Krossinn í vegarkantinum

Krossinn í vegarkantinum

Tókuð þið eftir krossinum sem stóð við veginn á leiðinni hingað austur? Hann var þarna í vegarkantinum á þeim slóðum þar sem við erum vön að greina skilaboð í gegnum einfaldar myndir og viðurkenndar ímyndir úr menningunni. Skuggamyndir af fólki og skepnum, tölustafir, mismunandi form og litir – allt miðlar þetta til okkar upplýsingum rétt eins og þarna stæði samfelldur texti.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
30. október 2006
Flokkar

Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki. Konungsmaður bað hann: Herra, kom þú áður en barnið mitt andast. Jesús svaraði: Far þú, sonur þinn lifir. Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum. Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: Sonur þinn lifir. Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh. 4:46-53

Tókuð þið eftir krossinum sem stóð við veginn á leiðinni hingað austur? Hann var þarna í vegarkantinum á þeim slóðum þar sem við erum vön að greina skilaboð í gegnum einfaldar myndir og viðurkenndar ímyndir úr menningunni. Skuggamyndir af fólki og skepnum, tölustafir, mismunandi form og litir – allt miðlar þetta til okkar upplýsingum rétt eins og þarna stæði samfelldur texti.

Táknin á veginum

Það þykir ekki góðs viti að láta merkin fram hjá sér fara. Nei eitt af einkennum ábyrgra vegfarenda er einmitt það að fylgjast með þessum táknum þær sekúndur sem þau blasa við okkur, að vita hvað í þeim felst og svo auðvitað að fara eftir því sem þarna stendur. Því er ekki fráleitt að gera ráð fyrir því að stundum skjóti merkin okkur skelk í bringu. Stundum breyta þau hegðun okkar og stundum finnum við til sektarkenndar þegar við óhlýðnumst því sem þar stendur.

Það er freistandi að yfirfæra þennan táknheim umferðarmerkjanna á tjáningarform kirkjunnar sjálfrar sem hún hefur í tímans rás notað til þess að miðla til umhverfis síns. Víst höfðu táknmyndir kristninnar svipaðan tilgang og vísuðu til einhvers viðurkennds veruleika handan merkjanna. Þær heimfærðu boðskap ritningarinnar og kenningarinnar með myndrænum hætti rétt eins og umferðarmerkin vísa í lög og reglugerðir.

Krossinn og talan 24

Og inn á milli þeirra var kross, svartur á hvítum fleti og við hlið hans talan 24. Við vitum hvað hún merkir. Það er fjöldi þeirra sem hafa látist í umferðinni á þessu ári. Krossinn er þarna tákn fyrir dauðann. Sá er augljóslega tilgangur hans innan um allar merkingarnar sem standa þarna við vegarkantinn.

Sú merking hans er skýr í þessu samhengi og þarf svo sem ekki að koma til af illu. Krossar standa á kistum, á leiðum í kirkjugörðum, á grafljóðum og víðast hvar þar sem við leitumst við að fanga þau hughrif sem dauðinn veldur og takmörk jarðlífsins.

Krossinn flytur okkur dánartíðindin. Þetta kennimark kristinnar trúar minnir á dauðann. Það bendir til endalokanna. Krossinn verður að einhvers konar tákni þess fyrirvara sem menn neyðast til þess að setja við þau undur og stórmerki sem skynsemin fær áorkað. Allur búnaðurinn sem á að verja okkur við aksturinn, öll fræðslan sem beinist að okkur og öll úrræðin sem til eru til þess að fyrirbyggja hörmungar – þegar skeika flest hin dýpstu ráð – fyrir þetta stendur krossinn, krossinn og talan sem þar stendur fyrir aftan.

Dauði og líf

Krossinn hafði þessa merkingu upphaflega. Hann var dauðadómurinn og niðurlægingin. Sú mynd kann þó að hafa nýja merkingu á okkar dögum þegar við ræðum það stundum að trúin sé í kreppu. Víst fer sá hópur stækkandi sem sér í trúnni deyðandi afl sem skapar sundrungu og hatur og vill ryðja henni út úr menningunni. Og víst fjölgar einnig í þeim hópi sem réttlætir ódæðisverk með vísan til helgra rita og háleitra hugsjóna kristinnar trúar sem annarra trúarbragða. Í þeirra augum eru tengsl trúarinnar og eyðileggingarinnar sterk.

Í guðspjallinu sem hér var lesið gær er trúin ekki tengd dauðanum. Trúin verður til þess að lífið sigrar. Þar er lýst orðaskiptum Krists við konungsmann einn sem fól í hendur hans angist sína vegna veikinda sonar síns. Þær samræður eru lýsandi fyrir þá vídd trúarinnar sem oft gleymist í umræðu samtímans. Þær draga fram ákveðin grunneðli trúarinnar sem eru af allt öðrum toga en að ofan er lýst.

Eitt af lykilhugtökunum í þessum texta er auðmýktin. Kristur bendir á það við eigum ekki að grundvalla trú okkar á táknum og stórmerkjum. Hún er miklu fremur ákveðin afstaða til lífsins. Trúin felur það í sér að við setjum okkur sjálf ekki í öndvegi heldur skoðum við okkur sem hluta af ákveðnu samhengi. Við beygjum höfuð okkar fyrir einhverju því sem er æðra og lútum því í auðmýkt.

