Þversagnir lífsins

Þversagnir lífsins

En það er einmitt þannig sem lífið er alltaf. Fullt af þversögnum. Við þurfum alltaf að vera að glíma við hvort tveggja í einu, stríð og frið, gleði og sorg, ást og hatur. Raunveruleikinn er sá að við náum aldrei því ástandi að friðurinn, gleðin og ástin nái fullum tökum á lífinu, hitt fylgir alltaf með.

Þegar ég las Fréttablaðið í vikunni blöstu við tveir rammar á forsíðunni, hlið við hlið, svipað stórir. Í öðrum þeirra stóð: Hollande heitir hefndum. Í hinum var auglýsing um jólatónleika, með yfirskriftinni ,,Gleði og friðarjól”. Og ég hugsaði með mér. Mikið rosalega er þetta líf okkar fullt af þversögnum! Annars vegar erum við að jafna okkur eftir ömurlega atburði í París fyrir nokkrum dögum, og hins vegar erum við að búa okkur undir komu mestu friðarhátíðar ársins, jólahátíðarinnar, og göngum nú brátt inn í aðventuna, sem er tími fullur af tilhlökkun og gleði.

En það er einmitt þannig sem lífið er alltaf. Fullt af þversögnum. Við þurfum alltaf að vera að glíma við hvort tveggja í einu, stríð og frið, gleði og sorg, ást og hatur. Raunveruleikinn er sá að við náum aldrei því ástandi að friðurinn, gleðin og ástin nái fullum tökum á lífinu, hitt fylgir alltaf með. Og jafnvel þótt okkur finnist stundum eins og hatrið, sorgin, reiðin og ofbeldið sé yfirþyrmandi, og þótt fólk sem lendir í ömurleika stríðsátaka og ofbeldis hljóti einmitt að upplifa að það nái að útrýma öllu hinum góða úr tilverunni, þá er það samt þannig að jafnvel mitt í hatri, ofbeldi og reiði, er oft að finna dýrmætar perlur kærleika og friðar. Þannig skrifar t.d. ungur maður sem missti konuna sína í árásunum í París frá ungum syni þeirra, árásarmönnunum bréf, þar sem hann segir að þeim hafi ekki tekist ætlunarverk sitt, vegna þess að hann neiti að endurgjalda með hatri. Þið fáið aldrei hatur mitt að gjöf, segir hann í bréfinu.

Margir hafa talað um það undanfarna daga hvort þriðja heimstyrjöldin sé að skella á. Ég veit það ekki. Það hefur ekkert verið sérstaklega friðvænlegt í heiminum undanfarið, en staðreyndin er samt sú að í dag eru færri stríð í heiminum en oft áður, og færri hryðjuverk eru framin í Evrópu heldur en t.d. á kaldastríðsárunum. Við skulum ekki gleyma því að það er ekkert nýtt að Evrópubúar fremji hryðjuverk á samlöndum sínum. Gleymum ekki IRA, aðskilnaðarhreyfingum Baska, Baader Meinhof samtökunum og fleirum, sem frömdu mjög mannskæð hryðjuerk gegn löndum sínum árum saman. Við megum ekki láta óttann ná tökum á okkur, ef við gerum það sigra þeir sem vilja sá hatri og óöryggi.

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins, og þá eru textar dagsins einmitt um heimsendi og dóm. Merkilegt hvað textar sunnudagsins ríma oft ótrúlega vel við hvað er að gerast í kringum okkur. Og hvað þeir hafa að miðla mikilli visku og innsæi inn í líf okkar.

Fólkið sem lést í hryðjuverkaárásunum í París, mætti hvert og eitt sínum heimsendi á föstudagskvöldið fyrir rúmri viku. Það á líka við um þau sem létust í hryðjuverkaárásum í Beirút, og nú síðast í Malí í fyrradag. Því að þannig er það með okkur öll, að hvert okkar deyr aðeins einu sinni. Og þannig mætum við okkar heimsendi. Fyrir mörg okkar kemur hann einmitt eins og þjófur á nóttu, þegar við eigum síst von á því. Ekkert okkar veit hvernig okkar heimsendir verður, um það höfum við lítið val. En við höfum val um það hvernig við lifum lífinu. Við getum valið að lifa því eins og ungi maðurinn sem missti konuna sína, og neitaði að taka þátt í hatri og ótta, eða við getum valið að lifa því á sama hátt og hryðjuverkamennirnir, samverkamenn illskunnar, með því að leyfa óttanum að taka völdin, óttanum sem fæðir síðan af sér hatur og ofbeldi. Það er t.d. mjög auðvelt að tala um ungu mennina sem myrtu fólk í París, sem siðblind skrímsli, og um leið og við afgreiðum þá þannig, þá erum við í raun að segja: Engin manneskja getur gert svona lagað, þú þarft að vera skrímsli til að geta gert þetta. Og ef þetta eru skrímsli, er þá ekki bara í lagi að drepa þá? En ekkert er fjarri sanni, því miður. Þessir ungu menn voru menn eins og ég og þú, sem því miður völdu leið illskunnar í lífinu, við vitum ekki hvers vegna, en ef við afgreiðum þá sem skrímsli, þá erum við að forðast það að horfast í augu við að við sem samfélag berum ábyrgð. Við berum ábyrgð á því að búa öllum börnum okkar þannig aðstæður að þau leiðist ekki út í heim öfga og haturs. Við berum ábyrgð á því að búa ekki til samfélag sem gengur út á að flokka fólk í okkur og hina, og svipta svo þá hópa sem ógna okkur mennskunni með því að kalla þau skrímsli. Það gerðist í Þýskalandi Nasismans og við ættum að hafa lært af þeirri reynslu.

Við vitum ekki hvenær við upplifum heimsendi. Hann mun koma sem þjófur á nóttu. Og dómurinn mun verða yfir hverju og einu okkar. Og þá held ég að spurt verði: Hvernig valdir þú að lifa lífi þínu gagnvart ógnum og hættum? Valdirðu óttann, eða valdirðu kærleikann? Ég ætla að ljúka með að lesa hér stutta hugleiðingu sem fjallar um verkefni okkar hvers og eins. Það þarf styrk til að vera seigur Það þarf kjark til að vera umhyggjusamur Það þarf styrk til að halda uppi vörnum Það þarf kjark til að láta vopnin síga Það þarf styrk til að sigra Það þarf kjark til að vægja Það þarf styrk til að vera viss Það þarf kjark til að voga að efast Það þarf styrk til að falla inn í hópinn Það þarf kjark til að vera öðruvísi Það þarf styrk til að finna sársauka vinar síns Það þarf kjark til að kannast við eigin sársauka Það þarf styrk til að dylja tilfinningar sínar Það þarf kjark til að sýna þær Það þarf styrk til að þola árásir Það þarf kjark til að koma í veg fyrir þær Það þarf styrk til að standa einn Það þarf kjark til að halla sér að öðrum Það þarf styrk til að elska Það þarf kjark til að læra að vera elskaður /elskuð Það þarf styrk til að lifa af Það þarf kjark til að lifa Bið ekki um auðvelt líf Bið þess að verða sterkari manneskja Bið ekki um verkefni í samræmi við styrk þinn Bið um styrk í samræmi við verkefni þín (Philips Brooks: Fleiri orð í Gleði, bls. 123)

Dýrð sé Guði sem gefur okkur styrk í samræmi við verkefni okkar. Amen.