Kristin trú er fyrst og fremst uppristrú, trú á sigur lífsins yfir dauðanum, að lífið endi ekki við dauðans dyr, heldur muni hinn upprisni Jesús Kristur leiða okkur frá dauðanum til lífsins hjá Guði.
Fáir hafa orðað þetta betur finnst mér en hr.Sigurbjörn Einarsson biskup í erindi sem hann hélt árið 1984 undir heitinu “Spurningar um dauðann”. Þar segir biskup:” Sú fegurð þessa heims, sem hefur speglast í dauðlegum augum, og verður strokið burt, þegar augun slokkna, er endurskin frá eilífum augum Guðs, sem hefur skapað hana. Þar varir hún. Og þegar “burtu þokan líður, sem blindar þessi dauðlegu augu vor” fæ ég að sjá allt með augum hans. Og þeir sem ég unni og dauðinn sleit frá mér og mig frá þeim, þá fæ ég að sjá í ljósi hans. Enginn skal slíta þá úr hendi minni, segir Jesús”. Maðurinn er skapaður af Guði, fær líf sitt og kraft frá Guði. Dauðinn er aftur á móti andstæður vilja Guðs, andstæður sköpun Guðs. Þegar maðurinn deyr, slokknar það líf og það ljós sem Guð gaf honum. Ef dauðinn væri endalok tilverunnar, þá væri tilveran tilgangslaus.
“En ef nú er predikað að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig segja þá nokkurir á meðal yðar að upprisa dauðra sé ekki til?”- (1.Kor:12-14.) segir Páll postuli. Jesús Kristur lætur ekki dauðann hafa síðasta orðið. Jesús Kristur gengur með okkur í gegnum lífið, er með okkur í hinu daglega stríði. Þegar dauðinn heggur á band lífsins, sleppir Jesús ekki heldur af okkur hendinni. Ef hægt er að líkja dauðanum við landamæri, þá leiðir Jesús okkur yfir þau landamæri, inn til lífsins hjá Guði föður sínum. Það gerir Jesús vegna þess að hann sigraði vald dauðans á krossinum, hann gekk inn í dauðann, dó okkar vegna og reis upp okkar vegna. Hann ruddi okkur leið í gegnum múr dauðann og til hins eilífa lífs . Sjálfur segir hann þetta þannig :”Ég lifi og þér munuð lifa”.
Allt frá upphafi voru til menn sem véfengdu sannleiksgildi páskafrásagnanna, frásagnanna af upprisu Jesú Krists eins og þær er að finna í guðspjöllunum. Þær efasemdir heyrast enn og kröftuglega hjá mörgum, eftir nær 20 aldir. Um eitt voru menn þó flestir samdóma frá öndverðu: Gröf Krists var tóm að morgni páskadags. Jesús hafði verið lagður í hana að kvöldi föstudagsins langa. Þaðan var hann horfinn á þriðja degi. Fáir hafa rengt það. Af þessum sökum hefur gröfin tóma löngum orðið tákn páskanna í vitund kristinna manna. Um hana er ekki ágreiningur.
Frásagnir guðspjallanna af upprisunni eru hver með sínum hætti. En í öllum aðalatriðum ber þeim saman. Hinn upprisni birtist lærisveinum sínum við ýmis tækifæri, vitraðist þeim fáum saman og í fjölmenni. Nokkrir þeirra efuðust samt. Veigamestu rökin fyrir sannleika páskasögunnar eru á þessa leið: Eftir krossfestinguna voru lærisveinar Jesú bugaðir af þeim ósköpum, er yfir þá höfðu dunið: Meistari þeirra hafði verið handtekin, píndur og kvalinn, dæmdur og líflátinn með svívirðilegum hætti. “Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael” sögðu lærisveinarnir á leið sinni til Emmaus að kvöldi páskadags (Lúk.24:2l). Nú var sú von að engu orðin, og ekkert blasti við förunautum Jesú annað en niðurlægjandi ósigur. Eðlilegustu viðbrögð þeirra hefðu verið á þá lund að hverfa aftur hver til síns heima og fella hina stuttu sögu predikarans frá Nazaret í gleymsku.
En hér fór á annan veg. Innan fárra vikna tóku postularnir að boða mönnum þau tíðindi, að sögu hins fyrirlitna og krossfesta leiðtoga þeirra væri ekki lokið. Saga hans væri þvert á móti að hefjast, - saga hins upprisna. Fáum árum síðar voru lærisveinarnir og skjólstæðingar þeirra lagðir af stað út um borgir Rómaveldis, þar sem þeir hvarvetna sögðu tíðindin. Nú er ekki svo að skilja, að þeirra biði hrós og lofstír fyrir þennan boðskap. Þvert á móti: Þeir voru sjálfir ofsóttir og líflátnir fyrir tiltæki sitt. Hefði ekki verið skynsamlegra að þegja?
Jú eflaust.
Hver fórnar lífi sinu fyrir lygasögu?
Enginn.
Postularnir gátu ekki þagað af því að frásögn þeirra var sönn. Reynsla þeirra af nærveru hins upprisna var svo sterk, að þeim héldu engin bönd. Það að kirkja Krists skyldi yfirhöfuð komast á laggirnar á fyrstu öld tímatals okkar er kraftaverk,sem ekki verður skýrt nema með vísun til annars og enn stærra kraftaverks, og það er upprisa frelsarans sjálfs.
Vöxtur kirkjunnar fyrstu þrjár aldir ítrekaðra ofsókna staðfestir hið sama. Orð hinna trúuðu á páskum voru byggð á sögulegri staðreynd: “Kristur er upprisinn. - Kristur er sannarlega upprisinn”.
Hvernig það upprisulíf er nákvæmlega segir Biblían okkur lítið um. Við fáum aðeins að vita það að framundan er tilvera sem ekki er hægt að lýsa með orðum eða hugtökum tengdum tíma og rúmi.
Henni er best lýst með orðum eins og gleði, fögnuður, friður, hátíð. Eða eins og Jesús segir “hjarta yðar mun fagna og engin tekur fögnuð yðar frá yður” (Jóh.16:22).
Sá fögnuður er okkar þegar í dag - fögnuður páskahátíðarinnar.
Guð gefi þér og þínum gleðilega páska.