Draumar móðurinnar

Draumar móðurinnar

Guðspjall: Jóh. 2:1-11 Lexia: Pistill:

Eitt sinn hóf hinn frægi prédikari Marteinn Lúther King ræðu sína á eftirfarandi orðu: "Ég á mér draum...!".

Við getum hvert og eitt fyllt inn í eyðurnar því að okkur dreymir öll um eitthvað. Marteinn Lúther King barðist fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum og átti sér þann draum m.a. að réttur þeirra yrði ekki fyrir borð borinn.

María móðir Jesú átti sér einnig draum skv. guðspjalli dagsins þegar hún sá son sinn koma til brúðkaups þar sem hún var stödd. En brúðkaupið var haldið á heimili einu í þorpinu Kana í Galileu. Við vitum að María varðveitti í hjarta sínu ýmislegt af því sem engillinn hafði sagt henni um soninn sem hún ól. Þegar hún sá son sinn koma þá hugsaði hún e.t.v. með sér að þessi stund kynni að marka upphafið að starfi sonar síns. Stundin var kannski runnin upp. Allt myndi e.t.v. breytast héðan í frá. E.t.v. yrði draumur hennar um son sinn Jesú að veruleika í dag.

Hún horfir á son sinn Jesú sitja til borðs með fólki sem hún hafði aldrei séð. Hún sér þegar hann tekur sér könnu í hönd og drekkur úr henni ánægður og afslappaður. Hann er hrókur alls fagnaðar við borðið.

Á þessari hátíðarstund á heimilinu koma upp erfiðleikar sem vandséð er hvernig verða leystir. Þótt Jesús sé enn ungur og lítt kunnur er þó ein sem þekkir hann vel, - móðir hans.

Maríu berst til eyrna úr eldhúsinu að vínið sé þrotið. Gestgjafarnir fyllast mikilli angist og velta fyrir sér hvað þeir geta tekið til bragðs. Hér eru alltof margir gestir og þeir hafa ekki efni á því að kaupa meira vín.

Þetta var tímanna tákn fyrir Maríu Guðs móður. Gamla vínið var þrotið og hún trúði því að sonur sinn Jesús gæti gert kraftaverk og búið til nýtt vín úr vatninu sem nóg var af í brunninum við heimilið. Því gekk hún til sonar síns og sagði: "Þeir hafa ekki vín!" Jesús skildi hvað hún var að fara, svaraði henni strax og sagði að sinn tími væri ekki kominn. Það er athyglisvert að María lét sem hún hefði ekki heyrt það sem hann sagði og gekk til þjónanna í eldhúsinu og sagði þeim að gera það sem Jesú bæði þá um. Þessi skref til þjónanna gekk María í trú og trausti þess að stundin væri runnin upp og að draumar sínir um son sinn myndu rætast frá og með þessari stundu.

Jesús stóð brátt upp frá borði sínu og gekk til þjónanna og bauð þeim að fylla sex vatnsker úr steini með vatni að börmum. En þau tóku um hundrað lítra af vatni. Að ráði Jesú usu þeir af og færðu veislustjóranum sem bragðaði vatnið og var það þá orðið að víni.

Fyrir bænarorð móður sinnar leysir Jesús vandamálið með undursamlegum hætti. Þungu fargi var létt af móður hans. Nú þurfti hún ekki að geyma allt það í hjarta sínu sem engillinn hafði kunngjört henni. Hún tók gleði sína ásamt lærisveinunum og öllum þeim sem voru í brúðkaupsveislunni. Lærisveinarnir fóru nú að trúa á hann.

Þetta fyrsta kraftaverk Jesú markaði upphafið að þjónustu hans og boðun um guðsríkið. En vilji Guðs var kunngjörður í honum sjálfum á þessu jarðneska tilveruskeiði.

Veislustjórinn sagði við brúðgumann: "Þú hefur geymt góða vínið þar til nú!", en hann vissi ekki hvaðan það var komið. Þjónarnir einir vissu það auk Maríu Guðs móður og lærisveinanna.

Einn af þessum lærisveinum löngu síðar var Marteinn Lúther King sem sagði: "Ég á mér draum...!". Sjálfur vann hann hörðum höndum að því draumurinn yrði að veruleika því að hann þráði að réttlæti Guðs næði fram að ganga á sem flestum sviðum þjóðlífsins í Bandaríkjunum og var m.a. sterkur málsvari blökkumanna. Hann fetaði í fótspor þjónanna í veislunni og lærisveinanna og hlýddi Jesú í þeirri trú að hagur blökkumanna myndi vænkast. Hann lifði jafnframt í þeirri eftirvæntingu trúarinnar að Jesús myndi koma aftur og snúa við högum manna til góðs, til blessunar.

