Við erum bastarðar

Við erum bastarðar

Við hér á Íslandi erum upp til hópa bastarðar - svona er talað úr kirkju vestanhafs, vafalítið ekki ósvipaðri þeirri sem við erum stödd í hér og nú. Og mögulega erum við það öll.

Einu sinni voru konur frá Suður-Afríku í heimsókn á heimili foreldra minna. Þær voru virkar í starfi kirkjunnar og börðust af alefli gegn aðskilnaðarstefnunni sem þá var við lýði í heimalandi þeirra. Þetta var kvennasamkvæmi og frúin mín sem þá var á lokaári í lagadeild lét sig ekki vanta. Þessar konur voru víst alveg magnaðar, bjuggu að mikilli reynslu og ósviknum eldmóð. Þær miðluðu sögum sínum og innblæstri til íslenskra kynsystra sinna sem þarna voru saman komnar.

Ólík sjónarmið

Svo var það að einni þeirra varð starsýnt á ljósmynd sem var á áberandi stað í stofunni og spurði hvert væri eiginlega tilefni myndarinnar. Konan mín svaraði glöð í bragði að þetta væri brúðarmyndin hennar. ,,Já," spurði hún jafn undrandi sem fyrr, ,,og hvaða barn er þetta þá á myndinni?"

Þetta var vitaskuld barnið okkar, frumburðurinn. Hjónavígslan var ekki sett á dagatalið fyrr en daman var orðin vetrargömul og við búin að kynnast hvort öðru í gegnum allar þær áskoranir sem fylgja því þegar par breytist í fjölskyldu. Við gengum í það heilaga þegar við þóttumst viss um að við hefðum staðist það próf, klárað okkur í gegnum tífaldar annir og kunnum áfram að meta hvort annað. Og enginn gerði eina einustu athugasemd við þessa ákvörðun, svo sjálfsögð sem hún þótti nú vera. Það var ekki fyrr en þessir ferðalangar komu í heimsókn sem einhver hneykslaðist.

Þær yrtu ekki framar á konuna mína!

Og nú varð uppi fótur og fit Vestanhafs þegar bandarískur predikari lærði það um íslenskt samfélag að háttsemi sem hér er lýst, þætti ofurvenjuleg hérlendis. Við erum víst ,,bastarðar” upp til hópa ef marka má Stephen Anderson prest í baptistakirkju í Tempe í Arizona. Reyndar var tekið fram í einhverri fréttinni, að Anderson þessi þyki ekki merkilegur pappír vestanhafs og hafi ítrekað farið hörðum orðum um samkynhneigða og gyðinga. Félagskapurinn er því hreint ekki slæmur sem við Frónbúar erum komnir í og tilefnið er vitaskuld hátt hlutfall barna hérlendis sem fæðast utan hjónabands.

Mér er ekki að skapi að auka á sjálfskipaða niðurlægingu þessa manns. Upp í hugann vakna gagnlegri spurningar eins og það hvernig fólk með sömu lífsskoðun getur haft jafn ólík viðhorf til náungans og samfélagsins eins og raun ber vitni. Nú fer ekki á milli mála að Anderson þessi dregur fram biblíutilvitnanir þegar hann rökstyður mál sitt. Þær koma flestar úr Gamla testamentinu og byggja á ósveigjanlegum bókstaf lögmálsins þar sem engu má hnika til ef ekki á að fara illa.

Íslenskt frjálsyndi

Á sama tíma birtist okkur íslenskt samfélag sem er rækilega mótað af kristinni trú. Já, enginn ætti að draga dul á þau miklu áhrif sem kirkjan hefur haft á Íslandi. Sú kirkja sem mótað hefur menningu og mannlíf hérlendis er frjálslynd kirkja, opin fyrir nýrri hugsun, víðsýn þegar kemur að einhverju því sem kann að vekja ugg annarra.

Þetta er kirkja sem ekki dró lappirnar þegar vart varð annarra strauma í hugmyndaheimi á Vesturlöndum. Hér varð ekki andstaða við upplýsinguna þegar hún knúði dyra. Þvert á móti, þá voru margir prestar boðberar þeirra hugmynda, bæði hérlendis og í nágrannalöndum. Með sama hætti fór þjóðfrelsisbaráttan fram að einhverju leyti í tengslum við kirkjuna. Þegar Fjölnismenn voru inntir eftir því á seinni hluta 19. aldar hvað væri nú mikilvægast fyrir aukið sjálfstæði Íslendinga og nýsköpun, svöruðu þeir því til að það væri að fá íslenskan prestaskóla. Þar yrði til menntun, uppbygging og framsýni sem síðan myndi dreifast út um sveitir landsins.

Hér varð ekki allt vitlaust þegar konur tóku prestvígslu og löngu áður en hjónaband samkynhneigðra varð viðurkennt höfðu prestar og guðfræðingar átt í samtali við fulltrúa Samtakanna 78 og undirbúið það sem koma skyldi. Sú bylting hefði orðið óhugsandi ef ekki hefði verið fyrir baráttufólk innan kirkjunnar sem ruddi þeim hugmyndum leið. Og jafnvel þeir hópar sem ömuðust við því starfi viðurkenndu rétt hinna til að berjast fyrir sannfæringu sinni og létu undan um síðir.

Hvað er að vera kristinn?

