„Kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur“

„Kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur“

Að breyttu breytanda mætti yfirfæra varnaðarorð Jeremía yfir á nútímann. Í Jerúsalem á tíma Jeremía var stjórnkerfið og innviðirnir eins og best var á kosið,að því er virtist og til grundvallar því öllu saman lágu lög sem endurspegla áttu vilja Guðs. En það dugði ekki til. Jafnvel þótt réttlætið væri orðað á bók, þá skorti upp á framkvæmdina. Þótt hinn glæsilegi helgidómur í Jerúsalem væri kallaður musteri Guðs, tryggði það ekki að í borginni væri vilji Guðs í hávegum hafður, að þar væri ástundað réttlæti. Að kalla ríki lýðræðislegt velferðarsamfélag og réttarríki virðist ekki heldur næga til að tryggja velferð allra, né duga til þess að verja réttindi farandverkafólks, sem hingað er komið um langan veg til þess að vinna störf, sem eru nauðsynleg til þess að „halda hjólum atvinnulífsins gangandi“.
Mynd

Prédikun í Háteigskirkju 5. júlí 2020
Ritningarlestrar: Jer 7.1-7; Róm 14.7-13; Guðspjall: Lúk 6.36-42 (Textaröð A, 4. sd. e. þrenningarhátíð 2020)

Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður. Amen.
„Því að vita ekki hvað gerðist áður en maður fæddist, það er að vera ætíð barn.“ Þessi orð hefur fornfræðingurinn Geir Þ. Þórarinsson eftir rómverska heimspekingnum Marcus Tullius Cicero í ágætu svari hans á Vísindavefnum við spurningunni Hvaða tilgang hefur það að fjalla um Rómverja fyrir menn á okkar tímum? Hann kemst að þeirri niðurstöðu að „þekking á klassískri fornöld sé, eins og önnur sagnfræðileg þekking, nauðsynleg til skilnings á þeim veruleika sem við búum í – hún sé hluti af því að skilja hver við erum, hvaðan við komum og hvernig nútíminn okkar varð til.“
Í hverri messu í kristinni kirkju er lesið úr Heilagri ritningu, Gamla og Nýja testamentinu. Almennt talað má að öllu leyti heimfæra það sem Geir segir um þekkingu á sögu Rómverja, að þekking á boðskap og heimi Biblíunnar sé nauðsynleg til þess að skilja hvaðan við erum, hvaðan við komum og hvernig nútíminn varð til, en þó ekki síst fyrir kirkjuna, til þess að hún sé sér meðvituð um hver hún er og fyrir hvað hún stendur og í nafni hvers hún starfar.
Ritningarlestrar og guðspjall dagsins í dag sýna okkur svart á hvítu að mannlegt eðli er samt við sig í dag sem í fornöld, óháð ytri framförum á svo fjölmörgum sviðum mannlífsins. Á meðan lesturinn úr Jeremía hefur réttlætið en þó aðallega skortinn á því til umfjöllunar, beina Pálsbréfið og guðspjallið spjótum sínum að dómhörku og hræsni mannsins.
Í lexíu dagsins fær Jeremía spámaður það verkefni að standa við hliðið að húsi Drottins, þ.e. musterinu í Jerúsalem, og flytja Jerúsalembúum varnaðarorð:
„Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“
Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað.“
Boðskapurinn er í raun tvíþættur: Annars vegar varar spámaðurinn borgarbúa við því falska öryggi sem þeir búa við á grundvelli hinnar opinberu guðfræði konungdæmisins, sem kveður á um að Jerúsalem sé ósigrandi þar sem Drottinn búi í musterinu. Hins vegar – og tengt hinu fyrra – brýnir hann landsmenn til þess að iðka réttlæti. Það sé forsendan fyrir því að Guð búi sér í raun stað í musterinu í Jerúsalem. Hinn ytri, formlegi rammi, musterisbyggingin með öllum sínum áhöldum, vígðum prestum og beintengingu við konungshöllina, er sem sé ekki nægjanleg forsenda fyrir hinni guðlegu nálægð og þar með tilvist ríkisins. Réttlætið er allt sem skiptir máli. Þessa staðreynd, að Drottinn sé í raun ekki nálægur í helgidómnum, sem var byggður handa honum og þar sem dýrkendur hans ákalla hann, tjáir höfundur textans meðvitað með því að nota mismunandi orð um musterið; annars vegar kallar hann það „hús Drottins,“ í því tilfelli þar sem Jeremía skal stilla sér upp við hlið þess, en hins vegar „musteri Drottins“ þegar hann varar við lygaræðunni: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“ Með orðanotkuninni undirstrikar höfundurinn muninn á hinu ytra byrði, byggingunni og öllu sem henni fylgir, og innihaldinu, ef svo má segja – hinni guðlegu nálægð. Því þrátt fyrir að musteri í Jerúsalem sé vissulega hús Drottins – það var óumdeilanlegt – þá var það ekki musteri hans, raunverulegur staður hinnar guðlegu nálægðar, á meðan ranglæti ríkti í samfélaginu.
