Ríkur í augum Guðs

Ríkur í augum Guðs

Nótt eina brutust nokkrir þjófar inní skartgripaverslun. En í stað þess að stela nokkru, víxluðu þeir öllum verðmiðunum. Næsta dag vissi enginn hvaða skartgripir voru dýrir og hverjir ódýrir. Dýru skartgripirnir voru skyndilega orðnir ódýrir og þeir ódýru dýrir.

Heimspekingurinn og guðfræðingurinn Sören Kirkegaard sagði einu sinni eftirfarandi sögu:

Nótt eina brutust nokkrir þjófar inní skartgripaverslun. En í stað þess að stela nokkru, víxluðu þeir öllum verðmiðunum. Næsta dag vissi enginn hvaða skartgripir voru dýrir og hverjir ódýrir. Dýru skartgripirnir voru skyndilega orðnir ódýrir og þeir ódýru dýrir. Þeir sem ekki höfðu efni á dýrum skartgripum fórum heim með gersemar. En þeir sem töldu sig vera að kaupa rándýra og vandaða dýrgripi voru í rauninni að kaupa verðlaust drasl.

Þegar við íslendingar horfum tvo ár aftur í tímann er auðvelt að finna okkur sjálf fyrir í dæmisögu Kirkegaard. Kannski má segja að við höfum sofið á verðinum og látið lúmskar örvar óvinarins, þjófsins, breyta gildismatinu og snúa uppá verðmætahugsunina.

Fjölmiðlar fluttu gagnrýnislausar umfjallanir um blessunarríkan milljarðagróða, stjórnmálamenn vörðu flestir ofurlaun og misskiptingu í nafni ábyrðar og verðmætasköpunar og rödd kirkjunnar var almennt of máttlítil og helst til ógagnrýnin. Þrátt fyrir að helgiritið, bók bókanna, Biblían sjálf og orð frelsarans Jesú Krists tali skýru máli um myrkrið sem fylgir græðgi og eigingjarnri ágirndinni en ljósið sem fylgir nægjusemi og gefandi kærleikshug.

Þetta gömul saga og ný, á öllum tímum hafa menn og þjóðfélög gleymt sér í gósentíðinni, í miklum meðbyr sljóvgast hugurinn og værukærðin sest við stýrið.

Biblíutextar dagsins tala skýrt, Míka spámaður veltir því fyrir sér hvað hann þurfi að bjóða Guði fyrir miskunn hans og týnir til allt það besta sem samtími hans gat hugsað sér, veturgamla kálfa, þúsundir hrúta eða tugþúsundir lækja af ólífuolíu? Eða þurfti kannski að fórna frumburðinum, sem álitin var mikilvægasta barnið, ,,-ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?“

Í dag hefði hann ef til vill orðað hugrenningar sínar svona:

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann og kveikja í hlutabréfunum mínum, eða með nýjustu kynslóð farsíma? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum land-rovera og tugþúsundum gáma af kavíar? Á ég að fórna barni mínu fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?

Spurningar hefðu kannski hljómað öðruvísi en svarið verið hið nákvæmlega sama:

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð

Verðmiðunum var einfaldlega ruglað. Neyslan og gróðahyggjan var verðsett hæst, sem eftirsóknarverð gæði, en nægjusemi og lítillæti fékk hlálega verðmiðann, einskis nýtt drasl.

Samt væntir Guð þess eins af þér að að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Pistil dagsins sem Páll postuli ritaði til Tímóteusar fyrir nær 20. öldum vildu væntanlega margir stjórnmálamenn eða ráðgjafar eiga sem eigin orð, á minnisblaði frá fundum með útrásarvíkingum, ríkisstjórn eða bankastjórnum.

En þar segir:

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Hið sanna líf um það snýst málið.

Í Guðspjalli dagsins nýtir Jesú tækifærið til að miðla sjónarmiðum sínum hvaða veraldleg hluti og auðsöfnun til fylgjenda sinna.

Einn úr mannfjöldanum spyr Jesú : „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Jesús svarar honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og bætir síðan við mikilvægum heilræðum: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Máli sínu til útskýringar segir Jesús þeim síðan dæmisögu, af manni sem gerir tvennt rangt, maðurinn er svo sjálfmiðlægur að það kemst ekkert að nema hann sjálfur og hans eigin þarfir, í engri af dæmisögum Jesú kemur 1. persónufornafnið jafn oft fyrir, maðurinn hugsar bara hér er ég, um mig frá mér til mín. Náunginn og þarfir hans komast aldrei að.

