Skjól

Skjól

Við erum ekki þjónar hins tímanlega við eigum að vera herrar sköpunarinnar. Ráðsmenn Guðs yfir viðkvæmri jörð sem þarf á allri okkar staðfestu að halda.

 

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?. Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.  Matteusarguðspjall 7:7-12
Líklega er það til marks um velsæld og taumlitla velmegun að helstu áhyggjur manna þegar kemur að sjálfum lýðveldisdeginum skuli snúast um veðráttuna og það hvort hátíðinni eigi að búa stað í skjóli fyrir slagviðrinu. Veigalitlar eru áhyggjur okkar nú þegar lýðveldið fagnar sínu 62. afmælisári. Hér er þó skjól fyrir veðrinu úti – veðrinu sem svo oft hefur tekið völdin á afmælisdegi lýðveldisins.   Herinn fer

Já, hér er skjól og auðvitað miklu meira en það. Hér er verðugur upphafsreitur þeirrar göngu sem svo leiðir okkur út til veglegrar hátíðarhalda. Á þessum degi eigum við að minna okkur á það sem aldrei fyrr að hér höfum við ekki aðeins þraukað mann fram af manni í ellefu hundruð ár heldur höfum við lagt okkar af mörkum og höfum sýnt metnað og dug. Í því sambandi er saga lands og saga kirkju samtvinnuð. Kirkjan hefur miðlað boðskap til þjóðarinnar sem hefur í sér frjómagn og kraft. Hann hefur eflt fólk til dáða og hvatt það áfram á tímum þrengingar og hann hefur leitast við að halda mönnum inni á veginum góða þegar hagvexti og gróða virðast engar hömlur settar.

Þessi þjóðhátíðardagur er þó merkilegur þegar horft er til þess skjóls sem við leitum í öðrum skilningi þess orðs. Hér er sérstaklega litið til nánasta umhverfis okkar. Ef fer sem horfir er þetta í síðasta skiptið í sögu lýðveldisins sem frelsi landsins er varið af erlendum her hér á Miðnesheiðinni. Næst þegar við fögnum afmæli lýðveldisins verður herinn að öllum líkindum farinn héðan. Nú er það ekki hlutverk þess sem hér stendur að taka afstöðu með eða á móti því hvort nauðsyn er af slíkri vernd. Ljóst má þó vera að skjól það sem af vopnum þessum hlýst er senn frá okkur tekið og leita menn nú annarra leiða til þess að endurheimta það og skapa hér það ytra öryggi sem talið er ásættanlegt.

Frelsið

Á lýðveldisdaginn er vert að leiða hugann að því frelsi sem dýrmætast er og skipti mestu máli og því frelsi sem við höfum barist fyrir og viljum verja með öllu því sem við eigum. Og þurfum að verja því frelsi því er stöðugt ógnað. Varnirnar eru þó af öðrum toga en tæki þau sem sveima hér oft yfir höfðum okkar og verða senn flutt á aðrar slóðir. Í dag eigum með rétti og sönnu að hugleiða þá takmarkalausu auðlind sem það er að vera uppréttur, sjálfstæður og frjáls. Það er sú kennd sem sjálstæðinu fylgir. Sú tilfinning að vera maður á meðal manna, ábyrgur gjörða sinna og metinn til jafns á við aðra.

Ótal sorgleg dæmi eru um það í henni stóru veröld um það hvernig gnægð náttúruauðlinda, góðmálma og olíu og fýsilegra ytri skilyrða hafa engu skilað þeim þjóðum sem þar eiga land nema meiri hörmungum, fátækt, ófriði og spillingu. Virðist þar oft ríkja öfugt orsakasamband. Því minna sem menn þurfa að hafa fyrir því að sækja gróðann því minni farsæld leiðir af honum. Jafnvel leiðir hann til bölvunar.

Vegna þess að hin sanna velsæld býr í hjarta okkar og huga. Sá barði þræll sem Arnas Arnæus talaði um í Íslandsklukkunni var meiri maður þjóninum feita vegna þess að í hjarta þrælsins átti frelsið heima. Þar rataðist skáldinu rétt orð á munn og hitti naglann á höfuðið í varnarræðu sinni fyrir því að menn eltu um of skjótfenginn gróða. Frelsið býr í hjarta okkar og þar fara líka fram átökin á milli aflanna góðu og illu. Hjörtu okkar eru sá vígvöllur þar sem tekist er á um frelsi eða fjötra.

