Míka-meik-mökum-mikið

Míka-meik-mökum-mikið

Meik og blóm eru ekki fyrirgefning, heldur yfirklór og yfirborðsafsökun, óígrunduð fyrirgefningarbón án undangenginnar iðrunar. Við meikum og mökum mikið í okkar samfélagi, en það ber oft minna á sannri iðrun.

Lexía:  Mík 6.6-8

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.
I. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég minnist þess þegar strákarnir mínir voru börn að ég gat átt það til að missa stjórn á skapi mínu við þá. Stundum skammaði ég þá eins og hunda og kom síðan á eftir og baðst fyrirgefningar. Mér fannst ég nokkuð góð mamma því það væru margir foreldrar sem bæðu börnin sín aldrei fyrirgefningar, heldur þumbuðust bara við þegar þeim hefði orðið eitthvað á. Einu sinni þegar mér var runnin reiðin og ég kom og bað einn strákinn minn fyrirgefningar á einhverju sem ég hafði sagt og gert neitaði hann að fyrirgefa mér. Þú ert alltaf að þessu,” sagði hann með tárin í augunum. “Þú æsir þig upp og svo kemur þú hérna á eftir og finnst það sjálfsagt að ég segi, “allt í lagi mamma.” En þetta er ekki allt í lagi. Þú særir mig. Ég ætla ekkert að fyrirgefa þér. Sonur minn hefur ekki verið meira en tíu, ellefu ára þegar þetta gerðist. En á þessu andartaki kenndi hann mér meira um fyrirgefninguna en ég lærði í fimm ára guðfræðinámi.

Það er óendanlega dýrmætur hæfileiki að geta beðist fyrirgefningar, að geta iðrast og séð annarra hlið. Það er líka óendanlega dýrmætur hæfileiki að geta fyrirgefið öðrum, að sjá að aðrir sem eru í kringum mann eru mannlegir og gera mistök. Það er svo dýrmæt von fólgin í því að geta slegið striki yfir það gamla. Það er svo gott að geta horft til framtíðar og lagt traust sitt á það að sá sem braut af sér skilji hvað hann gerði rangt og sé að vinna að því á áþreifanlegan hátt að slíkt komi aldrei fyrir aftur.

Fyrirgefning er ósk og traust til hins nýja og ókomna. Fyrirgefningin er andstæða beiskjunnar og hefndarinnar. Fyrirgefningin er ekki andstæða refsingarinnar og ábyrgðarinnar, heldur annar möguleiki og tilbrigði í stöðunni. Fyrirgefningin ætti alltaf að vera óvænti möguleikinn. Oftast á fyrirgefningin sér stað samhliða því að ábyrgð sé öxluð, brot játuð og refsing tekin út. Fyrirgefning á ekki að koma í staðinn fyrir refsingu samkvæmt hegningarlögum eða öðrum reglum samfélagsins. Það á ekki að leggja það á þau sem brotið hefur verið alvarlega á að krefjast fyrirgefningar frá þeim. En stundum finnur fyrirgefningin sér stað og farveg, jafnvel í alvarlegustu og grimmustu málum. Fyrirgefningin þrífst í frelsi en deyr þar sem hún er þvinguð. Fyrirgefningu verður ekki stýrt. Kollektubæn þessa dags sem var sungin fyrir okkur áðan hljóðar svona: Drottinn Guð, þú sem ert styrkur þeim sem á þig vona: Heyr í náð bænir vorar, veikra og dauðlegra manna, sem án þín erum vanmegna. Veit oss af náð þinni hjálp til að þóknast þér í vilja og verki. Kollektubænin talar um vanmátt og er okkur hollur leiðarvísir um það að fyrirgefning með valdi er ónýt fyrirgefning. Sá einn sem er vanmegna og máttlaus og hefur gengið í sig, getur beðist fyrirgefningar frá djúpi hjarta síns.

