Gulir og bleikir dagar

Gulir og bleikir dagar

Hvert sjálfsvíg er falleinkunn fyrir samfélagið og Menningarnótt var hörð áminning um hvernig getur farið, þegar okkur tekst ekki að stýra unglingamenningu á farsælar brautir. Leiðin til baka er ekki flókin, en hún byggir á því að kirkja, skóli, íþrótta- og frístundastarf, yfirvöld og almenningur taki höndum saman til að skapa hér samfélag þar sem börn upplifa sig örugg og elskuð, og að þau tilheyri samfélaginu.
Mynd

Það eru litríkir dagar í samfélagi okkar þessa vikuna og það kemur því miður ekki til af góðu, en á þriðjudag klæddust vinnustaðir gulu, á alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna, og skólar í vikunni bleiku til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, sem var jarðsungin á föstudag frá fullri Hallgrímskirkju.

Sjálfsvíg og voðaverk af því tagi sem átti sér stað á Menningarnótt, geta ekki verið einkamál þeirra fjölskyldna sem það snertir með beinum hætti, heldur er samfélagsgerð okkar í húfi þegar kemur að því hvernig að við búum að börnum og ungmennum þessa lands.

Hvert sjálfsvíg er falleinkunn fyrir samfélagið og Menningarnótt var hörð áminning um hvernig getur farið, þegar okkur tekst ekki að stýra unglingamenningu á farsælar brautir. Vopnaburður getur ekki leitt til annars en voðaverka.

Kirkjan hefur í báðum tilvikum mikilvægu hlutverki að gegna, ekki bara gagnvart þeim sem þarf að styðja þegar andlát eiga sér stað, heldur jafnframt til að skapa vettvang þar sem börn þessa lands fá að heyra að þau séu elskuð og að þau tilheyra samfélagi sem styður þau og verndar.

Í því ljósi er það glæta í myrkrinu að verða vitni að sunnudagaskólum, barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi fara af stað, hér í Vídalínskirkju og í kirkjum landsins. Starfi sem oft fer ekki hátt, en er dýrmætur vettvangur fyrir fjölskyldur til að rækta tengsl við börnin sín og miðla þeim boðskap að þau séu elskuð og að þau tilheyri. Dýrmætara forvarnarstarf er ekki hægt að vinna, hvorki gegn sjálfsvígum né ofbeldismenningu.

Fyrst að hinu gula, en áminningu um gulan september er að finna á kirkjuturni Vídalínskirkju, sem nú skartar gulu ljósi, og Garðakirkju sem er böðuð gulu ljósi frá sólarlagi til sólarupprásar með ljóskösturum.

Ellen Calmon, framkvæmdastýra Píeta samtakanna, var í viðtali í Helgarblaði Morgunblaðsins fyrir viku síðan og ræddi þar um mikilvægi vitundarvakningar er varðar velferð barna. Hún segir sjálfsvíg vera algengustu dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi og að mælingar sýni að börnunum okkar líður verr nú en áður. Ellen segir vandann margþættan og telur upp atriði sem eiga þátt í versnandi líðan barna, eins og hraðann í samfélaginu og að foreldrar gefi börnum sínum ekki nægan tíma. Hún nefnir einnig skjánotkun og samfélagsmiðla. Það þurfi „að kenna börnum að finna ró innra með sér og að líða vel.“

Þetta eru ekki ný sannindi en samfélagið þarf að gefa rými fyrir slíka samveru og slíka ró. Fátækt er stór þáttur í þeirri breytu, en fátækt barna er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi, eins og Hjálparstofnun kirkjunnar hefur ítrekað bent á. Fjölskyldur þurfa rými til að geta ræktað samveru, tíma og fjárhagslegt öryggi. Þá er vandinn ekki síður menningarlegur, en þar nefnir Ellen Calmon hraðann í samfélaginu, sem því miður oft bitnar á börnum okkar.

