Nýársóskin 2011

Nýársóskin 2011

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna! Mér finnst alltaf svolítið erfitt að átta mig á því hvenær er rétti tíminn til þess að hætta að óska öðrum gleðilegs árs. Hvenær verður árið gamalt? Bandarískir sálfræðingar við Michigan háskóla hafa gefið það út að á morgun 17. Janúar muni gleðin yfir nýja árinu að hverfa.
fullname - andlitsmynd Jón Ómar Gunnarsson
16. janúar 2011
Flokkar

Predikunartexti: Rómverjabréfið kafli 12

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna! Mér finnst alltaf svolítið erfitt að átta mig á því hvenær er rétti tíminn til þess að hætta að óska öðrum gleðilegs árs. Hvenær verður árið gamalt? Bandarískir sálfræðingar við Michigan háskóla hafa gefið það út að á morgun 17. janúar muni gleðin yfir nýja árinu að hverfa. En þeir hafa komist að því að 17. janúar verði versti dagur ársins 2011 fyrir sálræna og andlega heilsu fólks. Þá munu flestir finna fyrir depurð og vonleysi. Hvers vegna? Jú því þá er það langt liðið frá jólum að gleðin yfir þeim er horfin, gjalddagar jólareikninganna nálgast og ekki bætir grámyglulegt veðurfar úr skák. Þar að auki munu víst flestir gefast upp á áramótaheitum sínum á morgun. En bræður og systur óttist ekki, því ekkert getur rænt okkur gleðinni yfir því að þekkja Jesú Krist! Gleði jólanna rennur aldrei sitt skeið á enda.

Áramótin eru einn af þessum stóru og mikilvægu tímamótatburðum lífsins, því á áramótum gefst okkur tækifæri til þess að líta yfir farin veg, læra af því sem þegar hefur orðið og að horfa til framtíðar full vonar og tilhlökkunar. Við sjáum þetta á áramótaræðum þjóðhöfðingja, áramótapistlum stjórnmálaleiðtoga og á hinum ýmsu fésbókarstatusum þar sem árið er krufið til mergjar. Það er eins og áramótin veiti okkur nýtt upphaf. Þau eru boðberi nýrra tækifæra og hvetja okkur til þess að láta hið nýja ár verða betra en það gamla. Í nýja árinu felst nefnilega von – sá möguleiki að eitthvað stórkostlegt gerist. En hvers óskar þú þér á þessu nýja ári, hverjir eru draumar þínir fyrir 2011? Þáttastjórnandi í útvarpi spurði hóp af sex ára gömlum strákum út í óskir þeirra fyrir hið nýja ár. Svörin létu ekki á sér standa og einn drengjanna var enn upptekinn af óskalistum jólanna og svarði eftirminnilega: „Nýja Playstation 3 tölvu og 2 tölvuleiki“ Annar átti sér öllu stærri ósk fyrir árið 2011: „Ég ætla að verða ofurhetja.“ Sá þriðji óskaði þess að á hinu nýja ári yrði „stóri bróðir góður við mig.“ Þetta voru óskir drengjanna.

Það er hefð hjá mörgum að strengja áramótaheit. Áramótaheitin eru af margvíslegum toga og mörg þau vinsælustu snúast um heilbrigðara líferni, að verja meiri tíma með fjölskyldunni, taka nám sitt alvarlega, ná meiri árangri í vinnunni og eitt það allra vinsælasta er víst að setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Þó að áramótaheitin séu ólík efnislega þá eiga þau það sameiginlegt að krefjast þess af okkur að við temjum okkur nýtt hugarfar. Við þurfum að breyta hugarfari okkar ef við ætlum að taka mataræðið í gegn og það kallar á nýtt verðmætamat að setja fjölskylduna ofar ferlinum svo fáein dæmi séu nefnd.

