Knýjum á náðardyr Drottins

Knýjum á náðardyr Drottins

Já náð, á náð ofan. Allan veginn fylgja mér. Ég hef sjálfsagt oft verið öðruvísi en ég hefði átt að vera. En HANN, HANN hefur aldrei brugðist. Og þegar eitthvað hefur amað að þá hef ég fengið að koma í bæn til hans, talað við hann, sagt honum hvernig er með mig.

Bið Guð að blessa okkur hér í dag og gefa okkur góða stund hér saman. Það er undursamlegt að fá að safnast hér saman á þessari samkirkjulegu bænaviku sem alltaf er í janúar. Og ég verð að segja það að hún er mér mikils virði. Alveg frá því að ég var að byrja að fara fyrst á þessa samkirkjulegu bænaviku þá fann ég hvað ég var blessuð af því. Hugsið ykkur að fá að mæta trúuðum frá öllum söfnuðum. Mér fannst ég vera svo rík. Það er eins og stendur í einum söng sem stundum er sunginn:

Þar hverfur munur hver. Þar hver er öðrum jafn, því saman, því sömu tign það sérhver á og sama dýrðarnafn (Sr. Friðrik Friðriksson)

Þetta er svo undursamlegt. Sömu tign – allt eigum við í Jesú Kristi sem gaf okkur lífið í sér. Sem gerði það þannig að við getum safnast saman í húsi hans. Og HANN hefur blessað mig svo oft og mörgum sinnum. Árið 2010 er horfið í aldanna skaut. Nú eigum við að líta fram á við og hefja nýja árið í bæn og trausti til Drottins, vera upprisudjörf, full af eftirvæntingu og trausti: Við eigum upprisinn, lifandi frelsara sem megnar allt, skilur allt og þekkir alla hluti. Þannig hefur það verið í gegnum þessi mörgu, mörgu ár. HANN er mér allt. Hvernig væri ég ef ég ekki ætti HANN? Ég fékk að taka á móti honum sem ung stúlka og fékk fyrirgefningu syndanna og bað hann um leiðsögn í gegnum lífið. HANN er mér allt. Núna var sunginn einn af mínum uppáhalds söngvum. Hann fjallar um trúfesti Drottins.

Allan veginn er hann með mér, einskis meira þarfnast ég. Enda hvað sem upp á kemur, örugg borg er Jesús mér.

Hann hjálpar þegar gatan verður þung og dimm. Ef ég er þyrstur fæ ég að drekka af lífsins lindum. Og í síðasta versinu stendur svo dásamlega – Nú fer ég að verða gömul og kannski ekki svo langt þangað til að ég fæ að flytja heim, en leiðin er örugg, hann hefur opnað leiðina með krossdauða sínum fyrir mig og þig. Fyrir okkur öll. Það er bara um að gera að ákveða sig og segja við HANN: Jesús, taktu við mér. Og það stendur í síðasta versinu:

Alsæll ég, þá fell að fótum frelsaranum þakkir tér: Að hann skyldi elskuríkur, allan veginn fylgja mér.

Já náð, á náð ofan. Allan veginn fylgja mér. Ég hef sjálfsagt oft verið öðruvísi en ég hefði átt að vera. En HANN, HANN hefur aldrei brugðist. Og þegar eitthvað hefur amað að þá hef ég fengið að koma í bæn til hans, talað við hann, sagt honum hvernig er með mig.

Ég vil lesa um tvo menn sérstaklega. Það er úr Lúkasarguðspjalli. Við þekkjum öll þá frásögu eftir að Jesús var krossfestur og upprisinn. Þá var það að þessir tveir lærisveinar voru á leiðinni til Emmaus frá Jerúsalem. Þeir voru svo hryggir. Það var svo erfitt hjá þeim. Hann hafði verið tekinn frá þeim sem þeir elskuðu og höfðu þjónað. Þarna voru þeir á gangi. Allt í einu birtist maður við hliðina á þeim. En þeir þekktu hann ekki. Þeir voru að tala saman og hann fór að tala við þá. En svo nálguðust þeir þorpið sem þeir ætluðu til og hann lét sem hann ætlaði að fara lengra. En þeir lögðu fast að honum sögðu: Vertu hjá oss því að kvölda tekur og degi hallar. Hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við að hann sat til borðs með þeim. Hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra. Og þeir þekktu hann. En hann hvarf þeim sjónum. Og svo stendur svo undursamlegt þar á eftir:

Brann ekki hjartað í okkur þegar hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum? (Lúkasarguðspjall 24:32)

Það eru svo margar minningar sem koma til mín núna því ég er komin sem gömul kona hingað til Akureyrar. Margar minningar. Ég man eftir barnaskólanum á brekkunni. Skólastjóri þar var þá Snorri Sigfússon. Þá var það siður þegar við komum inn í stofu okkar að við stóðum upp við púltið okkar og sungum:

