Í réttum fötum

Í réttum fötum

Manneskjan er það sem hún kaupir og neytir. E.t.v. gæti þetta verið yfirskrift samtímans. Með auglýsingum er stöðugt verið að segja okkur að við getum orðið eitthvað annað en við erum með því að skipta um umbúðir. Við lifum á tímum auglýsinga og ímyndarsköpunar, upplýsingaflæðis og frjálsra viðskipta. Og er hún ekki stórkostleg umhyggjan sem viðskiptalífið ber fyrir okkur neytendum.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
07. nóvember 1999
Flokkar

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.

Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Mt 5.13-16

Að kaupa sér föt

Manneskjan er það sem hún kaupir og neytir. E.t.v. gæti þetta verið yfirskrift samtímans. Með auglýsingum er stöðugt verið að segja okkur að við getum orðið eitthvað annað en við erum með því að skipta um umbúðir. Við lifum á tímum auglýsinga og ímyndarsköpunar, upplýsingaflæðis og frjálsra viðskipta. Og er hún ekki stórkostleg umhyggjan sem viðskiptalífið ber fyrir okkur neytendum. Það er stöðugt verið að gera okkur auðveldara að kaupa og eyða því fé sem við öflum í götótta pyngju. Og svo eru það merkjavörurnar sem auglýstar eru í fjölmiðlum og af gangandi fólki. Fötin skapa manninn, segir í gömlu slagorði. Frábær leikur framleiðenda merkjavörunnar að gera kaupendur að gangandi auglýsingum og láta þá að auki borga hærra verð en ella. Hvílík snilld! Og við bítum á agnið. Máttur auglýsinganna er mikill, meiri en við gerum okkur alla jafnan grein fyrir. Og nú ætla ég að auglýsa fatnað, dýrustu föt sem sögur fara af, föt sem eru ókeypis vegna þess að við erum ekki borgunarmenn fyrir þeim.

Ókeypis - nýr skrúði!

Þú heyrðir áðan lesið úr Opinberunarbók Jóhannesar um þau sem skrýdd eru hvítu skikkjunum og náð hafa inn í himininn. Það eru trúarsystkin okkar sem lifað hafa sönnu lífi í heimi hér og öðlast himnavist. Hvíta skikkjan, er hinn hvíti skrúði réttlætisins, sem Guð gefur okkur í heilagri skírn. Hvítur er litur hreinleikans, hátíðarinnar og gleðinnar í trúnni. Barnið er borið til skírnar í hvítum kjól sem á sér fyrirmynd í frumkirkjunni er trúnemar skírðust laugardaginn fyrir páska, stigu niður í skírnarlaugina, hina táknrænu gröf, og risu upp til nýs lífs, ekki í eigin mætti eða á grundvelli eigin verðleika, heldur í því réttlæti sem Guð gefur. Guð sveipar manninn skikkju náðar og miskunnar, elsku og trúfesti, játast honum í skírninni, tekur hann að sér, helgar hann sér, merkir hann með tákni krossins á enni og brjóst og segir: Þú ert mín, þú ert minn.

Að fæðast og deyja í nafni Guðs

Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda, segjum við um leið og við signum okkur og gerum merki krossins yfir lífi okkar, líkama, sál og anda. Signingin er játning, staðfesting þess að við viljum tilheyra Drottni. Merkið hans var sett á enni og brjóst okkar flestra í frumbernsku. Þar með vorum við helguð Jesú Kristi, frátekin, keypt dýru verði með blóði hans sem forðum sætti heiminn við Guð. Hann er lamb Guðs er ber synd heimsins, lambið sem fórnað var vegna breyskleika mannanna. Lambið er við hásætið á himnum. Á skikkjum þess skara sem nálgast hásætið er merki lambsins sem öllu máli skiptir. Hvítur skrúði prestsins er sömu ættar. Hann er skrúði réttlætis sem Guð gefur. Presturinn kemur ekki fram í eigin nafni heldur í nafni lambsins helga, í nafni Krists. Með líninu hvíta er breitt yfir bresti hans og undirstrikað að enginn er verður þess að koma fram í eigin nafni, eða á grundvelli eigin verðleika, heldur í nafni hans sem lifði og dó fyrir synduga menn. Hvíti skrúðinn kemur líka við sögu fermingarinnar. Og þegar við verðum lögð til hinstu hvíldar sveipuð hvítum líkklæðum er minnt á að himneskur þráður tengir þetta allt saman í eina heild. Í skírninni er okkur gefið eilíft líf sem fylgir okkur í heimi tímans og brúar að lokum bil tveggja heima, himins og jarðar. Eilífa lífið hefst ekki við gröfina heldur í skírninni þegar okkur er gefin gjöf eilífs lífs. En er þetta svona einfalt? Fyrst eilífa lífið fæst við það eitt að láta skírast þá er það í raun ódýrt og það sem ódýrt er sjaldnast eftirsóknarvert eða hvað?

