Meira maður

Meira maður

Páll Skúlason nefndi að það væri ekki hlutverk menntunar að gera okkur að meiri mönnum, heldur meira að mönnum.

Nú er uppstigningardagur genginn í garð, þessi merkisdagur og rétt áðan röktum við tilefni hans í sjálfri trúarjátningunni. Hann er einn þessara vor-fimmtudaga sem skipta upp hjá okkur vinnuvikunni og skilur föstudaginn eftir umkringdan frídögum. Dagurinn er helgaður himnunum og hann er dagur aldraðra í kirkjunni.

Lokakaflinn

Guðspjallið sem við lesum á uppstigningardegi kemur fyrir undir lokin hjá Lúkasi. Þar er komið að nýjum kafla í hjálpræðissögunni. Kristur er á leið frá sínum kæru vinum og nú standa þeir eftir með verkefnið stóra - að kristna alla heimsbyggðina. Hann gefur þeim fyrirheiti og færir þeim verkfærið undraverða, sjálfa bænina sem þeir áttu svo oft eftir að leita til í verkefnum sínum og mótlæti. Fer vel á því að helga dag þennan þeim sem komin eru á þann stað á ævinni sem kalla má tíma uppskeru. Margir segja þetta besta tímann þar sem mannssálin er rík að reynslu og hugurinn af minningum.

Uppstigningadagur er helgaður þessum tíma lífsins og um leið ákveðnum hápunkti í hjálpræðissögunni sem orðaður er með þeim hætti að Kristur hafi stigið upp til himna í viðurvist sinna kæru vina.

Já, steig upp til himna, segjum við eins og ekkert sé sjálfsagðara um frelsara okkar. Nágrannaþjóðirnar eiga meira að segja enn gagnsærra orð um þennan dag - Kristi himmelfartsdag heitir hann, himnafarardagur Krists og þar ríkir einmitt sumartíð um þetta leyti - ekki dyntótt heimskautavor eins og hjá okkur. Þá horfa menn jú upp til himins, þar sem ný árstíð er gengin í garð, árstíð birtu og yls, ævintrýra og langþráðs leyfis eftir vinnuveturinn.

Þetta er dagurinn þar sem við dveljum í gamalli heimsmynd, ekki satt? Hvað er annars upp og niður í himingeimi? Saga ein hermir frá því, að eitt sinn eftir messu á uppstigningardegi hafi eðlisfræðingur nokkur, dyggur kirkjugestur, tekið prestinn á tal yfir kaffibollanum. Hvað segirðu - sagði eðlisfræðingurinn, steig Jesús upp til himna? Jú, mikil ósköp sagði klerkur. Sáu menn bara undir iljarnar á honum? Einmitt svaraði guðsmaðurinn. Hvernig er það, spurði þá eðlisfræðingurinn - er hann ekki enn á leiðinni upp?

Von að spurt sé því okkar kynslóðir vita, að í himingeimi er auðvitað ekkert upp og ekkert niður. Þær áttir eiga aðeins við innan aðdráttarsvið jarðar. Upp, er ekki annað en áttin frá miðju þessarar plánetu en við erum ekki miðja alheimsins og því verður hugtakið merkingarlaust þegar áhrifa hennar hættir að gæta. Svona geta hugtökin breyst og við kunnum að spyrja okkur að því hvað það þýði yfir höfuð að Jesús hafi stigið upp eins og dagurinn dregur heiti sitt af.

Horfir upp En tilveran er sem betur fer ekki svo klippt og skorin að þar sé aðeins rúm fyrir eina og afmarkaða sýn.

Önnur saga greinir frá því þegar lítil stúlkuhnáta kom hlaupandi til móður sinnar og spurði hana - hvernig maðurinn hefði orðið til? Jú, svaraði móðirin, Guð skapaði manninn í sinni mynd, karl og konu. Svo fór hún til pabba síns og spurði hann hins sama. Maðurinn þróaðist af öpum á löngum tíma, svaraði faðirinn. Stelpan varð alveg rugluð á þessu og bar þetta undir mömmu sína. Já, sagði hann að þú værir komin af öpum? spurði hún á móti, það er nú bara í föðurættina! Hvað um það, tungan leyfir stundum rými fyrir ólíka orðanotkun. Við tölum um upp og niður eins og ekkert sér sjálfsagðara um fyribærin í alheimi. ,,Sólin kemur upp í austri og í vestri sest hún niður,” orti hinn sjötugi Megas. Já sólin hækkar á himni í dýrð vorsins þótt auðvitað sé það snúningur jarðar sem veldur þessari ímynduðu hreyfingu hennar. Hún er ekki neitt á leiðinni upp, það vitum við mætavel, en viðurkennum um leið rétt okkar til að taka okkur slík orð í munn. Tölum um sólarupprás og meinum auðvitað það sem blasir við okkur við sjóndeildarhringinn. Skynjun okkar og upplifun er einfaldlega þessi og það helgar orðinu merkingu sína.