Það er líka mikill munur á afsökun og fyrirgefningu. Afsakanir geta verið á formlegum og fagmannlegum nótum. Maður biður yfirmann sinn afsökunar á mistökum, svo sem þeim að hafa mætt of seint í vinnuna og að hafa sett mikilvæg gögn í tætarann frekar en skjalaskápinn.  Svo lagar maður hjá sér verkferla og tekur sig á í vinnubrögðum. Það er hægt að biðjast afsökunar á mistökum án þess að sú afsökunarbeiðni varði innstu hjartarætur.

Fyrirgefningin, raunverulegt fyrirgefning hreyfir hins vegar við öllu því sem líf okkar er og gildismat er byggt á. Það er munur á fyrirgefningu og afsökunum, vegna þess að sönn fyrirgefningarbón brýst fram úr djúpi hjartans. Faðir, ég hef syndgað á móti himninum og móti þér, sagði týndi sonurinn í guðspjallssögunni sem við heyrum eftir hálfan mánuð hér í kirkjunni. Sumir segja að erfiðast af öllu sé að fyrirgefa sjálfum sér og kannski er það einmitt þess vegna sem við eigum oft svo erfitt með að biðja aðra um fyrirgefningu. Í síðara Korintubréfi standa þessi orð: Ef einhver er í Kristi er hann skapaður á ný. Hið liðna varð að engu, sjá nýtt er orðið til.” Í vissum skilningi hefur sá sem fyrirgefið er verið endurfæddur. Allt hið gamla er gleymt, og frelsið tekur við, frelsið til að skapa að nýju, búa til nýtt í stað þess að endurtaka hið gamla, ljóta og óheilbrigða.  Það er ekki sjálfsagt að fyrirgefa eða fá fyrirgefningu. Það getur verið erfitt að fyrirgefa. Stundum þarf maður margar atrennur til að fyrirgefa og stundum tekst það alls ekki. Það getur enginn ætlast til fyrirgefningar. Fyrirgefning sem veitt er stórkostleg gjöf sem hver og einn ætti að taka á móti eins og kraftaverki.

Fyrirgefningin er ekki sjálfsögð eða sjálfvirk og það getur verið hættulegt að flagga fyrirgefningunni án þess að iðrast. Sá sem biður um fyrirgefningu vegna þess að hann eða hún telur hana sjálfsagða, smám saman eyðileggur beiðnina. Hún verður minna og minna traustvekjandi í hvert sinn sem sömu mistökin eru gerð, vegna þess að ígrundunina vantar, viðurkenninguna á vandamálinu eins og AA menn segja. Og svo endurtaka mistökin sig aftur og aftur, hin brotlega eða hinn brotlegi kemur og segir fyrirgefðu og allt fer annan hring.

Konur í ofbeldissamböndum hafa oft talað um það að setja meik yfir áverkana sem eiginmaðurinn eða sambýlismaðurinn hefur veitt þeim. Daginn eftir kemur hann með blóm og biðst fyrirgefningar, allt er í lagi þar til aftur er kominn tími til að taka upp meikdósina og blómunum er stungið í vasann. Meik og blóm eru ekki fyrirgefning, heldur yfirklór og yfirborðsafsökun, óígrunduð fyrirgefningarbón án undangenginnar iðrunar. Við meikum og mökum mikið í okkar samfélagi, en það ber oft minna á sannri iðrun.

Þegar sonur minn snéri sér út í horn og neitaði að fyrirgefa mér fyrir að hafa enn einu sinni misst stjórn á skapi mínu, þá sá ég í sjálfri mér ofbeldismann með blóm. Þessi mynd breytti mér og viðhorfi mínu til sjálfrar mín. Ég gleymi henni aldrei eða þessum orðum, því sá sem biður fyrirgefningar án þess að hugur fylgi máli er litlu betri en sá sem aldrei biður fyrirgefningar. Ég hef stundum misst stjórn á skapinu síðan, en ég reyni mitt besta og ég legg mig fram um það að taka ekki út reiði og pirring á krökkunum og að gera ekki sömu mistökin aftur og aftur. Það komu brestir í myndina af fullkomnu myndina af mömmunni sem er alltaf svo góð af því að hún biður krakkana sína stundum fyrirgefningar. Ég skammaðist mín fyrir að misnota fyrirgefninguna.  Það heppnast ekki alltaf að stjórna skapinu, en ég er ekki eins samviskulaus og áður þegar ég kem til barnanna minna með fyrirgefninguna á vörunum.

