Dagur kærleiksþjónustunnar

Dagur kærleiksþjónustunnar

Lúther sagði að kærleikurinn sem birtist í Jesú sé ,,ekki dauð mynd máluð á pappa, heldur lifandi mynd sem þráir að birtast í góðum verkum. Ástin er sú dyggð sem gerir allar aðrar dyggðir mögulegar”.
fullname - andlitsmynd Ragnhildur Ásgeirsdóttir
25. ágúst 2013
Flokkar

3Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. 44En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. 45Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. 46Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? 47Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. 48Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. (Matt.5:43-48)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I. ,,Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir”. Dýrin í Hálsaskógi eftir Norðmanninn Thorbjörn Egner er barnaleikrit sem við þekkjum sjálfsagt flestöll. Í því leikriti eru dýr í aðalhlutverki búin mannlegum eiginleikum. Þau tala, ganga um á tveimur fótum og hafa hvert um sig ákveðin persónueinkenni. Þau gleðjast, finna fyrir hræðslu og óöryggi, eiga sína drauma og væntingar rétt eins og mannfólkið. Þessi skáldaði veruleiki leikritsins varpar ljósi á þá fjölbreytni sem litar mannlífið og í leikritinu birtast myndir sem sýna þær miklu andstæður sem lífið einkennist af. Við sjáum í Hálsaskógi dæmi um skynsemi, vinsemd, öryggi, hræðslu og meira að segja létt kæruleysi. Dýrin setja sér reglur sem þau samþykkja einróma og fela í sér: að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, ekkert dýr megi éta annað dýr og ekki megi taka sér mat frá öðrum.  Boðskapurinn er skýr, allir eiga að koma vel fram við alla. Mörg börn hafa séð Dýrin í Hálsaskógi,  sum kannski oftar en einu sinni. Boðskapurinn sem leikritið skilur eftir miðlar til barnanna gildi vináttu og virðingar í mannlegum samskiptum. Við viljum auðvitað börnunum okkar allt hið besta. Við óskum þess að þau læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, að þau læri og tileinki sér góð gildi í lífinu og verði þannig að sanngjörnum, heiðarlegum og réttsýnum manneskjum. Við reynum að sýna þeim gott fordæmi og verndum þau eins og við getum frá öllu illu.   Mikki refur er sú persóna í leikritinu sem ógnar hvað mest þeim gildum sem dýrin í Hálsaskógi vilja byggja samfélag sitt á. Mikka er bannað að veiða sér til matar og éta ekki annað dýr og hann lendir því í ákveðinni togstreitu. Þannig sýnir leikritið að lífið í Hálsakógi er ekki einfalt þrátt fyrir viðleitni dýranna í þá átt að hafa ákveðnar samfélagslegar reglur. Í leikritinu endurspeglast þær aðstæður sem koma fram í lífinu sjálfu, lífið er margbreytilegt.  Það gerist nefnilega mjög fljótt að börnin kynnast miskunnarleysi heimsins, lífið er ekki bara einfalt og fallegt. Foreldrar þekkja af eigin raun reynslu barnsins sem upplifir að illa sé komið fram við það, einhver var ósanngjarn eða leiðinlegur í garð þess. En samt halda foreldrarnir áfram að hvetja og leiðbeina barninu um góða hegðun, að sýna gott fordæmi, eins vel og þeir geta. 

II. Guðspjallstextinn sem við nú íhugum er tekinn úr fjallræðu Jesú sem er skrifuð í 5., 6. og 7. kafla Matteusarguðspjalls.

