Án þess að vænta neins í staðinn

Án þess að vænta neins í staðinn

Biðjum: Ljúk upp augum okkar, Drottinn, að við megum skynja dásemdirnar í lögmáli þínu. Amen.

Lúkas 14.12-24

Biðjum: Ljúk upp augum okkar, Drottinn, að við megum skynja dásemdirnar í lögmáli þínu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.“ Ég veit ekki hvort þið hafið heyrt þessa setningu einhvers staðar eða séð einhvern ganga í bol með þessari áletrun. Þetta er lífsmottó margra: Að gera ekkert fyrir þau sem gera ekkert fyrir aðra, eða kannski öllu heldur: að gera ekkert fyrir þau sem gera ekkert fyrir mig. Hvað fæ ég út úr þessu eða hinu? er þá spurt.

Í daglega lífinu erum við reyndar gjarnan vön þessu í samskiptum. Oftast viljum við vera í jafningjasamskiptum við vini okkar eða ættingja, sem fela í sér að við hugsum sem svo: Síðast bauð ég í matarboð, nú er komið að þeim. Síðast hringdi ég eða sendi skilaboð til að óska til hamingju með afmælið, þau eiga að gera það sama fyrir mig. Við hjálpuðum þeim að flytja og pössuðum krakkana fyrir þau, þau geta gert það sama fyrir okkur.

Þetta er ekki slæmt í sjálfu sér. Við gætum jafnvel sagt að allt hagkerfið okkar sé byggt upp á slíku kerfi. Ekki má gleyma kostum þess þegar heilu raðhúsin, bílskúrarnir eða fjárhúsin rísa þegar laghentir menn skiptast á vinnu. Þetta er ágætt svo langt sem það nær.

En ristir lífið ekki dýpra en að vera kaup kaups – greiði fyrir greiða, matarboð fyrir matarboð, vinna fyrir vinnu og auga fyrir auga, tönn fyrir tönn – eða hvað?

Er þetta grundvöllur lífsins, er þetta hagkerfi Guðs ríkisins?

Jesús Kristur er á öðru máli. Hann er staddur í fínu boði þegar hann segir við gestgjafa sinn:

Þegar þú gerir veislu, bjóddu þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum því að þeir bjóða þér aftur, segir Jesús, og þú færð það endurgoldið. En bjóddu fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér.

Og svo segir Jesús þessa furðulega merkilegu dæmisögu um veisluna þar sem boðsgestirnir skrópa. Þetta gerist sem betur fer ekki oft í veruleikanum þó að til séu sársaukafullar sögur um börn sem hafa þurft að sæta því að bekkjarfélagarnir taki sig saman um að mæta ekki í afmæli þeirra. Og í sögunni finna boðsgestirnir sér allir einhverjar afsakanir fyrir að mæta ekki: Einn var að kaupa sér akur, annar var að kaupa naut, sá þriðji – og þetta er uppáhaldsafsökunin mín – sá þriðji var að eignast konu og má ekkert vera að því að mæta í veislu, hann þarf að sinna konunni!

En ef lífið er kaup kaups, auga fyrir auga og greiði fyrir greiða, þá mætum við þegar vinur okkar býður í fermingarveislu! Eða finnum okkur allavega betri afsökun til að skrópa en að kenna nýju konunni um það!

En hvað gerist svo?

Hvað gerist eiginlega þegar boðsgestirnir mæta ekki, þegar kerfið um kaup kaups og gjöf til gjalda gengur ekki lengur upp, þegar þarf að stokka spilin alveg upp á nýtt?

Þá birtast heiðursgestir Guðs ríkisins:

Fátækir, blindir, haltir, örkumla
- þau sem eru á botninum í samfélaginu;
þau sem er ekki boðið í neinar veislur,
þau sem ekki geta endurgoldið greiðann.

Hér er okkur stillt upp við kjarnann í þeim lífsstíl sem Kristur kennir okkur:

Að gera gott án þess að vænta neins í staðinn, heldur einfaldlega af því að það er hið góða og rétta.

