Í dag, 16. maí, er lokaleikur Steven George Gerrard, fyrir Liverpool. Þetta er merkisdagur fyrir áhugafólk um knattspyrnu. Svo það fari nú ekki á milli mála hversu merkileg þessi íþrótt er, má vitna í orð annarrar goðsagnar þessa félags, Bobs Shankley:
Some people believe football is a matter of life and death, I am very disappointed with that attitude. I can assure you it is much, much more important than that.
Fer því vel á því að setja atburð þessa dags í guðfræðilegt samhengi. Svo vill til að Steve þessi á sama ættarnafn og 17 . aldar guðfræðingurinn Jóhann Gerhard, en Íslendingar lásu rit hans upp til agna hér á öldum áður. Gárungarnir kölluðu þær,,Glerhörðu hugvekjur", svo eindreginn var boðskapurinn og hvatningin til að lifa því lífi sem ásættanlegt gat talist.
Þetta var rétttrúnaðurinn par excellance, líf kotbóndans, húsfreyjunnar, ómagans og hreppstjórans, var þrungið merkingu og tilgangi. Þörfin var líka mikil fyrir slíka brýningu á tímum sem voru gegndrepa af mótlæti og yfirþyrmandi sorg. Ungbarnadauði var óskaplegur og náttúruöfl óblíð, yfirvöld erfið og ævistarf gat horfið í einni andrá. Vafalítið hefur fólk fálmað í örvæntingu eftir boðskap sem færði tilveruna í æðra samhengi og gerði því kleift að standa í fæturna í öldurótinu.
Glerhörðu hugvekjur greindu sig frá hinum mörgu huggunarritum sem voru líka mjög vinsæl á þessum tímum. Tónninn var annar, eins og uppnefnið gefur til kynna. Ákallið byggði á þeirri lúthersku sýn að hver og einn einstaklingur hefði ríkulegu hlutverki að gegna í hinu mikla gangverki sköpunarinnar. Í tíð miðaldakirkjunnar höfðu vígðir þjónar kirkjunnar algjöra sérstöðu og þóttu standa í nánari tengslum við almættið, en sauðsvartur almúginn. Með kenningunni um hinn almenna prestsdóm færði Lúther líf almennings á sama stall og benti á að hver og einn þjónaði Guði með því að rækja sína vinnu af samviskusemi. Að öðrum kosti myndi skipan samfélagsins liðast undir lok og kirkjan starfar ekki í kaosi. Vel unnið starf hafði því guðlegt gildi.
Því hefur húsfreyja getað dregið fram prjónana á síðkvöldum eftir að hafa séð á eftir afkvæmum sínum, bóndi gat haldið út á túnin eftir að hafa misst kotið í aurskriðu, vinnumaðurinn róið til fiskjar, eftir að hafa fengið vandarhögg frá böðlinum. Lífið hafði þrátt fyrir allt guðlegan tilgang og tilgangurinn gerir okkur kleift að halda áfram.
Kafteinn Glerharður kveður í dag.
Hann er einn af síðustu geirfuglunum í sínu fagi. Tryggðin sem hann hefur sýnt félagi sínu er einstök og við eigum vart eftir að kynnast jafn hæfum fótboltamönnum sem eiga í slíkum tengslum við félagið sitt. Látum vera þótt menn vilji ekki yfirgefa lið sem vinnur árlega til verðlauna, tryggir áhyggjulaust ævikvöld og er í raun efst í metorðastiganum. Engin fórn felst í því að tolla árum saman í slíkum selskap sem launar svo ríkulega. Enn síður er það lofsvert þótt meðaljónar hangi í sínum ,,klúbbi" alla starfsævina þegar eftirspurnin eftir fótafimi þeirra er lítil.
Öðru máli gegnir um hið mistæka lið Liverpool sem þessi afburðaíþróttamaður hélt tryggð við. Saga þess hefur einkennst fremur af vonbrigðum en sigrum. Tilboðum rigndi yfir Glerharð en hann hafnaði þeim öllum. Hann gat ekki keppt fyrir annan félag en hinn fagurrauða her. Hann skoraði líka af fjörutíu feta færi í Istanbul árið 2005 og tryggði félaginu Evrópumeistaratitilinn. Um það syngja aðdáendur liðsins enn í dag.
En hann hnaut líka í fyrra þegar loks hyllti undir að liðið ynni úrvalsdeildina ensku. Sigur sá, hefði verið póetískt réttlæti, fullkominn hápunktur á ferli hins trúa þegns, verðskulduð uppskera bóndans sem sáir í jörðina, plægir hana og á svo tilkall til ávaxtanna sem hún ber. Sigurinn var skrifaður í skýinn. Og ef norðurljósin hefðu prýtt himininn yfir Anfield leikvanginum hefðu þau ritað þau tíðindi einnig, þegar vængbrotið lið Chelsea mætti þangað, eins og lömb til slátrunar.
En Glerharður kapteinn hnaut á rennisléttu grasinu, á ögurstundu. Þetta kostaði liðið eitt dýrasta mark sem félagið hefur fengið á sig og síðan hafa þeir vart séð til sólar. Tækifærið rann þeim úr greipum. Þeir misstu ,,El Pistolero” - einn skæðasta sóknarmann okkar daga, og hurfu aftur inn fyrir þokubakka meðalmennskunnar. Féndur hans hafa síðan núið honum það um nasir að hafa hrasað í grasinu. Þeir syngja svohljóðandi níðvísu í hverjum leik:
Steve Gerrard Gerrard, he slipped from 40 yards, he gave it to Demba Ba, Steve Gerrard, Gerrard.
Nú er Kafteinn Glerharður að hætta og liðið hans hefur ekki að neinu að stefna. Engu breytir hvort þeir vinna í dag, gera jafntefli eða tapa, fimmta sætið er þeirra. Hollusta hans við liðið sitt er merkileg í ljósi þess hversu lítið hann hefur uppskorið, þrátt fyrir allt. Þetta beinir athyglinni að hugurþelinu, tryggðinni og fylgispektinni við liðið sitt, sem hefur fengið hvern málaliðann á fætur öðrum og séð á eftir þeim flestum til annarra ævintýra.
Á tímum þar sem fólk býr við sæmilega örugga tilveru fá íþróttir eins og fótboltinn nánast tilvistarlegt hlutverk. Leikurinn gefur lífi margra aukinn tilgang, eitthvað sem kemur okkur frá A til B, lyftir okkur upp úr grasverðinum, minnir okkur á að við erum hluti af einhverju sem er stærra en við sjálf. Sumir segja að fótboltinn snúist um líf og dauða sagði Shankley gamli, og bætti við að hann er auðvitað meira en það.
Við þau orð má bæta - eða þeim orðum má breyta, á þann hátt að fótboltinn er ekki endilega merkilegri en lífið sjálft, heldur mannshugrinn, mannssálin. Maðurinn á sannarlega hugmynd um eitthvað sem er æðra öllu því sem hrörnar og deyr. Íþróttin er ekki annað en afrakstur þessara þátta, þessarar glerhörðu baráttu sem maðurinn er fæddur til að heyja. Þetta vissi Jóhann Gerhard og miðlaði meðal annars Íslendingum þeirri hvatningu að standa í sínu ístaði hvernig sem heimurinn lék þá.
Og nú kveður leikmaðurinn sem átti sér einhverja köllun, ólíkt þeim flestum öðrum. Hann var trúr sínu félagi.