, þá er vakað yfir okkur, það er alltaf einhver hjá okkur því hver manneskja gengur síðan ein inn í dauðann og við sleppum af henni höndum í þeirri trú að Kristur taki svo við með útbreiddan faðminn. Um daginn tók ég kvikmynd fram yfir það að smíða smásögu, en hún varð jafnvel síðan kveikja að sögu. Kvikmynd þessi heitir „Heaven is real“ og er ljúfsár og vel þess virði að horfa á því hún vekur þig til umhugsunar um eilífðina. Kvikmyndin er byggð á sönnum atburðum, sem gefur alltaf visst gildi líka og við verðum bara að trúa því að það sé þannig. En þarna er fjallað um prédikara og fjölskyldumann er verður fyrir því að botlanginn í fjögurra ára syni hans springur og drengurinn er á milli heims og helju. Læknar hjálpa honum og leiða til lífs og drengurinn fer að segja foreldrum sínum frá reynslu sinni að hann hafi heimsótt himnaríki, hitt fyrir Jesú og englana og meira að segja systur sína er lést í móðurkviði og hann vissi ekki af og afa sinn, sem hann hafði aldrei séð en þekkti á mynd, sem faðir hans sýndi honum.Þessi frásögn fór víða í litlu samfélagi og faðir hans þurfti að fara í gegnum hreinsunareld með trú sína og þótti heldur ónýtur prédikari í því ferli öllu. En síðan þegar hann ákveður að treysta drengnum sínum og frásögn hans þá prédikar hann frammi fyrir söfnuðinum og í ljósi þeirrar fögru myndar sem drengurinn hafði fært honum af himnríki þá minnir hann sig og söfnuðinn á það að það sé meginhlutverk okkar að boða það að við séum aldrei ein hér á jörðu.Umhugsunarverð kvikmynd, boðskapurinn góður og við megum vita að Kristur áréttar þetta sem prédikarinn og fjölskyldufaðirinn bendir á er hann stofnar til samfélags, samfélags heilagra þ.e. kirkjan, kærleiksheimilið þar sem við vitum af hvert öðru, og ekki hvað síst í sorgarhúsinu. Amen.