Jeremía, líkt og aðrir spámenn á undan honum, sér og gerir sér grein fyrir að stjórnkerfi og innviðir, lög og reglur, eru engin trygging fyrir réttlæti. Réttlæti er magnþrungið orð og mikið notað og kannski erfitt oft og tíðum að átta sig á hvað er verið að meina með því. Það er mikið talað um félagslegt réttlæti og þá í samhengi umræðu um jöfnuð og ójöfnuð í samfélaginu, misskiptingu og fátækt. Orðið réttlæti er einnig grundvallarhugtak í réttarkerfinu eða í það minnsta í þeirri hugsjón að réttarkerfið sé réttlátt og tryggi framgang réttlætisins. En það er ekki sjálfgefið, eins og við vitum, og lög og reglur geta vissulega verið óréttlát, t.d. að því leyti að þau mismuni fólki á tilteknum forsendum.
Í hugsun Gamla testamentisins eru réttur og réttlæti samofin, enda mynda þessi orð oft orðapar og talað er um að einhver framfylgi rétti og réttlæti. Það getur verið erfitt að greina muninn í merkingu hebresku orðanna að baki „orðanna „réttur“ og „réttlæti“ enda hvort tveggja oft þýtt með sama orði á vestrænum tungumálum. Í okkar samhengi má segja að „réttur“ (mishpāṭ) merki góða og rétta framkvæmd stjórnsýslu, þ.m.t. í dómsmálum, en „réttlæti“ (ṣedāqâ) lögmálið eða viðmiðið sem liggur réttinum til grundvallar, sem í G.t. er ætíð vilji Guðs. Þetta er sama lögmálið og spekihefðin telur liggja skipan sköpunarinnar til grundvallar. En af því að „réttlæti“ er óhlutbundið hugtak og erfitt að ná utan um merkingu þess, er gagnlegt að bregða upp dæmi um réttlæti í verki til þess að átta sig á þeim veruleika sem orðið vísar til. Segja má að Job sé fyrirmynd hins réttláta manns, sem framkvæmir vilja Guðs. Hann hjálpar fátæklingnum og munaðarleysingjanum að ná rétti sínum, leiðir hinn blinda, styður hinn veika og framfærir fátæklinginn og ekkjuna (Job 29.12-15). Þar að auki lætur hann sér annt um ferðamanninn og útlendinginn og veitir honum skjól í híbýlum sínum (Job 31.31-32). Fyrir Job er eftirsókn eftir auði ekki markmið í sjálfu sér og því skaðar hann hvorki aðra né sjálfan sig við það að afla hans (Job 31.24-25) enda er sérstaklega tekið fram að hann misvirði ekki rétt hjúa sinna þegar þau gera kröfu til hans (Job 31.13). Þetta sýnir að í þrengra samhengi réttarkerfisins snýst réttlætið kannski fyrst og fremst um jafnan rétt málsaðila, óháð samfélagsstöðu, en almennt í gangverki samfélagsins, í samskiptum manna í millum, snýst réttlætið um það að auðsýna mannúð og mildi, iðka náungakærleika og vernda þá, sem standa höllum fæti, gegn ofríki.
Að breyttu breytanda mætti yfirfæra varnaðarorð Jeremía yfir á nútímann. Í Jerúsalem á tíma Jeremía var stjórnkerfið og innviðirnir eins og best var á kosið,að því er virtist og til grundvallar því öllu saman lágu lög sem endurspegla áttu vilja Guðs. En það dugði ekki til. Jafnvel þótt réttlætið væri orðað á bók, þá skorti upp á framkvæmdina. Þótt hinn glæsilegi helgidómur í Jerúsalem væri kallaður musteri Guðs, tryggði það ekki að í borginni væri vilji Guðs í hávegum hafður, að þar væri ástundað réttlæti.