Í skírnarsálminum fagra, Ó, blíði Jesú sem sunginn hefur verið yfir íslenskum börnum í meir en 400 ár segir:

Ó, gef það vaxi í visku og náð og verði þitt í lengd og bráð og lifi svo í heimi hér að himna fái dýrð með þér.

Kynslóðirnar hafa sungið þessa bæn í von um að barnið lifi í samræmi við köllun skírnarinnar. Foreldrar og skírnarvottar axla þá ábyrgð að ala barnið upp í ljósi fyrirheitis skírnarinnar, kenna því að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orða hans og sakramenti og þjóna náunganum í kærleika. Barnastarf kirkjunnar og fermingarfræðslan styðja við heimilin og leggja sitt af mörkum til þess að barnið verði heilsteyptur einstaklingur. Í sálminum er gefið til kynna að skírnarnáðin kunni að glatast, að óvandað líf saurgi hinn hvíta skrúða réttlætisins sem gefinn var í heilagri skírn, gjöf skírnarinnar verði forsmáð, vanrækt og henni kastað á glæ í skiptum fyrir þessa heims glys og haldlausar kenningar.

Bylting og breytingar

Við erum að upplifa eina stærstu byltingu sögunnar, upplýsingabyltinguna. Byltingar koma og fara. Í dag (7. nóvember) er afmæli byltingar sem lifði skamma hríð sé miðað við heimssöguna, bylting sem leiddi hörmungar yfir milljónir og sló ryki í augu enn fleiri. Hugsjónir sem reistar eru á grunni ofurtrúar á manninn eru dæmdar til að mistakast. Vonbrigði fólks yfir kollsteypum sem orðið hafa í stjórnmálum á öldinni með styrjöldum og hörmungum hafa leitt til þess að nú er eins og enginn vilji lengur lifa fyrir hugsjónir, hvað þá að deyja fyrir þær. Nútíminn virðist litlaus og hugsjónasnauður í dansi sínum kringum gullsins kálf. Og er ekki nútímamaðurinn aumkunarlega auðtrúa? Við lifum á tímum þar sem sannleikurinn er nánast hvað sem er, hvað sem þú vilt. Þitt er valið. Vitur maður sagði: Sá sem hættir að trúa á eitthvað ákveðið, trúir ei á ekkert, heldur hvað sem er. Líf án verðugs markmiðs, stefnulaust skip, rekald, eins og korktappi í ólgusjó, sem berst fram og aftur af hverjum kenningarvindi. Auðtrúa einstaklingar í heimi, sem er ofurseldur auðtrúnni. Ekkert er lengur heilagt. Allt er leyfilegt.

Hvað bíður okkar?

Og hverjar skyldu svo vera þrár mannsins í öllu frelsinu við þúsaldahvörf? Hvað mun 21. öldin bera í skauti sér? Í nýlegu tölublaði alþjóðlega tímaritsins Time er fjallað um framtíðina. Og þar kennir margra grasa. Hér koma nokkur atriði sem nefnd eru:

1. Spurt er hvort mannkyn verði óháð kynlífi til þess að fjölga sér, hvort kynlíf verði aðeins leikur en ekki nauðsyn. Líftæknin sem er að breyta heiminum stillir okkur upp andspænis siðfræðilegum spurningum og kynlífsbyltingin er löngu orðin tæki markaðsaflanna. Ekkert er lengur heilagt. Engin vébönd halda í hömluleysi því sem einkennir nútímann þar sem maðurinn virðist sitja klofvega á eigin heila ef marka má það sem hann er upptekinn af og hugsar stöðugt um. Lúther sagði eitt sinn að einkenni hins synduga manns væri að hann væri kengboginn inn í sjálfan sig. Spyrja má hvort hann sé nú orðinn kengboginn ofan í eigið nærhald og annarra.