Matteusarguðspjall safnar ræðum Jesú og kenningu í fimm bálka sem hefur sterka skírskotun í Mósebækurnar fimm í Gamla testamentinu. Fjallræðan er fyrsti bálkurinn og hefur að geyma, innihaldsríkan trúarboðskap sem felur í sér siðferðileg gildi og kristið gildismat. Þar er að finna m.a. boðskapinn um umhyggjuna, samskipti okkar við Guð og náunga okkar, um áhyggjurnar og glímuna við lífið. Í fjallræðunni kennir Jesús okkur að biðja og hann hvetur okkur til að vera salt jarðar og leggur þar með áherslu á að við eigum að hafa áhrif á umhverfi okkar til góðs, vera ljós og lýsa í daglegu lífi með góðum verkum. Eða eins og gullna reglan segir: ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”. Jesús dregur í fjallræðunni upp mynd af þeim heimi sem hann vill búa okkur en hann hvetur okkur jafnframt til þess að vinna að því að þessi gildi umhyggjunnar verði raunveruleg í mannlegu samfélagi.

Lífið er oft flókið og samanstendur af andstæðum og tillit þarf að taka til margra þátta. Illskan er til staðar í heiminum, miskunnarleysi, einelti, misnotkun, valdníðsla og ofbeldi. Allar manneskjur reyna erfiðleika með einum eða öðrum hætti, það er gangur lífsins. Jesús segir í guðspjalli dagsins: ,,Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður”. Óvinur er mjög sterkt orð og ég vona að flest okkar getum sagt að við eigum enga óvini í þeirri merkingu að við hötum einhvern. En óvinur í orðum Jesú getur tekið á sig margar myndir sem fela í sér víðtækari merkingu. Óvinurinn er allt sem miður fer í okkar lífi, allt sem er í andstöðu við Guðs vilja, allt sem brýtur okkur niður. Að afneita og reiðast eru mannleg viðbrögð okkar við erfiðum aðstæðum. Og þá fáum við að heyra orð Jesú sem vill benda okkur á hina fullkomnu elsku, sem er hin umvefjandi skilyrðislausa elska sem við heyrðum lesið um hér áðan, kærleikann sem fellur aldrei úr gildi. Jesús veitir okkur þannig nýjan lífsskilning.

Lúther sagði að kærleikurinn sem birtist í Jesú sé ,,ekki dauð mynd máluð á pappa, heldur lifandi mynd sem þráir að birtast í góðum verkum. Ástin er sú dyggð sem gerir allar aðrar dyggðir mögulegar”.

Þjóðkirkjan hefur tekið þennan sunnudag frá til þess að vekja sérstaka athygli á Díakoníunni. Orðið díakonía kemur úr grísku og merkir þjónusta. Orðið djákni er síðan dregið af þessu orði. Lútherska heimssambandið skilgreinir m.a. díkoníuna þannig:  „Díakonía er heils hugar ábyrg þjónusta í orði og verki, sem kristnir menn láta þurfandi í té. Hún er af rótum fagnaðarerindisins runnin“.

Díakonía hefur gengið undir nafninu kærleiksþjónusta hér á landi og er þessi þjónusta mikilvægur þáttur í lífi hverrar kristinnar manneskju. Allt kristið fólk er kallað í skírninni til að lifa sem þjónar kærleikans í sínu lífi með orðum sínum og gjörðum. Í þessu samhengi langar mig til að segja ykkur frá kvikmynd sem ég sá fyrir mörgum árum en hafði mikil áhrif á mig. Kvikmyndin heitir The Mission eða Trúboðið og þar er dregin upp sterk mynd sem sýnir fram á það að fólk bregst gjörólíkt við í sömu kringumstæðum.

Kvikmyndin fjallar um tvo Jesúíta sem settu á laggirnar kristniboðsstöð í landi einu í Suður Ameríku á 18. öld. Þegar kristniboðssvæðið féll undir stjórn Portúgala, sem stundaði þrælahald, reyndu Jesúítarnir eftir fremsta megni að vernda hópinn sinn með friðsamlegum hætti, því hneppa átti fólkið í ánauð. Þeir áttu samtöl við stjórnvöld og ráðamenn en allt kom fyrir ekki.

