Að eyða lífi sínu í þvælu

Að eyða lífi sínu í þvælu

Ungur maður þráði að læra forn fræði. Hann taldi sig vera nokkuð vel undirbúinn og hafði leitað sér víða þekkingar. Hróðugur á svip sýndi hann hverjum sem vildi prófskírteini frá frægum skólum. Dag nokkurn gekk hann á fund meistara nokkurs í fornum fræðum. Meistarinn virtist ekki hafa mikinn áhuga á hinum skrautrituðu skírteinum en lagði þess í stað fyrir hann spurningu.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
25. febrúar 2010

Ungur maður þráði að læra forn fræði. Hann taldi sig vera nokkuð vel undirbúinn og hafði leitað sér víða þekkingar. Hróðugur á svip sýndi hann hverjum sem vildi prófskírteini frá frægum skólum. Dag nokkurn gekk hann á fund meistara nokkurs í fornum fræðum. Meistarinn virtist ekki hafa mikinn áhuga á hinum skrautrituðu skírteinum en lagði þess í stað fyrir hann spurningu.

Meistarinn sagði: „Tveir menn fóru ofan í reykháf. Þegar þeir komu upp úr honum var annar þeirra sótugur í framan en hvergi sá svartan blett á hinum. Hvor þeirra skyldi nú þvo sér í framan?“

Ungi maðurinn horfði forviða á meistarann og spurði hvort verið væri að prófa rökhugsun hans. Meistarinn kinkaði kolli.

„Auðvitað þvoði sá sótugi sér í framan,“ svaraði ungi maðurinn hátt og snjallt. Ekki var þetta nú flókið, hugsaði hann með sjálfum sér.

„Rangt er svar þitt,“ sagði meistarinn. „Sá sem ekki var sótugur í framan þvoði andlit sitt. Og rökin eru einföld. Sá sótugi horfir á andlit hins og hugsar með sér að hann sjálfur sé hreinn í framan. En hinn sem var hreinn í framan horfir á sótugt andlit félaga síns telur að hann sjálfur hljóti að vera óhreinn í framan. Þess vegna þvær sá sér í framan sem hafði ekkert sót á andliti sínu.“

Unga manninum fannst þetta vera snjallt svar og bað meistarann um að spyrja sig aftur sem hann og gerði:

„Tveir menn fóru ofan í reykháf. Þegar þeir komu upp úr honum var annar þeirra sótugur í framan en hvergi sá svartan blett á hinum. Hvor þeirra skyldi nú þvo sér í framan?“ Ungi maðurinn sagði að þessu væri búið að svara. Sá sem var hreinn í framan hefði þvegið sér.

En meistarinn sagði svarið vera rangt:

„Báðir þvoðu sér í framan. Og rökin eru einföld. Sá sem var sótugur í framan horfði á hreint andlit félaga síns og hugsar með sjálfum sér að hann sjálfur sé hreinn í framan. En sá með hreina andlitið horfir á sótugt andlit félaga síns og hugsar með sjálfum sér að hann sjálfur hljóti að vera óhreinn í framan og þvær sér síðan vel. Þegar félagi hans með sótuga andlitið sér þann sem var hreinn í framan þvo sér þá þvær hann sér líka. Þannig þvoðu báðir sér í framan.“

Ungi maðurinn sagðist ekki hafa hugsað út í þetta og var miður sín yfir því að hafa ekki hugsað rökrétt. Hann bað um aðra spurningu. Meistarinn hugsaði sig um eitt andartak og spurði svo:

„Tveir menn fóru ofan í reykháf. Þegar þeir komu upp úr honum var annar þeirra sótugur í framan en hvergi sá svartan blett á hinum. Hvor þeirra skyldi nú þvo sér í framan?“ Ungi maðurin dæsti. Sama spurningin aftur! Hann sagði hraðmæltur að báðir hefðu þvegið sér í framan.

Meistarinn sagði að svarið væri rangt:

„Hvorugur þeirra þvoði sér í framan. Rökin eru einföld. Sá sótugi horfir á hreint andlit félaga síns og hugar með sjálfum sér að hann sé hreinn í framan. Sá sem var hreinn í framan telur sig vera með sót í andliti þegar hann sér sótugt andlit félaga síns. Þegar sá með hreina andlitið sér að sótugi félagi hans þvær sér ekki í framan þá þvær hann sér ekki heldur. Sem sagt, hvorugur þvoði sér.“

Ungi maðurinn stundi og var sjálfum sér reiður. Hann bað loks um enn aðra spurningu og meistarinn svaraði að bragði með þeirri sömu og áður:

„Tveir menn fóru ofan í reykháf. Þegar þeir komu upp úr honum var annar þeirra sótugur í framan en hvergi sá svartan blett á hinum. Hvor þeirra skyldi nú þvo sér í framan?“

Ungi maðurin svaraði ákveðinn á svip að hvorugur mannanna hefði þvegið sér í framan.

Meistarinn sagði svarið rangt:

„Hvernig heldur þú að það sé mögulegt að tveir menn fari niður í sama reykháf og að annar þeirra komi upp úr honum sótugur í framan en hinn ekki? Sérðu ekki að spurningin er eintóm þvæla? Ef þú ætlar að eyða lífi þínu í að svara heimskulegum spurningum þá færðu aldrei annað en heimskuleg svör.“

Þessa litlu dæmisögu er hægt að nota til að spyrja okkur sjálf hvort við sóum tíma okkar í það sem er þarflegt eða ekki. Hvort við spyrjum okkur sjálf hvað eftir annað heimskulegra spurninga og dáumst um stund að svörum okkar sem reynast svo vera þvæla.

Sagan er tekin úr sagnaarfi Gyðinga, þýdd af Hreini S. Hákonarsyni.