Vald og ábyrgð

Vald og ábyrgð

Við erum ekki tilbúin til að lúta valdi ef við treystum ekki valdhöfum. Traustið er því forsendan fyrir því að við viljum lúta valdi. Vald Jesú Krists, sem byggist á kærleika og umhyggju er vald sem við getum treyst.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. október 2011
Flokkar

Við erum saman komin hér í Dómkirkjunni í dag á setningardegi Alþingis Íslendinga. Í húsi, sem helgað hefur verið þjónustunni við Guð. Við höfum gengið frá Alþingishúsinu, tákni hins veraldlega valds, í húsið, sem er tákn hins andlega valds. Húsin, sem eru tákn þeirra stofnana þjóðfélagsins sem mynda grunnstoðir þess. Og þegar við göngum í Guðs hús inn þá erum við manneskjur, sem höfum ýmis verkefni, höfum tekið að okkur skyldur og ábyrgð. En hér erum við fyrst og fremst við sjálf og fáum að heya orð Guðs og taka á móti því þar sem við erum stödd sem mannskeskjur á lífsins leið. Og héðan förum við með blessun Guðs út í heiminn.

Guðsþjónustunni lýkur ekki þegar út úr kirkjunni er komið. Hún heldur áfram í þjónustu okkar við náungann, því við þjónum Guði þegar við þjónum mönnum. Orð Jesú minna okkur á það er hann segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér”. Og hann sagði líka að hann hefði allt vald á himni og á jörðu og sendi síðan lærisveina sína út í heiminn að skíra og kenna. Og alla tíð síðan hefur orð hans borist um veröldina og verið flutt, m.a. í kirkjum eins og hér í dag.

Jesús sagði sögur og af honum eru sagðar sögur í guðspjöllunum. Þær eru allar sagðar til að við getum af þeim lært. Því þó menn hafi búið við aðrar veraldlegar aðstæður fyrir tvö þúsund árum en í dag er manneðlið það sama, sem og tilfinningar og þrár. Þess vegna getum við sett okkur í spor þeirra sem sögurnar segja frá og jafnvel valið okkur persónur í sögunum til að samsama okkur við.

Trúin færir okkur ekki tryggingu fyrir því að við komumst hjá erfiðleikum í lífinu en hún hjálpar okkur að finna færa leið eins og sálmurinn sem við syngjum hér á eftir minnir okkur á.

Biblíusagan sem við heyrðum í dag er úr guðspjalli Jóhannesar. Þar er degin upp mynd af samskiptum Jesú við lamaðan mann og samtal þeirra rakið. Sagan segir frá kraftaverki þegar Jesús gaf honum máttinn til að ganga út í heiminn. Hún er kennslustund í samtalstækni og sálgæslu. Það er Jesús sem hefur frumkvæðið að samtali og samskiptum þeirra tveggja og leggur ríka áherslu á ábyrgð mannsins gagnvart eigin lífi þegar hann spyr hann spurningarinnar: „Viltu veða heill?“ Hvað vilt þú veiki maður? Viltu fá kraft til að stjórna eigin lífi? Viltu fá kraft til að taka þátt í lífinu?

Það er hverjum manni hollt að spyrja sjálfan sig um eigin vilja. Oft á tíðum vitum við ekki nákvæmlega hvað við viljum. Og nú þegar við sem þjóð göngum í gegnum endurmat eftir hrun bankanna og kreppu fer víða fram samtal um það hvað við viljum og hvernig við viljum hafa hlutina. Fólk hefur áttað sig á því að það getur ekki látið öðrum eftir ábyrgðina og fríað sjálft sig frá henni og gangi mála yfirleitt. Og nú á tímum tæknivæðingar og fleiri möguleika í samskiptum er auðveldara að taka þátt í samtalinu þó eflaust finnist mörgum þeir vera útundan sökum áhugaleysis á tæknisviðinu. Breytingin í samskiptum er í raun bylting.

Kirkjan eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hafa reynt að bregðast við breyttum tímum og kemur boðskap sínum á framfæri á flestum þeim miðlum sem nútíminn hefur upp á að bjóða. En hún hefur líka eins og aðrar stofnanir og þegnar þessa lands heyrt þá spurningu sem Jesús ber fram í dag: „Viltu verða heill?“ Og í raun þurfum við alltaf að hafa spurninguna í huga því daglega verðum við vör við illsku þessa heims og bresti mannlegrar tilveru. Hið illa afl veður uppi og birtist okkur í mörgum myndum en mest verðum við vör við það þegar hrammur þess snertir okkur persónulega eða þegar við sjáum afleiðingarnar í næsta nágrenni okkar. Við megum ekki láta illskuna stjórna lífi okkar heldur eigum við að vinna gegn henni og ekki láta ótta stjórna gjörðum okkar og viðbrögðum þegar illskan er annars vegar. Það er ekki að ástæðulausu sem við erum oft minnt á það í hinni helgu bók, að óttast eigi.