Að kalla ríki lýðræðislegt velferðarsamfélag og réttarríki virðist ekki heldur næga til að tryggja velferð allra, né duga til þess að verja réttindi farandverkafólks, sem hingað er komið um langan veg til þess að vinna störf, sem eru nauðsynleg til þess að „halda hjólum atvinnulífsins gangandi“. Löggjafa og framkvæmdarvaldi hins lýðræðislega velferðarsamfélags, hvort sem er hér á landi eða annars staðar í Evrópu, hefur ekki auðnast að tryggja erlendu verkafólki vernd gegn þeim, sem hika ekki við að ráða það til starfa á forsendum, sem verður ekki lýst á annan veg en sem nútímaþrælahaldi.
Þjóðin fylgdist með hryllingi með eldsvoðanum á Bræðrarborgarstíg 1 þar sem þrír erlendir verkamenn létust og tveir voru lagðir inn á gjörgæsludeild. Skv. fyrstu fréttum benti allt til þess að það hafi af ásetningi verið kveikt í húsinu. En ef það reynist rétt, væri það þá eini glæpurinn í þessu máli? Við hljótum að spyrja okkur að því.
Fjölmargir aðilar hafa stigið fram síðastliðna viku og bent á vítaverðan skort á viðhaldi þessa sögufræga húss og rifjað upp að margoft hafi verið gerðar athugasemdir við ástand hússins og brunavarna í því. Eftirlitsaðilar segja að lög og reglur komi í veg fyrir að þeir geti gripið inn í í tilfellum sem þessum. Í þessu húsi hefur m.a. erlendu verkafólki verið leigðar vistarverur í húsnæði sem er í raun óviðunandi og hættulegt. Þessi harmleikur hefur sýnt við hve slæmar aðstæður á húsnæðismarkaði erlent verkafólk hefur þurft að sætta sig og viðtal í sjónvarpsfréttum við einn íbúa hússins, sem lifði brunann af, hefur rifjað upp þá smánarlegu misnotkun á erlendu vinnuafli sem óprúttnir atvinnurekendur gera sig seka um og flett var ofan af í fréttaskýringaþættinum Kveiki fyrir um einu og hálfu ári síðan.
Þegar séra Martin Luther King sat í fangelsi í Birmingham, Alabama, á páskum 1967 vegna baráttu sinnar fyrir réttindum blökkumanna, skrifaði hann hugleiðingar þar sem hann benti á að yfirborðskennd velvild meirihluta samfélagsins, sem þó veigraði sér við að taka eindregna afstöðu og grípa til aðgerða til stuðnings réttlætinu, væri að ákveðnu leyti skaðlegri en eindregin, hreinskilin andstaða. Við vorum yfirkomin af hneykslun eftir Kveiksþáttinn á sínum tíma. Almenningur og fulltrúar verkalýðsfélaga og stjórnvalda lýstu yfir áhyggjum sínum. En hversu djúpt rista þær áhyggjur og viljinn til þess að grípa til aðgerða sem stemmt gætu stigu við misnotkun erlends verkafólks? Þó að húsbruninn á Bræðraborgarstíg bendi til þess að lítið hafi breyst í þeim málum, þá vil ég samt ekki trúa öðru en að þessi atburður verði til þess að löggjafinn muni láta verkin tala og taka löngu úrelta vinnulöggjöf til endurskoðunar eins og orð eins stjórnarþingmanns í Vikulokunum í gær gefa vonir um.
Því að hér, í okkar íslenska samhengi, á það fullkomlega við, sem Janee Harteau, fyrrum lögreglustjóri í Minneapolis, sagði í þættinum um drápið á George Floyd, sem sýndur var á RÚV 1. júlí. Þegar hún var spurð að því hvort hún teldi að nú gætu orðið þáttaskil, ekki aðeins í löggæslu, heldur í umræðunni um kynþáttafordóma, þá svaraði hún: „Já, ég held það, rétta fólkið er farið að tala saman og skilur að það er ekki blökkumanna að laga þetta. Það erum við hin sem höfum völdin sem eigum að framkvæma þessar breytingar.“ Á nákvæmlega sama hátt er það ekki erlends verkafólks að þurfa að berjast fyrir réttindum sínum gagnvart óheiðarlegum vinnuveitendum, í framandi landi og í viðkvæmri valdastöðu, heldur er það þeirra sem fara með völdin í okkar umboði að framkvæma breytingarnar. Því að ég er sannfærður um að það sem við viljum langflest, sem búum í þessu landi, er að hér ríki réttlæti og að allir fái notið þeirrar velmegunar, sem hér ríkir.
Megi Guð styrkja okkur og styðja í því verkefni.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.