Við skulum taka dæmi:

Unglingurinn sem heimsækir aldraða manneskju á hjúkrunarheimilið og gefur henni gjöf tímans án þess að vænta neins í staðinn.

Miðaldra konan sem gefur sig með hlýju og brosi að samstarfsmanneskju sem er bitur og einmana og kann ekki að endurgjalda með öðru en hnýfilyrðum og skömmum – en þarf samt á félagsskapnum að halda.

Laghenti maðurinn sem vinnur í flísalögnum fyrir þann sem ekki getur lagt neitt á móti vegna fötlunar sinnar – en þarf samt að búa einhvers staðar.

Námskona á Íslandi sem gefur af takmörkuðu fé sínu til skólagöngu nauðþurfta barns í Afríku sem hún mun aldrei hitta og mun aldrei fá neitt í staðinn.

Allt þetta fólk styrkir hagkerfi Guðs ríkisins. Þessar gjörðir hjálpa okkur að meina það sem við segjum í Faðir vorinu: „verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni“

Móðir Teresa gefur okkur þessi góðu heilræði (lausl. þýð. ÞA):
Fólk er oft ósanngjarnt, óskynsamt og sjálfsmiðlægt. Fyrirgefðu því samt.
Ef þú sýnir umhyggju, þá kann fólk að saka þig um að duldar og eigingjarnar hvatir ráði för. Sýndu því samt umhyggju.
Ef þér farnast vel, muntu ávinna þér nokkra ótrúfasta vini og nokkra sanna óvini. Stefndu samt að velfarnaði.
Ef þú ert heiðarlegur og einlægur gæti fólk reynt að blekkja þig. Vertu samt heiðarlegur og einlægur.
Það sem þú verð mörgum árum í að skapa gæti fólk rifið niður yfir nóttu. Skapaðu það samt.
Ef þú finnur æðruleysi og hamingju, gætu ýmsir orðið afbrýðisamir. Leitaðu samt hamingjunnar.
Hið góða sem þú gerir í dag, verður oftar en ekki gleymt að morgni. Gerðu samt hið góða.
Gefðu það besta sem þú átt til, og það mun aldrei nægja. Gefðu samt þitt besta.
Því að þegar upp er staðið, þá er þetta aðeins milli þín og Guðs. Þetta var aldrei milli þín og hinna hvort sem er.

En athugið, gott fólk, að við erum ekki að safna okkur punktum hjá Guði fyrir góð verk. Hagkerfi himinsins byggir ekki á punktasöfnun eins og viðskiptahvatakerfi á bensínstöð, heldur á náð og miskunnsemi og kærleika. Það byggir á elsku, sem er „ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika“ eins og við heyrðum í pistli dagsins úr 1. Jóhannesarbréfi (3.18).

Og Guð hefur sjálfur gengið alla leið í þeirri elsku. Jesús Kristur hefur sannarlega dáið á krossinum fyrir okkar syndir og risið upp frá dauðum. Hann hefur unnið það verk fyrir okkur sem við getum aldrei endurgoldið. Svo býður hann okkur í veisluna á himnum og hefur lagt ALLT í sölurnar til að geta boðið okkur. En hann veit líka að margir munu ekki þiggja boðið. Margir munu vera of uppteknir í ræktinni eða í símanum eða í vinnunni til að þiggja boðið. Margir verða of sannfærðir um eigin þekkingu og takmarkalausan mátt vísindanna til að þiggja það. Margir munu hæðast að þessu boði í veislu Krists, smána hann og niðurlægja fyrir að dirfast að bjóða sér inn í kærleikssamfélagið við Guð.

En hann elskar samt. Og hann deyr samt á krossinum og rís upp fyrir þau öll og fyrir okkur öll og heldur bara áfram að bjóða og bjóða og bjóða í veisluna sína – án þess að vænta neins í staðinn. Og hann getur ekki annað, því að Guð er kærleikur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.