Þegar allt var fullreynt og enginn sýnilegur árangur varð, brugðust þessir tveir Jesúítar við með misjöfnum hætti. Annar þeirra vildi berjast og safnaði saman frumbyggjum úr hópnum og tók til vopna en hinn Jesúítinn gat ekki hugsað sér það. Hann safnaði sínum hópi saman til bænasöngs. Báðir þessir menn vildu taka rétta afstöðu út frá siðaboðskap Jesú, vildu berjast gegn kúgun og ranglæti en notuðu til þess ólíkar aðferðir.

Þessi kvikmynd lýsir vel raunveruleikanum. Lífið er ekki bara svart eða hvítt, ákvörðunartaka er ekki alltaf einföld, fólk bregst misjafnlega við í hinum ýmsu aðstæðum. Það er köllun kristinnar kirkju að láta sig ekkert mannlegt óviðkomandi, heldur að sinna þjónustu við manneskjuna í hvers kyns aðstæðum.

Kirkjan, það erum við sjálf, hreyfing fólks sem aðhyllist sömu trú og gildi. Það er köllun og hlutverk kristinnar kirkju að vera kirkja sem ber vitni um náð og kærleika Guðs, í hvaða stétt eða stöðu sem við tilheyrum. Kirkjan vill þannig sinna öllum sem til hennar leita, með helgihaldi, fræðslustarfi, kærleiksþjónustu, áfallahjálp og sálgæslu. Kirkjan hefur í þjónustu sinni starfandi presta og djákna í söfnuðum, á stofnunum og hjúkrunarheimilum, sjúkrahúspresta, fangelsisprest, prest innflytjenda, prest heyrnarlausra og fatlaðra einmitt til að sinna þessari þjónustu sem kirkjan sem hreyfing vill standa fyrir.

Með kærleiksþjónustunni vill kirkjan þjóna náunganum, bera umhyggju fyrir honum og vera til staðar, hlusta eftir þörfinni og veita stuðning. Kirkjan vill líka gleðjast og fagna á hamingjudögum og samfagna á gleðistundum lífsins, því kirkjan erum við.

III.  Jesús boðaði kærleika og aftur kærleika. Hann lifði í kærleikanum allt fram til hins síðasta. Allt hans líf einkenndist af því að mæta fólki með umburðarlyndi, auðmýkt, í friði og góðmennsku. Það sem aðgreinir siðaboðskap Jesú frá öðrum, er Jesús sjálfur. Jesús var enginn venjulegur maður, Jesús bar hið guðlega inn í okkar heim og opnaði okkur leiðina til Guðs. Sannur Guð og sannur maður.

Jesús setti fram boðskap sinn á einfaldan, einlægan, hátt og þeim boðskap skulum við, íslensk þjóð, halda á lofti. Boðskapinn um náungakærleika, fyrirgefningu og sátt manna á meðal. Sameinumst um þau gildi sem Jesús Kristur boðaði og hlúum að landi okkar og þjóð. Leyfum kristnum gildum að einkenna líf okkar og verum farvegur fyrir kærleika Guðs.   Hjalti Rögnvaldsson leikari les nú fyrir okkur bæn sem kennd er við móður Teresu: Þarfnast þú handa minna, Drottinn, til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum? Drottinn, í dag vil ég gefa þér hendur mínar.  Þarfnast þú fóta minna, Drottinn, til að geta vitjað þeirra, sem einmana eru og án vonar? Drottinn, í dag vil ég gefa þér fætur mína.  Þarfnast þú vara minna, Drottinn, til að geta talað til þeirra, sem þrá kærleiksrík orð og viðmót? Drottinn, í dag vil ég gefa þér varir mínar.   Þarfnast þú hjarta míns, Drottinn, til að geta elskað skilyrðislaust sérhvern mann?  Drottinn, í dag vil ég gefa þér hjarta mitt. ----

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun Náð Drottins, Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.