2. Getum við orðið 125 ára gömul og sigrast á elli kerlingu? Þráin eftir lengra lífi er eitt af einkennum nútímans. Fólk þráir eilífa æsku og óttast að eldast. Fólk vill lifa lengur en án ellinnar.

3. Mun finnast lækning á krabbameinum? Hvaða nýir sjúkdómar munu leggja fólk að velli? Verðum fólk feitara og feitara? Verður hægt að rækta hluta heilans og gera við skemmdir á þessu flókna líffæri? Blasir ekki eilífðarþráin við í þessum spurningum mannsins?

4. Mun jörðin bera mannfjöldann sem eykst stöðugt? Hvernig mun afkomendum okkar reiða af í sívaxandi þrengslum?

5. Verðum veröldin bensínlaus? Verður of heitt á jörðinni vegna skaða sem menn valda á lífríkinu vegna útblásturs? Hvað á að gera við allt ruslið? Minnihluti jarðarbúa notar meirihluta orkunnar. Eitt sinn er ég var á ferð í Bandaríkjunum og ók um í bíl með þarlendum presti. Við ræddum m.a. bensínverð og ég komst að því að það var og er um fjórfalt dýrara hér á landi en vestra og sagði við hann að mér þætti bensínið óguðlega ódýrt hjá honum því það ýtti undir meiri akstur og meiri mengun. Hann sagði fátt því til varnar.

6. Verður fiskur á borðum ef við höldum áfram að eyða fiskistofnum með sama áframhaldi og nú er? Verða enn til ósnortin víðerni? Tvær síðastnefndu spurningarnar eru áleitnar í ljósi umræðunnar um fiskimiðin og hálendið á Íslandi. Stöndum vörð um víðernin. Og fiskimiðin okkar, eða réttara sagt þeirra sem fengu þau gefins og seldu þau svo, hvað verður um þau? Og hvað verðum um okkur sem erum orðin söluvara á boðstólum handa hinum nýju lénsherrum, fjárfestunum? Hvað verður um afkomendur okkar?

Það má greina ugg í brjóstum fólks þegar það horfir til framtíðar. Erum við komin á barm glötunar? Hafa svonefndar framfarir leitt okkur fram á bjargbrún svo að fram-af-farir blasa einar við?

Salt og ljós

Ég viðurkenni að þetta er ógnvekjandi mynd. Hvert stefnir heimurinn með sívaxandi tækni, hraða og ærustu? Ráðum við lengur för? Erum við að verða leiksoppar ofureflis? Andspænis þessari dökku mynd hljóma enn skærar orð guðspjallsins og eiga erindi við okkur sem aldrei fyrr: Þér eruð salt jarðar, ef saltið dofnar með hverju á þá að selta það? Hér talar Jesús Kristur, Guð á meðal manna, og hvetur okkur til að hafa bætandi áhrif á mannlífið. Saltið er tákn hreinleika. Saltið var til skamms tíma algengasta efnið sem notað var til varðveislu matvæla. Það vinnur gegn spillingu og skemmdum og síðast en ekki síst er það krydd sem gefur bragð. Jesús brýnir lærisveina sína til þess að verða ekki bragðlausir í baráttu sinni fyrir betri heimi. Hann hvetur þá til að láta að sér kveða og hafa sömu áhrif og saltið hefur á matvæli. Og svo segir hann þessi stórkostlegu orð sem beint er til kristinna manna: Þér eruð ljós heimsins. Hvílíkt hlutverk, hvílík upphefð og ábyrgð. Ljósið á ekki að dylja, það á að lýsa og hrekja myrkrið á brott. Bölvaðu ekki myrkrinu, segir í spakmæli, kveiktu heldur ljós. Afstaðan til lífsins, verkefna þess og vandamála skiptir miklu. Að nálgast lífið með jákvæðu hugarfari skiptir í raun sköpum. Ljósið er ekki okkar, fremur en réttlætið, það er gefið af Guði og þegar Kristur segir okkur vera ljós heimsins er hann að vísa til þess að okkur er ætlað að vera endurskin af ljósi Guðs. En til þess að svo megi verða þurfum við að koma til hans sem er hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann. Hann býr í orði sínu og sakramentum og því skiptir máli að umgangast hið háa og heilaga. Þetta verður ekki gert af neinu gagni nema með tilstyrk kirkjunnar og samfélags hennar. Það þekkja þau, sem stunda kirkjulegt starf, að helgihal og trúrækni, lýsir upp og bætir. Þá hefur það og verið staðfest að trúin og bænin, trúrækni og kirkjuganga, bætir heilsu fólks og gefur því meira mótstöðuafl gegn sjúkdómum og erfiðleikum sem að kunna að steðja á lífsleiðinni.

