Díakónía - trú í verki

Díakónía - trú í verki

Það gæti verið spennandi að setja sér það markmið í þessari viku að gaumgæfa á sjálfa sig, orð sín og athafnir og velta fyrir sér hvernig maður bregst við í hinum ýmsu aðstæðum í daglegu lífi, hvernig okkur tekst að reynast samferðafólki okkar góður náungi.
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
02. september 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.   Þessi kveðja er oftast lesin á undan hverri prédikun. Tókstu eftir fyrsta orðinu sem ég las? Það var orðið náð. Náð er eitt af þeim hugtökum sem notað er til að segja frá því hvað kristin trú er. Ef einhver sýnir öðrum náð er hann að gefa eitthvað sem hann fær ekkert fyrir. Með öðrum orðum þá er náð gefin án skilyrða og án kröfu um endurgjald. Hún er ókeypis. Eitt af skýrustu dæmunum um náð er afstaða Guðs til okkar. Sú afstaða birtist í því að hann sendi Jesús Krist son sinn til okkar. Það er hin mikla náð sem kirkjan boðar. Með Jesú Kristi kom miskunnsemi og náð. Það er til ótakmarkað magn af miskunnsemi og náð af Guðs hálfu og Kristur sýndi okkur hvernig hægt er að vera miskunnsamur í verki.

Næsta hugtak í kveðjunni er orðið friður.  „Náð sé með yður og friður.“ Ekki er orðið friður síðra en náðin. Friður er af skornum skammti í heiminum eins og við vitum en kristin trú boðar frið. Frið við Guð og menn. Jesús sagði Minn frið gef ég ykkur og þegar hann var upprisinn heilsaði hann lærisveinunum með orðunum friður sé með ykkur. Kannski felur þessi kveðja í sér allt sem við þörfnumst, náð og frið.

Áðan voru lesnir þrír textar úr Biblíunni og hugleiðing um einn þeirra. Þessir textar eru ætlaðir okkur til að hlusta á og íhuga og það sem er enn mikilvægara að læra eitthvað af þeim fyrir daglegt líf okkar. Við erum sem sagt hér í kirkjunni til að fá eitthvað með okkur út í hversdaginn sem bíður okkar. Hér stöldrum við við, hlustum og uppbyggjumst í trúnni, nærum andlegt líf okkar. Fyllum á tankinn ef svo má segja. Til að geta mætt öðrum af miskunnsemi og náð þurfum við sjálf að upplifa miskunn og náð. Ef við eigum ekkert getum við engu miðlað. Þess vegna förum við í kirkju. Þannig er guðsþjónusta hugsuð. Andleg uppbygging gefur okkur nesti sem við njótum sjálf og getum miðlað til annarra. Það hefur meira að segja verið fullyrt að helgihald sé kvíðastillandi. Þau sem upplifa það sækja í kyrrðina og möguleikann til að einbeita sér að helgihaldinu og taka á móti því sem fer fram bæði í söng, bænum og altarisgöngu. Það er mikið innihald á bak á við orð og athafnir í messunni, sem nærir sálina og uppfyllir andlegar þarfir okkar í umhverfi sem er gjarnan upptekið af ytri gæðum. Við getum gefið okkur sjálfum tækifæri til að staldra við og gefa messunni möguleika á að vera okkur uppbygging og lækning.

Í dag erum við sérstaklega minnt á kærleikann en um leið á afleiðingar kærleiksleysis. Við erum í miðju fjölskyldudrama með bræðrunum Kain og Abel – og föðurnum Guði. Þetta er saga af samskiptum í fjölskyldu. Við erum öll hluti af fjölskyldu og í fjölskyldum gerist margt bæði gott og slæmt og stundum eru þær mjög flóknar. Þess vegna hefur kirkjan rekið Fjölskylduþjónustu í 20 ár. Þar starfar fólk sem hefur menntun í fjölskyldufræðum, félagsráðgjöf og sálfræði. Þangað leita fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum til að ræða málefni sín. Kirkjan er stolt af því að reka þessa faglegu þjónustu. Þar er einnig prestum og djáknum boðin handleiðsla vegna starfa sinna. Öllum finnst fjölskyldulíf sitt skipta miklu máli og flestir vilja leggja mikið á sig til að öllum líði vel saman. Spurningin hvort ég eigi að gæta bróður míns er mikilvæg en kannski mætti líka spyrja: á ég að gæta sjálfra mín, sjálfs mín? Á ég að skoða orð mín og athafnir? Það er einmitt gott að velta þessu fyrir sér í ljósi sögunnar um miskunnsama Samverjann og þá áherslu sem lögð er á að sýna trú í verki.