Hitt sem maðurinn gerir rangt er að hann horfir aldrei lengra en hið jarðneska líf, svo blindaður er hann af fjársjóðum sem mölur og ryð fá eytt að hann sér ekki fjársjóð himsins sem hvorki mölur og ryð geta eytt, eða eins og segir í dæmisögunni sem við heyrðum áðan: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Í rauninni má segja að Jesú sé að benda á það sama og sunnlenski bóndinn sem stóð haugdrullugur við fjóshauginn og sagði íbyggin við lærlingin unga af mölinni: ,,Sjáðu til drengur; það er alveg eins með peninga og mykju, það verður að dreifa þeim til að þeir geri eitthvað gagn.“

Peningum og auð á ekki að safna svo lengi og að hann gagnist engum. Þessi gildi voru ein af grunngildum okkar þjóðar áður en við leyfðum þjófum að rugla verðmiðunum. Í gömlu íslensku máltæki segir: Það eru engir vasar á líkklæðum, það er djúp speki en einföld, ljós hverjum sem vill sjá. Við vitum öll að það er sælla að gefa en þiggja, það mun enginn standa í kistilagninguna okkar og sakna þess hvað við keyrðum um á glæsilegum bíl, hvað við voru í elegant skóm eða hvað við áttum mikla peninga.

En okkar gæti orðið saknað fyrir dyggðirnar sem koma fram í textum dagsins, fyrir ástundun kærleika, þjónustu við Drottinn, ríkulegt safn góðra verk, örlæti og fúsleika til að miðla. Enginn þiggur líf að auði sínum sagði Kristur í Guðspjallinu og varar við ágirnd. Þá hugsun orðar Hallgrímur Péturson meistaralega í ljóði sínu Mannsins fallvalta líf er hann segir:

Á augabragði einu skeður umbreyting á vistunum Fyrir mjúka sæng fæst moldarbeður minnstum gjör af listunum Lítið sálu grætta gleður þó gullið liggi í kistunum

Vér skulum ekki, veröld, freista að voga allt sem djarflegast. Illra girnda alinn neista útslökkvum sem snarlegast Á sannan Jesúm son guðs treysta sálunni er þarflegast.

Jesús gefur á annan hátt en heimurinn. Þegar Jesú flutti fjallræðuna voru hlutirnir einfaldir: Veraldlegir hlutir gefa veraldleg gæði, andlegir hlutir veita okkur andlega gæði.

Verðmiðunum var víxlað, markaðsfræðingar samtímans keppast við að sannfæra okkur um að veraldlegir hlutir veiti í raun: Andleg gæði.

Það sjáum við ótal dæmi um í auglýsingunum:

Veraldlegir hlutir eru góðir og margir hverjir nauðsynlegir en þeir veita okkur ekki andleg gæði, þar liggur villan!

Góðvinur spurði mig einu sinni: Veistu af hverju svona margir eru með lausa skrúfu? Nei. Jú, það er vegna þess að þá skortir innri ró.

Veraldlegir hlutir krydda tilveruna vissulega og aukin þægindi geta falið í sér aukna vellíðan, en að gera þá að því mikilvægasta í lífinu er mikið glappaskot. Jesús Kristur býðst til að taka til í þinni sál, með því að hleypa Guði að og hafa Orð hans og nærveru sem hið sanna viðmið, leiðréttum við verðmiðanna í lífi okkar. Þá hættum við að sækjast eftir draslinu og hlaupa á eftir því sem heimurinn telur mestu gæðin en finnum þess í stað friðinn sem Guð einn gefur, andlega hluti sem veita andleg gæði, innri ró, trú von og kærleika.

Jesús Kristur passaði sig á því að skarta engu nema kærleikanum, engu nema sjálfum sér. Innihaldið fékk að ríkja, útlitið að víkja. Gæti verið að hér ættum við sem kirkja, að minna á að hið besta í lífinu verður aldrei keypt með peningum?

Við getum keypt lyf en ekki heilsu, afþreyingu en ekki hamingju, hús en ekki heimili, félagsskap en ekki vináttu, við meira að segja gætum keypt krossfestingu en ekki upprisu, við getum keypt gott líf en ekki eílíft líf.

Það skiptir ekki máli hvað átt heldur hvað þú gerir. Elskaðu og segðu það með lífi þínu, framlengdu þá ótrúlegu ást sem Guð hefur á þér, framlengdu hana til fólksins í kringum þig, en taktu ekki ástfóstri við veraldleg gæði. Þar sem hjarta þitt er, þar er og fjársjóður þinn.

Kæru söfnuður og áheyrendur landið um kring.

Verðmiðunum var ruglað en með Guðs hjálp getum við leiðrétt verðmætamat okkar. Það gerum við ekki með því að benda á náungann og ætlast til að hann taki sig á, við gerum það með því að fjarlægja bjálkan úr eigin auga, taka til í eigin ranni. Með því móti eignast samfélagið sterkari einstaklinga sem byggja líf sitt á bjargi. Einstaklinga sem forðast ágirnd og reyna ekki að þiggja líf af auði sínum. Einstaklinga sem þiggja líf af trú, von og kærleika. Slíkt samfélag getur horft björtum augum fram á veginn. Guð gefi að svo verði.