Heimkoman og hirðirinn Pétur

Heimkoman og hirðirinn Pétur

Herra Pétur Sigurgeirsson gerðist prestur hér við Akureyrarkirkju árið 1947, fyrir réttum 63 árum, þá voru þrjú ár liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar og mannkynið enn að átta sig á breyttri heimsmynd, tortryggni og örvænting voru gróin í sálarlíf þjóða og vantrú á mannlegar dyggðir og siðferði var skiljanlega ríkjandi.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
22. júní 2010
Flokkar

Daginn sem við fjölskyldan kvöddum Reykjavík og áratuginn sem borgin hafði fóstrað okkur og héldum yfir heiðar í átt að höfuðstað Norðurlands, var herra Pétur Sigurgeirsson biskup kvaddur hinstu kveðju í Hallgrímskirkju að viðstöddu fjölmenni er tengdist þessum mikla mannvini tryggðar og vináttuböndum. Þar fór maður sem kunni að rækta fólk, hann sáði trú í hjörtu þeirra ungmenna sem hann sinnti sem kraftmikill prestur og hann vökvaði uppörvunarorðum á samferðarmenn sína allt til dauðadags, herra Pétur Sigurgeirsson var bæði sáðmaður og hirðir í dýpstu merkingu þeirra orða. Ég komst ekki hjá því að hugsa um hringrás lífsins þar sem ég sat og mændi út um bílrúðuna að kvöldi þess dags sem markaði jafnframt upphaf nýrra tíma í lífi okkar fjölskyldunnar, ég hugleiddi þá hringrás er lýtur náttúrulögmálum og opinberast okkur í umhverfinu og árstíðaskiptunum, og eins þeirri sem lýtur ákvörðunum okkar sjálfra og áhrifum samferðarmannanna. Það var sambland af þessu öllu sem hafði leitt okkar af stað, rætur þess umhverfis sem við hjónin erum bæði sprottin úr höfðu togað okkur tilbaka og ákvarðanir góðra manna sem einhvern tímann fyrir tilstuðlan annarra góðra manna höfðu haft örlagarík áhrif á framtíðina. Herra Pétur Sigurgeirsson gerðist prestur hér við Akureyrarkirkju árið 1947, fyrir réttum 63 árum, þá voru þrjú ár liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar og mannkynið enn að átta sig á breyttri heimsmynd, tortryggni og örvænting voru gróin í sálarlíf þjóða og vantrú á mannlegar dyggðir og siðferði var skiljanlega ríkjandi. Litla eyjan norður í hafi hafði ekki einu sinni farið varhluta af andrúmslofti illskunnar, móðir mín ólst upp í Reykjavík ein af 10 systkinum sem horfðu á eftir heimilisföðurnum halda af stað í siglingar á þessum válegum tímum, afi Jón var loftskeytamaður á gamla Gullfossi og sigldi út öll stríðsárin, í hvert sinn sem barnahópurinn sá hann setja kasskeytið upp læsti óorðaður kvíði sig um hjartaræturnar eins og marglytta því ef til vill var þetta í síðasta sinn sem þau sáu hann á lífi. Enn rifja þau upp í elli sinni þá erfiðu tilfinningu en sömuleiðis þá hugarró sem móðir þeirra átti og sefaði þau þrátt fyrir allt og gaf þeim frelsi til að vera börn á meðal barna í gömlu Reykjavík. Kirkjan er einmitt þannig móðir. Það var einhvern veginn innan þessarar heimsmyndar sem ungur prestur kom vestan frá Ameríku til Akureyrar með höfuðið fullt af hugmyndum og hjartað brennandi af áhuga fyrir að hlúa að ungdómnum í kirkjunni og efla þannig sjálfsvitund og sjálfstraust barnanna, hinnar komandi kynslóðar sem átti í raun ekkert nema möguleikann á því að byggja upp betri og mannvænlegri heim. En þrátt fyrir öll þau tæki sem presturinn ungi hafði