Það hefur ekki ríkt nein lognmolla í kringum kirkjuna á undanförnum misserum. Reglulega birtast í fjölmiðlum fréttir af einstaklingum innan kirkjunnar sem hafa misnotað vald sitt með kúgun og ofbeldi. Jafnvel æðstu ráðamenn hafa orðið uppvísir að slíku, bæði innan íslensku þjóðkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar. Og þetta á ekki bara við hér á landi, heldur víða um heim. Alls staðar rísa upp einstaklingar sem hafa kjark til að segja sögu sína, sögu af því hvernig níðst var á þeim á stöðum sem áttu að veita öruggt skjól. Og þetta gerist ekki bara innan kirkjunnar, heldur víða í félagasamtökum, t.d. í íþróttahreyfingunni og skátahreyfingunni.
Vonbrigði með kirkjuna
Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með kirkjuna og kristna trú. Ein vinkona mín sagði við mig í gær: „Manni finnst það ennþá verra þegar svona gerist í kirkjum, maður á að geta treyst því að þar sé allt í lagi." Og það er að sjálfsögðu alveg rétt, kristin kirkja ber ábyrgð á því að veita öllum skjól sem til hennar leita, þar eiga allir að finna sig örugga. En kirkjan hefur því miður vaknað upp við þann vonda draum á síðustu árum að þar, eins og annars staðar hafa menn komist til valda og áhrifa sem hafa misnotað stöðu sína og beitt konur og börn ofbeldi. Þetta er staðreynd sem kirkjan hefur þurft að glíma við, og hefur sú glíma oft á tíðum verið mjög sársaukafull.
Skila þarf sakavottorði
En nauðsynleg er hún og ég tel að hún hafi skilað sterkara kirkjusamfélagi sem horfst hefur í augu við raunveruleikann í auðmýkt og gert ýmislegt til að hindra það að kynbundið ofbeldi eigi sér stað í starfi kirkjunnar. Íslenska þjóðkirkjan hefur gripið til ýmissa ráðstafana. Öll þau sem sækjast eftir að starfa með börnum og unglingum þurfa að skila sakavottorði, fagráð um meðferð kynferðisbrota er starfandi innan kirkjunnar og hefur orðið að fyrirmynd varðandi slíkt starf, auk þess er kirkjan aðili að framkvæmdaáætlun Lútherska heimssambandsins um að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.
Ofbeldi á hvergi að líðast
En síðast en ekki síst verður það að koma skýrt fram í allri boðun kirkjunnar, að sem lærisveinar Jesú Krists verðum við alltaf að taka okkur stöðu með þeim sem þurfa að þola hvers konar ofbeldi og kúgun.
Það er óásættanlegt að gefa afslátt af þeirri afstöðu. Ofbeldi er synd og á hvergi að líðast, það er alveg skýrt. Kirkjan mótmælir því hverskonar kynbundnu ofbeldi og fylgir þar fordæmi Jesú Krists, sem kom fram við konur sem jafningja, af virðingu og kærleika, og sem leyfði börnunum að koma til sín.