Jólagjöf til þín

Jólagjöf til þín

Mörgum er á jólahátíð tamt að hugsa til fyrri jóla. Ég er engin undantekning. Mér verður gjarnan hugsað til fyrstu jólanna, sem ég hélt utan foreldrahúsa. Við héldum heilagt saman, ég, konan mín, þá verðandi nú fyrrverandi, og fjögurra mánaða gömul dóttir okkar. Sú litla var fyrsta barnabarn í báðum ættum og fjöldi ættingja hafði komið til hennar jólagjöfum.
fullname - andlitsmynd Cecil Haraldsson
24. desember 1998
Flokkar

Aðfangadagskvöld 1998, Seyðisfjarðarkirkja

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. [...] Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1.1-14

Jólin eru gengin í garð, hátíð ljóss og friðar er komin, hátíð fjölskyldunnar, hátíð barnanna.

Mörgum er á jólahátíð tamt að hugsa til fyrri jóla. Ég er engin undantekning. Mér verður gjarnan hugsað til fyrstu jólanna, sem ég hélt utan foreldrahúsa. Við héldum heilagt saman, ég, konan mín, þá verðandi nú fyrrverandi, og fjögurra mánaða gömul dóttir okkar. Sú litla var fyrsta barnabarn í báðum ættum og fjöldi ættingja hafði komið til hennar jólagjöfum.

Daman svaf af sér útvarpsguðsþjónustuna, en vaknaði svo og var "gerð fín". Við hin tókum hæfilegan stóran pakka, losuðum um bönd og límband og létum hana fá. Henni tókst furðanlega að hrista bréfið utanaf, eða réttara að segja að hrista gjöfina innanúr, því gjöfin datt á sængina fyrst, síðan milli rimlanna og út á gólf og en í rúminu lá barnið og hjalaði við skrautlegan pappírinn fram eftir kvöldi.

Mér finnst jólahald okkar Íslendinga ákaflega keimlíkt jólahaldi hvítvoðungsins. Umbúðirnar verða aðalatriðið, jólagjöfin, tilefni umbúðanna, dettur einhvers staðar niður á milli.

Hvílíkar umbúðir! Hér á Íslandi birtast þær okkur fyrst mörgum vikum, jafnvel mánuðum, fyrir jól í auglýsingum og verslunargluggum kaupmanna, sem virðast telja að drjúgur hluti af varningi þeirra eigi að fara í skipapósti til Ástralíu og hafa ekki áttað sig á framförum undanfarinna áratuga í flutningatækni. Og við vitum af umbúðunum langt fram í janúar meðan verið er að selja á útsölu í verslunum allt það, sem átti að fara í og utanum jólapakka og hátíðarhaldendur.

Við erum snillingar að búa jólagjöfina, sem máli skiptir í svo miklar umbúðir, að hún dettur niður á milli. Við gefum hvert öðru gjafir, við bökum og skreytum, borðum góðan mat, hangikjöt, rjúpur, lamb, svín og naut, sendum kort og skeyti, fáum sælgæti og jólabækur, tökum forskot á "litlum jólum", í jólaglöggi og við jólahlaðborð.

Nú kann eitthvert ykkar að hugsa: Þetta á ekki við um mig. Ég man eftir Jesúbarninu. Ég kann jólaguðspjallið: " En það bar til um þessar mundir .... ...."

"Gott", svara ég, þá förum við að nálgast kjarna málsins, jólagjöfina þína. Sért þú að hugsa um Jesúbarnið, ert þú á vissan hátt ennþá að fitla við umbúðirnar. Það er svo þægilegt. Lítið hjalandi barn vekur alltaf notalegar tilfinningar og mörgum hættir til að stranda þar, segja "gulligull" og helst að kitla barnið undir hökunni. Komistu ekki lengra, er þér eins farið og þeim, sem fær að gjöf eðalstein og dáist að öskjunni, sem hann er í.

Jólagjöfina þína, það sem er innan í öllum umbúðunum, sem við gerum okkur, er að finna í þeim orðum Jóhannesarguðspjalls, sem lesin voru hér áðan:

"Orðið varð hold".

Guð gerðist maður og kom til þín. Skaparinn sjálfur kom til þeirrar sköpunar, sem hafði leiðst frá ljósi og yl inn í myrkur og kulda. Ljósið fékk lögun, lífið líkama, kærleikurinn fékk húð og taugar.

Mannheimar fengu ljós og líf að gjöf.

Megir þú finna jólagjöfina þína í umbúðum mannlífsins. Ég óska þér þeirrar gæfu að finna að þú ert barn Guðs. Það finnur þú þegar þú veitir honum aðgang að dýpstu tilfinningum þínum. Þá verður jólagleðin þín sönn gleði, sem varir að jóladögum loknum.

Ég bið okkur öllum gleðilegra jóla í Jesú blessaða nafni, amen.