Steig niður til heljar

Steig niður til heljar

Þegar kom að þeirri örlagastundu í lífi Jesú að hann þurfti að ganga í gegnum dauðann til að frelsa okkur, þá gekk hann þann veg alla leið. Hann upplifði það að vera svikinn, hann upplifði það að vera hæddur, píndur og kvalinn.

Descent from the cross I

Nú er fermingarstörfum að ljúka víðast hvar þó við hér í sveitinni fermum ekki fyrr en á hvítasunnu. En blessuð fermingarbörnin eru samviskusamlega búin að læra trúarjátninguna, þó þau ruglist langoftast á sama staðnum. Það er þar sem Jesús stígur ýmist niður til heljar eða upp til himna.

Ég hef hjálpað þeim að muna þetta með því að láta þau hugsa um þetta sem atburðarrás, þ.e. FYRST steig hann niður til heljar og svo þegar hann var búinn að rísa upp frá dauðum ÞÁ steig hann upp til himna. Ef þetta dugar ekki læt ég þau nota handahreyfingar þar sem hendin fer fyrst niður og svo upp!!!

Þegar þetta hefur allt gengið upp þá spyrja börnin oft: „steig hann í alvöru niður til heljar?“

Þetta getur oft reynst þrautin þyngri að útskýra fyrir blessuðum börnunum. Þar sem í dag er laugardagur fyrir páska langar mig að deila með ykkur vangaveltum mínum um það hvernig við getum gert þetta skiljanlegt fyrir börnum á fjórtánda ári.

Jesús var maður, en hann var líka Guð. Það er svo margt í Biblíunni sem undirstrikar þann veruleika. boðun Maríu, undrið á Betlehemsvöllum, opinberunin við skírn Jesú, ummyndunin á fjallinu og svo ótal, ótal margt annað sem guðspjöllin segja okkur frá.

Þegar kom að þeirri örlagastundu í lífi Jesú að hann þurfti að ganga í gegnum dauðann til að frelsa okkur, þá gekk hann þann veg alla leið. Hann upplifði það að vera svikinn, hann upplifði það að vera hæddur, píndur og kvalinn. Og hann gekk meira að segja svo langt að þurfa að vera aðskilinn frá Guði, sem er það versta af öllu því sem við getum upplifað. Þau sem upplifa það að vera aðskilin frá Guði, upplifa helvíti…enga von…ekkert.

En Guði sé lof, þá þurfum við ekki að dvelja lengi við þessa hugsun því að morgun rís páskasólin með allri þeirri von sem upprisa Krists felur í sér.

Páskarnir gefa okkur trygga trú, traust og von. Von um að allt verði gott þrátt fyrir allt, sem hugsanlega getur komið fyrir okkur í lífinu. Jafnvel þótt við förum í gegnum svo dimman dal að við höldum um sinn að ekkert geti bjargað okkur, jafnvel þó ótti og kvöl, sorg og dauði yfirbugi okkur um tíma, þá munu öll él birta upp um síðir. Það boðar upprisan okkur að jafnvel þó við stígum niður til heljar þá munum við rísa upp með Kristi og eiga með honum eilíft líf. Guð gefi okkur öllum innihaldsríka páskahátíð og þá trú í hjartað að á endanum verði allt gott.