Helgisiðir aðventunnar

Helgisiðir aðventunnar

Er ekki vert að skoða þetta allt nánar? Finnum fyrst nýja texta sem túlka betur eftirvæntinguna. Af nógu er að taka í guðspjöllunum og þá ekki síður í gamlatestamentinu. Þar eru fyrirheitin í bragðmiklum textum spámannanna. Það er afar góður undirbúningur fyrir jólin að lesa þá og ekki síður vegna þess að þeir færa okkur svo vel heim sanninn um að koma Krists í heim var vel undirbúin og þáttur í ráðsályktun Guðs um endurlausn mannsins og endursköpun alls lífsins á jörðunni.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
18. nóvember 2015

Í áranna rás hef ég hugsað aftur og aftur um það að við þyrftum að endurskoða litúrgíu aðventunnar. Mér sýnist að með jólaföstunni hafi kirkjan upphaflega verið að taka undir með þjóðlífinu á útbreiðslusvæði sínu og gert t.d. dyggð úr því að halda við sig í mat eftir að minnka tók á nægtaborði uppskerutímans og haustslátrananna; rétt eins skortur útmánaðanna fékk helgun iðrunarinnar og yfirbótarinnar með föstuákvæðum sínum. Þetta birtist svo að sínu leyti í helgisiðunum.

Nú eru aðrir tímar og jólafasta er framandi flestu fólki. Allt annað er uppi á teningnum núna. Aðventan birtir stigvaxandi hátíðarhald því nær sem dregur jólum. Kauptíð í því skyni að gleðja aðra og sjálfan sig og svo þessi merkilega og tiltölulega látlausa fullkomnun í faðmi fjölskyldunnar eftir mögulega heimsókn í aftan- eða náttsöng á jólanótt. Fólkið hverfur af hinum almenna vettvangi og inn í sitt hús; gengur jafnvel um á náttfötunum heima alla daga nema þá til að skreppa til náinna ættingja. Nautn góðs matar, bóklestur eða not fjölmiðlaðrar menningar marka dagskrána að öðru leyti.

Þá tölum við í kirkjunni um að vaka því hið óvænta getur bundið enda á þetta allt, dómur gengur yfir og rödd hrópandans heyrist í eyðimörkinni!

Er þetta ekki illilega úr takti við það sem fólkið upplifir og ólíklegt að koma fagnaðarerindinu til skila?

Við höfum skömmu áður, á síðustu dögum kirkjuársins, verið að fjalla um dauðann og það að vera trú allt til dauða og svo um dóminn yfir lífi mannanna. Sláum svo þennan fallega hljóm á fyrsta sunnudegi í aðventu um komu konungs gleðinnar, og síðan eins og við höfum sagt eitthvað óhæfilega skemmtilegt, förum við út í miklu skuggalegri sálma aðra sunnudaga aðventunnar.

Af hverju göngum við ekki heilshugar með þjóðinni inn í eftirvæntinguna? Af hverju aukum við ekki á gleðina og nautnina yfir því fagra í menningunni. Við kannski stelumst til að kveikja með krökkunum á aðventukransinum í messunum og leyfum kórnum að taka þar eitthvað af því sem hann hefur verið að æfa vegna aðventukvöldanna og -tónleika. Já, þar og í aðventusamkomum barnanna er einmitt allt að gerast!

Nóg eigum við af fallegri tónlist sem á einmitt að blómstra í messunum út í gegn. Ég veit að sumum söfnuðum halda engin bönd og þetta er allt komið í fullan gang, en svo skýst presturinn um í kuldabláum hökli og les: Vakið því þér vitið ekki ... og ræðir í prédikun sinni um alvarlegt ástand í þjóðfélaginu og hvað margir kvíða jólunum og líður illa þá. Fólkið fær slæma samvisku af því að vera svona glatt og sælt og nýtur sín ekki eins og glöð Guðs börn eiga að gera.

Er ekki vert að skoða þetta allt nánar? Finnum fyrst nýja texta sem túlka betur eftirvæntinguna. Af nógu er að taka í guðspjöllunum og þá ekki síður í gamlatestamentinu. Þar eru fyrirheitin í bragðmiklum textum spámannanna. Það er afar góður undirbúningur fyrir jólin að lesa þá og ekki síður vegna þess að þeir færa okkur svo vel heim sanninn um að koma Krists í heim var vel undirbúin og þáttur í ráðsályktun Guðs um endurlausn mannsins og endursköpun alls lífsins á jörðunni.

Á eftir þessu renna svo sálmarnir inn í messuna eins og á færibandi. Yndislegir sálmar í röðum og einhver þekkilegustu tónverk listasögunnar sem í skýfalli.