II. Guðspjall dagsins segir frá ríka manninum sem vildi bara safna í hlöður í stað þess að njóta og gefa með sér. Og Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“ Þessi orð eru yfirleitt skilinn í ljósi efnahagslegra gæða og vinir Krists hvattir til að sýna gjafmildi.  Þetta guðspjall býður til dæmis upp á marga vistguðfræðilega vinkla um að auðsýna sjálfbærni og umhyggju fyrir náttúrunni í stað þess að hrúga upp drasli í kringum sig. En í dag langar mig frekar til að tala um andlegt ríkidæmi en veraldlegt. Mig langar til að velta því fyrir mér hver sé ríkur í augum Guðs. Fyrri ritningarlesturinn okkar í dag svaraði þessari spurningu. Þar spyr Míka spámaður hvers Guð væntir af okkur. Spurningin lýtur sérstaklega að þeim aðstæðum þar sem þjóðin Ísrael hefur snúist gegn Guði sínum, iðrast og vill ná aftur sambandi við guðdóminn. Hvað á sá að gera sem hefur brotið gegn Guði?  Hvernig getum við orðið rík í augum Guðs?

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.
Míka segir þeim sem til hans leita að þýði ekki að kaupa Guð með einhverjum fórnum. Guð hefur engan áhuga á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu, segir Míka. Þar með sker fyrirgefningin sig frá öllum hagfræðidæmum í fortíð og nútíð. Engin vöruskipti eru til sem geta gert upp skuld mína.

Svar Míka er þrískipt og hver liður heyrir til ákveðins liðar í ferli fyrirgefningarinnar. Í fyrsta lagi er okkur sagt að iðka réttlæti (mispat á hebresku). Það er þannig ekki nóg að vera fylgjandi réttlæti eða kvarta yfir því að það vanti. Þegar Míka segir þjóðinni sinni að gera rétt á hann við hið virka líf réttlætisins, þar sem óréttlæti kemur okkur við og okkur er ætlað að vinna gegn því með öllum mögulegum ráðum, til að mynda með því að standa vörð um þau sem eru valdalaus eða standa höllum fæti. Í prédikun í Bessastaðakirkju í febrúar s.l. sagði Sigrún Pálína Ingvarsdóttir: Í dag er ég óhrædd og inni í mér er stór, bjartur og fallegur logi sem enginn getur tekið frá mér eða slökkt. Í þessum loga er brennandi kærleikur til fólksins, lífsins og Guðs. Er það ekki svona sem réttlæti, starfar? Með björtum og fallegum loga sem beinist að fólkinu, lífinu og Guði? Hún segir ekki að hún hafi búið til þennan loga eða eigi hann. Við eigum ekki kærleikann, en við getum fundið fyrir honum. Það er þessi eldur sem gerir okkur lifandi, virk, elskandi og óhrædd til að standa með sjálfum okkur, nefna óréttlæti réttum nöfnum, en líka viðurkenna það sem við höfum gert rangt og taka afleiðingum af því í réttlæti, mispat.

Í öðru lagi segir Míka að næst í stöðunni sé að ástunda kærleika. Þetta orð kærleikur (hesed á hebresku) hefur í sér ótal blæbrigði af trú, von og kærleika sem miða að tengslum við Guð, maka sinn og þau önnur sem við erum tengd trúnaðarböndum. Við erum þannig hvött til að huga vel að þeim sem næst okkur standa, ekki aðeins með því að sleppa því að vera vond við þau, heldur með því að styrkja og næra þessi bönd með skilningi, hlýju og hreinskilni. Og að síðustu eigum við að ganga með Guði (halak á hebresku). Þessi gangur gefur okkur til kynna að þetta verkefni sé sístætt og aldrei lokið. Við getum alltaf lært meira af kærleika og réttlæti af Guði og hvernig við forum að því að iðka þessi góðu gildi í lífi okkar. Þannig verður við rík í augum Guðs af því að nýta okkur auðlegðina sem kemur frá Guði, auðlegð sem felst í að iðka réttlæti, að ástunda kærleika og að ganga á Guðs vegum.