tileinkað sér úr fræðum kanans þá skyggði ekkert á þann leyndardóm sem hann hafði yfir að ráða í hverri taug og réði mestu um þau áhrif sem hann hafði til frambúðar og raunar til framtíðar, já kynslóð fram af kynslóð. Sá leyndardómur heitir TRÚ og finnst ekki í fræðum, heldur í reynslunni af því að þekkja Guð og náungann og Guð í náunganum og Guð í náttúrunni og Guð í eigin þroska og Guð í fæðingu og dauða og Guð í hugrekkinu og Guð í fyrirgefningunni og Guð í sáttinni og Guð í réttlætinu og Guð í samstöðunni og Guð í ástinni og Guð í kímnigáfunni og Guð í eilífðinni. Séra Pétur Sigurgeirsson hafði sérstakt lag á því að kynna börnunum Jesú Krist og Guð í náunganum, hann var slík fyrirmynd í trúfesti sinni og von sem aldrei dó þrátt fyrir ýmsar raunir sem lífið lagði honum líka á herðar. Fjölmörg ungmenni sem uppfræddust af orði Jesú og lærðu að hlusta á Guð í hjarta sínu hér í þessari kirkju undir handleiðslu Péturs hafa síðar ljáð kirkjunni krafta sína og sannfæringu. Faðir minn, Bolli Gústavsson var einmitt einn þeirra, hann þreyttist aldrei á því að segja okkur börnunum frá æsku sinni, annars vegar sumrunum austur í Bárðardal þar sem hann tók sérstöku ástfóstri við húsfreyjuna á Hlíðarenda sem kenndi honum að stoppa í sokka og svaraði beljandi spurningaflóði drengsins af guðdómlegri þolinmæði og hins vegar varð hann dálítið meyr þegar hann rifjaði upp árin í Akureyrarkirkju þar sem hann tók virkan þátt í öflugu æskulýðsstarfi undir stjórn séra Péturs sem var óragur við að fela unga fólkinu hlutverk og ala það þannig upp til leiðtogastarfa í kirkjunni. Faðir minn tileinkaði sér þetta í starfi með ungu fólki og fórum við systkinin svo sem ekki varhluta af því, flest var afar gagnlegt af því sem okkur var falið en annað kannski minna, kemur þá upp í hugann þegar hann fékk mig til að leika á fiðlu í sunnudagaskólanum á Svalbarðsströnd einhver kristileg lög sem ég hafði æft með hangandi hendi raunar, sem er ekki mjög vænlegt þegar um fiðluboga er að ræða, ég veit að þið trúið því ekki gott fólk en hið dásamlega lag, Guð gaf mér eyra hefur vissa möguleika á því að særa sálarlíf hlustandans ef tónlistarmaðurinn er 9 ára, með aðeins of mikið sjálfstraust en heldur lítinn sjálfsaga. Hvað sem öðru líður þá er góður hirðir sá sem felur öðrum hlutverk og dreifir þannig ábyrgð og líka völdum og myndar samfélagshring í kringum Jesú Krist, nei ekki í kringum sjálfan sig því það er dauði heldur í kringum hinn upprisna Krist sem gefur annars vegar sáðkornið og hins vegar vöxtinn ef samfélagið vökvar. Þannig vex og dafnar kirkjan þrátt fyrir allar mögulegar ógnir veraldarinnar, já þrátt fyrir styrjaldir og efnahagskreppu. Orð Guðs varir að eilífu, það kveikti líf á nístingskaldri nóttu í hrörlegu gripahúsi í Palestínu og það líf heldur áfram að dafna og viðhalda vonum okkar mannanna þrátt fyrir allt, því máttu aldrei gleyma, það er hin stóra frétt sem yfirgnæfir allt annað. Veistu hvaða spurning vekur sterkust viðbrögð meðal barnanna í sunnudagaskólanum? Það er spurningin, hvort eitthvert þeirra hafi einhvern tímann týnst. Öll eiga þau sögur af slíkum raunum og öll, meira að segja þau hlédrægustu, vilja deila slíkri sögu með hinum, þá eflast líka