Jólabarn

Jólabarn

Við erum enn með augun á jötunni þar sem lífið bærist, en þar sem himneskir herskarar áttu sviðið í gær, er hið jarðneska farið að minna meira á sig.

Ljósið hefur heldur betur verið í umræðunni á mínu heimili þessa dagana. Sífellt erum við að spyrja um ljósið, hvenær von sé á því. Svo kom það í heiminn og þá voru hugsanir okkar bundnar því hvernig því liði, hvernig það bærðist og þroskaðist. Þetta ljós er í senn dýrmætt og viðkvæmt. Við megum ekki til þess hugsa að eitthvað komi fyrir það og við minnumst þess í bænum okkar.

Litla ljós!

Þetta er sumsé ekki stóra ljósið, sjálf sólin, sem í öllu sínu veldi færist ofar á himninum um þetta leyti árs. Nei, þetta er ,,litla ljós", svo nefnt, barn dóttur minnar, sem kom í heiminn degi fyrir vetrarsólstöður fjórum vikum fyrir tímann og hefur því þurft að dvelja ásamt foreldrum sínum á barnaspítalanum.

Heimurinn er ekki mildur staður fyrir lítið líf og öll umhyggjan og meðferðin sem það nýtur gengur einmitt úr á það að hlífa því við kulda, sjúkdómum og öðru því sem háskalegt er nýfæddu mannsbarni sem þar að auki kláraði ekki alveg fullan meðgöngutíma. Nei, svona lítið ljós þarf fullkomna umönnun og alúð.

Já, við fengum jólabarn, fjölskyldan, og þá bærast sterkar kenndir í brjóstinu. Þakklæti, gleði og einhver kennd af ríkidæmi og auðlegð sem stendur ofar öllu öðru. En svo um leið vanmetakennd og kvíði, uggur í brjóstinu sem fylgir því þegar nýtt líf fæðist og við skynjum það hvílíkur prófsteinn það er á samfélag og siðferði þess, hvernig við opnum því arminn og bjóðum það velkomið.

Jólabarn

Já, við höfum talað um litlu dömuna sem væntanlega yfirgefur spítalann í dag, sem litla ljós, eins og ekkert sé sjálfsagaðara. Við erum fjarri því ein um það. Við sjáum jafnvel fyrir okkur verk gömlu meistaranna af þeim atburði þar sem hirðar, vitringar safnast um jötuna ásamt þeim Maríu og Jósef og eina birtan á myndinni kemur þaðan.

Svona máluðu þeir líka í þeim löndum þar sem ekki mátti draga upp atburði guðspjallanna á mynd, Rembrandt færði atburðinn inn í hollenska baðstofu og skírskotaði ekki á nokkurn hátt til Bethlehem. Klæðnaður og heimkynnin voru bersýnilega úr hans samtíð. En listamaðurinn kunni að skapa þau hughrif sem fæðingin kallar á og hann lét birtuna lýsa upp af barninu og andlitin voru uppljómuð í orðsins fyllstu merkingu. Og myndin af fólki sem sat í hljóðri lotningu yfir nýburanum varð að nokkurs konar jólastefi þótt sjálfur hefði hann getað yppt öxlum og neitað öllum slíkum tengingum.

Í sömu hugljómun yrkir Jóhannes úr Kötlum í kvæðinu sem einmitt er jólalag ríkisútvarpsins í ár:

Nú er mér allur harmur úr hug því hvíta gyðjan sníður mér kufl úr snjó snýr strengi blárra geisla á boga barnsins sem fæðist í kvöld allt er nú hreint Íslandið, ég og ástin mín.

Jólin eru tími sterkra tilfinninga. Barnið stendur þar í miðjunni og eins og Jóhannes úr Kötlum kemst að orði þá verður það til þess að harmurinn hverfur og allt verður hreint.

Himneska og jarðneska

Nú er jóladagur. Hann hefur sína töfra þótt ekki sé hann jafn rækilega hafinn yfir tíma og rúm eins og sjálft aðfangadagskvöldið. Þegar það andartak rennur upp með klukknahljómi út um alla borg og bý verður til einhver helgi sem hefur okkur upp yfir stað og stund. Þar mætast fortíð og nútíð í því sem við köllum hátíð og við finnum fyrir einingu og samstöðu með systkinum okkar út um alla veröld. Aftansöngur í helgidómnum á því kvöldi helgast af tímaleysi andartaksins, fangar þær kenndir og gefur þeim dýpt og tengingu við uppruna sinn.

Margt hefur gerst síðan. Nú höfum við fengið tækifæri til að hlýða á fréttir og veruleikinn birtist okkur í sinni margbreytilegu mynd. Við tengjum okkur í samband við umheiminn og ekki er allt fallegt sem þar birtist. Heimsins grjót er kalt og hart eins og Laxness orti í hugleiðingu sinni um auðnuspor barns með móður. Hugleiðingar á jóladag draga nokkurn dám af því. Við erum enn með augun á jötunni þar sem lífið bærist, en þar sem himneskir herskarar áttu sviðið í gær, er hið jarðneska farið að minna meira á sig.

Lífið í jötunni birtist okkur einmitt á þann hátt, svo brothætt og hverfult, svo mikilvægt er að því sé hlúð, það verndað að því sinnt. Leitun er að öðrum eins prófsteini á siðferði okkar og hjartalag, bæði sem einstaklinga og samfélags, en einmitt það hvernig við tökum á móti hinum smáa og fíngerða sem á allt sitt undir umhyggju okkar.

Þá lesum við orðræðu Jóhannesar guðspjallamanns um ljósið sem skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Textinn er frábrugðinn þeim sem við lesum í guðspjöllum Lúkasar og Mattheusar af hinni þekktu sögu af Maríu og Jósef sem fæddu barnið og lögðu það jötu af því að eigi var rúm handa þeim í mannabústöðum. Jóhannes flutti erindi sitt fyrir söfnuð sem þekkti augljóslega þessa sögu og hann lagði út af sögunni með þeim hætti að barnið í jötunni varð ljósið sem kemur í heiminn.

Jólaguðspjall Jóhannesar

Svona ávarpar Jóhannes lesandann í útleggingu sinni á frásögn jólanna. Í orðum hans felst áminning um það hvernig við tökum á móti ljósinu og mikilvægt það er að við sinnum því hlutverki okkar að búa því góðan stað hér í heimi. Þessi orð eiga erindi til okkar sem nú lifum og hrærumst. Við eigum að láta boðskap jólanna brýna okkur í þeirri köllun hverrar kynslóðar að búa í haginn fyrir það ljós sem kviknar þegar nýtt líf kemur í heiminn. Það gerum við þegar við mætum neyð þeirra barna sem standa höllum fæti, þegar við veitum skýra leiðsögn, og sinnum gerum heiminn móttækilegan fyrir þau sem jörðina eiga að erfa.

Hver sá sem heldur á slíku ljósi í höndum sér finnur hversu ógnar viðkvæmt þar er. Tækjabúnaður og færni sérfræðinga væru gagnslítil ef ekki væri það aðdráttarafl sem veldur því að við erum vakin og sofin yfir ungviðinu. Nefnilega kærleikurinn sem er aldrei eins hreinn og sannur og þegar börnin eru annars vegar. Þær hugsanir hafa verið okkur ofarlega í huga þessi jólin. Og við skynjum þá um leið að tilgangur okkar allra er að búa heiminn vel undir það að taka á móti komandi kynslóðum. Megi jólahátíðin bæta okkur í því sístæða verkefni einstaklinga og samfélags.