Við vitum ekki mikið um samskipti Jesú og móður hans þegar hann sem barn var að alast upp í Nazaret. Ekki er þó að efa að hún í mildi sinni og móðurkærleika hefur ekki aðeins látið sér annt um líkamlega velferð sonar síns heldur einnig andlega og því innrætt honum þau andlegu sannindi sem hún þekkti göfugust og best.

En þótt heimildir um þessa hluti séu næsta fáorðar, þá hafa varðveist frá öllum öldum frásagnir af góðum og göfugum mæðrum sem innrættu börnum sínum guðsótta og góða siði, kenndu þeim að þekkja Jesú sem frelsarann og bróðirinn besta, kenndu þeim að biðja og báðu með þeim.

Margar þessar mæður hafa hlotið ódauðlegan vitnisburð, ekki síst í ljóðum stórskáldanna sem öðrum fremur hafa túlkað hann með eftirminnilegum hætti.

Kemur okkur þá gjarnan í hug þetta erindi úr ljóði séra Matthíasar Jochumssonar um móður sína:

Ég hefi þekkt marga háa sál, ég hefi lært bækur og tungumál og setið við lista lindir, en enginn kenndi mér eins og þú hið eilífa, og stóra, kraft og trú né gaf mér svo guðlegar myndir

Þú sem ert móðir. Hefurðu hugleitt hvílíka blessun þú veitir barninu þínu með því að innræta því kristna trú, segja því frá Jesú og kærleika hans og kenna því að biðja? Með þessu leggur þú ekki aðeins grundvöll að góðu og blessunarríku heimilislífi heldur gefurðu barninu þínu það veganesti sem því mun reynast drýgst og farsælast á ófarinni ævibraut.

Við ölum með okkur margvíslega drauma, þeir eru ekki síst tengdir heimilum okkar á einn eða annan hátt.

Gott heimili er mikil Guðs gjöf. Margir sem komnir eru á efri ár minnast bernskuheimilis síns og uppvaxtaráranna í foreldrahúsum með innilegu þakklæti fyrir ógleymanlegar samverustundir meðal sinna nánustu. Þessar minningar eru kannski þær dýrmætustu sem við eigum.

Heimilin eru hornsteinar þjóðfélagsins. Þar er grundvöllur lagður að lífi einstaklingsins. Því er mest um vert að þar ríki eining, samhugur, sátt og friður. Að þar eigi yngri sem eldri athvarf og skjól í umhleypingum lífsins. En hversu mörg eru þau ekki heimilin í þjóðfélagi nútímans þar sem upp koma erfiðleikar og vandamál í ýmsum myndum. Það er alkunna að þessi vandamál geta orðið svo mikil að þau ekki aðeins spilli heimilislífinu heldur beinlínis sundri heimilinu.

Eigir þú og heimili þitt við einhverja erfiðleika og vandamál að stríða, hvað er þá til ráða? Mundu þá eftir honum sem forðum leysti vandamál heimilisins í Kana. Fyrir bænarorð þín mun hann hjálpa þér, styrkja þig og blessa. En bið hann ekki aðeins hjálpar í erfiðleikum. Gjör hann að heimilisvini þínum. Þá mun hann veita þér og heimili þínu blessun sína og þú munt reyna að hann er heimilisvinurinn besti.

Hjartað bæði og húsið mitt heimilið veri, Jesús, þitt hjá mér þigg hvíld hentuga þó þú komir með krossinn þinn kom þú blessaður til mín inn fagna eg þér fegins huga

En hversu gott heimili sem við annars höfum átt í þessu lífi, þá kemur sú stund að við hljótum að kveðja það og eigum ekki þangað afturkvæmt. Það gerist þegar við leggjum upp í förina yfir landamæri lífs og dauða. Hvað tekur þá við?

Hin kristna trú og von segir okkur að Jesús Kristur sé fyrir okkur dáinn og upprisinn og hafi gefið okkur hlutdeild í sigri sínum svo að við mættum öðlast eilíft líf. Sjálfur segir Jesús: "Ég lifi og þér munuð lifa". En hann segir meira: "Í húsi föður míns eru margar vistarverur, væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er".

Skyldi Maríu Guðs móður hafa grunað í brúðkaupinu forðum hversu miklu sonur sinn myndi koma til leiðar með orðum sínum og verkum í þágu mannkynsins alls. Megi Guð gefa að draumar okkar verði að veruleika í lífi okkar Amen.