Fjallræðan

Í texta Fjallræðunnar sem hér var lesinn áðan er að finna ómetanlegan liðsstyrk í þeim átökum. Gullna reglan er ekki aðeins dýrmæt leiðsögn í mannlegum samskiptum heldur er hún að sama skapi vegvísir að því hvaða augum við eigum að líta okkur sjálf. Að baki henni býr sú hugsun að það sem við sjálf teljum hæfa okkur sé að sama skapi öðrum samboðið. Þetta er einn hornsteinninn að þeirri menningu sem hér hefur þróast og við viljum varðveita. Menn eru jafnir frammi fyrir Guði. 

Sá skilningur býr vafalítið að baki skólastefnu Reykjanesbæjar þar sem segir: Starfshættir skóla mótist af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði, umhyggju og virðingu fyrir einstaklingnum. Þarna kemur skýrt fram hvaða meginþættir það eru sem eiga að stýra uppeldi barna hér í þessu góða samfélagi. Hið kristilega siðgæði sem hér er talað um er einfaldlega virðingin fyrir manneskjunni og umhyggjan fyrir náunganum.

Allir jafnir fyrir Guði Uppspretta þess og sjálfur kjarni er trúin á góðan Guð sem vill sköpun sinni vel. Við höfum vit á því að gefa börnum okkar góðar gjafir og við megum treysta því að Guð vill okkur allt hið besta. Víst slær það okkur orðalag Krists, er hann segir: „Fyrst þér sem eruð vondir hafið vit á því að gefa börnum ykkar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biður hann?“ En vonskan sem Kristur talar um verður best skilin með hliðsjón af því sem fyrr segir í ræðu hans: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?  Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?`Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“ Já, hér er komið að kjarna málsins. Þótt okkur hætti einatt til þess að setja okkur sjálf stalli ofar náunganum minnir Kristur okkur á það að sjálf kunnum við að vera með bjálka í eigin auga þegar við mænum á flísina í auga náungans. Og gullna reglan sem fylgir í lok þessa kafla ræðunnar ítrekar þetta og undirstrikar: „Allt það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.“ Þetta er vegarnestið sem kynslóðirnar hafa átt í mal sínum.

Þjóðkirkjan á Norðurlöndum

Þetta er ómetanlegur fjársjóður. Þetta er hið kristna siðgæði sem talað er um í skólastefnunni. Það er ekki tilviljun að á Norðurlöndunum þar sem evangelísk lúthersk þjóðkirkja hefur mótað samfélagið í hálft árþúsund hefur velferðarkerfið og umhyggjan fyrir einstaklingnum náð lengra en víðast annar staðar Þar hafa menn viljað koma á fót öflugu öryggisneti sem reist getur fólk við og búið því skjól og reisn þrátt fyrir að sjúkdómar eða ytri aðstæður rýri önnur lífsgæði þess.

Kemur þar til sú afstaða að hver manneskja sé dýrmæt – sá tónn sem sleginn er í heilagri ritningu og endurómar þar á hverri síðu: „Þetta er lögmálið og spámennirnir“ segir Kristur. Þetta er mikilvægasta lífsreglan, mikilsvægasta fórnin sem við getum fært á altari Drottins – að ala önn fyrir náunganum og hefja okkur ekki upp á þann stall að eitt gildi fyrir okkur en annað fyrir aðra.

Réttindi og skyldur

En í guðleysi því sem herjar á Norðurlönd, já og stóran hluta hins vestræna heims, sjáum við því miður enn betur hversu dýrmætur þessi boðskapur er því hann stendur illa einn og sér án þeirra lífsgilda sem hann sprettur upp af. Kristin trú kallar okkur til ábyrgðar. Hún minnir okkur á skyldurnar sem við berum hvert gagnvart öðru. Það er fyrsta hugsun hins kristna manns – að hugsa um hag náungans. En samtíminn einkennist af rányrkju og ofgnógt þar sem tilbeiðslan hefur beinst á aðrar brautir.

