Elskar þú mig?

Elskar þú mig?

Guðspjall: Jóh. 21.1-19 Lexia: Sálm. 116. 1-9 Pistill: Post. 4. 8-12

Kristur er upprisinn. Kristur er sannlega upprisinn. Þetta ætti sannarlega að vera reynsla lærisveinanna því að Jesús er nú með þeim árdegis á ströndinni samkvæmt guðspjallinu og steikir fisk og brauð handa þeim og það liggur við að lyktin ljúfa berist að vitum okkar sem hér erum samankomin í helgidómi Drottins norður við Dumbshaf við upphaf héraðsfundar í páskahretinu. Ég sé fiskmetið fyrir mér á diskinum heima í eldhúsinu á prestssetrinu með bráðnu smjöri og lauk. Ég fæ vatn í munninn. Ég elska steiktan fisk og steikt brauð sem ég lærði að meta eftir að ég kom norður í Þingeyjarsýslur til Húsavíkur en hvort ég elski Jesú? Það er nú spurningin.

Í guðspjallstextanum er dregin upp sérstaklega lifandi mynd af samfélagi Jesú og lærisveinanna eftir upprisuna, þá hann brauðfæðir þá líkt og hann hafði fyrrum gert. Hann býður þeim líkt og áður að kasta netinu eftir að þeir höfðu ekki fengið bein úr sjó eða vatni og netið fyllist af fiski öðru sinni. Er þetta ekki kunnugleg minning og mynd sem dregin er hér upp af Jesú og lærisveinunum í guðspjallstextanum?

Nú var samt allt gjörbreytt. Nýr tími var runninn upp. Nýr veruleiki kominn til sögunnar. Ef allt væri í lagi þá hlytu lærisveinarnir að sjá landslagið í nýju ljósi og finna til dýpri kennda en áður, sérstaklega í garð Jesú sem hafði sigrað dauðann og endurnýjað samfélag sitt við lærisveinana.

Hjörtu lærisveinanna hlutu nú að brenna sem aldrei fyrr, þó ekki líkt og fiskmetið eða brauðmetið á hlóðareldinum á ströndinni, heldur af fögnuði og gleði yfir að hafa heimt Jesú úr helju. Til þess að rannsaka hjörtu lærisveinanna eftir upprisu sína, afstöðu þeirra til sín á þessari stundu, þegar nýr veruleiki blasti við þeim, þá leggur Jesú nokkrar vel valdar spurningar fyrir þá til þess að athuga hvort þeir hefðu eitthvað lært, af píslarsögu hans, dauða og upprisu.

Fyrir upprisu sína spurði Jesú lærisveinana hver þeir héldu að hann væri? Eins og við vitum þá vafðist þeim tunga um tönn, nema Símoni Pétri sem rataðist rétt orð á munn er hann sagði að Jesús væri Kristur, sonur hins lifandi Guðs. Jesús sagði Pétur vera sælan fyrir vikið því að ekkert nema opinberun að ofan hefði opnað augu hans á þeirri stundu.

Nú svo skömmu eftir upprisuna gat ekki annað verið en að Símon Pétur hefði Jesú alveg á hreinu. Afstaða hans til Jesú á þessari stundu hlyti að vera á afskaplega hjartnæmum nótum.

Jesús byrjar með því að höfða til frumþátta í dagfari sérhvers manns, fæðunnar, samfélagsins og tilfinninganna. Öll þurfum við fæðu til þess að geta lifað af í þessum heimi og samfélag getum við ekki átt við nokkurra manneskju nema við tökum einhverja áhættu með því að sýna henni tilfinningar okkar. Mesta áhættan í tilfinningalegu tilliti fælist í því að fá kinnhest en það vakti nú ekki fyrir Jesú að fá einn slíkan heldur höfðaði hann til hins góða, fagra og fullkomna eins og hans er von og vísa. Hann hlyti því að fá jákvæð og góð viðbrögð hjá lærisveinunum, ekki síst Símoni Pétri.