III. Það er athyglisvert að þegar Míka talar um það hvernig við getum gert um sakirnar við Guð nemur straumur fyrirgefningar ekki staðar við almætti, heldur flæðir áfram yfir í tengslin við annað fólk. Kærleikurinn, réttlætið og gangan með Guði eiga sér ekki stað í félagslegu tómarúmi, heldur í samvistum við fólk, dýr og náttúru. Og kannski er erfiðast af öllu að iðka þessi dýrmætu gildi á þeim stað sem við erum viðkvæmust og berskjölduðust. Í fjölskyldunni, hvort sem er okkar nærfjölskyldu, okkar stórfjölskyldu eða þeim hópi af fólki sem við upplifum sem fjölskyldu og tengjumst kærleiksböndum. Það er svo mikla auðveldara að tala bara um réttlæti og kærleika í sambandi við guðdóminn og halda fjölskyldunni utan við þetta allt saman. En hvort viljum við Míka eða meik?  Yfirborðsblóm eða bjarta framtíð? Ætlum við að iðka réttlæti og kærleika og ganga á Guðs vegum, eða sýna sýndariðrun og skinhelgi gagnvart því sem við gerum rangt?

Fjölskyldur eru margvíslegar. Fjölskyldur er litlar og stórar, opnar og lokaðar, glaðsinna og þunglamalegar, samhentar og sundraðar. Sumar fjölskyldur líta vel út á yfirborðinu en undir niðri geisa styrjaldir og þöggun. Í öðrum virðast fjölskyldumeðlimir alltaf vera að kýta, en þegar á reynir stendur fjölskyldan saman eins og einn maður. Í sumum fjölskyldum er borin virðing fyrir öllum fjölskyldumeðlimur og sérstaklega passað upp á að þau valdamiklu og styrku veitist ekki að þeim litlu og máttlausu. Í öðrum fjölskyldum eru allir meðvirkir með þeim sterku og valdmiklu og lítill gaumur er gefinn að þeim sem eru særðir, hræddir og meiddir. Í sumum fjölskyldum eru engin leyndarmál. Í öðrum fjölskyldum eru þrúgandi leyndarmál bæld niðri, leyndarmál um drykkju, misnotkun og ofbeldi, og allir láta eins og þau séu ekki til. Í sumum fjölskyldum hafa tilraunir verið gerðar til að gera hlutina upp, en enginn vill heyra sannleikann og sannleikurinn er brotinn á bak aftur. Í öðrum fjölskyldum hafa sársaukafullir atburðir átt sér stað, en sárin eru gróin og hið brotna hefur verið lagað. Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? spyr Míka spámaður og svarar neitandi.

Eflaust þekkið þið dæmi um fjölskyldur eins og þær sem ég er að lýsa. Þessa dagana, þegar íslenska Þjóðkirkjan er að melta rannsóknarskýrslu Kirkjuþings sem kom út fyrir tveimur vikum, er mér fjölskyldur kirkjunnar ofarlega í huga. Jóhannesarguðspjall segir í upphafskaflanum að Guð hafi gefið öllum sem taka við Kristi rétt til að verða Guðs börn. Kirkjan er þannig fjölskylda að skilningi Biblíunnar og fjölskylduhugsun að baki söfnuði kristinna manna í sögu og samtíð. Þessari guðfræðilegu hugsun um það hvað felist í kirkjuhugsuninni fylgir ábyrgð. Stofnunum fylgir ábyrgð. Fjölskyldum fylgir ábyrgð. Og stofnunin kirkjan er hluti af stórri fjölskyldu. En hvernig fjölskylda er kirkjan?  Er hún heilbrigð og sterk, eða sjúk og meðvirk?  Stendur hún vörð um hin smáu, veikburða og varnarlausu? Fer hún vel með fyrirgefninguna? Á hún ríkidæmi í augum Guðs?

