Kjarkur og kærleikur

Kjarkur og kærleikur

Góðar glæpasögur eru frábærar sagnafléttur sem ná að magna upp spennu lesandans, svo upplifunin verður sterk og endalokin trúverðug. Kjarkur og kærleikur eru oft áberandi þemu i slíkum sögum. Söguhetjan býr yfir óskiljanlegum kjarki til að ganga lengra en venjulegt fólk þrátt fyrir yfriþyrmandi hræðslu, og er þá drifkrafturinn oft kærleikur til sinna nánustu.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
01. apríl 2012
Flokkar

“Påskekrim” er hugtak sem við heyrum hér í Noregi fyrir hverja páska og er nýtt fyrir okkur sem hingað flytjum. Paskekrim. Páska glæpasögur eru auglýstar í öllum miðlum hér og um þær rætt í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Hvað er þetta með Norðmenn, glæpasögur og páskana? Er eitthvað í norskri menningu sem kallar á glæpasögur um páskana?

Okkur Íslendingum hlotnaðist sá heiður að einn landi okkar Yrsa Sigurðardóttir á eina páskaglæpasögu sem gefin var út á norsku fyrir þessa páskana. “Jeg vet hvem du er” eða “Ég man þig”. Ég hitti Yrsu Sigurðurardóttir í útgáfuteitinu hér í Ósló í byrjun mars og hún var svo væn að árita bókina sína fyrir mig og skrifaði:

“Kæra Arna! Vona að þér líki lesturinn - muna að þetta er allt í plati!”

Yrsa hefur fengið frábæra dóma fyrir skrif sín og var tilnefnd til “Glassnøkkelen” 2011.

Góðar glæpasögur eru frábærar sagnafléttur sem ná að magna upp spennu lesandans, svo upplifunin verður sterk og endalokin trúverðug. Kjarkur og kærleikur eru oft áberandi þema i slíkum sögum. Söguhetjan býr yfir óskiljanlegum kjarki til að ganga lengra en venjulegt fólk þrátt fyrir yfriþyrmandi hræðslu, og er þá drifkrafturinn oft kærleikur til sinna nánustu og þörfin fyrir fá svör með leit að vísbendinum til að leysa gátuna, morðið. Oftast koma svörin en stundum erum við skilin eftir með endi þar sem við getum sjálf leyft hugarflugi okkar að njóta sín og spinna áfram. Það má segja að góð glæpasaga veki hrylling og óhug jafnvel reiði yfir illsku heimsins og ekki er verra ef yfirskilvitleg fyrirbæri ber á góma. Við finnum spennuna og óöryggið því við vitum ekki og skiljum ekki alveg hvað hefur gerst. Niðurlaginu fylgir svo oft léttir yfir því að málin leysast eða lausn er í sjónmáli. Þá kemur gleðin yfir sigrinum og þá fyrst getur eining og friður komist á aftur.

Á pálmasunnudegi erum við dregin inn í glæpasögu allra alda. Í aðal hlutverki er frelsarinn sjálfur Jesús Kristur. Hann kemur ríðandi inn í Jerúsalem á asna, þó konungur sé. Spenna er byggð upp og væntingum okkar snúið á hvolf. Af hverju ekki fallegur vöðvastæltu foli sem reiðskjóti? Spenna er byggð upp. Fólkið hrópar og hyllir konunginn: Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Í baðstofunni eru lærisveinarnir saman komnir ásamt meistara sínum. Brauð er brotið og víni útdeilt. Jesús gefur vísbendingu um að eitthvað sé í vændum: “Gerið þetta í mína minningu!” Hvað á hann við? Hann er alltof ungur til að deyja. Lærisveinarnir skilja ekki hvað er í vændum, verða alveg ruglaðir þegar Jesús krýpur niður og fer að þvo skítugar fætur þeirra. Hann er meistari. Herra, en ekki þjónn. Hann gerir lítið úr sér og þjónar þeim! Það er ekkert eins og það á að vera. Öllu er snúið á hvolf og lærisveinarnir skilja hvorki upp né niður.

Júdas hefur veigamiklu hlutverki að gegna. Eins og í mörgum glæpasögum höfum við persónu sem leikur tveimur sköldum. Júdas selur sálu sína og svíkur besta vin sinn, svíkur sinn andlega leiðtoga. Jesús er handtekinn. Það er eins og þessi glæpasaga hafi náð hámarki sínu á þessum tímapunkti. En þessi saga, glæpasaga allra tíma, saga dauða og saga lífs á sér fleiri hápunkta. Jesús fær ekki réttlátann dóm. Hann er dæmdur saklaus. Það er hlegið að honum og hann lagður í einelti. Hann mátti þola hræðilegt ofbeldi, píndur, laminn, barinn, stunginn, sett á hann þyrnikóróna og loks nelgdur á krossinn ásamt glæpamönnum þar sem hann gefur upp öndina. Deyr á svo hræðilegan hátt. Drepinn af illsku einni saman og vegna hvers? Jú, valdagræðgi.

