Við lifum á tímum allsnægta. Sú hugsun er sennilega ekki efst í huga okkar þegar við hugleiðum tíðindin sem berast úr heimsfréttunum eða rifjum upp samtöl sem við höfum átt við samferðafólk. Tónninn er fremur á hinn veginn enda er samanburðurinn sem við tökum oftar bundinn rúmi en tíma. Það er að segja, við berum okkur fremur saman við samtímafólk heldur en fyrri kynslóðir.
Mótuð til að tóra
Ég velti því stundum fyrir mér hvernig forfeður mínir og -mæður hefðu brugðist við ef þau fengju að vita að afkomandi þeirra, segjum í fjórða lið, gæti valið úr því nægtarborði sem mætir mér í verslunum og veitingahúsum. Já, fólkið sem lifði við hin þrengstu kjör hefði sennilega ekki getað gert sér það í hugarlund hvernig það er að ganga með innkaupakerru innan um drekkhlaðar hillur stórverslana og sækja þangað varning sem á rætur að rekja til fjarlægra heimshluta.
Þó er ég, og við öll, sennilega mótuð af því sem gerði fyrri kynslóðum kleift að þrauka í gegnum harðindi, lifa af á tímum hörmunga og já búa svo um afkvæmi sín að þau sjálf gætu tórt nógu lengi til að bera erfðaefni sitt áfram til framtíðar. Þegar ég missi stjórn á matarlystinni – segjum þegar ég fæ mjúkan ís í hendurnar með löðrandi saltkaramellu – þá hvarflar þessi staðreynd stöku sinnum að mér. Í hverri skeið fæ ég allt í senn, fitu, salt og sykur. Þá sjaldan fólk komst í slík gæði forðum hefur það gætt þess að torga sem mestu á sem skemmstum tíma.
Viðbrögð líkamans verða þau sömu. Mér finnst eins og ættartréð með öllum sínum kvistum og stofnum kinki kolli með velþóknun og hvetji mig til að leggja ekki frá mér dolluna fyrr en ég er búinn að hreinsa úr henni allt innihaldið!
Það er ekki að undra þótt við eigum erfitt með að hemja okkur í heimi gnægta. Líkaminn er jú mótaður af skorti og sendir okkur þau skilaboð að byrgja okkur upp af orku þegar við á annað borð komumst í slíkan forða. Vandi nútímans er auðvitað sá að fæðan er allt í kringum okkur.
Þetta er meðal þess sem fræðimenn hafa skoðað, nefnilega hvernig við erum mótuð og þróuð í þeim tilgangi að lifa af, þannig telja þeir margir að hægt sé að skilja og kortleggja mannlega hegðun. Svo þegar umhverfið er jafn ólíkt því sem mótaði okkur, er ekki að undra þótt hátterni okkar sé stundum undarlegt og háskalegt sé horft til þeirra sjúkdóma sem herja á nútímafólk.
Að metta fólk
Hér hlýddum við á frásögn sem fyrri kynslóðir hafa sennilega tengt betur við heldur en þær sem nú er uppi. Markúsarguðspjall segir reyndar í tvígang frá þeim aðstæðum þar sem mannfjöldi er staddur í óbyggðum og stefnir í óefni því enginn matur er fyrir allt fólkið. Já, tveimur köflum fyrr segir frá því þegar Jesús mettar fimm þúsundir. Það er eins og Markúsi liggi mikið á hjarta að koma þessum skilaboðum á framfæri, nefnilega að boðskapurinn sem Jesús flytur standi ekki einn og sér til að mæta þörf mannsins. Nei, sú hugsun hefur verið ríkjandi frá árdögum kristninnar og allt til okkar tíma að kærleikurinn miði ekki síður að því að mæta hungri og þorsta þeirra sem líða skort.
Og svo er það eitt með Biblíuna, nokkuð sem nútíminn tengir, held ég, ágætlega við. Í henni eru frásagnir sem minna um margt á slóðirnar sem við finnum í textum á internetinu, þar sem við getum fært bendilinn á orð eða setningar, smellt á og farið þá inn í aðra frásögn sem tengist þeirri sem við lásum. Sá tjáningarháttur er ríkjandi í ritningunni. Í þessu tilviki er vísað aftur til Exódus – sögunnar af því þegar Ísraelsmenn fóru úr þrælahúsinu til fyrirheitna landsins. Þar segir frá því þegar fólkið svalt en Guð lét brauð eða manna falla af himum ofan. Spámaðurinn Elísa vann svipaða dáð eins og sagt er frá í Annarri konungabók Gamla testamentisins. Hann mettaði hundruðir með tuttugu byggbrauðum.
Hér setur því Markús frásagnir af Jesú í það samhengi sem fólkið þekkti. Og sé horft aðra átt – til framtíðar í þessu samhengi, þá má vel sjá tengsl við síðustu kvöldmáltíðina þegar Jesús tók brauðið, blessaði það og gaf lærisveinunum að borða. Sá atburður er vitaskuld þrunginn merkingu. Í því samhengi sem hér hefur verið rætt um, er gjörningur sá að deila með vinum sínum brauði og víni, vísan í hið tímalausa og eilífa. Í Biblíunni er himnaríki gjarnan lýst með vísan í máltíð, þar sem kynslóðirnar mætast. Þar ríkir hvorki einsemd né hungur. Svipaða mynd má sjá í öðrum trúarbrögðum. Var ekki lífið í Ásgarði samfelld veisla milli þess sem vígamenn flugust á?