Þér til dýrðar Drottinn hár, dagsins störf við byrjum morgunglaðir. Ljúfi faðir, ljóssins faðir, blessa þau um öll vor ár. (Guðmundur Guðmundsson)

Ef það var nauðsynlegt á þeim tíma að byrja þannig daginn þá er það einnig ennþá nauðsynlegra í dag. Mætti Guð hjálpa íslensku þjóðinni að sjá hversu alvarlegir tímar það eru sem við lifum í. Við þurfum að muna eftir að við eigum föður á himnum sem þekkir okkur og vill hjálpa okkur.

Ég minnist líka bæjarins sem lítil stúlka. Foreldrar mínir þau voru mjög rík. Já, en ekki þessa heims gæði. Þau höfðu þekkt frelsarann, komið til hans og byggt húsið á bjarginu, heimilið sitt á bjarginu sem aldrei bifast, sem er Jesús sjálfur. Og svo man ég líka eftir einum degi sem oft hefur komið í huga mér síðan. Ekki út af því að það hafi verið svo miklar gjafir eða veisla eða þess háttar. Það er fermingardagurinn minn. Ég var fermd í gömlu kirkjunni. Friðrik Rafnar var prestur þá. Og ég man sérstaklega eftir einu sem hann sagði sem að hefur svo oftsinnis talað til mín í mínu starfi og hvar sem er. Hann lagði hendur á höfuð mitt og sagði:

Vertu trú allt til dauða og Guð mun gefa þér kórónu lífsins. (Opinberunarbókin 2:10)

Þetta hefur komið svo oftsinnis til mín. Þá hef ég reynt að vera trú, halda áfram á leiðinni með Jesú, vitandi að hann er allan veginn með okkur.

Áður fyrr, það vitum við sem erum eldri og þau sem eru enn eldri hafa sagt mér það, að það voru lesnir húslestrar á heimilunum og bænir voru beðnar. Í einum sálmi Hallgríms Péturssonar stendur svo undursamlega og við kunnum öll:

Bænin má aldrei bresta þig búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að Drottins náð.

Þvílíkt undur. Hún er lykill að Drottins náð bænin. Í lífi mínu hafa komið tímar þar sem að mér fannst ég vera lúin og þjáð. Það er ekki alltaf bara meðbyr. En samt sem áður hefur HANN alltaf verið með. Og svo er svo gott að vita að þá er það einmitt um að gera að taka sér tíma fyrir Jesú. Þannig var fyrir nokkrum árum síðan – það er oft mikið að gera í okkar starfi – mér fannst ég vera þreytt og ónóg sjálfri mér. Þá skrifaði ég niður vers sem komu í huga minn:

Í dagsins önn er þreyta þjakar mig. Þá er svo gott að tala út við þig. Þá hvíld ég fæ, þá hverfur þreyta fljótt. Í dagsins önn, hjá þér er allt svo gott.

Þá var það allt í einu að ég fékk að flýja inn í lítið horn sem var heima í stofunni. Það var enginn þar. Og þá settist ég niður, opnaði Biblíuna mína og talaði við Jesú. Þá fékk ég að finna það að þreytan hvarf. Ég var ný, hann mætti mínu hjarta. Þannig hefur það verið í gegnum lífið. Svo flétti ég aftur og aftur í Biblíunni.

Það stendur í sjöunda versi í sjöunda kapítula hjá Matteus guðspjallamanni, þar sem Jesús er að tala í fjallræðunni:

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Þvílíkur reynsla og þvílíkur sannleikur sem ég hef fengið að reyna í þessu aftur og aftur. Ég hef mátt knýja á náðardyrnar, mátt tala við hann og lesa Guðs orð. Svo hef ég fengið að finna hve það fyllir sál mína friði og ró, einnig þegar um erfiðleika er rætt. Þetta var eins með þessa menn sem voru á leiðinni til Emmaus. Þeir voru niðurbrotnir og það var vel skiljanlegt. En svo kom að þegar þeir fóru að nálgast þorpið. Og það var sagt við þá: Komið inn. Og þeir fóru inn. Og er inn var komið opnuðust augu þeirra þegar brauðið var brotið: Það var Jesús sem var hjá þeim. Og þá fengur þeir að upplifa:

Brann ekki hjartað í okkur ... (Lúkasarguðspjall 24:32)

Manstu ekki slíkar stundir, þú sem hlustar, hvort heldur þú ert heima eða hér í kirkjunni? Manstu slíkar stundir þar sem að Jesús á sérstakan hátt mætti þér? Og opnaði augu þín? Þú fékkst að sjá hann. Og þú fékkst að finna nærveru hans.