Textinn sem við fáum að íhuga í kvöld er úr 12. kafla Rómverjabréfs Páls postula og í honum talar Páll einmitt um nýtt hugarfar. Það er hið nýja hugarfar sem lærisveinar Jesú temja sér. Í upphafi 12. kaflans skrifar Pall: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Róm 12.2) Og annars staðar segir Páll: „Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.“ (Fil. 2.5). Bara ef þessi orð mættu vera bæn okkar á nýju ári eða miklu frekar á hverju ári! 12. kafli Rómverjabréfsins fjallar um eftirfylgd, hann er hvatning Páls til kirkjunnar í Róm til þess að fylgja Jesú af öllu hjarta þannig að kirkjan mætti miðla hinu góða, fagra og fullkomna inn í þennan heim.

Páll talar um náðargáfur og kirkjuna í þessum kafla. Hann talar um kirkjuna sem líkama. Líkaminn hefur marga limi, en mismunandi hlutverk. Við búum svo vel að Kristur hefur kallað svo marga til fylgdar við sig. Hver og einn sem svarar því kalli kemur með þá hæfileika sem Guð hefur gefið. Það er grundvallaratriði að hæfileikarnir eða náðargáfurnar eru gefnar af Guði, þær eru til uppbyggingar Guðsríkisins og þær eru fjölbreyttar. Lærisveinn Jesú reynir í hvívetna að skilja vilja Guðs í lífi sínu og spyrja sig: „Hvað vill Guð með mig? Hvernig get ég þjónað honum?“ Lærisveinn Jesú leitast við að nota náðargáfu sína til góðs. Því þess vegna eru hefur hún verið gefin og þess vegna erum við sköpuð. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka.

Ég ætla ekki að fara í ítarlega greiningu á þeim náðargáfum sem Páll telur upp í þessum versum Rómverjabréfsins. Mig langar hins vegar að skilja það eftir hjá ykkur að þetta er ekki tæmandi listi yfir náðargáfur. Ég vil líka hvetja ykkur til þess að leita að náðargáfu ykkar og rækta hana. Ef þú þekkir hana nú þegar þá hvet ég þig til þess að rækta hann og nýta Guði til dýrðar!

„Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg við hvert annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni með gleði. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.“

Þetta er hvatning Páls til safnaðarins í Róm fyrir tæpum 2000 árum síðan. Orð sem svo sannarlega eiga erindi við okkur lærisveina Krists í dag árið 2011. Hér sjáum við hvernig umfjöllun Páls um eftirfylgd við Jesú leiðir til elskunnar. Elskan skal einkenna í hið nýja hugarfar sem Kristur gefur.

Hér er mikilvægt að staldra við og íhuga lærisveina hlutverkið. Það er grundvallaratriði kristinnar trúar að trúin snýst ekki um einhvern siðaboðskap hún snýst ekki um að það fylgja einhverjum reglum og „vera góður.“ Það geta allir fylgt reglum og verið góðir ég hvort sem að þeir séu trúleysingjar, hindúar eða múslimar. Ég hef kynnst trúlausu fólki sem er miklu betra en ég. Boðorðin 10, tvöfalda kærleiksboðorðið, gullna reglan og fyrirmynd Jesú skipta auðvitað ótrúlega miklu máli en þau verða aldrei grundvöllur hjálpræðis okkar. Kristin trú snýst um persónulegt samband þess trúaða við Jesú. Hún snýst um þessa grundvallarspurningu „Hver ert þú Jesús?“ Ekki hvernig var Jesús? Hvert fór hann og hvað gerði hann? „Heldur hver ert þú Jesús?“ Okkur langar miklu meir að þekkja hann persónulega en að vita einhverja hluti um hann. Mig langar að þekkja þig Jesú! Það er bæn trúarinnar það er nýársóskin. Mig langar nefnilega ekki bara að lifa eftir fyrirmynd þinni. Mig langar, ég þrái að lifa í þér. Ég í þér og þú í mér! Þannig vil ég lifa, þannig vil ég vera! Því þá er elskan án hræsni og þá mun allt annað veitast að auki.

Okkur langar að þekkja þig betur Jesús! Það er áramótaheitið 2011! Áramótaheiti sem enginn ætti að gefast upp á!

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi sé með ykkur öllum. Amen