Asalaus?

Asalaus?

Þennan dag þegar ég sá biðröðina hugsaði ég með mér: Nei, ég nenni þessu nú ekki. Röðin er alltof löng. Ég hef ekki tíma til að bíða svona lengi. En ég fór nú samt í röðina.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
23. maí 2008

[audio:http://thjodkirkjan.is/hladvarp/pistlar/2008-05-23-asalaus.mp3]

Ég var staddur í Hámu fyrr í mánuðinum. Hún er, fyrir þá sem ekki þekkja til, veitingasalan í Háskólatorgi, nýjum samkomustað Háskólasamfélagsins. Þar er hægt að fá góðan og hollan hádegismat á sanngjörnu verði.

Þetta vita háskólastúdentar og háskólakennarar og aðrir háskólastarfsmenn. Þess vegna eru biðraðir í Hámu (og stundum út úr Hámu) í hádeginu.

Stundum eru þær svo langar að maturinn klárast. Það gerist þó sjaldan.

Nema hvað. Þennan dag þegar ég sá biðröðina hugsaði ég með mér: Nei, ég nenni þessu nú ekki. Röðin er alltof löng. Ég hef ekki tíma til að bíða svona lengi. En ég fór nú samt í röðina og beið þar til að mér var komið og snæddi svo hádegisverðinn í rólegheitunum í góðum félagsskap.

Ég hafði ekki tíma. En ég tók mér tíma.

* * *

Kyrrð í afa- og ömmubústaðÉg var staddur í Landmannalaugum. Mér varð litið út um skálaglugga og ég sá ég afa og afastrák saman. Þeir áttu rólegan tíma, skoðuðu, hugsuðu, spjölluðu saman. Afinn hafði tíma. Það sama hef ég séð hjá ömmu dætra minna og man úr eigin uppvexti. Það var nægur tími til að tala og lesa og spjalla og spá og bralla ýmislegt.

Stundum er tíminn barnstími þar sem leikur barnsins er í fyrirrúmi; stundum er tíminn afatími eða ömmutími og börnin skottast í kringum fullorðna fólkið og slást í för með þeim og leggja hönd á plóg.

Afar hafa tíma og ömmur hafa tíma því þau taka þann tíma sem þarf.

* * *

Ég var staddur heima. Það var komið kvöld og dóttirin löngu sofnuð. Pabbinn enn vakandi og eitthvað að rápa á netinu. Rakst inn á vef þar sem ung kona sagði frá bók sem hún hafði lesið. Í bókinni var ein setning endurtekin í hverjum kafla: Asi er einskonar ofbeldi.

Þessi orð hittu beint í mark. Hugurinn leitaði til biðraða í Hámu og á Kaffitári og í umferðinni og skiptanna þegar viðkvæðið var „Bíddu aðeins" og „seinna".

Asi er einskonar ofbeldi – gagnvart öðrum og gagnvart okkur sjálfum.

Þjáumst við kannski af asasótt?

Höfum við alltaf tíma? Stundum tíma? Aldrei tíma?

Getur verið að þegar allt kemur til alls sé það raunin að ég hef ekki tíma og afar hafa ekki tíma og ömmur hafa ekki tíma. Enginn hefur tíma.

Nema sá sem tekur sér tíma.

Getur verið að eina leiðin til að verjast asasóttinni sé meðvituð ákvörðun um að láta asann ekki ráða ferðinni. Að láta rólegheitin ráða ferðinni – í Landmannalaugum og í Hámu og á Laugaveginum. Heima og að heiman.

Asaleysi.

Hugsum um það í dag.

Og þegar við höfum tekið okkur tíma til umhugsunar skulum við gera eitthvað í málinu.

Því aðeins þannig nálgumst við asaleysið

Með því að taka tíma.