Við krossin krjúpa þau sem elska hann mest. Móðir hans María, María Magdalena og lærisveinninn sem elskar hann. Sorgin er yfirþyrmandi, tárin renna, reiðin og óöryggið öskrandi hið innra og loks tekur tómið við og söknuðurinn. Allt þetta í einni svipan að vart er hægt að greina. Eina sem vitað er með vissu er að sorgin er yfirþyrmandi vegna þess sterka kærleika sem streymdi á milli frelsarans og samferðafólks hans, milli hans og vina hans. Það er aðeins kærleikur Krists sem gefur kjark til að halda áfram eftir þetta hræðilega áfall. Hvers vegna? Hvers vegna, gat þetta gerst? Eru þetta endalokin?

Gröfin er opin. Gröfin er tóm! Hvað á þetta að þýða? Hvar er líkami Jesú. Konurnar koma til að vitja grafarinnar, vilja leggja blóm við gröfina og fá að minnast ástvinar síns, en grípa í tómt. Þær vita bara að það eina sem getur uppörvað þær nú er kærleikur sá sem þær kynntust hjá Jesús. Svo öðruvísi kærleikur en þær höfðu nokkurn tíma kynnst áður. Guðlegur kærleikur. Svo djúpur og nærandi. Glæpasaga páskanna virðist ekki fá að leysast strax, nei, nú er búið að stela líki Jesú, hvílík óvirðing. Varðmenn voru nú samt settir við gröfina og þeir urðu dauðhræddir þegar engillinn talar til kvennanna. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn!

Hinn fullkomni sigur og lausn, eining og samfélag heilagra. Trúin ein gefur skilning og þá sýn sem þarf til að glæpasaga allra tíma fái þann endi sem öllum endum er betri. Lærisveinarnir og það samfélag trúaðra sem myndaðist í kringum þá fléttuðu áfram og við erum enn að flétta okkar eigin lífssögu inn í sögu hins krossfesta og upprisna Drottin okkar og frelsara.

Hann er upprisinn fyrir mig og þig. Dauðinn eru ekki endalokin. Kærleikurinn nær út yfir gröf og dauða. Jesús Kristur var kjarkaður að ganga inn í þetta hlutskipti sitt. Hann var hræddur en í bæn til Guðs orðaði hann þá hræðslu að upplifa sig yfirgefinn af Guði. “ Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig” og síðustu orðin á krossinum. Það er fullkomnað! Vegna dauðans á krossi fullkomnaðist ætlunarverk Guðs. Vegna upprisunar getur Jesús verið með okkur í anda sínum. Gengið með okkur lífsgönguna. Gefið okkur kjark á ögurstundu, leyft okkur að upplifa hinn fórnfúsa kærleika. Aðeins vegna upprisunnar getur vinasamfélagið sem við eigum hér í kirkjunni í dag myndast, vaxið og dafnað umvafið anda hans og kærleika. Aðeins vegna upprisunnar getum við leitað eftir einingu og friði, í gengum hans einingu og frið leidd af kærleikans anda. Vegna hans fullkomnast allt.

“Påskekrim” er kannski eftir allt ekki svo vitlaus hugmynd og passar miklu betur inn í píslargöngutímann fyrir páska en fyrir jólin. Noregur er kristin þjóð og því geta glæpasögurnar í páskafríinu falið í sér tengingu við þann glæp sem framinn var fyrir tveimur árþúsunum. Að sonur Guðs var dæmdur saklaus til dauða á krossi, svo við mættum lifa lífi í fullri gnægð. Blóði hans var úthellt fyrir okkur. Það er eitthvað svo óskiljanlegt og tilgangslaust en í samhengi þess sem hefur lesið lengra þýðir það að samstaða Guðs með okkur er algjör. Það er ekkert það til í allri mannlegri tilveru sem Guð hefur ekki reynt sjálfur. Í kærleika, í þjáningu, í einsemd og vanlíðan getur frelsarinn sagt við okkur. Ég þekki þetta af eigin raun, ég veit hvernig þú hefur það og ég sé þig, blessa þig og vill styrkja þig og leiða í gegnum allt það sem lífið leggur fyrir þig. Eins veit ég líka að gleðin og fögnuðurinn fullkomnast í samfélagi góðra vina, í samfélagi kærleika og einingar.

Kæri söfnuður! Ég vona að ykkur líki boðskapurinn um hinn upprisna Drottinn okkar og frelsara Jesú Krist – munið að þetta er allt satt.

Verið óhrædd, ykkur er óhætt að trúa!