Góðar og illar tungur

Góðar og illar tungur

Saga kyrruvikunnar ætti að kenna okkur að halda okkur við sannfæringu okkar og sjálfstæði í hugsun. Sagan kennir okkur að standa með þeim sem við vitum að hefur gott eitt í hyggju.

Í kyrruvikunni eða dymblivikunni eins og hún er líka kölluð verður mér svo oft hugsað til þess hvernig fólki getur snúist hugur. Við íhugum þetta mikla drama sem gerist frá pálmasunnudegi til föstudagsins langa. Fyrst er Jesú fagnað sem konungi þegar hann ríður inn í Jerúsalem á pálmasunnudag, en síðan nokkrum dögum síðar er hann úthrópaður til dauðarefsingar og krossfestingar.

Þó ég hafi sjálf ekki verið vitni að þessum sögulegu viðburðum hef ég oft fundið fyrir álíka umsnúningi í tali fólks um aðra. Ef til vill er þá verið að tala um einhvern sem ekki er viðstaddur og hvað fólki finnist nú um viðkomandi persónu. Ef eitthvað sérstaklega jákvætt er sagt um hana og hún lofuð í hástert og taldir upp þeir góðu kostir sem hún hefur og hæfileikar, þá kemur nánast alltaf einhver rödd, sem segir: já….en ég hef nú heyrt…og ég hef nú fyrir satt….og ég veit nú að viðkomandi hefur gert þetta eða hitt…. Stundum gengur talið þannig áfram að um hreinan rógburð er að ræða. Það sem mér hefur alltaf fundist svo sérkennilegt er hvað fólk er fljótt að skipta um skoðun og breyta hugsun sinni um fólk, jafnvel einhvern sem það þekkir af góðu. 

Saga kyrruvikunnar ætti að kenna okkur að halda okkur við sannfæringu okkar og sjálfstæði í hugsun. Sagan kennir okkur að standa með þeim sem við vitum að hefur gott eitt í hyggju. Sagan kennir okkur að úthrópa ekki þau sem eru vinir okkar. Sagan kennir okkur að svíkja ekki aðra.

Kyrravikan felur í sér stærstu andstæður sögunnar, hyllingu til konungs og bölbænir til dauða. En atburðirnir enda ekki á krossfestingu. Eftir krossfestinguna kemur upprisa og þá fögnum við því að hið góða sigraði hið illa, lífið sigraði dauðann. 

Höfum það í huga þegar við tölum um náungann að við stöndum upprisu megin við krossinn.