Þessi stóra fjölskylda kristninnar er ein, en hún er líka fjölskrúðug. Þar eru ættkvíslir og ættbogar og sumar kvíslirnar eru valdameiri en aðrar. Þar eru líka ýmis fjölskyldumynstur sem stundum ganga upp og stundum ekki. Í Þjóðkirkjunni eins og öllum samfélögum eru dæmi um frábær samskipti og hrikalega meðvirkni, um mistök og synd, um fyrirgefningar og afsakanir, um bjarta og brennandi loga og líka yfirborðskennda fyrirgefningu. Þar er bæði Míka og meik sem er makað mikið. Þessi ættkvísl kristninnar á Íslandi og sérstaklega sá hluti hennar sem lengstum hefur haft tögl og hagldir á í kreppu núna og þar þarf að eiga sér stað uppgjör, iðrun og hreinsun. Og ég bið ykkur öll sem elskið hana að biðja fyrir henni og gera henni til góða. Kannski hafið þið tekið þátt í að byggja upp fjölskyldu að nýju, hreinsa út hið slæma og óheilbrigða og efla virðinguna, gleðina og gjafmildina. Kannski hafið þið lent í því að segja frá ljótu leyndarmáli og horft upp á fjölskylduna klofna í meðvirkni og afneitun. Kannski hafið þið þurft að byggja upp fjölskyldu frá grunni. Kannski þekkið þið dæmin um fyrirgefninguna sem ég nefndi, fjölskyldurnar þar sem aldrei er beðist fyrirgefningar, fjölskyldurnar þar sem beðist er fyrirgefningar, en bónin er yfirborðsleg, almenn og án þeirrar dýptar sem þarf til að iðrun og fyrirgefning geti unnið sitt verk. Eitt djúpið kallar á annað, segir á einum stað í Sálmunum (42:8), þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig. Þannig verður fyrirgefningin til, þegar djúp Guðs og manns mætast, þegar djúp tveggja manneskja ná saman og bæði koma heil og ný frá boðabylgjunum. Sú fyrirgefning er alltaf ný, hún er kraftaverk sem kristnir menn kenna við Jesú Krist. Hún er ríkidæmi í augum Guðs. Hún er betri öllu meiki, og ilmar meira en sérhvert blóm. Hún er vegvísir til lífs í réttlæti, kærleika og að ganga á vegum Guðs.

IV. Þú særir mig mamma, sagði barnið. Ég ætla ekkert að fyrirgefa þér. Og barnið sagði satt og rétt frá. Það streittist á móti valdbeitingu og yfirborðsmennsku. Það bjó til rými fyrir heilbrigðari samskipti og kenndi móður sinni nýja hugsun um dýpt, einlægni og nýtt líf fyrirgefningarinnar. Í slíku barni býr ekki hræðsla, heldur bjartur og fallegur logi sem enginn má taka frá því.

Guð gefi okkur góðar fjölskyldur og góðar fjölskylduvenjur. Guð gefi að við biðjum ekki systkin okkar og börnin okkar hugsunarlaust og yfirborðskennt um fyrirgefningu. Guð gefi að við heimtum ekki að vera tekin í sátt, eða snúum við spilunum og breytum brotaþolanum í brotamanninn af því að hún eða hann hefur ekki treyst sér til að fyrirgefa brotið. Byrjum heldur á okkur sjálfum þegar við höfum gert rangt. Gerum iðrun, iðkum réttlæti og kærleika og göngum með Guði. Fyrirgefum okkur sjálfum, biðjum Guð um að taka við okkur í vanmætti okkar og öxlum ábyrgð, hvert í samræmi við sína skuld. Míka er betri en meik og blóm ofbeldisins. Og þá, aðeins þá verður það til sem Guð lofar: Ef einhver er í Kristi er hann skapaður á ný. Hið liðna varð að engu, sjá nýtt er orðið til.” Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.