Jesús bauð upp á steiktan fisk í aðalrétt og steikt brauð í eftirrétt. Hann tekur eftir því að þem finnst fiskurinn sérstaklega ljúffengur því að þeir gera sér fiskinn að góðu og og síðan brauðmetið og dæsa að því loknu eins og sæmir öllum þeim sem eru vel mettir á páskavökustund sem þessari í dagrenningu þar suður frá. Hann spyr því eins og hver annar maki sem matreitt hefur fæðuna á réttum tíma ofan í fjölskyldu sína: “Hvernig líkaði ykkur fiskurinn?” Afskaplega vel, sögðu þeir og struku hendi yfir maga sér, sérlega ánægðir. Þeir tóku síðan til við nýbakað, steikt og ilmandi brauðið, settu það í munninn og tuggðu það vel og vandlega til þess að finna til bragðsins og kláruðu hverja örðu af því. Og Jesús spurði þá hvernig þeim hefði líkað steikta brauðið. Þeir sögðu að brauðið væri eins og steikt brauð ætti að vera svo snemma að morgni dags, sérlega ljúffengt. Það liggur við að ég fái aftur vatn í munninn við tilhugsunina. Þeir litu á Jesú. Alls ekki með vandlætingarsvip heldur brá fyrir mikilli ánægju og þakklæti í augum þeirra. Jesús hélt áfram að skoða hjörtu þeirra sem hann einn sá, líkt og áður.

Þá spurði Jesú annarrar spurningar sem talin er gömul og mannleg en einnig kænskuleg, tvíræðin, blekkjandi: “Elskar þú mig, Pétur? Elskar þú mig?”

Í hvert skipti sem kona spyr manninn sinn þessarar spurningar og hann svarar: “Já, ég elska þig”, þá velti ég því fyrir mér hvað hann eigi við með þessu svari? Og þegar maður spyr konuna sína þessarar sömu spurningar og hún svarar: “Já, ég elska þig”, þá velti ég því einnig fyrir mér hvað hún eigi við með þessu svari. Eru þau með þessum svörum sínum að tala um hvort annað og það innilega hjartnæma og góða trúnaðartraust sem ríkir á milli þeirra eða eitthvað allt annað, eða blanda af þessu hvort tveggja?

Jesús spurði: “Elskar þú mig, Pétur?”

Símon Pétur sagði: “Já, Drottinn. Þú veist að ég elska þig” Það gætir vinalegs tóns í raddblæ Péturs en hann svaraði ekki þessari fyrstu spurningu Jesú með skýrari hætti. Pétur gæti hafa meint: “Ég elska þig vegna þess að mér þykir gott að vera með þér, eða vegna þess að fiskurinn sem þú matreiddir var frábær, eða vegna þess að brauðið sem þú steiktir var gott, eða vegna þess að ég elska sjálfan mig”.

Jesús spurði Pétur öðru sinni: “Elskar þú mig?” Aftur svaraði Pétur spurningunni með ófullnægjandi hætti. Hann endurtók fyrra svar sitt: “Já, Drottinn þú veist að ég elska þig”, án þess að útlista svar sitt nánar. Þó gætir nú nokkurrar spennu í rödd hans.

Jesús spurði hann í þriðja sinn: “Elskar þú mig, Pétur?” Nú fór að gæta hryggðar hjá Pétri vegna þess að Jesús tók svar hans enn ekki gott og gilt. Og þegar Pétur svaraði enn ekki spurningunni með fullnægjandi hætti að mati Jesú þá svaraði Jesús henni sjálfur og sagði: “Ef þú elskaðir mig í raun og veru, ef þú elskaðir nálgun mína gagnvart viðfangsefnum samtíðarinnar í raun og veru, ef þú elskaðir lífshætti mína og þann veg sem ég hef gengið þá lát af allri eigingirni og beindu frekar athygli þinni að öðru fólki og lát þér annt um það og fylgdu í fótspor mín!”

Lítum okkur nú nær og skoðum íslenskan veruleika eins og hann blasir við okkur í ljósi spurningar Krists. Eru ekki ýmsir sem skara eld að eigin “fiski” í þessu þjóðfélagi og láta sér í léttu rúmi liggja þeir sem eftir sitja með sárt enni og verðlausar eignir og komast fyrir vikið hvergi? Fyrir kosningar ber töluvert á ásökunum á báða bóga. Kvótabraskarar og eigendur eru gagnrýndir fyrir að lifa af fjármagnstekjum sínum og borga 10% skatt af þeim á með sjómaðurinn og fiskvinnuskonan borga rúmlega 38% skatt af sínum tekjum. Þetta þykir mér réttmæt gagnrýni og mér er hugsað til spurningarinnar góðu og ég velti því fyrir mér hvort hún eigi ekki rétt á sér sem innlegg inn í þessa erfiðu umræðu:

“Elskar þú mig?” Elskar þú mig, íslenska þjóð?

Sagði ekki Kristur: “Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra það gjörið þér mér?”