Í lífi okkar mannanna þá er það stundum þannig hjá okkur að við mætum erfiðleikum. En er það ekki stundum að við gleymum því að við eigum föður á himnum sem veit um okkur og vill annast börnin sín? Hann er fullur náðar og kærleika. Hann hefur allt að gefa okkur. Eins og stendur í söng einum:

Ó Jesús gef mér sjón að sjá ég, hve sál mín rík af gæðum er. Á himnum föður helgan á ég, sem hverja mína þörf hann sér.

Hugsið ykkur það. Hann þekkir hverja einustu þörf þína, það sem þér finnst erfitt!

Ég veit að fólk er mikið upptekið, afskaplega mikið upptekið. Oft afsakar það sig með tímaleysi þegar um andlega hluti er að ræða. Það er tími til svo margs annars, eins og til dæmis sjónvarp, tölvu, leikhús og fleira. En við trúum á mátt bænarinnar. Og við höfum ábyrgð þarna. Guð gefi okkur öllum að við mættum eignast þetta barnslega traust til Drottins.

Mig langar að segja ykkur frá fimm ára gömlu langömmubarni mínu. Hún kemur oft til mín. Í þetta skiptið var hún afskaplega sorgmædd. Því að pabbi hennar var kominn á sjúkrahús með gat á lunganu. Svo segir hún: Ég ætla að biðja fyrir honum. Að HANN lækni pabba. Meðan hún stóð hjá mér þarna í eldhúsinu spennti hún greipar og sagði: Góði Jesús, læknaðu gatið á honum pabba mínum. Svo brosti hún og sagði: Nú verður hann frískur. Það var enginn efi. Nú verður hann frískur. Svo leið um viku tími rúmur. Þá kom hún aftur í heimsókn. Og þá sagði hún: Pabbi er orðinn alveg frískur. Jesús læknaði hann. Hann læknaði gatið. Svo fullviss um þetta. Hún fékk að reyna þetta.

Hvernig er okkar trú? Við efumst svo oft. Við eigum föður á himnum sem megnar allt. Mikið meira en við getum hugsað okkur. Við megum leggja allt í bæn fram fyrir hann. Mætti Guð hjálpa okkur að það væri meira um það hjá íslensku þjóðinni. Að við mættum knýja á náðardyr Drottins, fyrir landið okkar og þjóð. Land okkar og þjóð þarf meira á því að halda en nokkru sinni áður. Það eru margir sem glíma við sjúkdóma og alls slags erfiðleika. Þau finna engin ráð. Megi Guð gefa börnunum okkar að börnum á Íslandi verði kenndar bænir. Það myndi blessa æsku Íslands. Forráðamenn landsins okkar bera ábyrgð. Guð gefi að þeir þekki þessa leið, mættu kynnast honum sem á valdið.

Það er mikið talað um kreppuerfiðleika á Íslandi. Ég held að það sé einasta leiðin og öruggasta leiðin að knýja á náðardyr Drottins og biðja fyrir þessu fallega landi okkur. Guð er svo góður, hann heyrir bænir. Og við höldum okkur við það og biðjum af festu fyrir Íslandi – það verður einasta björgunin. Látum okkur þess vegna biðja, knýja á náðardyrnar. Og þú sem ert hér í dag og hlustar, þar sem þú situr heima eða í kirkjunni, vittu það að Jesús elskar þig með eilífum kærleika. Hann gaf líf sitt til að þú fengir lifað. Til þess að þú fengir að eignast þetta undursamlega samfélag við hann. Sjálf hef ég fengið að reyna þetta, líka í erfiðleikum og ástvinamissi, en þá hefur hann komið á svo sérstakan hátt og huggað og blessað og stutt. Það er ekkert sem jafnast á við það að eiga þetta lifandi samfélag og bænasamband við hann. Látum okkur hugsa um það þessa viku. Látum okkur knýja meira á náðardyrnar en nokkru sinni áður. Biðja, tala við Drottinn, biðja með þeim sem safnast saman víða í kirkjum og samkomuhúsum þessa viku. Drottinn heyrir bænir. Látum líka í ljós að trú okkar sé: Já, ég veit að hann gerir það. Það þarf þetta barnslega tillit til Drottins. Svo langar mig að enda þetta með versi sem við syngjum stundum:

Kom þú yfir Ísland himneska alda eilífs frelsis, djúp og tær. Öllum börnum litla landsins kalda lyftu Drottinn himni nær.

Ó að mætti þetta verða okkar daglega bæn. Þá er landi okkar og þjóð borgið. Þegar við knýjum á þessar náðardyr og fáum bænasvar. Drottinn blessi okkur öll.