þau örgerðustu í dramatíkinni og oft er erfitt að stöðva flóðið þegar það er farið af stað. Dýpst í tilfinningalífi okkar er tilhugsunin um að týnast það allra versta, verða viðskila við það sem vekur með okkur vellíðan, öryggi og gleði. Guðspjall dagsins færir okkur heim sanninn um það að Jesús tekur þessar þarfir okkar mjög alvarlega og setur þær í forgrunn, í guðspjallinu gefur Jesús fræðimönnum og faríseum tvær dæmisögur sama eðlist til að útskýra þessa megin afstöðu sína til okkar mannanna. Einhver gæti haldið að önnur hefði verið nóg, sé horft til þessara menntuðu viðtakanda en þær dugðu ekki því á endanum dæmdu þeir Krist til dauða af ótta við að hann ögraði frekar samfélagsgerðinni, valdastrúktúrnum og stöðu þeirra sem hinna útvöldu. En í augum Jesú Krists er enginn útvalinn, allir eru kallaðir til samfélags við hann og þjónustu við Guð og náungann, svo einfalt er það. Samt virðist það flækjast býsna fyrir okkur og á þessum rúmum tvöþúsund árum sem liðin eru frá fæðingu frelsarans, eftir allan þennan tíma sem orð hans hefur lifað og sannað gildi sitt sem hinn algildi lífgefandi sannleikur, reyna menn enn að raða sér í forgrunn samfélagsins í þeirri trú að hinir hæfustu lifi af. Þegar öllu er á botnin hvolft, þá munum við öll mæta sömu örlögum þar sem við getum aðeins treyst á náð Guðs sem er tilkomin vegna dauða og upprisu Jesú Krists en ekki hæfni okkar við að komast af. Þetta er og var vitrum mönnum líkt og Pétri heitnum Sigurgeirssyni ljóst og þess vegna gerði hann svo óendanlega mikið gagn með lífi sínu. Það vill nefnilega þannig til að frægir deyja, ríkir deyja, valdsmenn deyja en orð Guðs varir að eilífu og þess vegna þurfum við fyrst og síðast að þekkja það og gera að vegvísi í lífi okkar. Hlutverk kirkjunnar er fyrst og síðast það að vera áttaviti, beina manneskjum á rétta vegu með því að leiða þær til samfélags við Jesú Krist og veruleika hans. Til þess að enginn sé týndur, einangraður, ósýnilegur eða útskúfaður af sjálfskipuðum hæfnisnefndum samfélagsins, hlutverk kirkjunnar er að breiða út frelsisboðskap Jesú Krists sem afhjúpar skipulagða dilkadrætti, þar sem fátækt, ofbeldi og kúgun eru látin erfast jafnvel kynslóð fram af kynslóð. Slíkt gerist í öllum samfélögum og það er fyrst og fremst hlutverk kirkjunnar að sjá við slíku, þess vegna er svo mikilvægt að hún eigi tengingar við allar velferðarstofnanir samfélagsins, bæði þeirra sem koma að mótun barna og unglinga sem og allra annarra aldurshópa. Íslenska þjóðin er kristin þjóð með kirkju sem hefur skyldur við alla þegna landsins, burtséð frá lífsskoðunum eða viðhorfum, það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Ég hlakka mikið til að fá að þjóna því samfélagi sem fóstraði mig á unglingsárum þegar ég sótti hér framhaldsskólanám . Hér finn ég þessa dýrmætu heimatilfinningu eins og þegar maður vaknar upp af draumi og finnur sig hvíla í eigin rúmi og veit að fyrir utan gluggann er veröldin að hreyfast en sjálfur á maður frátekin stað til að hverfa að í ókunnugleika nýs dags. Það eru forréttindi að eiga slíkan stað, en veistu þú átt hann í samfélagi við Jesú Krist, já hvar svo sem koddinn þinn liggur. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.