En við þurfum líka að vera opin fyrir því að greina aðstæður svo hægt sé að bregðast við þeim. Jesús, fyrirmynd okkar og frelsari, var sérfræðingur í því. Það þurfti ekki að koma til hans og benda honum á. Hann var fyrri til eins og í sögunni um lamaða manninn. Jesús sá hann og þekkti aðstæður hans og hafði engan formála að samskiptum sínum við hann heldur spurði hreint og beint: „Viltu verða heill?“ Hann sem hafði allt vald á himni og á jörðu getur kannski spurt svona, gætum við sagt. En minna má á að í krafti þess valds sendi hann okkur út í heiminn til að vinna sín verk. Við höfum ekki valdið í okkur. Við fæðumst ekki með þetta vald. Við erum send í krafti þess út í heiminn til að vinna heiminum gagn. Og valdi fylgir ábyrgð. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um það. Það er hægt að misnota valdið eins og allt annað í heimi hér.

Um misnotkun valds fáum við oft að heyra t.d. í fréttum af uppreisn íbúa nokkurra arabalanda sem vilja ekki lengur vera undir valdi einræðisherra landa sinna.

Við erum ekki tilbúin til að lúta valdi ef við treystum ekki valdhöfum. Traustið er því forsendan fyrir því að við viljum lúta valdi. Vald Jesú Krists, sem byggist á kærleika og umhyggju er vald sem við getum treyst. Barnið treystir foreldrum sínum af því það finnur kærleika og umhyggju streyma frá þeim. Þó við verðum fullorðin breytist það ekki að við treystum þeim sem sýna okkur umhyggju og kærleika. Þess vegna þurfa þau öll sem vilja vera traustsins verð að sýna umhyggju. Þetta á líka við ráðamenn, sem með valdið fara. Ráðamenn verða að sýna það að valdið sé notað í þjónustu við þegnana og af umhyggju við þá.

Í krafti valds síns gekk Jesús til lamaða mannsins og í krafti valds síns spurði hann hann spurningar. Jesús ætlaði ekki að ráða yfir honum, heldur virða vilja hans. Hann vildi minna manninn á að hann yrði sjálfur að vita vilja sinn og bera ábyrgð á honum. Þetta er góð lexía fyrir okkur hvert og eitt og samfélagið allt. Við verðum að vita hvað við viljum og vita hvert við ætlum að stefna. Það er alveg ljóst að samfélag okkar hefur beðið hnekki. Það hafa dunið yfir áföll. Sum áföllin hafa verið frá náttúrunnar hendi, svo sem eins og eldgos og jarðskjálftar. En sum hafa verið vegna okkar sjálfra. Við mannfólkið höfum farið óvarlega og misst sjónar á markmiði okkar, sem er að vinna gegn hinu illa og bæta heiminn. Og það er erfitt að horfast í augu við það. Og á stundum virðist sem við viljum svara spurningu Jesú neitandi er hann spyr: „viltu verða heill“.

Það er alþekkt að við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum ef við gerum breytingar. Og það er líka alþekkt að auðveldara er að sitja heima í eldhúsi og ræða landsins gagn og nauðsynjar og eiga svör við öllu ef við þurfum ekki að bera ábyrgðina. Þess vegna er það til mikilla bóta að fjölgað hefur þeim möguleikum þar sem fólk kemur saman á opinberum vettvangi og skiptist á skoðunum og kemur þeim frá sér. Og það er gott að búa í landi þar sem skoðanafrelsi ríkir og tjáningarfrelsi. En jafnslæmt er ef fólk þorir ekki að tjá skoðanir sínar af ótta við að vera hengt fyrir það. Þá er valdi misbeitt hvort sem í hlut eiga einstaklingar, stofnanir eða lönd.

En spurningin lifir enn: „Viltu verða heill?“ Og þá gæti fylgt í kjölfarið önnur spurning: Hvernig fer ég að því? Svarið liggur í sögunni í guðspjalli Jóhannesar. Það felst í því að í fyrsta lagi að vilja það, í öðru lagi að þiggja hjálp Jesú, sem hefur máttinn til að reisa upp þau er fallið hafa og í þriðja lagi að „syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra“ svo vitnað sé beint í orð Jesú er hann hafði hitt hinn endurreista mann í helgidóminum.

En hvað þýðir það? Og hvers vegna er Jesús að blanda syndinni inn í þessa umræðu. Jú, hann er að segja það að maðurinn geti viðhaldið heilbrigði sínu með því að treysta sér og trúa. Með því að þiggja valdið yfir eigin lífi af hans valdi og með því að fela honum líf sitt og lán og þakka fyrir það.

Og þetta býðst okkur einnig sem einstaklingar og sem þjóð. Við getum ekki endurheimt góðu árin nema með því að rétta okkur við og láta af hinni andlegu kreppu sem við erum í sem þjóð. Jesús býður okkur samfylgd sína á þeim vettvangi sem og öðrum þeim er lífið færir okkur. Við þurfum ekki að bíða hræringar vatns né nokkurs annars sýnilegs heldur aðeins að taka í útrétta hönd frelsarans og svara játandi er hann spyr: „Viltu verða heill?“

Ykkar sem á Alþingi sitjið bíða mörg verkefni. Þið þurfið að taka mikilvægar ákvarðanir til hagsbóta fyrir landslýð allan. Guð blessi ykkur og leiði í mikilvægum störfum, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.