Mannréttindabrot í Kína

Mannréttindabrot í Kína

Hvenær er komið nóg? Hvenær segjum við hingað og ekki lengra? Okkur ætti alls ekki að vera sama, en ætli flestum sé ekki sama? Við ættum auðvitað að meta mannslífið meira en peninga, en ætli við gerum það nokkuð? Við ættum að standa vörð um mannréttindi fólks, hvar í heimi sem er, en ætli okkur sé ekki nokk sama á meðan við höfum það gott?
fullname - andlitsmynd Guðmundur Örn Jónsson
15. júní 2007

Það voru sláandi fréttirnar af málefnum fanga í Kína í fréttum Stöðvar 2 í vikunni.  Þar var greint frá því að fangar í Kína væru látnir búa til varning fyrir stórfyrirtæki á borð við Coka Cola.  Þetta hafa þeir vitað lengi sem fylgst hafa með mannréttindamálum í heiminum.  En það er eins og ekki megi styggja kínversk stjórnvöld á nokkurn hátt því gróðavonin er mikil nú þegar landamærin eru að opnast.  Í fyrradag var einnig sagt í fréttum rúv frá barnaþrælkun barna í Kína fyrir Ólympíuleikanna.

Síðan er það auðvitað þrálátur orðrómur um mikla verslun með líffæri fanga sem hafa verið líflátnir.  Þessi orðrómur hefur fyrir löngu verið staðfestur af mörgum og ólíkum samtökum og einstaklingum.

Mér kæmi það vægast sagt á óvart ef einhverjir hjá Coke-risanum hefði ekki vitað um málið, enda orðrómur búinn að vera lengi í gangi um þessi mál.  Í mörgum löndum heims er Coke ekki tákn um frelsi vesturlanda, heldur helsi - kúgun - þvingun og eyðileggingu.  Þannig veit ég að starfsemi og framferði þeirra á Indlandi hefur sætt mikilli gagnrýni.  Ármann Hákon Gunnarsson, æskulýðsfulltrúi í Garðasókn, sagði mér ýmsar ljótar sögur af viðskiptum Indverja við bandaríska risafyrirtækið, á ferð sinni um Indland.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hversu margar óhamingjusamar sálir, hversu mörg börn sem vinna í ánauð, hversu margir "þrælar" vinna við að gera líf okkar á vesturlöndum að stanslausu partýi og gleði.  Hversu mörg tár eru á bakvið hlátur okkar?

Það vita í raun allir að stjórnvöld í Kína fótumtroða mannréttindi, en það er eins og óhuggulegur þagnarmúr hafi verið reistur til þess að hlífa stjórnvöldum við gagnrýni.  Þjóðarleiðtogar minnast á þessi mál nánast í framhjáhlaupi þegar skrifað er undir stóra viðskiptasamninga.

Hvenær er komið nóg?  Hvenær segjum við hingað og ekki lengra?  Okkur ætti alls ekki að vera sama, en ætli flestum sé ekki sama?  Við ættum auðvitað að meta mannslífið meira en peninga, en ætli við gerum það nokkuð?  Við ættum að standa vörð um mannréttindi fólks, hvar í heimi sem er, en ætli okkur sé ekki nokk sama á meðan við höfum það gott?

Því miður er Kína fjarri því að ver eina landið í heiminum þar sem mannréttindi eru fótumtroðin og í því samhengi vil ég benda á ársskýrslu Amnesty International.