“Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.”
Hann var ríkur á öllum sviðum. Allt gekk eins og í sögu. Það var nóg til af peningum, fjölskyldan var heilbrigð, hann átti fjölda vina út um víðan völl. Lífið hafði gert hann kokhraustan, hann trúði einkum á mátt sinn og megin. Dag einn tók svo lífið aðra stefnu. Eiginkonan varð veik, alvarlega veik. Hagur fjölskyldunnar gjörbreyttist, sýnin á lífið sömuleiðis. Álag heimilisins jókst. Tilvistarspurningar vöknuðu. Hann þurfti ekki á neinum Guði að halda, hann lagði sig fram um að trúa áfram á mátt sinn og megin, barðist um, reiðin óx og hann velti því fyrir sér af hverju þetta þurfti allt að gerast, hvort hann hafi brugðist á einhvern hátt. Konan lést úr veikindum sínum, orðin um upprisuna og lífið við jarðaförina hljómuðu í eyrum hans lengi á eftir. Hann stóð vanmáttugur frammi fyrir aðstæðum sínum , hann fann fyrir samtakamætti fjölskyldunnar, hann naut stuðnings vina og vandamanna, hann uppgötvaði styrk orðanna og fór að hlusta meira eftir og treysta Orði Guðs er varð honum leiðarvísir frá vegi vonbrigða inn á veg vonar.
“Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.”
“Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.”
Í hvert skipti sem afi kom upp í hugann fylltist hún gremju. Hann var þó einstakur afi, tók upp á því að kveðja þessa veröld fyrir nokkrum árum, og gremjan sótti á hana vegna þess að það var svo margt, sem hann átti eftir að segja henni. Afi var nefnilega sá eini, sem nennti að tala við hana, hann var sá eini sem las fyrir hana og hann var óspar á reynslusögur, sem voru henni dýrmætur undirbúningur fyrir lífið. Svo var hann bara allt í einu farinn. Hvað átti hún nú að gera, einkabarn foreldra sinna, sem voru alltaf að vinna? Allar væntingar burt flognar. Kvöld eitt var pabbi ekki að vinna, aldrei þessu vant, og hann gaf sér svolítinn tíma til að ræða við dóttur sína. Hún ætlaði ekki að treysta honum fyrir tilfinningum sínum, en lét samt á það reyna. Þá minnti pabbi hana á allar góðu minningarnar, sem afi skildi eftir sig. Hann talaði um þær sem gjafir og þær mættum við eiga og miðla áfram. Það dró úr gremjunni og ekki nóg með það hún gladdist mikið yfir því að pabbi skildi gefa henni tíma.
“Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða.”
“Sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa.”
Margir höfðu haft að orði að þau töluðu ekki af sér. Það var reyndar alveg satt. Þau voru orðvör hjónin, unnu þeim mun meira. Húsverkum og útiverkum sinntu þau reglulega vel. Bærinn þeirra var sveitinni til sóma. Þau fylgdust vel með málefnum héraðsins og málefnum þjóðfélagsins. Þau vissu vel af argaþrasinu í pólitíkinni og þekktu til breyskleika kirkjunnar. Þau höfðu sínar skoðanir, en þær voru ekki settar fram eins og þau vissu miklu betur en aðrir. Þau gleymdu sér sjaldnast í umræðunni, því það varð líka að fara út í fjárhús að gefa.
“Sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa.”
“Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því þeir munu saddir verða.”
Mikið sem hún var orðin þreytt á seinagangi stjórnvalda sem og kirkjunnar manna þegar kom að réttindabaráttu samkynhneigðra. Hún hafði lengi fundið til með samkynhneigðu fólki, t.a.m. þótti henni afar leiðigjarnt þegar einhverjir spekingar voru að tala um það, en enginn virtist vera að tala við það. Henni fannst fáir hlusta á tilfinningar samkynhneigðra og vilja, heldur var alltaf verið að skoða regluverkið og helgisiðina. Henni fannst réttindabaráttan ganga hægt fyrir sig. Hvað með kirkjuna? Ætlaði hún endalaust að draga lappirnar, ætlaði hún ekki að geta tekið sjálfstæða ákvörðun? Hún margspurði sig hvað Kristur hefði gert. Er til betri fyrirmynd þegar um er að ræða stuðning við réttindabaráttu fólks? Hann sem var alltaf að ræða við fólk, spyrja um líðan þess og bæta úr kjörum þess. Hún skildi ekki þetta ósamræmi. Hún fór að rifja upp þessar hugsanir sínar um daginn þegar hún var viðstödd kirkjubrúðkaup vinkvenna sinna. Henni leið vel og það voru engar óútskýranlegar sprungur á kirkjuveggjum, það var engin skeifa á presti, og hún tók eftir gleðitárum hjá viðstöddum.
“Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því þeir munu saddir verða.”
“Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.”
Hann mætti fyrsta skóladaginn sinn með svörtu skjalatöskuna hans pabba. Það var ekki til peningur fyrir nýrri tösku, ekki alveg strax. Hann lét sig hafa það að fara með þessa tösku, en vissi innst inni að það myndi kosta hann blóð, svita og tár. Þeir voru byrjaðir að veitast að honum um leið og hann gekk inn um aðaldyr skólans. Hann sem ætlaði að nota töskuna undir skóladótið sitt var farinn að nota hana sem vopn. Hann tókst á við strákana, sá einn standa álengdar aðgerðarlausan, sá féll inn í gráan skólavegginn. Þá tók hann eftir einum sem fór til skólaliðans og lét vita af áflogunum. Honum fannst strákurinn sá vera eins og græni karlinn á umferðaljósunum, sem leyfir manni að halda áfram.
“Sælir eru miskunnsamir því þeim mun miskunnað verða.”
“Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.”
Af hverju forðaðist ég að heimsækja hana? Mér fannst mjög óþægilegt að sjá hana svona veika, búin að kljást við heilasjúkdóm í áratug. Ég þorði heldur ekki að horfast í augu við sjúkdóminn, því sá grunur hefur ávallt blundað í mér að ég eigi eftir að fá þennan sama sjúkdóm. Ýmsir hafa sagt að hann sé ættgengur. Mér leið alltaf illa þegar ég kom inn á deildina. Sumir voru svo illir, aðrir freðnir í andliti, sögðu ekki eitt aukatekið orð. Þannig var hún mamma. Mig langaði ekki í heimsókn, það var bara skylduræknin sem rak mig áfram. Við stóðum þarna við gluggann, augun alveg tóm, ég leit á klukkuna, var að flýta mér. Þá lítur hún allt í einu til mín og segir eins og hún sé alveg heilbrigð: “Þú ert góð dóttir.” Deildin lýstist upp.
“Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.”
“Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.”
Frænkurnar höfðu búið lengi saman, alltof lengi að flestra mati. Þær voru stanslaust að kíta. Meira að segja á sjálfum jólunum gátu þær ekki hamið sig. Þegar þær tóku upp gjafir frá hvor annarri var viðkvæðið venjulegast þetta, þú vissir að mig langaði ekki í þessa bók, ég hélt þú þekktir mig nú betur. Í raun var það þannig að þær þekktust sáralítið og þær höfðu fjarlægst hvor aðra ennfrekar með nöldrinu. Ein jólin fengu þær jólakort. Það var til þeirra beggja. Þegar þær opnuðu kortið var ekkert að sjá þar nema eina litla mynd af hvítri dúfu augljóslega unnin af barni. Þær veltu þessari mynd og þessari kortasendingu fyrir sér öll jólin án þess að nöldra. Það var víst eitthvað heilagt við þessi jól.
“Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.”
“Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.”
Fyrirtækið hans tók að sér að byggja búddahof í Hádegismóum. Hann fékk ófáar símhringingar, bæði á nóttu sem á degi. Hann fékk líka tölvupósta. Allt voru þetta undirliggjandi hótanir í margvíslegum myndum. Þarna voru trúfélög, trúleysisfélög, ýmis hagsmunasamtök, stjórnmálaflokkar, verkalýðsfélög, bankastofnanir, fjölmiðlar, einkaaðilar. Allt samfélagið ætlaði á hvolf og margir snérust gegn honum. Þegar starfsmaður nokkur í fyrirtækinu hans spurði hann hvers vegna hann ætlaði að halda áfram með verkið, svaraði hann því til: ”Allan mannbætandi átrúnað þarf að rækta og virða og ég hef líka fyrir fjölskyldu að sjá.”
“Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.”
“Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.” Amen.