Ég hef stundum líkt kirkjunni við hugræktarstöð, enda er allt sem við gerum ætlað að styrkja tengsl okkar og sjálfsmynd, með því að áminna hvert annað að við séum dýrmæt, elskuð og að við tilheyrum samfélagi. Sunnudagaskólinn er þar dýrmætur vettvangur til að rækta tengsl og koma inn fallegum boðskap til barnanna okkar og það er ekki víða í félagsstarfi, sem það er yfirlýst markmið að læra að „finna ró innra með sér og að líða vel,“ eins og Ellen Calmon kallar eftir.

Þá að hinu bleika en það er dýrmæt sú samstaða sem hefur myndast í samfélaginu, þar sem ungmenni og fullorðnir klæðast bleiku, uppáhaldslit þeirrar fallegu stúlku sem jarðsungin var á föstudag. Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, flutti í upphafi útfararinnar huggunarorð og las kveðju til aðstandenda frá Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta, með orðunum „Sorg ykkar, er sorg okkar allra“. Það er sannarlega rétt, og þjóðin hefur sameinast í sorg yfir þessum harmleik, en samhliða sorg yfir því sem ekki verður breytt, þurfum við að kalla hvert annað og yfirvöld til ábyrgðar, gagnvart samfélagsgerð sem fæðir af sér þá ómenningu meðal unglinga að þau beri vopn, sér til varnar.

Það er hvorki óhjákvæmileg þróun né eðlileg og hún kallar á samfélagslega endurskoðun, sem þarf að ná lengra en það að gera hnífa upptæka eða sporna gegn hópamyndun, heldur þarf að uppræta þann veruleika sem leiðir til slíks óöryggis. Ungmenni sem upplifir sig öruggt og elskað, ber ekki vopn, og barn sem nýtur stuðnings til þess að leysa viðfangsefni sín af ást og umhyggju, beitir ekki ofbeldi sem lausn.

Í síðustu viku var hér upplýsingafundur, með fermingarungmennum og fjölskyldum þeirra, þar sem farið var yfir fermingarstarfið í vetur og þau markmið sem fermingarfræðsla hefur. Námsskráin samanstendur af félagsfærni og Biblíufræðslu, þar sem hið fyrrnefnda miðlar þeim boðskap að ungmennin séu elskuð og að fermingin hafi það höfuðmarkmið að miðla því, og Biblíufræðsla er árangursrík leið til að kenna börnum að takast á við lífið.

Erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á gildi þess að kenna börnum og ungmennum Biblíusögur. Evrópskum og bandarískum rannsóknum ber saman um að þekking á Biblíusögum auki siðferðisvitund og félagsfærni, bæti andlega vellíðan, sjálfsmynd og seiglu, ýti undir samkennd og auki lesskilning, auk þess að miðla trúarlegum og andlegum gildum til ungmenna. Þetta þykir eldri kynslóðum á Íslandi, sem upplifðu það að læra Biblíusögur í skólakerfinu sjálfsagt, og yngri kynslóðum, sem enga slíka fræðslu hafa fengið, óhugsandi.

En hvað er það við Biblíusögur sem hafa þessi áhrif á lesandann? Með augum hins trúaða er svarið augljóst, það er Guð sem miðlar tengslum í gegnum þessar sögur. En áhrifin eru ekki síður bókmenntalegs eðlis, þar sem sögurnar eru táknsögur, sem eru margræðar og mæta lesandanum með ólíkum hætti á ólíkum aldri.

Guðspjall dagsins er sannarlega dæmi um slíkt. Bókmenntaperlan Jóhannesarguðspjall er einstakt í uppbyggingu sinni og sagan af upprisu Lasarusar er hápunktur þess, staðsett í ellefta kafla af tuttugu og einum – nákvæmlega í miðju verksins.

Í hinum guðspjöllunum fremur Jesús krafta-verk, lækningar og undur sem lýst er með því orði á grísku. Dynamis þýðir kraftur og verkin bera mátt um kraft Guðs. Í Jóhannesarguðspalli eru engin kraftaverk, dynamai, heldur tákn, semeia, sem eru sjö talsins og vísa öll með einum eða öðrum hætti til áætlunarverks Guðs og þjónustu kirkjunnar.