Víða er velferðin ekki það öryggisnet sem henni var ætlað að vera – ætluð til þess að gera fólki kleift að endurheimta sess og minna það á verðleika sína þrátt fyrir allt mótlæti. Nei, víða hjá nágrannaþjóðum okkar er velferðarkerfið nýtt sem hver önnur tekulind, réttindi sem fólk nýtir til þess að maka sinn krók. Á hverjum virkum degi í Svíþjóð er tíundi hver starfsmaður heima í veikindaleyfi. Óvíða mun þó heilsuhraustari þjóð vera að finna samkvæmt annarri tölfræði. Skyldi þó ekki vera að ástæða þessa sé sú að nú spyrja menn bara um rétt sinn en síður um skyldurnar? Skyldi vera að sú stöðuga áminning kristinnar kirkju að menn axli ábyrgð á náunga sínum hafi orðið undir í hávaða samtímans þar sem allt annar boðskapur er fluttur?

Ógnir frelsisins

Frelsi okkar eru aðrar hættur búnar en þær sem koma utan úr háloftum eða laumast upp að ströndum landsins. Óvinurinn stóri sækir að hjarta okkar, hann býr um sig sálu okkar. Ógnin sem stafar að frelsinu sanna er hið taumlausa og hömlulausa frelsi sem á sér eina reglu og það er að maka eigin krók. Og það er ekki gullin regla þótt hún snúist um það eitt að sanka að sér sem mestu af því gulli sem innan seilingar er.

Já, það er hið hömlulausa frelsi sem gengur út yfir öll mörk. Verðsetur mannslíkamann sem hverja aðra markaðsvöru. Færir heimilin í bagga skulda sem hækka aðeins og hækka – þrátt fyrir það að tekjurnar hafa aldrei náð slíkum hæðum sem nú. Í öllum þeim hávaða hljómar holur tónn. Holur tónn þess sem skynjar ekki æðri tilgang með lífi sínu en þann sem blasir við á auglýsingaskiltum og hljómar í þessum frösum sem líma sig í huga okkar í auðlærðum stefjum auglýsinganna.

Svona viljum við ekki hafa það

„Svona viljum við hafa það“ – segir í lofsöngnum skelfilega þar sem fólkið dansar trylltan stríðsdans innan um heimilistækin sem ljóma upp hvert af öðru! En svona viljum við ekki hafa það. Við viljum ekki dansa eins og kjánar í kringum allt þetta dót sem við vitum að verður innan tíðar verðlaust og gagnslítið.

Við erum ekki þjónar hins tímanlega við eigum að vera herrar sköpunarinnar. Ráðsmenn Guðs yfir viðkvæmri jörð sem þarf á allri okkar staðfestu að halda.

Þær liggja víðar ógnirnar og sumar eru þess eðlis að öll sú hátækni sem finna má í vopnabúrum stórvelda kemur þar að engum notum. Og þeirri skoðun deili ég með ykkur hér í helgidómnum á þjóðhátíðardeginum að þjóðin þurfi einnig skjól fyrir þeirri ógn rétt eins og hún leitar ráða til þess að verjast hinum ytri óvini.  Ógnin býr þar í brjóstum okkar sjálfra. Frelsið – sjálfstæðið sem Íslendingar börðust fyrir og áunnu sér á þeim tíma þegar barist var á heimsins vígaslóð er það dýrmætasta sem þjóðin á. Dýrmætara en allar þær auðlindir og allur sá gróði sem þjóðin getur að sér sankað. Og hið sanna frelsi byggir í senn á auðmýkt og ábyrgð.

Hinn sanni lofsöngur

Hér á eftir syngjum við hinn sanna lofsöng: Þjóðsönginn sem séra Matthías orti út frá 90. davíðssálmi. Þar syngjum við um hið eilífðar smáblóm sem kann það eitt að tilbiðja Guð sinn. Skáldið minnir á að hrokinn, sérhyggjan og hömluleysið eru ekki lykillinn að lífshamingju, farsæld og hinum æðri tilgangi. Auðmýktin fyrir Drottni er um leið lykillinn að því frelsi sem stendur ofar öllu því sem heimurinn veitir.