Auðmýkt og samhygð

Karen Armstrong sá afkastamikli höfundur rita á sviði trúarbragða lýsti því yfir í viðtali að sjálf geti hún ekki talist trúuð. En jafn gagntekin og hún er af trúarbrögðum líkti hún trúleysi sínu við það hvernig roskinn kennari í listdansi getur haft þekkingu og innsýn á eðli listarinnar án þess að hafa sjálfur hæfileikann til þess að sýna og fremja þau verk sem hann kennir öðrum. Því trúin er sannarlega göfugur eiginleiki segir Armstrong og gengur svo langt að halda því fram að sú grunnafstaða sem hún leiðir af sér sé í raun ein meginforsendan fyrir því að mannkynið geti átt framtíð fyrir sér í þessum heimi okkar.

Taka má undir þá skoðun. Þessa afstöðu sem hún talar um kallar hún transendens – eða það að ganga út úr sjálfum sér. Að hafa hæfileikann til þess að yfirgefa þá þröngu sýn sem eigin hagsmunir okkar og allar forsendur setja. Trúin kallar á auðmýkt og undirgefni – ekki fyrir hinu tímanlega og hverfula – heldur bendir hún til æðri veruleika og eilífðar sem setur mark sitt á afstöðu okkar til þess sem fram fer í kringum okkur.

Hvorki bókstafstrúin né trúleysið bjóða upp á þessa sýn. Bókstafstrúin misnotar göfugustu kenndir okkar og færir trúna í fjötra fastmótaðra siðvenja og skilyrtrar hegðunar. Trúleysið yfirlýst eða dulið skilur okkur eftir í heimi án tilgangs og æðri merkingar. Það kallar fram tilgangsleysi í stað þeirrar djúpstæðu tilfinningar að líf okkar sé þrungið merkingu og vísi til æðra samhengis.

„Þér trúið ekki nema þér sjáið tákn og stórmerki“, segir Kristur, og bendir um leið á það hvernig trúin á að spretta upp af hjarta mannsins. Trúin birtist ekki sem viðbrögð við stórkostlegum undrum.

Andartak á leið okkar

Þar sem við æðum áfram á hraðbrautinni birtist hann í nokkrar sekúndur, krossinn í vegarkantinum ásamt tölunni sem honum fylgir. Hvaða hugsun skilur hann eftir þegar hann er horfinn sjónum okkar? Er hann tákn um dauða og uppgjöf, mistök og nokkuð sem ætti ekki að geta átt sér stað? Til hvers eru guðfræðingar ef þeir velta ekki fyrir sér þeim táknheimi sem þarna er vísað í?

Er þetta setning, málsgrein, jafnvel heil predikun? Eru þetta jafnvel andstæður? Kallast þær á – auðmýktin fyrir hinu æðra, trúin sjálf sem krossinn getur táknað og fórnin sem við höfum fært í ár vegna lífsstíls okkar? Eða er hann tákn fyrir þann fyrirvara sem við setjum á verk okkar og afrek? Allur búnaðurinn sem á að verja okkur við aksturinn, öll fræðslan sem beinist að okkur og öll úrræðin sem til eru til þess að fyrirbyggja hörmungar – þegar skeika flest hin dýpstu ráð – er það þetta sem hann minnir okkur á, krossinn og talan sem þar stendur fyrir aftan?

Krossinn minnir okkur á það hvernig lífið sigraði dauðann. Tákn dauða og ósigurs varð sigurtákn og merki þeirrar afstöðu að kærleikur Guðs er með okkur í hverjum þeim kjörum sem við finnum okkur í. Krossinn er til marks um það að í þjáningum okkar mætum við skilningi og meðlíðan Krists sem talar inn í hjarta okkar í skilningi þess sem sjálfur hefur mátt þola þjáningu og dauða. Þetta höfum við predikað í sexhundruð sumur og gott betur en það!

Krossinn í vegarkantinum

Krossinn og talan 24 senda okkur margvísleg skilaboð. Þau kunna að vekja okkur til umhugsunar um lífsháttu okkar og þau gildi sem við veljum öðrum fremur: Veltu því fyrir þér hvaða dóm líf okkar mun hljóta á komandi öldum – ef þá verður einhver til að fella slíkan dóm. Á hverju ári deyja jafn margir í umferðinni á Íslandi eins og létu lífið af völdum galdraofsókna á þriggja alda tímabili. Þetta er fórnin sem við færum í nafni lífshátta okkar.

Skoðaðu þessar andstæður: Auðmýktina sem leiðir af trúnni og fórnina sem við leggjum fram á altari tækni og hraða, mannslífin sem við fórnum á ári hverju og allar þær raunir sem þeim fylgja.

Krossinn í vegarkantinum – ef til vill fangar hann vel hlutskipti trúarinnar í samtímanum. Hann grípur athygli vegfarenda nokkur andartök og fær þá til þess að íhuga líf sitt og vegferð. Hann minnir þá á takmörk sín og bendir á ýmsa hnökra sem fylgja lífsháttum okkar og því hvernig við skipum í forgang í lífi okkar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.