„Það er kveikt á sjónvarpinu. Má ekki bjóða þér upp að horfa?“ spurði biskupsfrúin í Visby á Gotlandi kvöld eitt í júní fyrir tveimur árum. Ég var stödd þar á norrænum biskupafundi og leikur Íslands og Englands stóð yfir og var sýndur í sænska sjónvarpinu. Ég afþakkaði hið góða boð því ég hafði ekki ró í mér til að fylgjast með leiknum. Svo unnu Íslendingar leikinn eins og kunnugt er og allir biskupar norðurlandanna klöppuðu og hrópuðu húið sem þeir voru búnir að læra. Nú erum við allir Íslendingar sögðu þeir. Ég horfði svo á leikinn þegar ég kom heim og dáðist af þessum snillingum og hugsaði til foreldra þeirra og fjölskyldu sem höfðu stutt þá frá því þeir voru litlir drengir. Hjálpað þeim að safna dósum og selja harðfisk og lakkrís, lagt snemma af stað yfir heiðar, keyrt firði út og inn, skutlað á flugvöllinn, sofið á hörðum gólfum skóla og félagsheimila, allt til að hjálpa þeim að gera það sem þeim fannst skemmtilegast, að spila fótbolta og efla þá félagslega til að vera færari um að takast á við áskoranir lífsins og eignast vini fyrir lífstíð.
Og nú eru þeir aftur á faraldsfæti strákarnir okkar og er förinni heitið alla leið til Rússlands. Þjóðin fylgist stolt með og samhugurinn sem í liði þeirra býr yfirfærist á þjóðina alla og gleðin brýst út þegar vel gengur. Þjóðin hefur margsinnis sýnt að hún kann að standa saman á stundum gleði og sorgar. Þá erum við sem einn maður og finnum til samlíðunar með samferðafólki okkar.
Ég var á þjóðhátíðarsamkomu í Mountain í norður-Dakóta fylki fyrir nokkrum árum. Þar var samankomið fólk af íslenskum ættum og að vanda var þjóðsöngurinn sunginn, Ó, Guð vors lands, ó lands vors Guð. Mér varð starsýnt á gamla konu á tíræðisaldri sem var með íslenskt blóð í æðum þó aldrei hafi hún búið á Íslandi. Hún söng með skæru sópranröddinni sinni þjóðsönginn af mikilli innlifun og hafði lagt hönd sína á brjóstið. Úr andliti hennar skein hlýja og gleði, stolt og virðing. Önnur kona sagði mér að hún væri hundrað prósent Íslendingur þó hún væri fædd og uppalin þar vestur frá.
Við eigum fallegt og gjöfult land og það sem mikils er vert, við erum sjálfstæð þjóð í friðsömu landi. Þó við séum fámenn á mælikvarða heimsins erum við nógu öflug til að eiga eitt besta fótboltalið í heimi. Þó við séum fámenn þjóð eigum við nóg til að gefa. Við getum verið þakklát fyrir að fá að búa hér og stolt af því að vera Íslendingur. Þau sem fyrri voru uppi lögðu hart að sér þegar þau unnu að því að á Íslandi væri fullvalda ríki og síðar lýðveldi.
“Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur” segir Páll postuli í fyrra bréfi sínu til Korintumanna.”
Ég óska strákunum okkar góðs gengis í Rússlandi og landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegrar hátíðar 17. júní.
Greinin birtist upprunalega í Morgunblaðinu þann 16. júní 2018.