Fyrsta táknið er brúðkaupið í Kana, í öðrum kafla, þegar Jesús breytti vatni í vín, en vín er jafnframt táknmynd altarisgöngunnar fyrir blóð Krists. Þá læknar hann, fæðir, gengur á vatni og veitir blindum sýn, og í hvert sinn segir guðspjallamaðurinn hvað táknið opinberar um son Guðs.

Sjöunda og síðasta táknið, upprisa Lasarusar, fullkomnar táknheiminn sem hefur það að markmiði að boða uppristu Krists, hverjum þeim sem trúir til hjálpræðis. Litlu Biblíuna er einmitt að finna í Jóhannesarguðspjalli í kjölfar fyrsta táknsins,

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Sagan af upprisu Lasarusar er samt ekki einungis táknsaga, heldur er hún jafnframt saga af nánd. Systurnar María og Marta í Betaníu eru einnig persónur í Lúkasarguðspjalli, þar sem Jesús skammar Mörtu fyrir að „mæðast í mörgu“, en í þeim skömmum er að finna nánd og umhyggju. Við stríðum og tölum hreint út við þau sem við elskum.


Í aðdraganda guðspjallsins segir að Jesús hafi fengið boð um að Lasarus hafi verið alvarlega veikur, og að hann væri bróðir Mörtu og Maríu, „En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur. Nú gerðu systurnar Jesú orðsendingu: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“

Það er mikil nánd í þessum texta, hér er ekki einungis verið að lýsa krafti Guðs, heldur ástarsambandi Jesú við þessa fjölskyldu. Jesús svarar „Þessi sótt er ekki banvæn heldur Guði til dýrðar til þess að Guðs sonur vegsamist hennar vegna.“ Þannig er í stórsögu Jóhannesarguðspjalls verið að leggja fram tákn sem eiga að sannfæra lesendur um, að það sé ekkert að óttast.


Þegar Jesús síðan leggur af stað til Betaníu deyr Lasarus og systur hans koma til Jesú í sorg ein af annarri. Þegar María fær boð um að koma til hans eru skilaboðin, „Meistarinn er hér og vill finna þig.“ Þau orð hanga í matsalnum í Vatnaskógi, ‏‏‏‏þangað sem leið okkar liggur í vetur með fermingarungmenni og barnastarf, og eru erindi okkar þegar við komum saman sem kirkja. Þú ert hér í dag, vegna þess að „Meistarinn er hér og vill finna þig.“

Upprisa Lasarusar er stórsaga, táknmynd fyrir upprisu Jesú og fyrir boðskap guðspjallsins, sem er að „hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. En í stórsögunni er að finna tengsl, nánd og elsku:

Þegar Jesús sá hana gráta og þau gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður  og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“ Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“

Litríkir dagar skipta máli, gulir dagar til að minna á forvarnir gegn sjálfsvígum, sem herja á unga fólkið okkar með þeim hætti að sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi, og bleikar fylkingar, til minningar um unga konu í blóma lífsins er varð fórnarlamb vopnavæðingar meðal ungmenna á Íslandi.

Leiðin til baka er ekki flókin, en hún byggir á því að kirkja, skóli, íþrótta- og frístundastarf, yfirvöld og almenningur taki höndum saman til að skapa hér samfélag þar sem börn upplifa sig, örugg og elskuð, og að þau tilheyri samfélaginu.

Þar ber ég ábyrgð, þar berð þú ábyrgð, og það besta sem við getum gert saman er að mæta hingað í þessa mannræktarstöð, fjölskyldur og fermingarungmenni, foreldrar, ömmur og afar og sunnudagaskólabörn, allir aldurs- og heilsufarshópar saman, að rækta það fyrirbæri sem er samfélag.

Meistarinn er hér og vill finna þig.“

Jóhannesarguðsjall 11.32-45:
María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Þegar Jesús sá hana gráta og þau gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“
Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“ Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. Jesús segir: „Takið steininn frá!“  Marta, systir hins dána, segir við hann:  „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“
Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“
Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.