Skilgreiningar geta þvælst fyrir okkur. Það er ekki auðsótt mál að finna þá réttu þegar svo ólíkt þenkjandi hópar eiga í hlut eins og raun beri vitni. Og Jesús sjálfur gerir okkur ekki lífið auðveldara þegar hann ítrekað beindi spjótum sínum að hinum frómu og trúuðu í samfélagi sínu. Hér eru markalínur óskýrar, hver er sá sem raunverulega er í náðinni. Jafnvel lærisveinarnir sjálfir birtast okkur stundum sem breyskir og fákunnandi menn, fullir fordóma sem þeir þurfa sjálfir að takast á við þegar meistari þeirra braut þau viðmið sem þeir höfðu alist upp við og áttu rætur að rekja til sömu bókar og títtnefndur Anderson vísaði í.

Hvað er að vera kristinn? Er það að vera á móti jaðarsettum hópum? Er það að benda áskandi á náungann og leita uppi allt það versta í fari hans? Hvernig getur svo ólíkur þankagangur gengið undir einu og sama heitinu?

Í Biblíunni er þessi greinarmunur gerður á þeim sem trúa og hinum sem segjast trúa en hafa ekki það sem þar er kallað trú:

Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.

Hvað segir það okkur um þau sem ekki geta séð fegurðina í öllum sínum tilbrigðum því þau sjá ofsjónum yfir því sem þeim þykir fara miður í náunga sínum? ,,Dæmið ekki svo að þér verið sjálfir dæmdir” segir svo Kristur og bætir við, ,,Með þeim mæli sem þér mælið með, svo mun ykkur útmælt verða.” Með öðrum orðum - dómharka sú sem við sýnum í garð annarra beinist að endingu að okkur. Dómar okkar segja jú mikið um okkur sjálf. Einhver benti á það, að þótt vísifingurinn beinist frá þeim sem bendir, vísa hinir fingurnir fjórir að honum sjálfum.

Í guðspjalli dagsins er svo annar og nánari snertiflötur fundinn á þeirri trú sem fólk játar. Það er bænin. Manneskja sem felur sig í auðmýkt, Guði sínum, er að sönnu trúuð. Um leið og við leggjum viðfangsefni okkar í hendur Guðs staðfestum við að við erum trúuð. Og eins og segir í þessum texta, þegar við biðjum bænir okkar í Jesú nafni erum við um leið að játa okkar kristnu trú. Bænin er trungumál trúarinnar og í bæninni viðurlennum við takmörk okkar og að þekking okkar á heiminum er takmörkuð. Það er ekki á okkar valdi að dæma um alla hluti. Þaðan af síður setjum við okkur á þann stall að geta dæmt um náunga okkar, sett okkur í það hlutverk að meta að hegðun sem veldur engum manni skaða eða miska sé Guði ekki þóknanleg. Það er ekki okkar að fella slíka dóma.

Í bæninni býr auðmýkt og í auðmýktinni erum við ekki í nokkrum þeim turni sem setur okkur ofar náunga okkar. Þetta er einn mikilvægasti þáttur í boðskap Krists til okkar sem veljum hann að leiðtoga okkar. Fyrir vikið verður það eins og hluti af skipulagi kirkjunnar að ganga í gegnum sístæða endurskoðun og endurmat byggt á þeim grungildum sem trúin byggir á.

Bastarðar

Það er lítið mál að gera grín að sjónvarpspredikara úr Biblíubeltinu Vestanhafs sem birtir okkur mynd af kristinni trú sem við viljum ógjarnan kannast við. Þá verður reyndar stutt í að kollur okkar sjálfra fyllist af dómum og hörku í garð þess sem hugsar á annan hátt við sjálf. Verra var það í tilviki hinna frómu kvenna sem urðu svo fornemmaðar þegar þær litu brúðkaupsmynd okkar hjóna. Þá hlýtur velmegandi íbúi á friðsælum slóðum að viðurkenna þær ólíku aðstæður sem ríkja í fjarlægum löndum. Þar sem ríkir hróplegt óréttlæti, skerpast allar markalínur. Mögulega sprettur harðneskjan í boðskap predikarans að einhverju leyti frá einhvers konar kreppu þar sem barist er um sálirnar og stundum hefur sá betur sem hæst lætur.

Við hér á Íslandi erum upp til hópa bastarðar - svona er talað úr kirkju vestanhafs, vafalítið ekki ósvipaðri þeirri sem við erum stödd í hér og nú. Og mögulega erum við það öll. Bastarður er eitt þeirra orða sem mætti alveg skoða og skilgreina nánar. Er það að vera bastarður ekki bara sæmdarheiti? Vísar til þess að vera ekki heimóttalegur, eiga rætur í mismunandi jarðvegi, sækja það sem gott er og gagnlegt til fjölbreytileikans og hins auðuga litrófs sköpunarinnar? Kristnir menn eru í þeim skilningi bastarðar. Ég er það og Anderson, við öll sem játum trú á Krist. Því sannfæring okkar byggir á fordæmi þess sem einatt skoraði á hólm viðteknar venjur og gildi og tók upp hanskann fyrir þau sem ekki féllu inn í þá ramma sem smíðaðir höfðu verið. Og þar hömpum við fjölbreytninni og litadýrðinni sem er órjúfanlegur þáttur af sköpunarverki Guðs.