Vissulega búum við við fiskveiðistjórnunarkerfi, landbúnaðarkerfi, heilsugæslukerfi, stóriðjukerfi, menntakerfi og fleiri kerfi velferðar sem eiga samkvæmt bókinni að auka hagsæld og velmegun í þessu landi en taka kannski ekki sem skyldi á mannlegu þáttunum. Þegar ráðamenn þjóðfélagsins og stjórnendur fyrirtækja taka stórar ákvarðanir sem varða hag fólks til sjávar og sveita þá er hættan sú að ekki sé nægilega mikillar varkárni gætt á sumum sviðum, eiginhagsmunir nái yfirhöndinni á kosnað hagsmuna fjöldans. Það er ekki hægt að fullyrða að allir í þessu landi hugsi aðeins um eigin hag þó að töluvert margar raddir heyrist í þessa veru. Því að fólk sem lendir í verulegum vanda er oft umvafið fólki sem lætur sér verulega annt um það til líkama og sálar. Samt sem áður heyrast þessar raddir sem segja að skeytingarleysi og sjálfselsku gæti í þjóðfélaginu sem hafi m.a valdið því að fátækt sé að aukast. Atvinnulausum og öryrkjum fjölgi og tryggingakerfið nái ekki að tryggja þessu fólki mannsæmandi bætur. Það sé röng forgangsröðun hjá þeim sem stjórni málum sem valdi því að það sé ekki áhugi sem skyldi að bæta hag þessa fólks.

Við þessu þarf að bregðast á hverjum tíma og þar getur þjóðkirkjan haldið á lofti spurningu frelsarans Jesú Krists og hvatt til ábyrgra lífshátta í ljósi kristins manngildis þar sem sérhver manneskja er einstök í augum Guðs. Þjóðkirkjan á einnig að leitast við að svara spurningunni sjálf með því að auka enn frekar kærleiksþjónustu sína í garð þeirra sem stjórnvaldsákvarðanirnar bitna hvað harðast á. Það þarf að auka sálgæslu í garð atvinnulausra, þeirra sem eru fastir í vítahring fátæktar eða örbirgðar og örorku svo nokkuð sé nefnt. Þjóðkirkjan þarf að endurskoða og efla sína persónulegu nálgun þannig að sóknarbörnin um land allt finni sig umvafin og borin á örmum Krists, fyrir hendur ábyrgra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem sýna þannig í verki að þeir elski Jesú Krist.

Við segjum mörg að við elskum Krist. Hversu oft höfum við ekki komið saman í kirkjunni okkar til sjávar og sveita til þess að vitna um þetta í ræðu og söng í gegnum árin? Við höfum svo oft komið saman til þess að segja frá þessu á héraðsfundum. En svo leiðum við kannski ekki hugann að því í raun og veru hvað það merkir að elska Krist? Ástæðan fyrir því er ef til vill sú að við viljum helst ekki færa fórnir eins og sagt er. Kristur benti lærisveinum sínum á að þeir yrðu að afneita sjálfum sér til þess að þeir gætu raunverulega fetað í fótspor sín. .Erum við þess meðvituð að hann vill að við séum hendur hans og fætur, eyru hans og munnur í þessum heimi allar stundir? Bæði gagnvart maka okkar, börnum, sóknarbörnum og náunga okkar hver svo sem hann er. Þetta er ærið verkefni Þetta kostar fórnir, þ.e. við þurfum að endurskoða lif okkar og gefa honum meiri tíma og rúm í lífi okkar. Það eru ekki allir tilbúnir til þess vegna þess að við vitum ekki fyrir víst hvort það sem við fáum í staðinn sé jafngott. Fórnir er erfitt að færa en fullkomin ást gerir þær að gleði, sérstaklega innan hjónabandsins svo nokkuð sé nefnt.

“Elskar þú mig?”, spyr Jesús mig og þig. Okkur vefst tunga um tönn líkt og Pétri. En fagnaðarerrindið er það að Guð stígur þetta skref til okkar af fullkominni umhyggju líkt Jesús gerði gagnvart Pétri. Þrátt fyrir allt elskar Jesús okkur eigingjarna, veikburða, hrasgjarna menn og vill nota okkur til þess að kirkja sín megi vaxa og dafna í þessum heimi svo að rödd sín berist sem víðast.

Það á að vera köllun sérhvers kristins manns og þjóðkirkjunnar í heild sinni að leggja við hlustir eftir orði Krists og bregðast við því með því að halda vöku sinni gagnvart náunganum, hver svo sem hann er.

Eftir sem áður varir spurning Krists sem okkur ber að taka persónulega til okkar á hverjum tíma:

“Elskar þú mig?”

Svar mitt og okkar allra á ætíð að vitna um það í orði og verki að Kristur sé sannarlega upprisinn.