Presturinn í sögunni hefði hæglega getað svarað eðlisfræðingnum með svipuðum hætti. Hann hefði getað vísað til slíkra orða og bent á að mannshugurinn leitar merkingar og tákna og styðst þá við það sem hann tengir auðveldlega við reynslu sína. Já, vel á minnst, maðurinn. Alþjóðasamfélagið styðst við grísku orðmyndina ,,anþrópos”, sem merkir einmitt, maður. Anþrópologí er mannfræði og orðið kemur víða fyrir. Fróðlegt er að skoða sifjar þessa orðs. Það er samsett úr forskeytinu ,,anó” og svo því sem kemur í kjölfarið, ,,þreskó”. Anó merkir einmitt, upp og þreskó er komið af sögninni að horfa. Maður, samkvæmt því er vera sem horfir upp. Horfir til himins í átt að einhverju sem er æðra og meira.

Þetta orð þótti hinum háleitu Forn-Grikkjum eiga við um manneskjuna, þessa lífveru sem leitar í sífellu tilgangs og merkingar á leið sinni frá vöggu til grafar. Þeim hefur þótt þessi eiginleiki hennar greina hana frá dýrum merkurinnar sem lifa tilveru sem einkennist fyrst og fremst af fæðuleit og makavali. Annað og meira býr að baki lífi okkar - svo þeir auðkenndu manninn með þessum tilkomumikla ætti - sá eða sú sem horfir upp. Hugmyndin er ekki sú að við séum í sífellur að rýna í skýin, stjörnurnar og annað það sem blasir við á himnum, heldur merkir ,,upp” í þessu tilviki eitthvað sem er æðra, gefur tilverunni merkingu, setur hana í hærra samhengi. Maðurinn er vera sem leitar tilgangs.

Meira maður Páll heitinn Skúlason, sem jarðsunginn var í síðustu viku, ræddi gjarnan það hlutverk samfélags að þroska manneskjuna og efla hana. Hann leit einmitt til þess tilgangs sem bíður okkar dauðlegra manna og hvernig við ættum í sífellu að rækta hug okkar og anda til þess að geta mætt honum betur. Páll nefndi að það væri ekki hlutverk menntunar að gera okkur að meiri mönnum, heldur meira að mönnum. Ég man að ég átti ekki auðvelt með að skilja þennan greinarmun þegar ég á sínum tíma, sat í tímum hjá Páli. En þegar við skoðum hann í þessu ljósi, að maðurinn er vera sem horfir upp, á sér æðri markmið og tilgang þá fá orð heimspekingsins skýrari merkingu.

Takist skólunum að gera nemendurna meira að mönnum, þá leggja þeir þeim lið við að rækja hlutverk sitt og köllun - einmitt sem manneskjur. Í þeim efnum eru gráður og titlar í sjálfu sér þarflaust þing. Lykillinn er þroski einstaklingsins og færni hans til þess að búa náunga sínum og komandi kynslóðum betra samfélag.

Atburð uppstigninardags, þegar Kristur steig upp, má skoða í því ljósi. Hann er hinn sanni tilgangur, í honum sjáum við hvernig Guð er og starfar. Allt í fari Krists, boðunin sem hann miðlaði, kraftaverkin sem hann vann, elskan sem hann sýndi, gefur okkur innsýn í ríki himnanna, hins æðsta, já þar sem við komumst ekki ofar, ekki lengra upp.

Þetta orðar postulinn svo í pistli dagsins:

Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum.

Hér skynjum við hvað það er sem gerir líf hins trúaða einstakt, því sú lífssannfæring er í nátengd því hvernig grískan túlkar hugtakið maður. Hún greinir sig frá öðrum þeim sem ekki líta upp, heldur sjá aðeins hið efnislega og veraldlega í tilverunni.

Á uppstigningardegi horfum við til þessara þátta. Við íhugum textana í lok guðspjallsins sem gerast að loknum öllum þeim atburðum sem greint er frá þar á undan. Já, heilli mannsævi sem hófst með því þegar engillinn vitjaði Maríu, þegar barnið var lagt í jötu, þegar Jesús var ungur í musteruni, hóf síðar boðun sína og eignaðist vinina sem fylgdu honum eftir á för hans. Ræðurnar, kraftaverkin, hjálpræðið og svo mótlætið, krossinn og þjáningin. Allt þetta er að baki. Sigur lífsins á hinum fyrstu páskum og samveran með lærisveinunum sem gaf veru þeirra gildi og fyllti þá nýjum krafti og nýrri sýn. Og nú er komið að lokunum. Þar sem Kristur heldur á þann stað sem maðurinn í eðli sínu horfir til. Þetta sem við köllum, upp, ofar hinu jarðneska og hverfula.

Sáu menn þá bara undir iljarnar á honum? gætum við spurt eins og efasemdarmaðurinn gerði. Við sjáum hann allan, gætum við svarað þegar við hefjum hug okkar og sálu yfir allt það sem hrörnar og deyr. Þegar við fögnum hverju æviskeiði í krafti þeirra tækifæra sem bíða þess og möguleika okkar á að verða meira að mönnum.

Á uppstigningardegi horfum við mennirnir, upp sem aldrei fyrr.