Heilsuræktin sem margir stunda er góð sem slík en við erum ekki bara kjöt og bein, við erum líka sál og andi og þurfum því að huga heildrænt að heilsu okkar. Það gerum við með því að neyta hollrar menningar sem nærir sálina en hafna ómenningu og með trúrækni sem nærir andann, innsta kjarna mannsins.

Allir heilagir

Í dag er allra heilagra messa. Messudagur að fornum sið til heiðurs dýrlingum í kaþólskum sið. Enda þótt lúterska kirkjan líti ekki á dýrlinga sem milligöngumenn milli Guðs og manna eru þeir mikilvæg fyrirmynd öllum trúuðum. Við getum mikið af þeim lært. Kristnin hefur átt marga dýrlinga, suma þekkta og viðurkennda, aðra óþekkta sem í kyrrþey hafa þjónað Guði og mönnum án þess að hljóta lof af hálfu manna eða kirkjustofnana.

Í dag minnast margir látinna ástvina og vitja grafa þeirra. Það er fagur siður og ber vott kærleikanum sem tengir kynslóðirnar. Í Fossvogskirkjugarði hér í borginni er veitt sérstök þjónusta í dag milli kl. 14 og 18 sem vert er að gefa gaum. Þar verða helgistundir með tónlist og bænagjörð og prestar eru til taks ef syrgjendur vilja sérstaka þjónustu. Á allra heilagra messu minnumst við helgra manna, karla og kvenna og nú hin síðari árin einnig látinna ástvina. Allir kristnir menn eru heilagir í þeim skilningi að þeir eru helgaðir Kristi, fráteknir, ættleiddir og þar með gefið fyrirheit um arf eilífs lífs. Jesús Kristur er bróðir þinn fyrir heilaga skírn. Hann mun kannast við þau á efsta degi sem kannast við hann hér í þessu lífi. Við erum öll heilög en þau eru þó færri sem teljast til helgra menn. En við skulum skoða líf þeirra og líkja eftir trú þeirra. Þannig getum við orðið salt og ljós í þessum heimi. Kristin trú hefur verið byltingarafl í tvö þúsund ár og lagt grunninn að því frelsi sem margar þjóðir búa nú við. En frelsi fylgir ábyrgð. Og baráttan fyrir réttlæti er ekki án fórna. Helgir menn í rás sögunnar voru ekki glæsimenni í dýrum merkjafötum. Þeim er í raun lýst í Fjallræðunni og þar segir m.a.: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum . Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (5.11-12)

Köllun til eilífðar

Við erum kölluð til að vera salt og ljós í baráttu við öfl myrkurs og blekkingar og þar með er sú krafa gerð til okkar að við séum virk í umræðu í hinu opna og lýðræðislega þjóðfélagi, virk á heimili, vinnustað og í félagslífi. Rödd skynseminnar, miskunnseminnar, réttlætisins og kærleikans má aldrei þagna í þessum heimi. Kirkjan er einn mikilvægasti félagsskapur í heimi ef ekki sá allra mikilvægasti. Hún er orkustöð, vettvangur samfélags manna við höfund lífsins sem miðlar afli kærleikans til þeirra sem vilja lifa og starfa undir merki hans. Það merki var sett á enni þitt og brjóst í bernsku og þar með var lífi þínu gefin merking og stefnt að því marki sem er nýr heimur réttlætis og friðar, miskunnar og kærleika. Tilgangur lifsins er að lifa og starfa undir merki Krists. Það er merkilegasta viðfangsefni sem hægt er að fá í þessu lífi, viðfangsefni sem gefur margfaldan arð, ekki aðeins í þessu lífi heldur og í hinu komandi.