Kannski erum við orðin leið á að heyra alltaf um þennan miskunnsama  Samverja. En einhver ástæða er fyrir því að svo margir þekkja söguna um hann. Í nýju riti sem kirkjan hefur gefið út um Þjónustuna segir:

„Dæmisagan af Miskunnsama Samverjanum lýsir mismunandi skrefum til hjálpar. Fyrsta skrefið er þegar hann nemur staðar hjá hinum særða og skoðar aðstæður. Með þessu skrefi sýnir hann samstöðu og að hann stjórnast ekki af ótta við þjáningu annarra. Með því að „nema staðar“ getur hann metið aðstæður og séð hvað gera þarf. Annað skrefið er svar við bráðri neyð, fyrsta hjálpin. Samverjinn tók upp úr pússi sínu sárabindi, olíu og vín; hann greip það sem hendi var næst til þess að veita aðstoð sem ekki þoldi neina bið. Þriðja skrefið er þegar hann gerði ráðstafanir til þess að maðurinn sem féll í ræningjahendur gæti náð sér eftir ófarirnar og fengið endurhæfingu. Loks hét hann áframhaldandi stuðningi, ef á þyrfti að halda. Eitt sinn þegar rætt var um þessa dæmisögu í leshring, spurði einn viðstaddra: „Hvert skyldi Samverjinn hafa farið, eftir að hann skildi við hinn særða á gistihúsinu?“ Þá varð einhverjum þetta að svari: „Hann fór náttúrulega beint á bæjarskrifstofuna í Jeríkó, sagði sögu sína, og mæltist til þess við sveitarstjórann að öryggisráðstafanir gegn ofbeldi yrðu hertar og fórnarlömbunum veitt viðeigandi aðstoð. Þótt þetta sé aðeins ímyndun, skýrir það vel nýtt skref sem er talsmannahlutverkið sem sýnir samband á milli umhyggju og réttlætis. Það er því þörf á að sinna margvíslegum markmiðum þjónustunnar.“

Hér er ákveðin aðferðarfræði boðuð sem má orða þannig: Sjáðu- hugsaðu- framkvæmdu. Sjáðu hvað er að – hugsaðu hvað þarf að gera – gerðu það sem aðstæðurnar krefjast. Þetta er aðferð sem felur í sér að greina aðstæður. Stundum er hægt að bregðast strax við en stundum þarf að nota fræðilegar aðferðir til greiningar. Það er ekki bara hægt að hjálpa einhvern veginn því oft eru aðstæður flóknar. Það þarf að gera áætlun um hvað þarf að gera til að breyta neikvæðum aðstæðum og til þess þarf þekkingu á samfélaginu. Þegar þessu er lokið er framkvæmdin næsta stig. Þetta er gert víða og Hjáparstraf kirkjunnar hefur notað þessa aðferðarfræði til að geta aðstoðað þá sem verst eru staddir til að hjálp við þá komi að sem bestu notum og svari þörf þeirra sem þurfa stuðning um styttri eða lengri tíma. Hvert og eitt okkar getur þó brugðist við neyð náungans án þess að fara í fræðilega úttekt því í daglegu lífi mætum við oft aðstæðum sem einfalt er að aðstoða í. Viðbrögð okkar geta orðið eins og miskunnsama Samverjans – við bara bregðumst strax við. Íslendingar eru taldir eiga auðvelt með að bregðast skjótt við. Það er styrkleiki sem við getum svo sannarlega verið stolt af.

Það gæti verið spennandi að setja sér það markmið í þessari viku að gaumgæfa á sjálfa sig, orð sín og athafnir og velta fyrir sér hvernig maður bregst við í hinum ýmsu aðstæðum í daglegu lífi, hvernig okkur tekst að reynast samferðafólki okkar góður náungi. Ekki dæma þig heldur skoðaðu hvernig viðbrögð þín eru. Ertu að bregðast við á þann hátt sem þú vilt gera? Tekurðu ábyrgð á viðbrögðum þínum?

Í frásögunni af Kain og Abel spyr Guð Kain: „Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt?“ Ef við erum upplitsdjörf þá höfum við ekki neitt að skammast okkar fyrir eða fela. Að vera upplitsdjarfur er að vera öruggur með sjálfan sig, geta horft í augu annarra, staðið með sjálfum sér vegna sannfæringar um að við séum á vegin kærleikans.

Í 1. Jóhannesarbréfi er fjallað um kærleikann, elskuna. Í stuttu máli er verið að segja að við séum elskuð af Guði og að hann vilji veita okkur nýtt líf. Það er sagt á þennan hátt: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf.“ Þar er einnig að finna samantekt á innihaldi þessarar prédikunar og þeim boðskap sem kirkjan vill koma a framfæri í dag. „Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“

Að lokum er hér stutt frásaga úr riti um Þjónustuna sem áðurvar nefnt. „Oftast er óþarfi að hengja einhvern sérstakan merkimiða á það sem öðrum er gert til þægðar. Mest af því er réttilega álitið ósköp sjálfsagt og eðlilegt. En samt - það sakar ekki að gefa því nafn. Brasilísk kona lét svo um mælt þegar hún hafði farið á námskeið um kærleiksþjónustu: „Nú veit ég, að það sem ég hef ástundað alla ævi er – kærleiksþjónusta!“ Henni sagðist svo frá, að hún hefði hjálpað fátækum bændum, sem veikst höfðu af skordýraeitri, tekið virkan þátt í mannréttindabaráttu og vitjað sjúkra og sorgmæddra í söfnuðinum. „Ég hafði nú alltaf á tilfinningunni, að þessi sýslan mín hefði tengipunkt við trúna,“ sagði hún, „en ég vissi ekki fyrr að hún héti eitthvað! “ Þessi vitneskja á ekki að þurfa að breyta neinu í dagfari manns, þótt hún geti gert það. Hvað sem öðru líður, þá setur það ákveðinn stimpil á velgjörningana, að kalla þá þjónustu í kærleika, kærleiksþjónustu. Og það minnir okkur á hvar uppsprettan er og hvaðan hvatning og styrkur kemur til þjónustunnar.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.