Rósirnar 5

Rósirnar 5

Nú er laugardagur fyrir páskahátíðina. Altari kirkjunnar stendur autt eftir hinn langa föstudag - utan hvað 5 rósir minna okkur á sár Krists á krossinum. Jesús Kristur er í gröf sinni.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
23. apríl 2011

Nú er laugardagur fyrir páskahátíðina.

Altari kirkjunnar stendur autt eftir hinn langa föstudag - utan hvað 5 rósir minna okkur á sár Krists á krossinum.

Jesús Kristur er í gröf sinni. Samkvæmt latneska texta trúarjátningarinnar stendur að eftir dauða sinn hafi Jesús “descendit ad inferos” sem þýðir beint, “til þeirra fyrir neðan”. Gríski textinn segir “katelthonta eis ta katotata”, sem þýðir “til hins neðsta”. Í báðum tilfellum er um að ræða ríki hinna dauðu, hið neðra eða undirheima. Þessi dvalarstaður hinna dauðu heitir Hel á norrænum málum, Infernus á latínu, Hades á grísku og Sheol á hebresku. Frá Hel og infernus er komið nafnið Helvíti og Inferno sem nafn á dvalarstað hinna fordæmdu eftir andlátið.

Ekki er um slíkt að ræða hér, heldur hina fornu hugmynd um dvalarstað dauðra eftir andlátið. Með því að segja að Jesús Kristur hafi stigið niður til heljar, er játningin að undirstrika að hann hafi raunverulega dáið og verið algerlega á valdi dauðans eins og allir aðrir menn.

Þetta er byggt á nokkrum ritningarstöðum. Má þar nefna Postulasöguna 2:27 þar sem segir :” Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð".

Og einnig 1 Pét.3:19-20 : "Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim".

Margar túlkanir hafa verið settar fram í gegnum tíðina á þessari grein trúarjátningarinnar. Hún hefur meðal annars verið talin fela í sér þá trú að með því að stíga niður í ríki hinna dauðu hafi Jesús Kristur frelsað undan dauðanum og valdi hans alla þá sem fæddir voru fyrir komu Krists og höfðu því ekki heyrt um hann í sínu lífi. Jesús Kristur predikaði þannig fyrir hinum látnu og gaf þeim tækifæri til að trúa á sig, ef þeir völdu svo. Önnur túlkun á hinu sama er að með því að predika yfir öndunum hafi Jesú Kristur gefið öllum látnum á öllum tímum sem ekki höfðu heyrt hans getið, tækifæri til að trúa á hann og öðlast þannig eilíft líf.

Það sem við skynjum sem þrjá sólahringa í ríki dauðans nær út yfir alla eilífð í hel þar sem tími og rúm hverfa. Nánari túlkun á þessari kenningu er að á þegar við deyjum vöknum við í nýrri tilvist öll á sama augnarbliki. Hvort sem við dóum fyrir 1000 árum eða deyjum eftir 1000 ár. Dauðastundin sameinar okkur öll. Og því gat Jesús Kristur í hel predikað yfir látnum allra alda.

Þó að hel sé ekki sama og Helvíti, eða Gehenna á hebresku, það er, ekki staður hinna fordæmdu, þá segir ein túlkun þessarar greinar játningarinnar að Jesús Kristur hafi stigið inn í Helvíti til að sigra þar  hið illa og frelsa undan valdi þess allar dæmdar sálir sem vildu þiggja fyrirgefningu Drottins.

Önnur túlkun á þeirri kenningu er að Jesús Kristur hafi gengið inn í Víti til þess að enginn staður væri til þar sem hann væri ekki nærri og meðmönnunum í þjáningum þeirra.

Og svona að lokum. Hér skín í gegnum orðalagið hin forna heimsmynd. Samkvæmt henni er jörðin er flöt. Undir jörðinni er ríki dauðra. Þangað stígur Kristur NIÐUR. Yfir henni er himnaríki eins og kristalhvelfing. Þangað stígur Kristur síðar UPP. Seinna þróuðu menn hugmyndina um 7 víti undir jörðinni og sjö himna yfir. Allt eru þetta auðvitað táknmyndir síns tíma sem merkja aðra tilvist sem fátæk orð okkar ná ekki yfir.