Kraftaverk
En þetta er ekkert venjulegt hjálparstarf. Þetta er vitaskuld ein af mörgum kraftaverkafrásögnum í guðspjalli Markúsar. Hann hampar mjög þeim atburðum þar sem frásögnin lýsir einhverju því sem við getum sagt að stríði gegn hinni náttúrulegu og eðlilegu framvindu mála í efnisheimi. Upphafið er jú þar sem því er lýst að Jesús lætur sér annt um fólkið. Svo aftur sé vísað í höfundinn þá finnum við fleiri dæmi þessi hjá Markúsi en hinum guðspjallamönnunum. Jesú sárnaði þegar lærisveinarnir meinuðu fólkinu að færa til hans börnin. Á krossinum hrópar Jesús á máli sínu, arameísku, Elóí lama sabaktani, Guð hví hefur þú yfirgefið mig? Það er ólíkt Jóhannesi þar sem Jesús segir af yfirvegun: „Það er fullkomnað“.
Markús lýsir tilfinningum Jesú á kraftmikinn hátt: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann“ segir frelsarinn. Gríska orðið splagkhnizomai (σπλαγχνίζομαι) er einnig notað til að lýsa líkamlegum þjáningum og vísar í innyfli manneskjunnar, eða splakhna á grísku. Já, það er djúpt á samkenndinni.
En viðbrögð lærisveinanna eru fyrirsjáanleg, þau einkennast af vantrú og efa. Þó hafa þeir orðið vitni að sambærilegu undri skömmu áður, þegar jafnvel enn fleiri fengu mat og var þó enn minna til skiptanna. Sem fyrr, getum við séð þá sem fulltrúa allra þeirra sem verða vitni að hinu stórbrotna og bregðast við með slíkum fyrirvörum. Það tengist orði sem á sennilega lítið upp á pallborðið í nútímanum, nefnilega syndinni. „Syndin er að þeir trúðu ekki á mig“ segir Jesús á einum stað. Seinni tíma hugsuðir hafa einmitt túlkað syndina á þá leið að hún felist í því að manneskjan sé kengbogin inn í sjálfa sig, hafi ekki kjark eða frelsi til að líta upp og sjá stóru myndina, geti ekki litið á veruleikann eins og hann er, þekki ekki Guð.
Í heimi skorts og háska
Þá er freistandi að grípa niður í samtímaspjall spekinganna. Það eru þessir fræðimenn sem rýna í huga manneskjunnar, langanir hennar og líkamsstarfsemi og tengja það allt við þá staðreynd að okkur skolar að landi hér og nú sem afrakstur harðrar lífsbaráttu. Einn þessara sérfræðinga er Donald Hoffman sem hefur helgað sig hugrænni sálfræði út frá þeim forsendum sem hér hafa verið ræddar.
Að hans mati er það ekki bara matarlystin, kynhvötin og annað því skylt sem rekja má til þessarar sögu allrar. Hofmann þessum er tíðrætt um skynjun okkar af heiminum. Jú, í heimi skorts og háska þarf að velja og hafna, segir hann. Það á ekki síst við um það sem við sjáum og heyrum. Við greinum aðeins lítinn hluta af veruleikanum, bara þann sem gagnast okkur í þessum ofangreinda tilgangi. Ljósið geymir fjölda lita sem við sjáum ekki, um lofthjúpinn óma tónar sem við heyrum ekki og lykt, rafboð og bragð – við finnum bara brotabrot af því sem til dæmis aðrar lífverur greina.
Þótt sjálfur hampi hann hinni vísindalegu aðferð, játar hann að við getum aldrei greint og skilið heiminn eins og hann er, bara eins og hann nýtist okkur í lífsbaráttu okkar. Hann líkir skynjun okkar af veröldinni við notkun okkar á tölvum. Við þekkjum fæst allan hug- og vélbúnaðinn sem er undir puttunum okkar þegar við vinnum í þessum tækjum. Við sjáum bara táknin á skjánum og þau nýtast okkur ágætlega.
Hvað greinum við?
Með sama hætti greinum við eingöngu það sem skynfæri okkar og heili telja gagnlegt þegar kemur að því að geta lifað í þessum heimi. Ef við ætluðum að greina allt það sem býr þar að baki hefði það reynst okkur ofviða því að endingu snýst þetta allt, segir hann, um að nýta sem best þá takmörkuðu orku sem lífveran hefur haft aðgang að í gegnum tíðina. Sýn okkar hefur því ekki þann tilgang að birta okkur veruleikann – aðeins að gera okkur kleift að lifa af.
Þessi tónn minnir á umræður heimspekinga um skynjun og veruleika. Sá prússneski, Immanuel Kant talaði jú um að við gætum aðeins skilið hlutina eins og þeir eru „fyrir okkur“ en ekki eins og þeir eru „í sjálfu sér“. Ber þar að sama brunni.
Við gætum því tekið sögum af kraftaverkum með svolítilli auðmýkt, það er, ef við föllumst á þessar forsendur. Og téður Hoffman veltir því einmitt fyrir sér hvernig hið andlega, já hvernig trúarbrögðin, hafa markvisst spurt hvor ekki sé eitthvað annað og meira þar að baki því sem við fáum greint og skynjað. Íhugun og bæn miðar einmitt að því að tengjast hinu tímalausa og því sem lýtur ekki lögmálum staðar og stundar.
Þannig getum við séð kraftaverkafrásögn Markúsar í öðru ljósi. Hún talar inn í aðstæður sem allt lífríkið þekkir og hefur mótað það fólk sem við erum, þótt aðstæður okkar séu blessunarlega betri en nokkurn tímann fyrr. Og hún mætir þeirri vitund að eitthvað annað búi að baki heiminum en takmörkuð skynjun okkar og rökhugsun leyfir. Já, ef við föllumst á þær forsendur þá er hún tímalaus og sígild. Hún á ekki síður erindi við fólk allsnægta en hin sem þekktu skortinn af eigin raun.