Að fyrirbyggja nýjan harmleik

Að fyrirbyggja nýjan harmleik

Missir getur verið sár. En úrvinnsla hans er eitthvað sem við þurfum að gefa okkur að. Við þurfum að taka frá tíma og hlúa að þeim viðkvæmu kenndum sem í brjóstinu búa. Ef ekkert er gert til að mæta sorginni …
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
15. október 2017

Sem prestur, tek ég eðli málsins samkvæmt þátt í mörgum athöfnum. Athafnir eru líka hluti af mínu daglega lífi. Ég held því fram að athafnir séu mikið þarfaþing, nauðsynlegar og mögulega mæti þær þörf sem leynist djúpt í sálinni. Á heimilum þar sem lífið er í góðum skorðum fara slíkar samverur fram reglulega. Mikill munur er jú á því að safnast í kringum matarborðið, gefa sér tíma til máltíðar eða þar sem hver snæðir fyrir framan sinn skjá.

Athafnir gefa líf

Hið fyrra er athöfn, hið síðara er eitthvað allt annað, hálfgert athafnaleysi. Hið fyrra sameinar fólk og gefur tækifæri til að læra og kynnast hvert öðru. Við getum líka kallað það, þakkargjörð. Með því að taka frá stund í erli dagsins, með því að helga athyglina fólkinu sem situr með okkur, næringunni sem við látum inn fyrir varir okkar – flytjum við þakkir fyrir samfélag og mat, þetta tvennt sem við getum ekki lifað án.

Og hér erum við samankomin til athafnar. Umsjónarkonur styrktarfélagsins Gleymmérei hafa undibúið hana af alúð og kærleika. Við hér í Neskirkju erum afskaplega þakklát að fá að taka þátt í henni með ykkur og um leið er tilefni til að leiða hugann að því hvað hún skiptir í raun miklu máli.

Bjó sorg í sálinni?

Fyrst langar mig að segja ykkur litla sögu. Sem prestur hef ég margsinnis setið fundi með fjölskyldum þar sem undirbúin hefur verið útför. Einstaklingar hafa lokið ævigöngu sinni og hópurinn deilir með prestinum hvað eigi að standa í minningarorðum. Stundum hef ég fengið að heyra sögur af því að amma gamla eða afi hafi alla tíð verið einræn, ekki gefið mikið af sér og í raun hvergi kunna betur við sig en með kaffibollann í eldhúsinu með gömlu gufuna í gangi.

Og svo er farið yfir lífshlaupið eins og vera ber á slíkum fundum. Þá kemur það stundum á daginn að fólk hefur orðið fyrir miklum missi einhvern tímann á lífsleiðinni, misst maka, séð á eftir barni yfir móðuna miklu. Fætt andvana barn eða misst fóstur eftir langa meðgöngu. Og hvað skyldi hafa verið gert í framhaldi? Enginn kann svar við þeirri spurningu en nærtækt er að hversdagurinn hafi tekið við, störf í frystihúsinu eða önnur lífsbarátta.

Athafnir, kæru vinir, geta skipt sköpum, ekki bara þegar við þökkum fyrir það sem er okkur dýrmætt og skiptir máli, heldur líka þegar við horfum inn í tómið og okkur finnst eins og tilgangsleysið hellist yfir okkur. Það þarf ekki að vera eins og þessi hér, í stórum sal með söng og ýmsum ávörpum. En, rétt eins og máltíðin, þá þarf að taka frá tíma. Gefa sér tóm til þess að syrgja, tóm til að gráta og stundir þar sem við finnum fyrir því að við erum ekki ein með þær kenndir.

Þegar fólkið spyr sig skyndilega að því hvort amma gamla eða afi hafi ævina alla þurft að glíma við löngu liðið áfall, þá lítur það líf þess í nýju ljósi. Það spyr sig hvort eðlislundin hafi ekki endilega verið lokuð heldur hafi sorgin setið í sálinni og aldrei tekin frá stund til að vinna úr henni. Þegar málum er svo háttað, stöndum við frammi fyrir nýjum harmleik. Sumt er jú þess eðlis að við það verður ekki ráðið. Missir getur verið sár. En úrvinnsla hans er eitthvað sem við þurfum að gefa okkur að. Við þurfum að taka frá tíma og hlúa að þeim viðkvæmu kenndum sem í brjóstinu búa. Ef ekkert er gert til að mæta sorginni á sér stað harmleikur númer tvö.

Þess vegna verður seint gert of mikið úr stundum eins og þessari og starfi samtaka á borð við Gleymmérei.

Æðruleysi

Hér er unnið út frá þeirri hugsjón sem birtist okkur í hinni kunnu bæn sem hér var lesin og við kennum við sálft æðruleysið. Það að við sætta okkur við það sem við getum ekki breytt. Hvað er það? Jú, það eru liðnir atburðir, fólk og fyrirbæri sem við höfum ekki áhrif á. En svo biðjum við um styrk til að breyta því sem við getum breytt.

Hverju getum við breytt? Jú, við getum unnið með okkur sjálf og við getum breytt ókomnum stundum. Loks biðjum við um vit til að greina þar á milli. Já, æðruleysisbænin er eins og haldreipi sem við getum gripið til þegar okkur finnast allar bjargir bannaðar. Já, sannarlega höfum við ekki tök á því að breyta því sem orðið er. Eftir sem áður er máttur okkar mikill, til uppbyggingar og farsældar.

Sjálf höfum við hjónin misst fóstur. Þrisvar sinnum höfum við gengið í gegnum þá reynslu, í eitt skiptið þegar meðgangan var meira en hálfnuð. Því fylgir sorg og nístandi tómleiki þegar beðið var eftir því að fóstrið væri fjarlægt. En við nutum þeirrar blessunar að geta tekið frá tíma til að hlúa að þeim sáru kenndum. Það skiptir öllu máli.

Og það er hlutverk þessarar athafnar sem við tökum þátt í núna. Það er mikill harmleikur og því fylgir mikil harmur að missa fóstur. Og lífið heldur ekki endilega áfram, ekki a.m.k. í þeirri merkingu að allt verði eins og áður. Við tökum sorgina með okkur, vinnum með hana. Finnum við hvernig litla lífið sem ekki náði að dafna, lifir með okkur í sálinni eins og öll sú reynsla sem mótar okkur. Þar sem við berum gæfu til að vinna með þér sáru kenndir verður reynslan til þess að dýpka okkur, auka okkur þakklæti á björtum stundum lífsins og hjálpa okkur að vera þeim stuðningur sem þarf á okkur að halda. Sorgin kallar á slíka vinnu, í raun athafnir þar sem við horfumst í augu við það sem orðið er og breytum því sem við getum breytt. Þá verður mótlætið friðarvegur og við höldum lífinu áfram í ljósi trúar, vonar og kærleika.

Megi góður Guð blessa starf samtakanna Gleymmérei og vera með ykkur öllum sem hér eruð saman komin í gleði og sorg.