Í sandölum og ermalausum bol

Í sandölum og ermalausum bol

Hættan á að verða hrokanum og syndinni að bráð er mest þegar lífið er best. Þess vegna eru góð sumur stórvarasöm. Klén sumur eru meinlausari. Stundum beinlínis bráðholl.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
14. júní 2006

Seint þreytumst við prédikarar á því að vara við hrokanum. Hann er rót syndarinnar í veröldinni og kallast hybris á fagmáli. Hrokinn lýsir sér í stuttu máli í því að maðurinn telur sig komast af án Guðs. Sú afstaða hefur orðið mörgum góðum drengnum að falli.

Aldrei er manninum jafn hætt við að verða fórnarlamb hrokans og þegar allt leikur í lyndi. Það er innprentað í okkar kristnu þjóðarsál að mikil velgengni sé varhugaverð. Hún hefni sín. Við hrósum helst ekki happi. Þar gæti fall okkar verið falið. Ef við hrósum öðrum gætu þeir ofmetnast.

Margra alda vesöld á þessu kalda landi hefur á hinn bóginn kennt okkur að mátulegt mótlæti getur orðið til góðs. Svo er líka skáldlegt að þjást. Sjaldan yrkja menn vel ósvangir.

Þannig innanbrjósts fögnum við sumri enda er oft harla lítið sumarlegt hér á landi þegar það kemur. Íslenskt sumar heilsar gjarnan í kalsaregni eða glærubelgingi til að minna okkur á að ofmetnast ekki. Skynsamlegast er að stilla væntingum í hóf eins og við Norðlendingar fengum að reyna í fyrra. Þá kom hér eiginlega ekkert sem kalla mátti sumar.

Meðan við fyrir norðan létum mótlætið herða okkur var Sumarid og haustid þeim vorkunn í blíðunni sunnan heiða þar sem andi hrokans sveif yfir snöggklæddum Reykvíkingum sleikjandi ísa á Lækjartorgi eða buslandi í hlandvolgri Nauthólsvíkinni. Fallið og hefndin vofði yfir grunlausu fólkinu. Það var allt löðrandi í hybris.

Maður skyldi fara gætilega í sumarið. Passa sig á Jónsmessudögginni og alls ekki velta sér upp úr henni, því erfitt gæti reynst að fóta sig með balsam hennar á iljunum. Ekki láta hádegissólina verma á sér bringuna of lengi, því heitt hjarta er yfirleitt ekki nema til vandræða. Verja vit sín fyrir suðrænum vindum og blómaangan sem hæglega veldur svima og annarlegri vímu. Söngur fugla og þytur í lyngi lætur vel í eyrum en gerir þau ónæm á önnur og mikilvægari hljóð. Og hæglega  verða vökukossar silunga á tjörnum bjartra nátta villuglýja í augum dauðlegra manna.

Hættan á að verða hrokanum og syndinni að bráð er mest þegar lífið er best. Þess vegna eru góð sumur stórvarasöm. Klén sumur eru meinlausari. Stundum beinlínis bráðholl.

Sannast sagna ætti maður að passa sig vel á lífinu og gjöfum þess, sem aldrei eru boðnar af meiri rausn en frá lokum maímánaðar fram í september. Maður gæti meira að segja haldið að lífið sé á margan hátt hættulegra sjálfum dauðanum.

Þannig hljómuðu varnaðarorð prédikarans eftir slæmt hret í sumarbyrjun. Svo stytti upp og skyndilega er ég umvafinn hinni láréttu blessun Guðs, sem berst mér í litskrúði jurta, flissi lækja, rósemi miðnæturhiminsins og söngvum hnúkaþeysins. Ég finn að sumarið er Guð að gera vel við sköpun sína. Mig langar að þiggja gjafir hans, njóta þeirra í þökk og umgangast þær af virðingu þess sem kann að öðlast. Taka jafnvel upp á einhverju sem er lifandi manna háttur.

Býð hrokanum birginn í sandölum og ermalausum bol.