Litur aðventunnar er ekki fjólublár, hann er grænn og rauður! Grænan notum við hins vegar langt fram á haust og gott að skipta honum út fyrir aðventuna og þó fyrr hefði verið. Notum því rauðanI Hann er til í flestum kirkjum og allt of lítið notaður. Hann er litur andans og trúarbaráttunnar. Andinn sveif snemma yfir vötnunum og er nærvera Guðs með mönnunum á öllum tímum. Hann er viskan og krafturinn í orðum spámannanna, hann er með Ísrael í raunum hans og gleði, til hans vitnar Jesús í sinni  fyrstu prédikun heima hjá sér í Nasaret og hann stígur niður yfir hann í skírn Jóhannesar. Já og notum svo hvíta litinn ekki aðeins um jólin heldur allt fram að lönguföstu, allan jólasveiginn á enda, (nema rautt á gamlaársdag og biblíudaginn).

Endurskoðaða almenna lestraskráin RCL sem kom við sögu á námstefnu í helgisiðum  í Háteigskirkju á dögunum leggur til lestur samstofna guðspjallanna ár af ári með Jóhannesarguðspjall á hátíðum. Um þá háttsemi forðum eru enn menjar í lestraskrám okkar norrænna manna. Í upphafstextum guðspjallanna eru einkar heppileg prédikunarefni fyrir aðventuna og tengjast fyrirheitum gamlatestamenstisins fallega.

Aðventukransinn getur verið mikilvægur til að gefa tilhlökkun barnanna merkingu. Heiti kertanna tekur á mikilvægum atriðum aðventuboðskaparins og gæti jafnvel vísað veginn um textavalið. Þó er líklega ástæða til að íhuga röð þeirra nánar þó mestu sé haldið. Þá þyrfti kertasöngurinn fagri að taka efnislega mið af þessum þemum.

Hugsunin um bágstadda á vissulega heima á aðventunni þó ekki þannig að alið sé á sektarkennd, heldur á gleði góðs gjafara og samstöðu. Samskot ætti að taka í öllum kirkjum hvern sunnudag og gætu til að byrja með tengst aðventunni með Hjálparstarf kirkjunnar í forgrunni og tengist þá því jákvæða sem við erum að gera í sóknum kirkjunnar. Heimsóknir frá kirkjunni til þeirra sem ekki komast í samfélag hennar ættu að vera partur aðventuhefðarinnar, hvernig sem því yrði svo fundið form.

Aðventukvöld og jólatónleikar utan messunnar eru með þessu í einlægum samhljómi við helgihald kirkjunnar og Guði sé lof fyrir það þegar kirkjurnar opna dyr sínar fyrir því góða fólki sem syngur fegurðinni og gæskunni lof í söng sínum svo fullkomnun líkist.

Þessum hugleiðingum til stuðnings má nefna að margar austurkirkjurnar halda ekki föstu fyrir jól og hún mótaðist í Frankaríki á sjöttu öld, og sömileiðis að nágannakirkjurnar hafa þegar sýnt tilburði í þá átt sem hér er gert.

Hér fylgir tillaga að endurskoðaðri lestraröð og er valið að breyta sem minnstu í þeirri hugsun að þetta megi þróa og prófa. Allir textar tillögunnar eru notaðir ýmist hér eða á Norðurlöndum eða Englandi.

Breytingin snýst um að  fara að orðum fyrirennarans og láta hann sjálfan minnka en Krist vaxa. Hann fær því aðeins einn sunnudag í framlínunni 3. sd. Þema 1. sd. er haldið, fyrirheitin dreginn skýrar fram 2. sd. og áþreifanleg von um uppfylling þeirra dregin fram 4. sd.

Skoðið þetta, prófið og þróið og látið vita af hugsunum ykkar og reynslu.

Tillaga að textum aðventunnar (Vinnutillaga):

Þemu aðventusunnudaganna

Sjá konungur þinn kemur                  Jerúsalemkertið          Betlehemskertið

Hinn fyrirheitni                                     Spádómakertið           Spádómakertið

Fyrirrennarinn                                     Skírnarkertið                Hirðakertið*

Frelsarinn                                            Betlehemskertið          Englakertið*

* Eru til vitnis þess sem hefur orðið og tilheyra því fremur jólunum sjálfum.

1. sunnudagur:  Hann sem kemur

Hitur: Hvítur. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.

Vers vikunnar: „Sjá, konungur þinn kemur til þín.“ (Sk 9.9)

57 Slá þú hjartans

59 Gjör dyrnar breiðar

67 Nú kemur heimsins hjálparráð

Kollekta: Vér biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og veit oss vernd, að vér leysumst úr þeim háska sem yfir oss vofir vegna synda vorra og frelsumst fyrir hjálpræði þitt, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

LEXÍAN  Sakaría 9:9-10 Friðarhöfðinginn

9Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola. 10Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum verður eytt. Hann mun boða þjóðunum frið og ríki hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðar. PISTILLINN  Ef 3:14-21  Bæn um styrk og skilning

14Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, 15sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, 16að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur 17til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. 18Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, 19sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu. 20En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum,21honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

GUÐSPJALLIР Matth 21: 1-11 Jesú fagnað

1Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina 2og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. 3Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ 4Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: 5Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.  6Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, 7komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. 8Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. 9Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ 10Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“ 11Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“

2. sunnudagur:  Sonur Guðs

Litur: Rauður. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.

Vers vikunnar: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.·“ (Lúk 21.28)

46 MeðJesú byrja ég

51 Þú Kristur ástvin alls sem lifir

54 Dýrlegi Jesús

Kollekta: Vek þú, Drottinn hjörtu vor, að þau greiði einkasyni þínum veg og oss veitist að þjóna þér hreinum huga

LEXÍAN  Jes 52.7-10 Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: „Guð þinn er sestur að völdum.“ Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina, hrópa fagnaðaróp allir í einu því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar. Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu, rústir Jerúsalem, því að Drottinn hefur huggað þjóð sína, endurleyst Jerúsalem. Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða og allt til endimarka jarðar munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

PISTILLINN  1Jóh 1.1-4 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor verði fullkominn.

GUÐSPJALLIР Jóh. 1:26-34  Hann sem kemur

26Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, 27hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“ 28Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

29Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. 30Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér.31Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“ 32Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. 33Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. 34Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“

3. sunnudagur  Fyrirrennarinn

Litur: Rauður. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.

Vers vikunnar: „Greiðið Drottni veg“ „Sjá, Guð yðar kemur“ (Jes 40.3 og 10)

210 Ó syng þínum Drottni

70 Kom þú kom, vor Immanúel

345  Kristur mér auk þú enn

Kollekta: Vér biðjum þig, Drottinn: Hneig eyra þitt að bænum vorum og lýs upp myrkur hugskots vors fyrir náð vitjunar þinnar, þú sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

LEXÍAN 

Sefanía 3:14-20   Guð snýr við högum lýðs síns

14Hrópaðu af gleði, Síonardóttir! Fagnaðu hástöfum, Ísrael! Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem. 15Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér, hann hefur hrakið fjendur þína á brott. Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér, engar ófarir þarftu framar að óttast. 16Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem: „Óttastu ekki, Síon, láttu ekki hugfallast. 17Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hin frelsandi hetja. Hann mun fagna og gleðjast yfir þér, hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi og hugga með kærleika sínum 18hina langþjáðu.“ Ég mun víkja frá þér ógæfunni, smáninni sem á þér hvílir. 19Á þeim tíma vitja ég þeirra sem hafa þjakað þig. Ég safna saman höltum og tvístruðum og ég mun snúa smán þeirra í sæmd og frægð um alla jörðina. 20Á þeim tíma safna ég yður saman og á þeim tíma leiði ég yður heim, því að ég geri yður fræga og nafnkunna meðal allra þjóða veraldar þegar ég sný við högum yðar

PISTILLINN

Fyrra Þessaloníkubréf 3:9-13

9Hvernig get ég nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði er hann lét ykkur veita mér? 10Ég bið nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá ykkur og bæta úr því sem áfátt er trú ykkar. 11Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg minn til ykkar. 12En Drottinn efli ykkur og auðgi að kærleika hvert til annars og til allra eins og ég ber kærleika til ykkar. 13Þannig styrkir hann hjörtu ykkar svo að þið verðið óaðfinnanleg og heilög í augum Guðs, föður vors, þegar Drottinn vor Jesús kemur ásamt öllum sínum heilögu.

GUÐSPJALLIР Matt 11.2-11  Sá sem koma skal Guðspjall: Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“ Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“ Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað: Ég sendi sendiboða minn á undan þér, hann á að greiða þér veg. Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.

4. sunnudagur  Drottinn í nánd

Litur: Rauður. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.

Vers vikunnar: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)

86 Heiðra skulum vér herrann Krist

213 Mín sál þinn söngur hljómi

91 Englakór frá himnahöll

Kollekta: Vér biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og hjálpa oss, svo að allt hið góða, sem syndir vorar hindra, megi framgang fá sakir náðar þinnar, þú sem lifir og rikir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

LEXÍAN  Míka 5:1-4  Friðarhöfðinginn frá Betlehem

1En þú, Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael. Ævafornt er ætterni hans, frá ómunatíð. 2Því verður þjóðin yfirgefin þar til sú hefur fætt er fæða skal. Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans snúa aftur til Ísraels lýðs. 3Hann mun standa sem hirðir þeirra í krafti Drottins, í mætti nafns Drottins, Guðs síns, og þeir óhultir verða. Þá munu menn mikla hann allt til endimarka jarðar. 

PISTILLINN   Filippíbréfið 4:4-9 Drottinn í nánd 4Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. 8Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 9Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.

GUÐSPJALLIР Lúkasarguðspjall 1:39-49  María og Elísabet

39En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. 40Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. 41Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda 42og hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. 43Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? 44Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.45Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.“

Lofsöngur Maríu

46Og María sagði: Önd mín miklar Drottin 47og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. 48Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. 49Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert og heilagt er nafn hans. 50Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. 51Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. 52Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, 53hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara. 54Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, 55eins og hann hét feðrum vorum, Abraham og niðjum hans, eilíflega.  56En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.

Sálmar til nota á aðventunni

68 Skaparinn stjarna

72 Nóttin var sú ágæt ein

80 Bjart er yfir Betlehem

90 Það aldin út er sprungið

94 Jesús þú ert vort jólaljós

108 Ó, hve dýrleg er að sjá

110 Hve fagurt ljómar ljósaher